Fréttir

Matís til fyrirmyndar árið 2012

Niðurstöður könnunarinnar um Stofnun ársins voru kynntar við hátíðlega athöfn á Hótel Nordica á föstudaginn. Matís ásamt Umferðarstofu, Ríkisskattstjóra, Fríhöfninni, Skipulagsstofnun, Skattrannsóknarstjóra ríkisins, Sýslumanninum á Siglufirði og Blindrabókasafni Íslands eru Fyrirmyndarstofnanir árið 2012

Mikið er lagt upp úr jákvæðu starfsumhverfi hjá Matís. Að Vínlandsleið 12 í Reykjavík, þar sem aðalstöðvar Matís eru hýstar, er frábært mötuneyti þar sem boðið er upp á hollan og góðan heimilismat. Starfsmenn komast í líkamsrækt því í húsinu er fyrirmyndar aðstaða og t.a.m. er körfuboltavöllur í porti við húsið. Boðið er upp á svokallaðan samgöngusamning þar sem gefið er tækifæri á að fá greitt fyrir að nota almennan samgöngumáta annan en einkabílinn. Á þennan hátt næst fram umhverfisvænni ferðamáti, beinn sparnaður starfsmanna og hvatning til að stunda líkamsrækt í gegnum hjólreiðar eða göngu.

Frá upphafi hefur Matís byggst á neti starfsstöðva um allt land. Starfsstöðvar eru nú átta talsins, að höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík meðtöldum og eru starfsmenn þeirra tengdir öllum fagsviðum fyrirtækisins.

Með starfi út um landið undirstrikar Matís vilja fyrirtækisins til að vinna með aðilum heima í héröðunum að fjölbreyttum verkefnum sem treyst geta atvinnulíf, aukið nýsköpun og fjölgað störfum. Stefna Matís er að á komandi árum efli fyrirtækið þessa áherslu enn frekar um allt land.

Matís er fyrst íslenskra fyrirtækja til þess, í samstarfi við Lýsi, að aðstoða starfsmenn sína til þess að vinna bug á D-vítamínskorti sem er orðinn býsna algengur hjá Íslendingum. Á hverjum morgni, á tímabilinu frá september til maí, gefst starfsmönnum kostur á því að fá Omega-3 lýsisbelgi sem eru með viðbættu D-vítamíni en auk þessu hefur hefðbundið lýsi verið í boði um nokkurt skeið á hverjum morgni.

Matís veit að ánægður starfsmaður er starfsmaður sem leggur sitt af mörkum í framgangi fyrirtækisins, Íslendingum öllum til heilla. Því tekur fyrirtækið það alvarlega sitt hlutverk í því að aðstoða hvern starfsmann í því að vera heilbrigð sál í hraustum líkama.

Nánari upplýsingar veitir Jón Haukur Arnarson, mannauðsstjóri Matís.

Ítarlegar niðurstöður könnunarinnar um stofnun ársin má lesa hér.

IS