Fréttir

Sjóflutningur er raunhæfur möguleiki fyrir íslenska ferskfiskframleiðendur

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Geymsluþol þorskhnakka í flug- og sjóflutningi. Í mars 2010 var framkvæmd geymsluþolstilraun, sem miðaði m.a. að því að bera saman geymsluþol forkældra, ferskra þorskhnakka í flug- og sjóflutningi frá Íslandi til meginlands Evrópu.

Tilraunin var gerð undir hatti Evrópuverkefnisins Chill on (http://www.chill-on.com) og íslenska rannsóknarverkefnisins Hermun kæliferla, sem stutt er af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi, Tækniþróunarsjóði Rannís og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, sjá nánar hér: http://www.matis.is/verkefni/nr/2801.  

Tekið var mið af fyrirliggjandi niðurstöðum hitakortlagningar kælikeðja þegar hitaferlar fyrir flug- og sjóflutning voru hannaðir í undirbúningi tilraunarinnar. Hitastýrðir kæliklefar Matís og Háskóla Íslands komu að góðum notum eins og svo oft áður í þess konar tilraunum. Eftir flutning frá framleiðanda á norðanverðu Íslandi til Matís í Reykjavík varð flugfiskurinn fyrir tveimur tiltölulega vægum hitasveiflum (um 9 °C í 9 klst. og um 13 °C í 4 klst. nokkrum klst. síðar) og við tók nokkurra daga geymsla við 1 °C. Gámafiskurinn var aftur á móti geymdur við -1 °C, sem er raunhæfur möguleiki við gámaflutninga með skipum, frá komu til Matís í Reykjavík.  Vert er að geta þess að hitaálag í flugflutningi getur orðið umtalsvert meira en fyrrgreindur flughitaferill segir til um skv. mælingum Matís. 

Notast var við hitamælingar, skynmat, efna- og örverumælingar til að bera flutningsmátana tvo saman. 

Hermun flug- og sjóflutnings (hitasveiflur og stöðugur hiti) leiddi í ljós að fyrir vel forkælda þorskhnakka má vænta um fjögurra daga lengra ferskleikatímabils og um fimm daga lengra geymsluþols í vel hitastýrðum sjóflutningi miðað við dæmigerðan flugflutningsferil. Þar sem sjóflutningur frá Íslandi tekur oft um fjórum til fimm dögum lengri tíma en flugflutningur (háð m.a. vikudegi og staðsetningu vinnslunnar) sýnir þetta að sjóflutningur er raunhæfur möguleiki fyrir íslenska ferskfiskframleiðendur.  Þetta byggir þó á því að hitastýring í gámum sé eins og best verður á kosið. Samanburður á hitastýringu í mismunandi gámategundum er einmitt eitt af viðfangsefnum verkefnisins Hermunar kæliferla. 

Skýrsluna má nálgast hér: http://www.matis.is/media/matis/utgafa/29-10-Effect-of-improved-design-of-wholesale.pdf og veitir Björn Margeirsson (bjornm@matis.is) nánari upplýsingar. 

IS