Í Viðskiptablaðinu í dag er sagt frá aðferð sem Matís, í samvinnu við Brim hf., hefur þróað til að safna fiskholdi sem kemur frá vinnslulínum í bolfiski. Aðferðin er afrakstur þriggja ára verkefnis á Matís sem nefnist “Fiskprótein í frárennsli.”
Eitt af meginmarkmiðum í verkefninu var að vinna að aukinni nýtingu og auknu verðmæti afla sem unninn er í landvinnslu með því að finna leiðir til einangrunar fiskvöðva úr vatni sem kemur frá vinnslulínum og leggja mat á notkunarmöguleika þeirra til manneldis. Afskurður, hryggir og hausar eru aukahráefni sem fellur til við fiskvinnslu. Þessu var áður fyrr hent en á seinni árum er farið að reyna að nýta þetta til manneldis, t.d. eru hausar og hryggir þurrkaðir og fluttir út.
Má í þessu sambandi geta þess að samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar hirtu sjómenn og fiskverkendur árið 2006 aukaafurðir sem námu 27.800 tonnum. Hafa ber í huga að hér er átt við þyngd afurðanna sjálfra en ekki kíló af fiski upp úr sjó. Mest féll til af afskurði eða 17.800 tonn, 2.700 tonn af hausum voru hirt og 2.300 tonn af hrognum. Meðal fleiri aukafurða má nefna að hirt voru 1.800 tonn af lifur og unnin 2.400 tonn af mjöli á sjó. Stærsti hluti þessara afurða fellur til vegna bræðslu eða tæp 17.800 tonn, aðallega afskurður, 14.800 tonn. Einnig bárust tæp 6.500 tonn af aukaafurðum á land af frystiskipum þetta ár, aðallega fiskhausar, 2700 tonn og afskurður, 2.900 tonn.
Hins vegar hefur sá hluti próteina sem tapast í frárennslisvatni frá vinnsluvélum, þ.e. flökunar- og roðflettivélum varla verið nýttur hingað til sem nokkru nemur. Ef magn bolfiskafurða allra vinnslustöðva er um 60 þús. tonn á ári, má gróflega áætla að um 1.200 tonn af þurrefni tapist árlega með frárennsli.
Afrakstur verkefnisins“Fiskprótein í frárennsli” fólst í frumgerð að feril til söfnunar á massanum úr frárennslisvatni við fiskvinnslu og mati á eiginleikum og magni hans. Með einfaldari stærðarflokkun (síun) má skilja að grófari fiskhluta sem nýst geta t.a.m.í unnar afurðir eins og marning. Fínni massa er hægt að nýta beint sem tæknileg íblöndunarefni, beint úr einangrunarferlinu eða eftir frekari vinnslu sem getur tryggt frekar heilnæmi þeirra og/eða bætt tæknilega eiginleika, t.d. til að auka nýtingu í fiskflökum með innsprautun eða annari íblöndun í fiskafurðir.
Með því ferli sem þróað var í verkefninu tókst að ná um 25% af öllu þurrefni úr frárennsli frá flökunarvél. Með notkun á hristisigtum við síun tókst að ná fínum hvítum massa úr frárennslinu með kornastærð 250-710 µm, sem hentar vel í framleiðslu hágæðapróteina. Massi sem hafði kornastærð stærri en 850 µm, var mjög grófur og blóðlitaður og hentar því frekar í marning ef hægt er að draga úr neikvæðum áhrifum blóðmengunar. Við söfnun á massa undir 250 µm þarf annan búnað, svo sem himnusíun, þar sem þurrefnin fara í gegnum 250 µm sigti.
Annar afrakstur verkefnisins er umhverfisvænni framleiðsluhættir þar sem minna af lífrænu efni er skilað út í umhverfið sem er í samræmi við auknar kröfur um hreinni framleiðslutækni. Prótein úr frárennslisvatni er hægt að nýta á öruggan hátt til manneldis með litlum tilkostnaði sem mun skapa aukin virðisauka við fiskvinnslu, ásamt því að hreinsa frárennslisvatn í leiðinni sem hægt er að endurnýta í vinnsluferlinu.
Þátttakendur í verkefninu voru Brim hf., FISK Seafood á Sauðárkróki og Matís ohf. ásamt Iceprotein ehf.
Það voru Tækniþróunarsjóður Rannís og AVS sem styrktu verkefnið.
Frétt Viðskiptablaðsins