Fréttir

Talsvert magn af veiðanlegum kræklingi er að finna í Hvalfirði

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Kræklingarækt hefur verið stunduð á tilraunastigi víðsvegar við landið í nokkurn tíma og hafa frumkvöðlar náð tökum á ræktunaraðferðum sem henta fyrir íslenskar aðstæður og fyrstu fyrirtækin eru að hefja uppbyggingu sem byggir á þeirri þróun.

Í Evrópu og Kanada er kræklingarækt rótgróin matvælagrein og njóta Íslendingar góðs af því að hafa aðgang að tækni sem þegar hefur verið þróuð til ræktunar og vinnslu kræklings. Aðstæður hér við land eru þó ekki alltaf sambærilegar og hefur þróunarvinna á Íslandi m.a. falist í að aðlaga tækni að íslenskum aðstæðum.

Kræklingarækt hérlendis hefur að mestu leiti byggt á lirfusöfnun, síðar á framleiðsluferlinu hefur skel verið stærðarflokkuð og sett í sokka sem komið er fyrir í áframrækt á línum í sjó. Aðalmarkmið AVS verkefnisins “Stytting ræktunartíma kræklings” var að þróa og meta ræktunaraðferð sem ekki hefur verið prófuð áður hérlendis, svokölluð skiptirækt. Þessi aðferð felur í sér að villtri smákel (<35 mm) er safnað eftir að hún hefur leitað til botns, hún stærðarflokkuð, sokkuð og látin vaxa á hengjum/sokkum uppi í sjó. Deilimarkmið AVS verkefnisins voru að meta stofnstærð og nýliðunargetu á tilraunaveiðisvæðum smáskelja í Hvalfirði og upptöku kadmíums í kræklingi eftir flutning og í áframræktun.

Niðurstöður þessara rannsóknar leiddu í ljós að talsvert magn af veiðanlegum kræklingi er til staðar í Hvalfirði. Ljóst er þó að uppistaða þess stofns eru stórar skeljar sem ekki henta til áframræktunar. Úr því má bæta með því að grisja stofninn þannig að rými skapist fyrir smáskel að setjast.

Minna fannst af skel í Breiðafirði, en hún var þó smærri en skelin í Hvalfirðinum og hentaði því betur til skiptiræktar. Ágætis árangur náðist af því að rækta þessa skel áfram í Eyjafirði og var hægt að uppskera hana þar að rúmu ári liðnu þar sem hún var búin að ná markaðsstærð. Með lirfusöfnun tekur það skelina 2-3 ár að ná markaðsstærð en með því að safna villtri smáskel er hægt að láta hana ná markaðsstærð á einu ári. Mikil verðmætasköpun gæti falist í því að nýta áður ónýttan stofn og stytta ræktunartíma kræklings um a.m.k. eitt ár. Upptaka kadmíums í kræklingi getur þó verið vandamál eftir flutning og í áframræktun og mikilvægt er að fylgjast með styrk kadmíums í kræklingi áður en hann fer á markað.

Skiptirækt getur líka verið gagnleg sem viðbót við hefðbundna ræktun, sérstaklega ef hefðbundin lirfusöfnun hefur farið forgörðum af einhverjum ástæðum. Niðurstöður þessa verkefnis geta því nýst við fleira en styttingu á ræktunartíma og geta gegnt lykilhlutverki við uppbyggingu kræklingaræktar umhverfis landið.

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir.

IS