Fréttir

Fagur er kældur fiskur

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Í Morgunblaðinu í dag birtist frétt um endurprentun Matís á bæklingi sem fjallar mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski. Bæklingurinn er ætlaður öllum þeim sem starfa á sjó við meðhöndlun fisks. Hægt er að nálgast hann hér á heimasíðunni.

Fyrir stuttu var bæklingur um mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski endurprentaður af Matís. Bæklingurinn er tekur einkum á þeim fimm þáttum sem mestu skipta og er ætlaður nýliðum og þrautreyndum sjómönnum. Fyrri útgáfu var vel tekið, upplagið var uppurið, því var bæklingurinn endurprentaður. Morgunblaðið hafði samband við Arnljót Bjarka þar sem Vinnslu, virðisaukningar og eldissvið Matís stóð fyrir útgáfu og prentun bæklingsins.

Hér má lesa greinina eins og hún birtist í Morgunblaðinu:

Matís hefur endurprentað bæklinga um mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski, nýdregnum úr sjó. Þar er einkum minnt á þá fimm þætti sem skipta mestu; blóðgun, slægingu, þvott, hreinlæti og kælingu.

Nýliðun hefur verið töluverð í útgerð smábáta en talsmaður Matís bendir þó á að leiðbeiningunum sé beint til allra sjómanna, hvort sem þeir starfa á smábátum eða stærri fiskiskipum. Vísbendingar séu þó um að sjómenn meðhöndli aflann með mismunandi hætti.

Starfsmenn Matvælastofnunar; MAST, og Fiskistofu framkvæmdu hitastigsmælingar í júnímánuði á lönduðum afla 240 báta. Mælingarnar voru alls 548 og fóru fram víðs vegar um landið. Þar reyndist hitastig aflans að jafnaði vera 3,2 gráður en samkvæmt gildandi reglugerð skal hitastigið vera undir 4 gráðum, fjórum klukkustundum eftir að aflinn er tekinn um borð. Um 70% aflans voru undir tilskildum mörkum. Um þriðjungur var því ekki með rétt hitastig. Um 7% bátanna komu með ókældan fisk að landi.

Lengi býr að fyrstu gerð

Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri vinnslu, virðisaukningar og eldis hjá Matís, segir aldrei of oft minnt á mikilvægi þess að meðhöndla fiskinn rétt, þannig að gæði hans séu tryggð til áframhaldandi vinnslu. Mælingar MAST og Fiskistofu bendi til að menn þurfi að taka sig á.

„Lengi býr að fyrstu gerð. Það skiptir máli að fiskur sé fagmannlega höndlaður frá því að hann er fangaður svo gera megi sem mest verðmæti úr aflanum. Gæðin eru grunnur allra verðmæta,“ segir Arnljótur.

„Blóðgun, blæðing og kæling eru lykilatriði um borð í þeim bátum sem rúma ekki slægingu, en þar sem því verður við komið eru blóðgun, blæðing, slæging og kæling lykilatriðin,“ segir hann ennfremur.

Arnljótur bendir á að sumarþingið hafi breytt stærðarmörkum krókaaflamarksbáta og heimili nú stærri báta. Í stærri bátum sé mikilvægt að hafa góða aðstöðu um borð fyrir slægingu. Kæling sé mjög mikilvægt atriði og nauðsynlegt að halda lágu hitastigi á aflanum alla leiðina í land. „Aflinn þarf að standast þær kröfur sem fiskvinnslan gerir til hans. Vinnsla og sala á fiski snýst um traust. Menn þurfa að tryggja að geta selt fisk aftur. Fæstir leggja upp með að þetta séu einskiptis-viðskipti, menn vilja væntanlega geta endurtekið leikinn. Þetta snýst alltaf um virðingu fyrir umhverfi, hráefni og neytendum,“ segir Arnljótur Bjarki.

Matís hefur búið til ísreikni sem gefur upplýsingar um áætlaða ísþörf miðið við aðstæður hverju sinni. Reiknivélina má nálgast á fræðsluvef Matís: Ísþörf (ísreiknir)

Bæklingurinn: http://www.matis.is/media/matis/utgafa/Mikilvaegi-godrar-medhondlunar-a-fiski.pdf 

Einblöðungur: http://www.matis.is/media/einblodungar/a4_medhondlun_fisks.pdf   

Frétt MAST. https://www.mast.is/is/um-mast/frettir/frettir/afli-skal-vera-undir-4c-egar-honum-er-landa

IS