Fréttir

Villibráð – meðhöndlun og meðferð

Matís, Skotveiðifélag Íslands, Matvælastofnun og Úlfar Finnbjörnsson hjá Gestgjafanum bjóða til opins fræðslufundar um þessi mál þriðjudaginn 22. september nk. frá kl. 8:30-09:45 á Hótel Nordica, Suðurlandsbraut 2.

Nú er sá tími ársins að veiðar á villibráð eru í algleymingi. Veiðar landsmanna  á gæs, rjúpu nú eða á stærri bráð, t.d. hreindýri, eru vinsælar sem aldrei fyrr og er, þegar þetta er ritað, nánast búið að veiða allan hreindýrakvóta þessa hausts

Hvernig eiga veiðimenn og aðrir sem koma að meðferð og meðhöndlun villibráðar að bera sig að? Menn hafa ekki alltaf verið sammála um þetta og hafa mismunandi sjónarmið oft á tíðum tekist þarna á. Sem dæmi eru hugmyndir uppi hvort kæling villibráðar, eins og hún tíðkast nú til dags, þar sem dýr er t.d. grafið í fönn og sótt síðar, sé það besta sem hægt er að gera í stöðunni til að tryggja gæði kjötsins. Eða er æskilegt að haga kælingu með öðrum hætti og hægja e.t.v. á kælingunni til að fá meyrara kjöt? Ef við hægjum á kælingunni  erum við þá að taka áhættu út frá sjónarmiði matvælaöryggis og auka líkur á vexti baktería? Ofangreind sjónarmið og fleiri auk reglna um meðferð og meðhöndlun villibráðar takast þarna á.

Sérfræðingar um villibráð hafa auk þess oft skeggrætt um nýtingu hráefnisins og þykir mörgum að mun betur mætti fara í þeim efnum. Liggja tækifæri í matarferðamennsku í  betri nýtingu kjöts af villibráð og væri e.t.v. hægt að skerpa enn frekar á sérstöðu Íslands í mat og drykk með því að huga betur að því hreina og ómengaða hráefni sem við höfum? Gæti matarferðamennska skapað gjaldeyri sem um munar á þessum erfiðu tímum?

Af þessu tilefni ætla Matís, Skotveiðifélag Íslands, Matvælastofnun og Úlfar Finnbjörnsson hjá Gestgjafanum að bjóða til opins fræðslufundar um þessi mál þriðjudaginn 22. september nk. frá kl. 8:30-09:45 á Hótel Nordica, Suðurlandsbraut 2. Þar munu fremstu sérfræðingar landsins í meðferð og meðhöndlun villibráðar flytja erindi um þetta áhugaverða en umdeilda efni.

Dagskrá
08:30-08:35 – Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra – Fundur settur
08:35-08:45 – Ívar Erlendsson, leiðsögumaður/hreindýraguide – Eftir skotið, hvað þá?
08:45-08:55 – Sigmar B. Hauksson, Skotvís – Betri nýting villibráðar – meiri ánægja, fleiri minningar?
08:55-09:05 – Kjartan Hreinsson, MAST – Löggjöf um meðferð og meðhöndlun villibráðar
09:05-09:15 – Guðjón Þorkelsson, Matís – Um meðferð og meðhöndlun villibráðar; tækifæri í vöruþróun?
09:15-09:25 – Úlfar Finnbjörnsson, Gestgjafinn – Fullnýting afurðanna ásamt kryddun, eldun og meðlæti!
09:25-09:45 – Spurningar, svör, umræður

Fundarstjórn
Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís

Heitt á könnunni!

IS