Fréttir

Stór dagur hjá Matís – Nýja húsið verður bylting fyrir starfsemina

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nú í morgun fékk Matís ohf. afhent nýtt húsnæði að Vínlandsleið 12. Mótás hf. byggði húsið og innréttaði að þörfum Matís.

Starfsemi Matís í Reykjavík hefur verið á 3 stöðum en verður nú sameinuð undir einu þaki og verður það mikil hagræðing fyrir starfsemina.

„Þessi breyting mun verða bylting fyrir Matís og starfsemi fyrirtækisins. Við sameinum starfsemi sem nú er á þremur stöðum í Reykjavík undir eitt þak. Um leið verður  það mikil breyting og styrkur fyrir starfstöðvar okkar út um landið að geta nú átt sitt bakland undir sama þaki í Reykjavík,“ segir Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís.

Með sameiningu á einn stað er lagður grunnur að enn öflugra starfi rannsóknarfyrirtækisins Matís og það segir forstjórinn að geti skipt máli fyrir nýsköpunarverkefni á sviði matvælaiðnaðar.

„Ég er ekki í vafa um að við sjáum afrakstur nú þegar af þeirri áherslu okkar að auka samvinnu Matís við háskólastofnanir og atvinnulífið. Þetta styður við nýsköpun í sjávarútvegi og landbúnaði en ekki síður við nýjungar á borð við matartengda ferðaþjónustu, svo dæmi sé tekið. Atvinnulífið er stöðugt að skynja betur sóknarfærin í rannsóknum og einmitt þess vegna fagna ég því að okkur sé gert kleift að eflast með nýjum höfuðstöðvum þegar miklu skiptir fyrir þjóðarbúið að efla nýsköpunina,“ segir Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís.

Á næstu dögum verður flutt í nýja húsnæðið og verður starfsemin þar komin í fullan gang í janúarbyrjun 2010.

Matís þakkar Mótási hf. fyrir afar farsælt samstarf á þessum tíma.

Sjofn_Beggi_V12
Á myndinni má sjá þegar Sjöfn Sigurgísladóttir tekur við lyklum að Vínlandsleið 12 úr
höndum Bergþórs Jónssonar, forstjóra Mótás.
IS