Föstudaginn 9.júní 2006 varði Hildigunnur Rut Jónsdóttir rannsóknarverkefni sitt til meistaraprófs í fiskeldisfræðum frá auðlindadeild Háskólans á Akureyri. Verkefni Rutar bar heitið “Notkun bætibaktería til stýringar örveruflóru fyrir og eftir klak lúðulirfa”
Verkefnið var unnið í samstarfi Fiskey ehf., Rf og Háskólans á Akureyri og rannsakaði Rut möguleika á notkun bætibaktería til notkunar á fyrstu stigum lúðueldis. Framleiðsla á lúðuseiðum er viðkvæmt ferli og verða jafnan mikil afföll á fyrstu stigum eldisins. Oft á tíðum gerist þetta án augljósra skýringa en rannsóknir benda til að samsetning bakteríuflóru geti haft afgerandi áhrif á afkomu lúðulirfa í startfóðrun.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að afkoma hrogna og lirfa sé betri þegar fjölbreytni bakteríuflóru er meiri. Niðurstöður benda einnig til að sú blanda bætibaktería sem notuð var, hafi jákvæð áhrif á hlutfall svokallaðra gapara en það er vansköpun sem kemur fram á kviðpokastigi lirfa. Meðhöndlun fóðurdýra lúðulirfa (artemíu) með bætibakteríum virtist hafa jákvæð áhrif á gæði fóðurdýra með því að auka fjölbreytni í tegundasamsetningu bakteríuflóru. Niðurstöður tilrauna með mismunandi styrk sótthreinsiefna við meðhöndlun lúðulirfa gáfu vísbendingar um að minni styrkur sótthreinsiefnis gæfi jafnvel betri árangur með tilliti til afkomu lirfa.
Leiðbeinandi Rutar var Rannveig Björnsdóttir, deildarstjóri fiskeldisdeildar Rf og lektor við Háskólann á Akureyri.
Andmælandi var Dr. Gunnsteinn Haraldsson kennslustjóri rannsóknatengds náms við Læknadeild Háskóla Íslands.