Fréttir

Greiningartími styttur úr 3 dögum niður í 5 klst.!

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Föstudaginn 15. janúar fer fram doktorsvörn við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Þá ver Eyjólfur Reynisson líffræðingur hjá Matís doktorsritgerð sína „Breytingar á örverusamfélögum í skemmdarferli fiskafurða. Sameindalíffræðileg rannsókn ásamt þróun hraðvirkra greiningarprófa á sérvirkum skemmdarörverum.“

Doktorsvörn í líffræði frá Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Hefst: 15/01/2010 – 13:00

Lýkur: 15/01/2010 – 15:00

Staðsetning viðburðar: Askja

Nánari staðsetning: Stofa 132 (stóri salurinn)

Doktorsvörn í líffræði frá Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands:
Breytingar á örverusamfélögum í skemmdarferli fiskafurða.
Sameindalíffræðileg rannsókn ásamt þróun hraðvirkra greiningarprófa á sérvirkum skemmdarörverum.

Fresh view in fish microbiology.
Analysis of microbial changes in fish during storage, decontamination and curing of fish, using molecular detection and analysis methods.

Föstudaginn 15. janúar fer fram doktorsvörn við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Þá ver Eyjólfur Reynisson líffræðingur doktorsritgerð sína „Breytingar á örverusamfélögum í skemmdarferli fiskafurða. Sameindalíffræðileg rannsókn ásamt þróun hraðvirkra greiningarprófa á sérvirkum skemmdarörverum.“ Andmælendur verða Dr. Paw Dalgaard vísindamaður frá Tækniháskólanum í Danmörku og Dr. Guðni Ágúst Alfreðsson prófessor við Háskóla Íslands. Leiðbeinandi í verkefninu var Dr. Guðmundur Hreggviðsson fagstjóri hjá Matís. Dr. Sigurður Snorrason, forseti Líf- og umhverfisvísindadeildar mun stjórna athöfninni sem fer fram í Öskju og hefst kl. 13.

Í verkefninu voru skemmdarferlar fiskafurða skoðaðir með notkun sameindalíffræðilegra aðferða til að skoða samsetningu og breytingar á örveruflórunni við geymslu og verkun fiskafurða. Fyrsti hluta verkefnisins beindist að þróun hraðvirkra greiningaraðferða á óæskilegum bakteríum s.s Salmonella og bakteríum sem valda niðurbroti matvæla (skemmdarbakteríur). Með nýju aðferðafræðinni er greiningatíminn styttur úr 3 dögum niður í 5 klst. sem getur komið að góðum notum við eftirlit og gæðastýringu í matvælaframleiðslu. Í öðrum hlutanum var komið inn á hreinlæti og þrif í fiskvinnslu þar sem virkni hefðbundinna þrifaferla til fjarlægingar á örveruþekjum voru kannaðir. Tekið var tillit til mikilvægra þátta í ferlinu s.s. hitastigi skolvatns, styrkleika hreinsiefna og gerð yfirborðs. Örveruþekjur myndast iðulega við matvælaframleiðslu og því er mikilvægt að þrifaferlar komi í veg fyrir að þær nái fótfestu til að tryggja bæði öryggi og gæði framleiðslunnar. Í þriðja hlutanum er fengist við spurningar um samsetningu bakteríusamfélaga við geymslu á fiski þar sem dæmi eru tekin af þremur fiskitegundum. Þorskur og ýsa eru dæmi um beinfiska á meðan skata er flokkast til brjóskfiska. Ýmsir beinfiskar eru mikilvægir nytjastofnar og hafa því hlotið meiri athygli þegar kemur að rannsóknum á örverufræði þeirra og skemmdarferlum. Í þessum hluta er sýnt fram á og staðfest að Photobacterium phosphoreum er sú bakteríutegund sem oftar en ekki nær yfirhöndinni við geymslu á þorski og ýsu við mismunandi aðstæður. Með notkun ræktunaraðferða og sameindalíffræðilegra greininga er framvindu örverusamfélaga við kæsingu á skötu lýst og sýnt fram á viðveru áður ólýstra bakteríutegunda í umtalsverðu magni í þessu sérstæða umhverfi.

Doktorsefnið er Eyjólfur Reynisson, fæddur 1977. Hann lauk BS-gráðu frá Háskóla Íslands árið 2001 og M.Sc.-gráðu í lífefnafræði frá Kaupmannahafnarháskóla tveimur árum síðar. Síðan þá hefur Eyjólfur starfað á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins sem gekk inn Matís ohf. – Matvælarannsóknir Íslands. Þar hefur hann unnið verkefnið sitt að stærstum hluta. Eyjólfur er kvæntur Lilju Logadóttur og eiga þau 3 börn.

www.hi.is

IS