Fréttir

Fiskmarkaður fyrir almenning

Fram er komin áhugaverð samantekt um möguleika fiskmarkaðar fyrir almenning, þar sem gestir og gangandi geta kynnst óþrjótandi möguleikum íslensks sjávarfangs og komist í tæri við afurðirnar og keypt sér spennandi hráefni til matargerðar.

Af hverju tíðkast ekki hér á landi að almenningur geti keypt ferskan fisk á hafnarbakkanum eða á fiskmarkaði? Ísland er þekkt fyrir mikil og góð fiskimið og fiskafurðir af miklum gæðum. Af hverju er ekki gert meira út á upplifun í tengslum við fiskinn, bæði fyrir landsmenn og fyrir ferðamenn? Margir eru áhugasamir fyrir hugmyndinni um fiskmarkað, en af einhverjum ástæðum hefur henni ekki verið komið í framkvæmd.

AVS verkefninu „Fiskmarkaður fyrir almenning“ er nú lokið. Verkefnið snérist um að kanna grundvöll fyrir því að koma á fót fiskmörkuðum á Íslandi fyrir almenning og ferðamenn. Þá voru unnar tillögur að því hvernig mætti standa að slíkum markaði. Megintilgangurinn var að hvetja til stofnunar (smásölu-) fiskmarkaða víðsvegar um landið og þar með styrkja tengingu neytenda við sjávarafurðir. Mikill áhugi hefur verið á verkefninu og stefnir allt í að fljótlega verði slíkur markaður stofnaður í Reykavík.

Í þessum tillögum er farið yfir stöðu fiskmarkaða á Íslandi og hvað „smásölufiskmarkaðir“ geta haft upp á að bjóða. Þá eru tekin dæmi um fiskmarkaði erlendis, farið yfir mismunandi leiðir að því að setja upp smásölufiskmarkaði og farið yfir megin skrefin sem þarf að hafa í huga þegar farið er af stað. Loks er tekið dæmi um ferli við frumhugmyndavinnu að stofnun smásölufiskmarkaðar í Reykjavík.

Það er von höfunda að þessi samantekt kveiki áhuga á og stuðli að stofnun fiskmarkaða fyrir almenning víðs vegar um landið.

Skýrslur verkefnisins: Tillögur um stofnun smásölufiskmarkaðar á Íslandi.

Nánari upplýsingar um verkefnið má fá hjá Þóru Valsdóttur, Matís ohf.

IS