Fréttir

Hvert er ástand neysluvatns í þínu sumarhúsi?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Sumarhúsum hefur fjölgað mikið síðustu ár, en samkvæmt Þjóðskrá Íslands voru 12.225 sumarbústaðir á landinu 2011.  Með fjölgun sumarbústaða hefur vatnsveitum í einkaeign fjölgað.  Heilbrigðiseftirlit sveitafélaga sér um eftirlit á neysluvatni frá stærri vatnsveitum en það er á ábyrgð eigenda einkavatnsbóla að fylgjast með gæðum neysluvatns úr minni veitunum.

Örverufræðilegt ástand neysluvatns er einn mikilvægasti þátturinn varðandi gæði og öryggi þess. Örverur leynast víða í umhverfinu og geta borist auðveldlega í neysluvatnið og margir alvarlegir sjúkdómar geta borist með neysluvatni eins og sýkingar af völdum SalmonellaCampylobacter og nóróveira.

Mesta hætta á sýkingu er þegar neysluvatn hefur mengast af saur manna eða dýra, en saur inniheldur bakteríur, veirur og frumdýr sem geta valdið sýkingum í fólki.  Hér á Íslandi hafa komið upp nokkrar hópsýkingar af völdum Campylobakter í neysluvatni en þær voru á Stöðvarfirði 1984, Djúpavogi 1993 og í veiðihúsi í Borgarfirði 1998.  Einnig hafa komið upp nokkrar hópsýkingar af völdum nóróveiru, en þær voru í Húsafelli og á Mývatni 2004 en þá sýktust rúmlega 300 manns í þessum hópsýkingum.  Einnig hafa komið upp mörg tilfelli þar sem talið var að fólk hefði smitast af nóróveirum eftir neyslu drykkjarvatns en í þeim tilfellum var það ekki staðfest.

Frágangur vatnsbóla þarf að vera réttur til að tryggja öryggi neysluvatnsins.  Við borholur og brunna er mikilvægt að grunnvatnið mengist ekki af yfirborðsvatni á svæðinu þar sem það getur oft á tíðum verið mengað af völdum óæskilegra örvera.  Það hafa einnig komið upp tilfelli þar sem neysluvatn hefur mengast frá rotþróm sem eru í námunda við vatnstökustaðinn og því þarf einnig að huga vel að staðsetningu þeirra og frágangi.

Til að tryggja öryggi neysluvatns er nauðsynlegt að láta rannsaka það reglulega m.t.t ákveðinna örveruþátta.  Niðurstöður slíkra rannsókna gefa til kynna hvort neysluvatnið uppfylli ákveðnar kröfur neysluvatnsreglugerðar um nothæfi og öryggi til neyslu. 

Langflestar mælingar á efnainnihaldi grunnvatns hafi sýnt fram á að íslenskt vatn sé mjög öruggt m.t.t. efnafræðilegrar mengunar og því sé ekki talið nauðsynlegt framkvæma dýrar efnamælingar á neysluvatni úr minni vatnsbólum.

Undanfarin ár hefur orðið mikil vitundarvakning meðal sumarbústaðareiganda sem vilja tryggja að neysluvatnið þeirra uppfylli þær kröfur sem eru gerðar til neysluvatns.  Rannsóknastofa Matís hefur áratuga reynslu af rannsóknum á neysluvatni og hægt er að fá allar upplýsingar um framkvæmd sýnatöku og nauðsynleg sýnatökuílát hjá rannsóknastofunni í síma 422-5116 og tölvupóstfanginu radgjof@matis.is.

IS