Matís tók þátt í rannsókn á skólpi frá þrem stöðum á Íslandi sem sýnir að lyfjaleifar og leifar af hreinlætisvörum, s.s. sápur, hársnyrtivörur og krem, eru til staðar í skólpi og dælt út í umhverfið.
Rannsóknin var hluti af stærra rannsóknarverkefni þar sem Norðurlöndin voru borin saman. Sýnin voru tekin við dælustöðina við Klettagarða, úr brunni við Landsspítala í Fossvogi, við dælustöðina á Akureyri og við dælustöðina í Hveragerði.
Í flestum tilfellum var magn lyfja og hreinlætisvöru lægri í íslenskum sýnum miðað við sýni frá Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Finnlandi. Í einstaka tilfellum greindist þó meira magn í íslenskum sýnum, sem dæmi má nefna ibuprofen (verkja og bólgueyðandi lyf), estradiol (getnaðarvarnarlyf) og Atenolol (hjartalyf). Hreinsun á þessum efnum úr skólpi á sér ekki stað á Íslandi. Í skýrslunni voru ekki dregnar neinar ályktanir um umhverfisáhrif þessara efna, heldur var markmiðið eingöngu að afla upplýsinga um hvort efnin séu til staðar til að hægt sé að forgangsraða rannsóknum og efnasamböndum sem nauðsynlegt er að fylgjast með.
Lyf og hreinlætisvörur eru notuð í töluverðu mæli í daglegu lífi fólks til að bæta heilsu og hreinlæti. Hreinlætisvörur spanna flokka eins og sápur og hreinsiefni, krem, svitalyktaeyðar, snyrtivörur, ilmvötn o.s.frv. og eru notuð í sífellt auknu mæli um allan heim. Efnainnihald þessara vöruflokka geta verið margskonar og eru bæði til staðar sem virk innihaldsefni eða bætiefni til að auka gæði og/eða endingartíma hreinlætisvöru.
Nánari upplýsingar veitir Hrönn Ólína Jörundsdóttir verkefnastjóri hjá Matís.