Fréttir

Matís hlýtur viðurkenningu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Á ráðstefnu um atvinnulíf og nýsköpun við lendur Vatnajökuls um síðustu helgi var haldin Uppskeruhátíð klasans að Smyrlabjörgum á föstudagskvöldinu sem að Ríki Vatnajökuls og Ferðamálafélag Austur- Skaftafellssýslu stóð fyrir.

Veittar voru viðurkenningar annars vegar frá Ríki Vatnajökuls og FASK, Vitinn – öðrum leiðarljós, og hins vegar frá Ferðamálasamtökum Íslands.

Fyrir valinu hjá þeim fyrrnefndu varð Hótel Höfn sem hefur verið mikil kjölfesta í ferðaþjónustu á svæðinu.
Vitinn – öðrum leiðarljós er veittur fyrirtækjum eða einstaklingum sem með einum eða örðum hætti hafa verið öðrum aðilum í greininni leiðarljós.

Þá veittu Ferðamálasamtök Íslands viðurkenningu fyrir Faglega uppbyggingu í ferðaþjónustu og rannsóknum, viðurkenninguna afhenti Pétur Rafnsson fyrir hönd ferðamálasamtakanna en viðurkenninguna hlutu Nýheimar. Við viðurkenningunni tók Ari Þorsteinsson fyrir hönd Nýheima.

Viðurkenningin var veitt öllum þeim aðilum innan Nýheima sem annars vegar hafa með markvissu samstarfi sín á milli og hins vegar með öflugu og vaxandi samstarfi við fyrirtæki í ferðaþjónustu, matvælum og menningu sem og áhugasama og atorkumikla einstaklinga og frumkvöðla, skotið nýjum sterkum stoðum undir rekstur ferðaþjónustu í Ríki Vatnajökuls. Með því hefur eflst enn frekar sú öfluga ferðaþjónusta sem byggst hefur upp á undanförnum áratugum og þekkt er á landsvísu fyrir samheldni, kjark og þor.

Samhliða þessu hefur markvisst verið unnið að því að byggja brýr til nágranna, jafnt í austri sem vestri sem og um landið þvert. Gildir það jafnt um samstarf á félagsvísu sem og á vegum einstakra fyrirtækja eða einstaklinga. Með þessu hefur verið haldið áfram að þróa þá vegferð sem frumkvöðlar fyrri ára lögðu upp í fyrir margt löngu með Árna Stefánsson hótelstjóra á Hótel Höfn í fararbroddi.

Aðilar í Nýheimum eru: (talið í stafrófsröð)
Búnaðarsamband Suðurlands
Framhaldsskólinn í Austur Skaftafellssýslu
Fuglaathugunarstöð Suðausturlands
Háskólasetur á Hornafirði
Menningarmiðstöð Hornafjarðar
Matís
Nýsköpunarmiðstöð Íslands, áður Frumkvöðlasetur Austurlands
Ríki Vatnajökuls
Þekkingarnet Austurlands
Náttúrulega
Auk þessara hafa fjölmörg fyrirtæki og verkefni haft þar aðstöðu um lengri eða skemmri tíma.

IS