Fréttir

Íslenskt hugvit í Tansaníu

Tveir starfsmenn Matís voru í nokkra daga í Tansaníu nú fyrir stuttu til þess að leiðbeina hvernig ætti að setja upp sólarofn til að þurrka fisk. Skemmtileg frétt um þetta birtist í fréttum Stöðvar 2 en Hugrún Halldórsdóttir, fréttakona, forvitnaðis þar um þetta áhugaverða verkefni.

Fréttina frá Stöð 2 má finna hér og hér.

Nánar um verkefnið
Ráðgjöf um veiðar og vinnslu í Tansanínu
Haustið 2011 gerði Matís samning við stjórnvöld í Tansaníu um verkefni við Tanganyikavatn í Tansaníu. Verkefnið er fjármagnað með láni frá Norræna þróunarsjóðum (NDF) sem staðsettur er í Helsinki. Verkefnið var boðið út á norðurlöndum og varð Matís hlutskarpast í því útboði.

Tanganyikavatn er meðal stærstu ferskvatna heims, tæplega 19 þúsund ferkílómetrar að stærð. Vatnið er einnig annað dýpsta ferskvatn í heimi, 1500 metrar þar sem það er dýpst. Fjögur lönd liggja að vatninu, þ.e. Tansanía, Kongó, Búrúndí og Sambía. Tansaníubúar veiða fisk í Tanganyika en bæði veiðar og vinnsla eru með frumstæðum hætti. Verkefni Matís er meðal annars að aðstoða við þróun aðferða til að nýta fiskinn betur og gera hann verðmætari.

Matís hefur samið við íslensku fyrirtækin Ráðgarð Skiparáðgjöf ehf. og Verkfræðistofu Jóhanns Indriðasonar ehf.  (VJI) um hluta verkefnisins. Ráðgarður mun veita  ráðgjöf og hafa umsjón með smíði á sérhæfðu skipi sem nota á til rannsókna á Tanganyika og fiskistofnum í vatninu en verkfræðistofa VJI mun stýra innkaupum í verkefninu. Að auki hefur Matís gert samning við fyrirækið Goch í Tansaníu sem mun annast félagshagfræðilegan hluta verksins og samskipti við fiskisamfélög við Tanganyika vatn.

„Þetta verkefni er mikil áskorun fyrir okkur því þarna eru aðstæður allar mjög frumstæðar og ólíkar því sem við þekkjum. Við þurfum þannig að finna leiðir til að þróa fiskvinnsluna út frá því sem er til staðar en getum ekki gengið að því vísu að hafa rafmagn, olíu eða aðra orkugjafa líkt og annars staðar. Stór hluti af verkefninu snýst síðan um að þjálfa og kenna heimamönnum hvernig á að meðhöndla fiskinn og við komum til með að senda fólk frá okkur sem mun velja nokkur þorp við vatnið og leiðbeina íbúunum. Það má því segja að hluti verkefnisins verði unninn hér heima og á síðari stigum vinnum við síðan samkvæmt okkar áætlunum á staðnum. Þetta verður mjög spennandi verkefni sem við reiknum með að verði á hápunkti árið 2012,“ segir Oddur Már Gunnarsson, sviðsstjóri hjá Matís sem jafnframt er verkefnisstjóri Tansaníuverkefnisins. Ásamt honum stýrir Margeir Gissurarson, verkefnastjóri hjá Matís verkefninu.

Nánari upplýsingar: Oddur Már Gunnarsson

IS