Fréttir

Aukin nýting og verðmætasköpun úr fiskpróteinum – doktorsvörn frá HÍ

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Föstudaginn 10. september nk.  fer fram doktorsvörn við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.

Þá ver Gholam Reza Shaviklo matvælafræðingur doktorsritgerð sína  “Properties and applications of fish proteins in value added convenience foods”. (Eiginleikar og notkun fiskpróteina í tilbúin matvæli).

Eiginleikar og notkun fiskpróteina í tilbúin matvæli
Föstudaginn 10. september nk.  fer fram doktorsvörn við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.  Þá ver Gholam Reza Shaviklo matvælafræðingur doktorsritgerð sína  Properties and applications of fish proteins in value added convenience foods. (Eiginleikar og notkun fiskpróteina í tilbúin matvæli).

Andmælendur eru dr. Javier Borderias  frá Institudo del Frio í Madrid, Spáni og dr. Kristberg Kristbergsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands Leiðbeinendur og í doktorsnefnd voru Guðjón Þorkelsson dósent við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og sviðsstjóri hjá Matís ohf, Sigurjón Arason dósent við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur hjá Matís ohf, dr. Sjöfn Sigurgísladóttir gestaprófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og forstjóri Matís ohf og dr. Kolbrún Sveinsdóttir sérfræðingur hjá Matís ohf.

Dr. Inga Þórsdóttir, prófessor og deildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni, sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu og hefst kl. 13:00.

Ágrip úr rannsókn
Markmiðið með verkefninu var á auka nýtingu og verðmæti hráefna og þægindi neytenda með þróun tilbúinna matvæla úr fiskpróteinum.

Rannsakað var hvernig hægt er að vinna og nýta einangruð fiskprótein sem íblöndunarefni í tilbúin matvæli.  Bæta þurfti frostvarnaefnum í blaut einangruð prótein úr  ýsu fyrir frystingu í blokkir til tryggja stöðugleika þeirra við geymslu í frosti. Oxun fyrir og við vinnslu á einangruðum próteinum úr ufsa leiddi til mikillar þránunar í þurrkuðu dufti svo ekki var hægt að nota það til vöruþróunar. Þurrkun á ufsaholdi skoluðu og hreinsuðu upp úr vatni (surimi) var einnig rannsökuð.  Hægt reyndist að framleiða duft sem hentaði til vöruþróunar bæði með frost- og úðaþurrkun. Hægt var að bæta 7% af frostþurrkuðu ufsadufti í sprautað (extruded) maísnasl. Þróuð var svokölluð kótelettublanda með 30%  ufsadufti. Loks var prófað að bæta frostþurrkuðu ufsadufti í íranskan matarís. Enginn munur var á bragði, útliti og áferð íss með 0, 3 eða 5% ufsadufti eftir 2 mánaða geymslu við -18°C. Eftir það urðu breytingar  bragði, lykt og áferð. Vísindalegar og tæknilegar upplýsingar úr verkefninu eru mikilvægar og uppbyggilegar bæði fyrir áframhaldandi rannsóknir á nýtingu fiskpróteina og fyrir fyrirtæki sem hafa hug á að þróa tilbúin matvæli og nasl með íblönduðum fiskpróteinum. Þannig væri hægt að auka verðmæti vannýttra hráefna og um leið er þetta ein leið til að auka fiskneyslu í löndum eða á svæðum þar sem engar hefðir eru fyrir matreiðslu á ferskum eða frosnum fiski.

Doktorsritgerðin er byggð á átta vísindagreinum, þar af eru tvær þegar birtar í alþjóðlegu vísindariti og tvær aðrar samþykktar.

Sjávarútvegsskóli háskóla Sameinuðu þjóðanna veitti  Gholam Reza Shaviklo námsstyrk. Matís ohf, Iceoprotein hf, Iran Fisheries Research Organization (IFRO) og Iran Fisheries Organization (SHILAT)  í Teheran, Iran, SIPA Co., Qazvin, Iran,  Iran Fish Processing Research Centre (Anzali, Iran), veittu rannsóknum hans aðstöðu.  Rannsóknirnar í verkefninu tilheyrðu verkefnunum Propephealth in SEAFOODplus(project no. FP6-016333-2) styrkt af 6. rammaáætlun Evrópusambandsins og Heilsuvörur úr fiski sem er styrkt af Tækniþróunarsjóði.  

Um doktorsefnið
Gholam Reza Shaviklo er fæddur 11. nóvember 1968. Hann útskrifaðist með sína fyrstu háskólagráðu frá Matvæla- og næringarfræðideild Shahid Beheshti háskóla í Teheran árið 1992.   Hann stundaði framhaldsnám frá JICA í Japan og við Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna og varði mastersverkefni við Háskóla Íslands árið 2008. Hann hefur 20 ára starfsreynslu við eftirlits-, rannsókna- og þróunarstörf fyrir fiskiðnað í Íran og vinnur nú hjá Iran Fisheries Organisation (SHILAT) í  Teheran.

Nánari upplýsingar veitir Gholam Reza Shaviklo, sími: 698-1118 póstfang: shaviklo@gmail.com eða Guðjón Þorkelsson, leiðbeinandi,  sími: 858-5044, tölvupóstfang: gudjont@hi.is.

IS