Fréttir

Verkefnið BioProtect vekur athygli á fundi Matís með sendiherra ESB

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís fékk á dögunum boð um að heimsækja húsakynni sendinefndar Evrópusambandsins og kynna verkefni Matís sem hlotið hafa styrk frá ESB, með sérstakri áherslu á verkefnið BioProtect sem nýlega hlaut styrk úr Horizon Europe áætluninni.

Sendiherra ESB, Lucie Samcová-Hall Allen, og starfsfólk sendinefndarinnar tók á móti hópnum sem skipaður var verkefnastjórum og sviðsstjóra Matís ásamt Julian Burgos, sjávarvistfræðingi hjá Hafrannsóknastofnun en hann er vísindalegur leiðtogi BioProtect verkefnisins.

Í heimsókninni gafst kostur á að ræða þau fjölbreyttu rannsóknar- og nýsköpuarverkefni sem styrkt hafa verið af Evrópusambandinu og Matís hefur unnið að í gegnum árin. Einnig sagði Lucie frá helstu verkefum sendinefndarinnar og þróun þeirra starfa hér á landi undanfarin ár.

Megin áhersla heimsóknarinnar var þó kynning á rannsóknarverkefninu BioProtect sem hófst formlega í gær, þann 1. maí 2024. Sophie Jensen, verkefnastjóri hjá Matís leiðir verkefnið og Julian Burgos er vísindalegur leiðtogi þess og kynntu þau áætlanir sínar um vinnu næstu fjögurra ára.

Verkefnið snýst um að þróa aðferðafræði og tæknilegar lausnir til að auðvelda ákvarðanatöku um auðlindanýtingu eða verndun hafsvæða. Áhersla er lögð á gott samstarf við hagaðila en þeir eru til dæmis útgerðaraðilar og sjávarútvegssamtök, sveitarfélög og þá sérstaklega sjávarbyggðir, innlend og alþjóðleg stjórnvöld, náttúruverndarsamtök, rannsóknaraðilar, stefnumótandi aðilar og sérfræðingar.

Líffræðilegur fjölbreytileiki sjávar verður vaktaður svo hægt verði að gera grein fyrir stöðu hans og spá fyrir um mögulegar breytingar. Einnig verður farið í víðtæka kortlagningu á nýtingu og áhrifum manna á einstök hafsvæði og tegundir í hafinu. Þá verður gerð aðgerðaáætlun fyrir forgangsröðun verndunar- og endurheimtunaraðgerða, sem og mat á vistfræðilegum, félagslegum og hagfræðilegum áhrifum þessara verndaraðgerða á fimm hafsvæðum þ.e. við Ísland, Noreg, Írland, Portúgal og Azor eyjar.

Ísey Dísa Hávarsdóttir, sérfræðingur í miðlun hjá Matís, Lucie Samcová-Hall Allen, sendiherra ESB á Íslandi, Sophie Jensen, verkefnastjóri BioProtect, Jónas R. Viðarsson, fagsviðsstjóri hjá Matís, Julian Burgos, vísindalegur leiðtogi BioProtect og Samuel Ulfgard, varasendiherra ESB á Íslandi.

Við þökkum kærlega fyrir frábærar móttökur og vonumst eftir áframhaldandi góðum tengslum við sendinefnd ESB á Íslandi.

IS