Fréttir

Kvikasilfur í urriða úr Þingvallavatni

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís og rannsóknafyrirtækið Laxfiskar héldu fund til að kynna niðurstöður sameiginlegrar rannsóknar á magni kvikasilfurs í urriða úr Þingvallavatni. 

Rannsóknin hafði manneldissjónarmið að leiðarljósi og var framkvæmd til að draga upp mynd  af magni kvikasilfurs í Þingvallaurriðum með hliðsjón af stærð þeirra og forsögu. Fundurinn var haldinn miðvikudaginn, 27. maí 2009, kl 14:00 í Sjávarútvegshúsinu, Skúlagötu 4, á 1. hæð.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að kvikasilfur er mælanlegt í Þingvallaurriða. Kvikasilfur getur verið mjög eitrað, sérstaklega fyrir þroska heilans. Hámarksgildi kvikasilfurs í laxfiskum samkvæmt íslenskum og evrópskum reglugerðum er 0,5 mg/kg.  Ekki má dreifa eða selja matvæli sem fara yfir hámarksgildi sem sett eru í íslenskum reglugerðum vegna þess að slík matvæli geta verið skaðleg heilsu neytenda. Magn kvikasilfurs í Þingvallaurriða er á bilinu 0,02 – 1,02 mg/kg. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að sterk fylgni er milli lengdar Þingvallaurriða og magns kvikasilfurs. Urriði sem er lengri en 60 cm er mjög líklegur til að innihalda kvikasilfur í magni sem yfirstígur leyfileg mörk. Smærri urriðinn er gegnumsneitt undir þeim mörkum sem leyfileg eru og því er óhætt að neyta hans. Mælt er með að urriðar sem eru lengri en 60 cm séu ekki nýttir til matar en að þeim sé sleppt aftur í vatnið þar sem þeir eru mikilvægir vexti og viðgangi urriðastofnsins í Þingvallavatni. Niðurstöðurnar sýndu að kvikasilfursmengunina var að finna í sambærilegu magni í urriða vítt og breitt úr Þingvallavatni. Hinsvegar fundust vísbendingar sem bentu til þess að kvikasilfursmengun geti verið nokkru meiri á einu svæðanna. Því er talið æskilegt að gera frekari rannsóknir til að kanna mögulegan svæðabundin mun í styrk kvikasilfurs í umhverfi Þingvallavatns.

Varðandi hættu neytenda á neyslu matvæla með hærri styrk kvikasilfurs er vert að benda á að sérstaklega er mikilvægt að einstæklingar í ákveðnum áhættihópum, eins og barnshafandi konur og konur með börn á brjósti, forðist slík matvæli.

Rannsóknin var styrkt af Umhverfis og orkurannsóknarsjóði Orkuveitu Reykjavíkur (UOOR).

Franklín Georgsson, Helga Gunnlaugsdóttir og Hrönn Ólína Jörundsdóttir, Matís og Jóhannes Sturlaugsson, Laxfiskum.

IS