Matís (Matvælarannsóknir Íslands) vinnur að verkefni sem munu nýtast íslenskum útflytjendum við að koma til móts við kröfur Tesco um koldíoxíðmerkingar matvæla.
Tesco, sem er ein stærsta verslanakeðja Bretlands, hyggst koldíoxíðmerkja allar vörur sem seldar eru í verslunum keðjunnar í þeim tilgangi að gera neytendum kleift að afla sér upplýsinga um hversu mikil koldíoxíðlosun hafi fylgt framleiðslu vörunnar, flutningi hennar í verslunina og sölu. Um er að ræða áætlun Tesco er miðar að því að bregðast við loftslagsbreytingum.
Sveinn Margeirsson, deildarstjóri hjá Matís, segir umræðu um koldíoxíðmerkingu matvæla vera hluta af umræðu um sjálfbæra þróun. ,,Matís stýrir vestnorrænu verkefni sem nefnist “Sustainable Food Information” sem hefur það að markmiði að auðvelda fyrirtækjum í matvælaiðnaði, svo sem sjávarútvegsfyrirtækjum, að sýna fram á sjálfbærni í veiðum, vinnslu og sölu. Þátttakendur í verkefninu munu funda hér á landi þann 14. júní næstkomandi með íslenskum og færeyskum sjávarútvegsfyrirtækjum, þar sem umfjöllunarefnið eru þau sóknarfæri sem felast í sjálfbærri þróun fyrir íslenskan sjávarútveg.”
Sjálfbær þróun mikilvæg fyrir íslenskan matvælaiðnað
“Seljendur og neytendur gera kröfu um að hægt sé að sýna fram á að framleiðsla sjávarafurða sé með þeim hætti að ekki sé gengið á fiskistofna eða að mikil losun koldíoxíðs (CO2) fylgi framleiðslunni. Áætlun Tesco er einfaldlega eitt dæmi af mörgum sem sýnir hver þróunin er í þessum málum. Það er mín skoðun að sjálfbær þróun verði eitt af lykilmálunum fyrir íslenskan matvælaiðnað í framtíðinni, enda eru fleiri verkefni á þessu sviði í burðarliðnum hjá okkur.”
Sveinn segir að í þessu sambandi skipti miklu máli að geta sýnt fram á hvernig varan hefur farið í gegnum virðiskeðjuna því annars sé ekki hægt að segja til um hversu mikið “lífsferill” vörunnar hafi aukið magn koldíoxíðs í andrúmslofti.
“Það er ekki nóg að einblína á einn hlekk í virðiskeðjunni. Í Bretlandi er í dag talsverð umræða um losun koldíoxíðs vegna flutnings lífrænt ræktaðra ávaxta frá fjarlægum heimshornum. Eru umhverfisleg áhrif slíkra matvæla jákvæð eða neikvæð? Ein leiðin til að bera saman matvæli hvað þetta varðar er svokölluð vistferilgreining (LCA). Til þess að geta beitt henni er nauðsynlegt að geta rakið leið vörunnar í gegnum virðiskeðjuna, en þar standa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki vel að vígi. Einn af hagnýtingarmöguleikum þessarar sterku stöðu er að geta sýnt fram á hver losun koldíoxíðs er í tengslum við framleiðslu afurðanna.”