Í matarsmiðjunni á Flúðum er frábær aðstaða fyrir alla þá sem hafa áhuga á að framleiða hverskonar matvörur. Hún er vel tækjum búin og býður upp á allar helstu vinnsluaðferðir. Í tengslum við Matís er gott aðgengi að sérfræðingum sem geta leiðbeint einstaklingum í framleiðslu sinni. Ingunn Jónsdóttir, stöðvastjóri á Flúðum, svaraði nokkrum spurningum um matarsmiðjuna.
Fyrir hverja er Matarsmiðjan?
„Matarsmiðjan er ætluð öllum þeim sem vilja koma og taka góða hugmynd á næsta stig. Hún er kjörið tækifæri fyrir frumkvöðla sem eru alltaf að fá hugmyndir en vantar aðstoð og aðstæður til að koma þeim af stað, en það getur gert útaf við góða hugmynd ef frumkvöðullinn þarf að byrja á því að koma sér upp rándýru framleiðslueldhúsi.“
Hverjir hafa helst verið að nýta sér matarsmiðjuna?
„Einstaklingar, lítil fyrirtæki og smáframleiðendur. Að koma með vöruna í matarsmiðjuna er byrjunin. Hingað hafa líka komið einstaklingar sem eru með ferðaþjónustu og vilja selja t.d. heimagerðar sultur. Þá koma þau og leigja aðstöðuna í kannski fjóra daga en bæta við þrettánda mánuðinum í tekjum.“
„Við styðjum smáframleiðendur og frumkvöðla og hjálpum þeim að gera söluvæna vöru. Við getum boðið upp á ýmiskonar aðstoð en hjá Matís er fullt hús sérfræðinga og fullkominn tækjabúnaður til rannsókna. Við getum einnig boðið upp á skynmat, þar sem varan er smökkuð og eiginleikar hennar metnir af sérstökum skynmatshóp. Slíkt getur gefið frumkvöðlinum hugmynd um það hvort hann sé með söluvæna vöru í höndunum eða hvort það þurfi að gera einhverjar úrbætur.“
Hafa vörur framleiddar á Flúðum skilað sér í verslanir?
„Já, síðan um áramótin hafa t.d. tvær vörur skilað sér á markað. Annarsvegar drykkurinn B.OKAY og kjötsoð sem selt er veitingahúsum og framleiðslueldhúsum. Aðrar vörur sem hafa verið þróaðar og markaðssettar eru t.d. sultur, samlokur, pestó, lúpínuseyði, brjóstsykur, forunnið grænmeti og þurrkað grænmeti svo eitthvað sé nefnt.“
En hvers vegna rekur Matís Matarsmiðju?
„Matarsmiðjan á Flúðum er rekin í samstarfi við sveitarfélögin í uppsveitum Árnessýslu og stuðlar að atvinnusköpun heima í héraði á sama tíma og hún stuðlar að fæðuöryggi á Íslandi. Eitt af markmiðum Matís er að efla lýðheilsu og það gerum við meðal annars í gegnum Matarsmiðjurnar þar sem áhersla er lögð á að framleiða vandaðar vörur. Annað markmið Matís er að bæta matvælaöryggi og það gerum við með því að bjóða fólki að vinna vörurnar hér hjá okkur. Þetta leiðir svo allt til aukinnar verðmætasköpunar sem er jafnframt eitt af markmiðum Matís. Matarsmiðjan sjálf er rekin án gróða og sú litla leiga sem greiða þarf fyrir aðgang að henni fer í raun bara í að halda rekstrarkostnaðinum niðri.“
„Við viljum hvetja alla sem eru með hugmynd að koma og prófa þær áfram. Sá hinn sami þarf ekki að vera hrávöruframleiðandi. Það er nóg að vera með hugmynd sem vilji er fyrir að vinna áfram.“
Nánari upplýsingar veitir:
Ingunn Jónsdóttir og einnig má finna upplýsingar á vefsíðum Matarsmiðjunnar á Flúðum: