Má bjóða þér sláturtertu og rabarbarakaramellu?
Stefnumót hönnuða og bænda.
Nemendur og kennarar í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands hafa unnið í samstarfi við Matís ohf og landsliðskokkanna Gunnar Karl Grétarsson og Örvar Birgisson unnið að þróun nýrra afurða fyrir íslenska bændur.
Markmið verkefnisins er að auka virði afurðanna og stuðla að nýsköpun í íslenskum landbúnaði.
Verkefnið hófst sem fimm vikna námskeið fyrir nemendur á öðru ári í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands. Nemendur heimsóttu bónda og kynntu sér framleiðslu hans, aðstöðu og þekkingu. Í framhaldinu voru gerðar tillögur að nýrri framleiðsluvöru fyrir bóndann. Á þessu stigi var um samstarf við fjóra bændur að ræða. Mikil ánægja og áhugi almennings varð til þess að ákveðið var að halda áfram með verkefnið og velja tvær afurðir árlega til að fullþróa og koma á markað. Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði og Framleiðnisjóði Landbúnaðarins.
Fyrsta uppskera verkefnisins leit dagsins ljós nú í haust, sláturtertan sem fáanleg verður næsta sumar á veitingastaðnum Fjalladýrð í Möðrudal á Fjöllum, og rababarakaramellan sem fáanleg verður í sérverslunum og beint frá bænum Löngumýri á Skeiðum.
Í dag stækkar sá markhópur sem gerir kröfur um vörur sem byggjast á góðri hönnun, gæðum og rekjanleika. Með því að tefla saman einni elstu starfstétt landsins, bændum og einni yngstu starfstétt landsins, hönnuðum, skapast spennandi möguleikar og ný tækifæri. Hvað dettur ungum hönnuði í hug þegar hann fær hakkaða lifur í hendurnar? Hvernig taka bændur hugmyndum hönnuðanna og hvert er innlegg matvælasérfræðinganna?
Samstarfsbændur verkefnisins árið 2008 eru þau Elísabet Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Vernharðsson á Möðrudal á fjöllum og Dorothee Lubecki og Kjartan Ágústsson á Löngumýri á Skeiðum.
Þeir sem taka þátt í spjallinu eru:
Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands
Brynhildur Pálsdóttir, vöruhönnuður
Guðmundur H. Gunnarsson, deildarstjóri hjá Matís
Irek Klonowski, landbúnaðarverkfræðingur hjá Matís