Fréttir

Matvæladagur Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands – forstjóri Matís stjórnar fundi 16. október nk!

Matvæladagur MNÍ 2012 verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík á alþjóðlegum fæðudegi Sameinuðu þjóðanna, þriðjudaginn 16. október, kl. 13-17. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Matvælaöryggi og neytendavernd – Hvar liggur ábyrgðin?“

Búið er að opna fyrir skráningu á Matvæladaginn á vef Matvæla- og næringarfræðafélagsins, www.mni.is. Þar er einnig að finna nánari upplýsingar og dagskrá. Allir eru velkomnir á Matvæladaginn, þátttökugjald er kr. 7.000 en 3.500 fyrir nemendur.

Matvælaöryggi og neytendavernd Hvar liggur ábyrgðin?
Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands (MNÍ) boðar til Matvæladags MNÍ þriðjudaginn 16. október næstkomandi á Grand Hótel Reykjavík. Matvæladagurinn er árviss viðburður sem haldinn hefur verið frá árinu 1993 og er nú haldinn í 20. sinn.

Með innleiðingu nýrrar matvælalöggjafar ESB er lögð aukin áhersla á ábyrgð framleiðenda á matvælaöryggi. Matvælaeftirlit skal jafnframt byggjast á áhættumati. Fyrr á árinu var mikil umræða í fjölmiðlum og víðar í tengslum við ákveðin mál sem upp komu í eftirliti í matvælaiðnaði og urðu uppspretta vangaveltna og umræðna um öryggi matvæla á Íslandi. Í framhaldi af því telur MNÍ að þörf sé fyrir ábyrga umræðu og aukna fræðslu til allra þeirra sem koma að slíkum málum og hefur því valið matvælaöryggi og neytendavernd sem yfirskrift Matvæladagsins í ár með von um að leggja með því sitt af mörkum til uppbyggilegra umræðna á opinberum vettvangi. Megininntak dagsins þetta árið er áhættumat í matvælaframleiðslu og eftirliti, ábyrgð framleiðenda og neytenda sjálfra á meðhöndlun matvæla. Einnig verður rætt um ábyrgð fjölmiðla í umfjöllun um matvæli og markaðssetningu þeirra.

Steingrímur J. Sigfússon, nýsköpunar og atvinnuvegaráðherra, mun setja ráðstefnuna og fundarstjóri er Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.

Við setningu ráðstefnunnar mun Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, afhenda Fjöregg MNÍ, en það er verðlaunagripur sem veittur er fyrir lofsvert framtak á sviði matvæla-framleiðslu og manneldis. Gripurinn er hannaður og smíðaður af Gleri í Bergvík og hefur frá árinu 1993 verið gefinn af Samtökum iðnaðarins.

Þátttöku á ráðstefnuna þarf að tilkynna á vefsíðu MNÍ, www.mni.is, en skráningu lýkur kl. 24:00, mánudaginn 15. október. Almennt þátttökugjald er 7000 kr., en nemar þurfa aðeins að greiða 3.500 kr.. Ráðstefnugögn og léttar veitingar eru innifaldar í verði en dagskráin stendur frá kl. 13:00 til 17:00 og er birt á heimasíðu MNÍ. Þar birtast einnig fréttir af ráðstefnunni þegar nær dregur svo og listi yfir þá sem kynna munu sínar vörur og rannsóknir á þessu sviði.

Matvæladagurinn er opinn almenningi og er áhugafólk um matvæli, næringu og neytendavernd hvatt til að mæta.

Nánari upplýsingar veitir Fríða Rún Þórðardóttir, s. 898-8798, frida@lsh.is.

IS