Fréttir

Varmaflutningslíkan af grálúðu, frysting og þíðing – tækifæri til frekari verðmætasköpunar

Komin er út Matís skýrslan „Frysting og þíðing grálúðu – tilraunir og CFD hermun“, sem unnin var í verkefninu Hermun kæliferla. 

Frysting og þíðing grálúðu var rannsökuð með tilraunum og CFD líkönum smíðuðum með varma- og straumfræðihugbúnaðinum FLUENT. Í verkefninu hefur þegar verið sýnt fram á ótvírætt notagildi slíkra líkana fyrir flutningsferla ferskra afurða en niðurstöður þessarar skýrslu sýna að það sama gildir um frosnar afurðir. 

Í frystingartilrauninni var heilu bretti af hálffrosinni grálúðu komið fyrir í frostgeymslu og lofthiti og hiti grálúðu á mismunandi stöðum á brettinu mældur með hitasíritum. Tíminn, sem tók að frysta grálúðuna frá -10 til -5 °C undir -15 °C, var allt frá einum og upp í fjóra daga eftir staðsetningu á bretti. 

Varmaflutningslikan_graludu_3_nov_2009-2
Hitadreifing í láréttu plani fyrir miðri
hæð í stökum grálúðupoka eftir 10 klst. hitaálag (12,6°C umhverfishiti) skv. CFD líkani.  Upphaflegur vöruhiti var -26,0°C

Í þíðingartilraunum voru bæði stakir pokar og tuttugu pokar, sem staflað var á bretti,rannsakaðir í hitastýrðum kæliklefum Matís og HÍ. Upphitun fullfrosinnar vöru var kortlögð við aðstæður, sem komið geta upp við uppskipun úr frystitogurum eða 10 – 20 °C lofthita. Við niðurstöður tilraunanna voru bornar saman niðurstöður þrívíðra varmaflutningslíkana og fékkst almennt gott samræmi þar í milli. Við 10 klst. geymslu í 12,6 °C lofthita hækkaði hiti í stökum pokum úr um -26 °C í u.þ.b. -5 °C. Við jafn langt hitaálag hækkaði hiti í pokum á bretti úr -22,5 °C í allt frá -17 til -3 °C sem sýnir hversu óeinsleit hitadreifingin getur verið við langvarandi hitaálag. Niðurstöður CFD líkansins sýndu að 10 m/s vindur við uppskipun flýtir þiðnun frosins fisks á bretti verulega.

Nánar upplýsingar veitir Björn Margeirsson doktorsnemi Matís og HÍ, bjorn.margeirsson@matis.is

IS