Fréttir

Skýrsla Matís: Samantekt á vísindalegum sönnunum á heilsufæði

Markaður fyrir heilsu- og markfæði af ýmsu tagi hefur vaxið mikið á undanförnum árum og við markaðssetningu slíkrar vöru hefur stundum ýmsu verið haldið fram sem illa stenst nánari skoðun. Í nýútkominni skýrslu frá Matís, er að finna ýtarlega samantekt á ýmsum flokkum heilsufæðis og einnig er þar farið yfir skilgreiningar og reglugerðir, efnivið og virkni vinsælla heilsuvara og leyfðar heilsufullyrðingar. Aðalhöfundur skýrslunnar er Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, en samantektin er hluti af meistaraverkefni hennar við matvælafræðiskor H.Í., sem hún vinnur að á Matís.

Í skýrslunni sem ber titilinn HEILSUFÆÐI: Samantekt á helstu flokkum heilsufæðis og vísindalegra sannana á virkni þeirra, kemur m.a. fram að hugtakið markfæði (functional food) hafi fyrst komið fram í Japan á áttunda áratug 20. aldar í kjölfar þess að þarlend yfirvöld vildu bæta lýðheilsu. Markfæði hefur verið skilgreint sem “matvæli sem eiga það sameiginlegt að þeim hefur verið breytt í þeim tilgangi að þau hafi jákvæðari heilsusamleg áhrif á neytandann en matvælin óbreytt.”

Þegar setja á heilsuvöru á markað þarf að huga að mörgu t.d. reglugerðir og heilsu-fullyrðingar. Á meðal þess sem þarf að skoða eru spurningarnar: Hvenær er matvæli orðin að lyfi? Hvernig getur neytandinn verið viss um virkni og ágæti vöru? Rekja má tilurð samantektarinnar til þessara og fleiri spurninga sem gagnlegt er að fá svör við.

Sigrún, í félagi við tvo viðskiptafræðinema, tók þátt í frumkvöðlakeppni Innovit fyrr á þessu ári og komust þau í átta liða úrslit með viðskiptaáætlun fyrir vörulínu sem inniheldur lífvirk peptíð (upprunin úr fiskvöðvapróteinum framleiddum í Iceprotein). Þau nefndu “fyrirtækið” Heilsufæði ehf. og fyrstu framleiðluvöruna Græðir sem er heilsudrykkur með blóðþrýstingslækkandi áhrif. 

Sigrún Mjöll Halldórsdóttir

Að sögn Sigrúnar er mikill áhugi á ”lífvirkum peptíðum” á heilsuvörumarkaði í heiminum í dag og rannsóknir hafa sýnt að þau hafa mjög víðtæk heilsufarsleg áhrif s.s. blóðþrýstings- og kólesteróllækkandi áhrif, þau eru ónæmisstillandi og vinna gegn of hárri líkamsþyngd og sykursýki. Rannsóknir hafa líka sýnt að lífvirk peptíð upprunin úr fiski eru sterkari og virkari en úr öðrum uppruna s.s. mjólk og soja.

Matís á og rekur próteinvinnslufyrirtækið Iceprótein ehf á Sauðárkróki, en það þróar, framleiðir og mun selja blautprótein fyrir fiskiðnað á Íslandi og þurrkuð prótein fyrir heilsu- og fæðubótarmarkaðinn.  Sigrún segir að meistaraverkefni hennar snúist að stórum hluta um að finna nýjar leiðir til að nýta það fiskprótein sem Iceprótein vinnur úr, í sem mest verðmæti.
Meðal annars sé stefnt að því að framleiða lífvirk peptíð með ensímtækni úr efniviði sem fæst úr Iceprótein á þann hátt að þau séu heppileg sem íblöndunarefni í heilsufæði. Að sögn Sigrúnar er svo framtíðardraumurinn að vinna grunn í t.d. heilsudrykk, blanda þessum lífvirku peptíðum í og setja á markað. Einnig að búa til alls kyns annars konar heilsufæði sem inniheldur þessi peptíð – eins konar vörulína.

Lesa skýrsluna

IS