Fréttir

Kisur eru ekki einu dýrin sem lækka blóðþrýsting. Þorskurinn gerir það líka!

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Fimmtudaginn 30.maí fer fram doktorsvörn við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Þá ver Sigrún Mjöll Halldórsdóttir matvælafræðingur hjá Matís doktorsritgerð sína „Nýjar og bættar aðferðir við að framleiða vatnsrofin fiskprótein með lífvirka eiginleika – Oxunarferlar og notkun náttúrulegra andoxunarefna við ensímatískt vatnsrof“.

Hvenær hefst þessi viðburður: 30. maí 2013 – 10:00 to 13:00
Staðsetning viðburðar:  Aðalbygging
Nánari staðsetning:  Hátíðasalur

Andmælendur eru dr. Maurice Marshall prófessor við Háskólann í Flórída, USA og dr. Jakob K. Kristjánsson frá Prokazyme Ltd. Leiðbeinandi í verkefninu var dr. Hörður G. Kristinsson hjá Matís. Dr. Þórhallur Ingi Halldórsson, forseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu og hefst athöfnin klukkan 10:00.

Um efni ritgerðar

Vatnsrofin fiskprótein (fisk prótein hýdrólýsöt; FPH) búa yfir ýmsum heilsubætandi lífvirkum eiginleikum s.s. blóðþrýstingslækkandi eiginleikum og andoxunarvirkni. Mikið magn af vannýttum aukaafurðum fellur til við fiskvinnslu sem mætti nýta í slíkar afurðir. Fituoxun sem verður við ensímatískt vatnsrof getur verið vandamál við framleiðslu lífvirkra FPH. Heildarmarkmið rannsóknarinnar var að bæta vinnslutækni og kynna nýjar aðferðir til sögunnar við að vinna lífvirkar FPH afurðir úr fiskpróteinum. Niðurstöður benda til þess að með því að einangra prótein með basameðhöndlun fyrir vatnsrof með endurbættri aðferð mátti spara tíma, vinnu og efnivið, borið saman við hefðbundna basavinnslu. Rannsóknir sýna að oxun þróaðist hratt við vatnsrof í nærveru oxunarhvata. Niðurstöður sýna að oxun getur valdið því að FPH missir andoxunareiginleika sína, auk þess sem oxunarafurðir ollu minnkuðu and-bólgusvari, sem getur haft neikvæðar afleiðingar í för með sér í líkamanum.

Notkun náttúrulegra andoxunarefna reyndist vera mjög gagnlegt við vatnsrof fiskpróteina. Útdráttur úr íslensku bóluþangi, Fucus vesiculosus, sem andoxunarefni kom í veg fyrir oxun, jók lífvirkni lokaafurðar og dró úr myndun á bitru bragði hjá FPH.

Leiðbeinandi doktorsverkefnisins var dr. Hörður G. Kristinsson hjá Matís, en auk hans sátu í doktorsnefnd þau Guðjón Þorkelsson prófessor við Háskóla Íslands og sviðsstjóri hjá Matís, dr. Hólmfríður Sveinsdóttir hjá Iceprotein ehf. og dr. Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands.

IS