Er hvítfiskur, t.d. þorskur og ýsa, frá Norður-Atlantshafi betri matur en ódýrt samkeppnishráefni frá Asíu og Afríku? Eru umhverfisáhrifin af veiðum þorsks og ýsu minni en af samkeppnisvörunum?
Þessum spurningum og mörgum öðrum er reynt að svara í verkefninu Whitefish sem Íslendingar leiða en aðrir þátttakendur er t.d. frá Noregi, Sviðþjóð, Bretlandi og Hollandi. Miðvikudaginn 13. mars fer fram í húsakynnum Matís ohf. að Vínlandsleið 12 í Reykjavík opinn vinnufundur í verkefninu .
„Miðað við þá reynslu sem fengist hefur varðandi umhverfismerkingar sjávarafurða þá eru upplýsingar sem þessar mikilvægastar fyrir heild- og smásöluaðila vörunnar. Fæstir neytendur leggja á sig að sökkva sér ofan í þessa þætti en þeir treysta því aftur á móti að sá sem selur þeim sjávarafurðir sé að bjóða vöru sem hafi ásættanleg umhverfisáhrif. Stórar verslunarkeðjur hafa sín eigin viðmið hvað þetta varðar og með WhiteFish-verkefninu erum við að stíga skrefið enn lengra en gert er með „hefðbundnum“ umhverfismerkingum og reikna umhverfisáhrifin út fyrir alla virðiskeðju afurðanna“ segir Jónas Rúnar Viðarsson, fagstjóri hjá Matís.
„Á síðustu misserum hefur villtur fiskur úr N-Atlantshafi mætt aukinni samkeppni á mörkuðum frá ódýrum ræktuðum fiski frá Asíu og Afríku s.s. pangasius og tilapia. Með WhiteFish-verkefninu vonumst við til að geta sýnt fram á að okkar fiskur hafi minni umhverfisáhrif en þessi samkeppnisvara, þegar allt er talið til.“
Mikið liggur undir enda hörð samkeppni á þessum markaði og því til mikils að vinna að við komum því til skila til mögulegra kaupenda að það er fleira en verð sem skiptir máli þegar fiskur er annars vegar.
Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson.