Fréttir

Staða mengunar þungmálma og annarra eiturefna í hafinu umhverfis landið – ný skýrsla Matís

Mengun þungmálma og annarra eiturefna í hafinu umhverfis landið er almennt vel undir alþjóðlegum viðmiðunarmörkum, eins og fram kemur í nýrri skýrslu Matís um breytingar á lífríki sjávar við landið (hér)

Styrkur kadmíns í íslenskum kræklingi er hinsvegar hærri en almennt gerist í kræklingi frá hafsvæðum Evrópu og Ameríku.

Frá árinu 1989 hefur verið í gangi árlegt vöktunarverkefni á mengunarefnum í lífríki hafsins við Ísland. Verkefnið er fjármagnað af umhverfisráðuneytinu, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og Matís ohf. Umhverfisstofnun er umsýsluaðili verkefnisins.

Ýmis mengandi efni í hafinu geta borist í sjávarlífverur eða lífverur sem nærast á sjávarfangi. Í mörgum tilfellum stafar þessi mengun af mannavöldum og eru vaxandi áhyggjur af þeirri þróun. Mengandi efni berast með loft- og sjávarstraumum frá meginlandi Evrópu og Ameríku auk mengunar frá Íslandi. Það er því mikilvægt að fylgjast með magni mengandi efna hér við land, bæði í umhverfi og lífverum sem lifa við landið. Þá er ennfremur mikilvægt að geta borið saman stöðu lífríkis hafsins í kringum Ísland við ástandið í öðrum löndum, ekki síst vegna mikilvægis sjávarafurða fyrir þjóðina.

Í skýrslu Matís (skýrsla 24-11 á vef Matís) eru birtar niðurstöður vöktunarverkefnisins fyrir árin 2009 og 2010. Í rannsókninni eru mæld snefilefnin blý, kadmín, kvikasilfur, kopar og sink, arsen og selen, þrávirku lífrænu efnin HCH, HCB, PCB, klórdan, trans-nonachlor, toxaphen, DDT og PBDE. Markmiðið með vöktunarverkefninu er að bera kennsl á breytingar sem kunna að verða á styrk snefilefna í lífríki sjávar umhverfis landið á ákveðnu tímabili og á milli ólíkra haf- og strandsvæða. Rannsóknin skiptir meðal annars miklu máli fyrir sölu á íslensku sjávarfangi bæði á innlendum og erlendum mörkuðum þar sem hægt er að sýna fram á með vísindalegum gögnum að íslenskur fiskur sé veiddur í ómenguðu umhverfi.

Fram kemur í skýrslunni að styrkur þungmálma eins og kvikasilfurs er afar lágur. Hins vegar hefur styrkur kadmín stundum mælst hærri í lífríki sjávar hér við landi en á suðlægari slóðum. Magn kadmíns er þó lágt í þeim lífverum sem rannsökuð eru t.d. á bilinu 0,1-1 mg/kg í kræklingi. Hár styrkur kadmíns hér við land er svæðisbundinn og talinn eiga sér náttúrulegar orsakir þar sem ekkert hefur komið fram sem bendir til kadmínmengunar af manna völdum. Niðurstöður sýna breytingar í mynstri styrks klórlífrænna efna í  kræklingi sem safnað var nálægt Hvalstöðinni í Hvalfirði í september 2009, ekki voru sýnilegar breytingar í styrk þessara efna á söfnunarstað kræklings við Hvammsvík í Hvalfirði né á neinum öðrum söfnunarstað í kringum landið sem rannsakaður var 2009. Mikilvægt er að fylgjast með þessum breytingum í mynstri styrks klórlífrænna efna í kræklingi í vöktunarverkefninu  á næstu árum til að sjá hvort þær eru enn til staðar. Ítarleg tölfræðigreiningu á gögnunum er í gangi þ.a. hægt sé að meta með vísindalegum aðferðum aukningu eða minnkun mengandi efna í lífríki sjávar hér við land.

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir hjá Matís.

IS