Síðustu mánuði hefur verið unnið að standsetningu aðstöðu og öflun og uppsetningu tækjabúnaðar í húsnæði Matarsmiðjunnar á Flúðum. Þá er verið að sækja um starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.
Starfsemin mun svo hefjast í mars. Hugmyndin með Matvælasmiðjunni er að aðstoða fólk með hugmyndir að matvælaframleiðslu með faglegri aðstoð og aðstöðu. Jafnframt lærir það um grundvalaratriði öryggis matvæla þ.m.t. að setja upp innra eftirlit og sækja um framleiðsluleyfi fyrir sína vöru til leyfisveitenda. Með þessu móti er hægt að prófa hugmyndir að framleiðslu og markaðssetja vöru án þess að leggja út í mikinn kostnað. Smiðjan er ætluð fyrir vinnslu og framleiðslu á alls konar matvælum auk fræðslu fyrir smáframleiðendur matvæla. Þar verður aðstaða og búnaður:
- til þurrkunar á matvælum
- til framleiðslu á nasli
- til niðurlagningar og niðursuðu (sultugerð, súrsun matvæla ofl.)
- blautaðstaða til meðhöndlunar á hráefni (kjöti, grænmeti ofl.)
- lítið tilraunaeldhús (Soðnar vörur)
- kælir og frystir
- til pökkunar
- til fræðslu og námskeiðshalds
Samband verður haft við þá aðila sem þegar hafa sýnt áhuga á að vinna að hugmyndum sínum í Matarsmiðjunni á Flúðum til að ræða og skipuleggja verkefnin. Allir sem áhuga hafa á að kynna og nýta sér ráðgjöfina og aðstöðuna á Flúðum eru hvattir til að hafa samband við starfsmann Matarsmiðjunnar Vilberg Tryggvason í síma 8585133 eða senda honum tölvupóst á netfangið vilberg.tryggvason@matis.is
Matarsmiðjan á Flúðum er í samstarfi sveitafélaganna í uppsveitum Árnessýslu, Matís ohf., Háskólafélags Suðurlands og Atvinnuþróunarfélags Suðurlands.
Nánari upplýsingar veitir Guðjón Þorkelsson hjá Matís.