Hér á landi eru nú góðir gestir m.a. vegna sýningar á Terra Madre sem er sýnd á RIFF kvikmyndahátíðinni. Þessir góðu gestir koma í heimsókn til Matís á morgun.
Þetta eru þau Paolo di Croce, framkvændastjóri Terra Madre og aðalritari Slow Food International og Veronica Veneziano, svæðisfulltrúi Slow Food International fyrir Norðurlöndin.
Paolo Di Croce situr í stjórn Slow Food International á alþjóðavísu. Samtökin hafa tugi þúsunda meðlima og eru ráðandi afl við að byggja upp sælkera- og hefðarmatvæli þar sem lagt er upp úr að viðhalda hefðum og berjast gegn ofuriðnvæðingu í matvælaframleiðslu heimsins. Samtökin berjast einnig fyrir því að tryggja fjölbreytileika í ræktun og að viðhalda náttúrulegum stofnum. GMO umræða er þar af leiðandi mikil og samtökin berjast fyrir því að erfðabreytt matvæli nái ekki að ryðja náttúrulegum stofnum úr vegi.
Eins má nefna sértækari markmið eins og að tryggja að ostar úr ógerilsneiddri mjólk verði ekki bannaðir af heilbrigðisyfirvöldum.
Í heimsókninni til Matís munu starfsmenn m.a. kynna fyrir þeim nálganir fyrirtækisins um hvernig hægt sé að efla smáframleiðslu á Íslandi og einnig að sýna þær einstöku afurðir sem við eigum hér á landi sem og afrakstur Matís úr vinnu starfsmanna á þessu sviði.
Nánari upplýsingar veitir Þóra Valsdóttir, thora.valsdottir@matis.is.