Fréttir

Miklu máli skiptir að vara haldi ferskleika sínum sem lengst eftir afhendingu

Endurbætt Matís skýrsla um endurhannaða frauðkassa og samanburð hitastýringar í flug- og sjóflutningi ferskra fiskafurða

Skýrsla Matís 29-10, Effect of improved design of wholesale EPS fish boxes on thermal insulation and storage life of cod loins – simulation of air and sea transport hefur verið endurútgefin með nokkrum lagfæringum. Ástæðan er einkum sú að ekki þótti nógu skýrt koma fram í skýrslunni að sá umhverfishitaferill, sem líkja átti eftir sjóflutningi, miðaðist í raun við nokkurn veginn bestu mögulegu aðstæður í sjóflutningskeðjum ferskra fiskafurða frá Íslandi. Hitamælingar í kæliverkefnunum Hermun kæliferla og Chill on hafa sýnt fram á að forflutningi innanlands fylgir oft óæskilegt hitaálag í nokkrar klst. hvort sem um er að ræða flug- eða sjóflutningskeðjur. Til þessa hitaálags var tekið tillit í tilfelli flugkeðjunnar en ekki sjóflutningskeðjunnar og er það dregið fram í nýrri útgáfu skýrslunnar. Dæmigerð flugflutningskeðja í skýrslunni miðast við flutning frá Norðurlandi en ljóst er að ekki er jafn mikils hitaálags að vænta í forflutningi frá svæðum nær Keflavíkurflugvelli.

Mest áhersla var á lengd geymsluþols í fyrri útgáfu skýrslunnar en fyrir kaupendur hágæðavöru skiptir líka mjög miklu máli að sá tími sem varan heldur enn ferskleika (e. freshness period) sínum eftir afhendingu sé sem lengstur. Að þessu leyti hefur flugflutningurinn vinninginn umfram sjóflutninginn að því gefnu að nýju frauðkassarnir séu notaðir.

Þess má loks geta að hjá Matís er í burðarliðnum verkefni sem hefur það megin markmið að bæta hitastýringuna í flugflutningi ferskra sjávarafurða, tryggja betur geymsluþol afurðanna og hámarka um leið gæði og verðmæti þeirra. Ferskar afurðir fluttar með flugi eru dýrustu ferskfiskafurðirnar, sem fara inn á hágæðamarkaði og því má segja að mjög nákvæm hitastýring sé mikilvægust í flugflutningsferlum ferskra fiskafurða.

Nánari upplýsingar veitir Björn Margeirsson, vélaverkfræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands og Matís, bjornm@matis.is.

IS