Fréttir

Fljótlegar gæðamælingar við matvælavinnslu

Á Vinnslu- og vöruþróunarsviði Matís er unnið að verkefni sem hefur það að markmiði að bæta ferlastýringu í matvælum. Því verður náð með því að rannsaka nýjar fljótlegar mæliaðferðir á gæðavísum matvæla og hanna matvinnsluferla sem notfæra sér þessar aðferðir.

Í verkefninu, sem Tækniþróunarsjóður Rannís styrkir, verða möguleikar nærinnrauðra mæliaðferða (Near Infra Red, NIR), kjarnarófsmælinga (Nuclear Magnetic Resonance, NMR) og röntgengegnumlýsingatækni metnir til að mæla efnainnihald matvæla (NIR), vatnseiginleika (NMR) og staðsetningu beina og annarra aðskotahluta (röntgen).

Hefðbundnar mælingar til að meta þessa gæðaþætti eru yfirleitt tímafrekar og krefjast notkunar lífrænna eða hættulegra leysa, en engin slík efni koma við sögu við mælingar með þessum fljótlegu aðferðum sem verkefnið byggir á. Aðferðirnar hafa það einnig allar sameiginlegt að þær valda engum breytingum á gæðum matvæla við mælingar, sem gerir mögulegt að þær séu notaðar á rauntíma í vinnslulínum matvæla.

Með þessum fljótlegu aðferðum má því stjórna framleiðslunni betur og tryggja að hver hluti hráefnisins nýtist sem best og að aðskotahlutir finnist og verði fjarlægðir á fljótlegan og öruggan máta. Þannig má bæta stýringu vinnsluferlanna og í kjölfarið bæta gæði, öryggi, nýtingu og verðmæti matvæla. Í verkefninu felst einnig hönnun vinnslulínu sem nýtir sér þessar mæliaðferðir á markvissan hátt.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Marel, sem skipar mikilvægan þátt í hönnun vinnslulínunnar, auk samstarfs við Vísi hf, Reykjagarð hf. og Síld og fisk. Mæliaðferðirnar verða notaðar til rannsókna á vinnsluferlum fersk fisks, kjöts og kjúklings.

Nærinnfrarautt (NIR) mælitæki (t.v) og lágsviðs kjarnaspunatæki (Low field NMR) (t.h)

Verkefnið er liður í doktorsnámi Maríu Guðjónsdóttur, efnaverkfræðings og verkefnastjóra á Vinnslu- og vöruþróunarsviði Matís.

IS