Ráðstefna um umhverfismengun á Íslandi, vatn og vatnsgæði, var haldin 22. mars 2013 í tilefni af degi vatnsins en ráðstefna þessi er haldin fyrir tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna 22. mars ár hvert.
Fimm stofnanir, Umhverfisráðuneytið og Háskóli Íslands komu að undirbúningi ráðstefnunnar.
Ráðstefnan var vel sótt af fræðimönnum auk þess sem afar góður rómur var gerður að öllum erindum og kynningum sem endurspegluðu bæði metnað og fagkunnáttu þeirra sem að þeim stóðu. Í ljósi þess að takmarkaður sætafjöldi var á ráðstefnunni og komust færri að en vildu taldi skipulagsnefndin eðlilegt að bjóða þeim fræðimönnum sem héldu erindi á ráðstefnunni og sáu sér þess fært, að birta sín erindi á heimasíðu Matís. Erindin er nú hægt að nálgast hér að neðan:
- Verndun vatnsgæða í Reykjavík
Árný Sigurðardóttir, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur - Leiða íslenskir barrskógar til súrnunar straumvatns?
Bjarni D. Sigurðsson, Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ) - Efnamagn í afrennsli af ræktarlandi
Björn Þorsteinsson, Arngrímur Thorlacius, Þorsteinn Guðmundsson, LBHÍ - Mengun við strendur Íslands
Erla Sturludóttir ofl., Háskóli Íslands og Matís - Styrkur uppleystra efna í írennsli og útfalli Þingvallavatns
Eydís Salóme Eiríksdóttir, Sigurður Reynir Gíslason, Jarðvísindastofnun Háskólans - Vatnsvernd og gæði vatns
Hólmfríður Sigurðardóttir, Orkuveita Reykjavíkur - Örveruflóra Elliðavatns og Elliðaáa
Kristín Elísa Guðmundsdóttir, Háskóli Íslands og Matís
Flutt voru níu erindi á ráðstefnunni og til viðbótar voru rannsóknir kynntar á 11 veggspjöldum. Í erindunum kom m.a. fram að talsvert álag er víða á grunnvatn og oft lítið hugað að því þegar framkvæmdir eru áætlaðar. Fjallað var um náttúrulegt innihald efna í vatni á Íslandi. Fram kom að efnastyrkur í drykkjarvatni er almennt lágur. Kynntar voru mælingar á efnastyrk í náttúrlegum vatnakerfum, og náttúrulegt innihald efna í vatni á Íslandi er yfirleitt lágt og víðast búum við afar vel hvað varðar gæði og eftirlit. Sagt var frá rannsókn á örveruflóru Elliðavatns og –áa, einnig frá vísbendingum um aukið köfnunarefni í Þingvallavatni. Rannsóknir á afrennsli ræktarlands og frá barrskógum voru kynntar, og mælingar á kvikasilfri í urriða í vötnum leiddu til mjög áhugaverðra niðurstaðna. Loks voru kynntar niðurstöður vöktunar á mengun í sjó og við strendur Íslands síðustu 20 ár. Margar aðrar áhugaverðar kynningar voru á ráðstefnunni og hvetjum við alla til að kynna sér erindin.
Fyrir hönd skipulagnefndar og vísindanefndar ráðstefnunnar viljum við þakka öllum þeim sem tóku þátt í ráðstefnunni. Bæði þeim fræðimönnum sem lögðu ráðstefnunni lið með kynningum og erindum sem og öllum þeim einstaklingum sem mættu og kynntu sér málefnin, tóku þátt í umræðunni og gáfu henni lit og líf.
Nánari upplýsingar veitir Sophie Jensen hjá Matís.