Hjá Matís hafa verið unnin fjölmörg verkefni sem miða að því að efla þekkingu á grænmeti til hagsbóta fyrir almenning, matvælaiðnað og aðra hagsmunaaðila. Viðfangsefni Matís ná yfir stóran hluta af virðiskeðju grænmetis, allt frá uppskeru og alla leið á borð neytenda. Innlend grænmetisframleiðsla leggur aðeins til ríflega 40% af öllu því grænmeti sem neytt er á Íslandi. Því mætti auka fæðuöryggi landsins með aukinni grænmetisframleiðslu.
Það eru fleiri ástæður til að beina athyglinni að grænmeti. Grænmeti hefur mikið hollustugildi og er þetta staðfest í nýjum norrænum næringarráðleggingum sem sjá má hér og hér. Aukin neysla grænmetis getur dregið úr líkum á krabbameinum í maga og lungum og einnig hjarta- og æðasjúkdómum. Mælt er með neyslu á 500-800 grömmum af grænmeti, ávöxtum og berjum daglega. Þetta er mun meira en flestir Íslendingar neyta nú samkvæmt Landskönnun á mataræði. Best er að neyta fjölbreytts úrvals af þessum fæðutegundum og takmarka neyslu á unnum matvælum með viðbættum sykri. Grænmeti, ávextir og ber eru mikilvæg uppspretta næringarefna eins og trefjaefna og C-, E- og K-vítamína ásamt fólati.
Þess má geta að nú vinna starfsmenn Matís að nýrri grænmetisvefbók með stuðningi frá Þróunarsjóði garðyrkju. Vefbókin verður aðgengileg á vefsíðu Matís og fjallar sérstaklega um niðurstöður úr verkefnum Matís. Nefna má aðferðir til að hámarka gæði og geymsluþol grænmetis, aðgerðir til að draga úr sóun þess, pökkunarleiðbeiningar, næringargildi og vinnslu verðmætra efna úr hliðarafurðum grænmetisframleiðslunnar. Þessi atriði verða skýrð á aðgengilegan hátt og hlekkir verða á ítarlegri umfjöllun og skýrslurnar sjálfar. Vonast er til þess að þetta framtak auki áhuga á grænmeti og stuðli að aukinni neyslu þess. Dæmi um verkefni Matís um grænmeti má sjá hér.