Fréttir

Framtíðin skiptir máli – lokaráðstefna NordBio

NordBio, verkefnaþætti formennskuárs Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni, fer nú um það bil að ljúka. Af því tilefni var blásið til ráðstefnu í Hörpu í síðustu viku undir heitinu “Minding the future”, sem hægt er útleggja á íslensku sem “Framtíðin skiptir máli”.

Mjög spennandi fyrirlestrar voru í boði á ráðstefnunni en nálgast má þá alla á Youtube. Einnig var í boði að skoða afrakstur verkefnahluta áætlunarinnar en þar voru kynnt verkefni á borð við BiophiliaErmondInnovation in the Nordic BioeconomyMarina og Woodbio. Einnig var í boði að skoða og smakka matvæli sem unnin voru í verkefninu en grænlenskir, færeyskir og íslenskir smáframleiðendur matvæla leyfðu gestum og gangandi að smakka sínar vörur.

Á formennskuári Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014 var stefnt að því að nýta þá gríðarlegu möguleika sem felast í uppbyggingu lífhagkerfis á Norðurlöndum. NordBio

áætlun var til þriggja ára og var hleypt af stokkunum sem hluti af formennskuáætlunar Íslendinga. Í NordBio sameinast fjöldi ólíkra verkefna og sviða, með bætta nýtingu auðlinda og lágmörkun úrgangs að markmiði.

Markmið NordBio

  • Að þróa og bæta aðferðir í sjálfbærri framleiðslu og vörunýtingu með það fyrir augum að örva nýsköpun og efnahagslíf, og draga úr umhverfisálagi á Norðurlöndum.
  • Að efla þekkingu sem gagnast við stefnumótun í efnahags- og umhverfismálum með því að auka samstarf á sviðum rannsókna, þróunar og nýsköpunar.
  • ·Að efla nýsköpun í orkunýtni, matvælaöryggi og lýðheilsu, og greiða fyrir norrænni framleiðslu á mörkuðum til að mæta þeirri vaxandi matarþörf sem fylgir fólksfjölgun í heiminum.
  • Að kynna árangur verkefna á sviði fræðslu um sjálfbæra þróun.
  • Að gera rannsóknir og háskólastörf á sviðum sjálfbærrar framleiðslu og nýtingar meira aðlaðandi í augum komandi kynslóða.
  • Að leiða saman ástundun vísinda-, tækni- og menningargreina á hinum ýmsu skólastigum, innan vébanda stofnana sem og atvinnulífsins.
  • Að bjóða sameiginlegan norrænan vettvang til samvinnu og skoðanaskipta fyrir ólíka aldurshópa og sérfræðinga úr ýmsum áttum.

Óhætt er að segja að vel hafi tekist til og fjöldi fólks lagði leið sína í Hörpu til að hlýða á alla fyrirlestrana og ekki síður til þess að smakka það góðgæti sem borið var fram af Norrænum smáframleiðendum.

Nánari upplýsingar má finna á www.nordbio.org.

Fréttir

Matvælarannsóknir í breyttum heimi

Þann 20. október verður haldin ráðstefna undir yfirskriftinni Matvælarannsóknir í breyttum heimi, þar sem kynntar verða innlendar rannsóknir og nýir straumar í matvælafræði.

Matvæladagurinn 2016 haldinn á Hótel Natura 20. október kl 12-17.

Aðalfyrirlesari verður Bryndís Skúladóttir frá Samtökum iðnaðarins, sem fjallar um matvælaframleiðslu og umhverfismál og Hörður Kristinsson, rannsókna- og nýsköpunarstjóri hjá Matís, fjallar um nýja og byltingarkennda tækni í matvælaframleiðslu. Fjöldi annarra áhugaverðra fyrirlestra verða á ráðstefnunni, en dagskrána í heild má sjá hér.

Matvælafræðin og matvælaframleiðsla standa frammi fyrir nýjum og krefjandi áskorunum sem tengjast m.a. takmörkuðum auðlindum og fjölgun jarðarbúa sem gera auknar kröfur um gæði og hollustu matvæla. Hvernig verða matvælin okkar í framtíðinni og með hvaða ráðum getum við brauðfætt heiminn næstu áratugina? Svo mikið er víst að rannsóknir gegna lykilhlutverki við að finna svörin við þessum spurningum. Hugvitsamleg nýting auðlinda, hollusta og umhverfismál verða áhersluatriði við þróun matvæla á næstu áratugum, og um það verður fjallað á ráðstefnunni sem er haldin á vegum Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands, MNI.

Fjöregg Samtaka iðnaðarins, sem veitt er fyrir lofsvert framtak á sviði matvæla, verður afhent á ráðstefnunni.

Rástefnan er öllum opin og er skráning á vef MNÍ.

Nánari upplýsingar veita:

Guðjón Þorkelsson, prófessor Matvæla- og næringarfræðideild, sími 858 5044 gudjont@matis.is

María Guðjónsdóttir, dósent Matvæla- og næringarfræðideild, mariagu@hi.is

Laufey Steingrímsdóttir, formaður MNI, sími 6963564 laufey@hi.is

Fréttir

Í sýndarveruleika verða vísindin enn skemmtilegri

Matís hefur undanfarnar vikur unnið með Skotta Film að framleiðslu sýndarveruleikamyndbands um lífhagkerfið. Lífhagkerfið er hugtak sem fæstir þekkja og því var upplagt að útskýra hugtakið með nýjum og áhugaverðum hætti sem hrifið gæti sem flesta, þá sérstaklega yngri kynslóðina. Við erum afskaplega stolt af þessu myndbandi og stefnum að framleiðslu fleiri slíkra myndbanda á næstu vikum og mánuðum. Myndböndin má finna á Youtube rás Matís og hægt er að draga myndbandið til ef sýndarveruleikagleraugu eru ekki til staðar.

Af hverju lífhagkerfi? Hvað er lífhagkerfi?

Fæstir vita hvað er átt við með orðinu lífhagkerfi og margir sýna því málefninu takmarkaðann áhuga. Hér er hugtak sem ætti að skipta alla Íslendinga máli vegna þess að þjóðin, eins og aðrar vestrænar þjóðir, gengur á óendurvinnanlegar auðlindir, ekki hvað síst í matvælaframleiðslu. Mikilvægt er að líta með öðrum augum á þessa hluti og reyna eftir fremsta megni að innleiða hugsunarhátt sem stuðlar að nýtungu auðlinda sem hægt er að endurnýta. Lífhagkerfið er í raun hugtak sem nær yfir allt sem náttúran býður upp á; allt frá því sem manneskjan getur gert og er fær um að gera og yfir í það að örverur verða grunnurinn að allri plastframleiðslu framtíðarinnar!

Drekkum við vatn í framtíðinni úr plastflöskum sem bakteríur hafa framleitt……… 🙂

Skýrt og skorinort: lífhagkerfi er hagkerfi sem byggir á nýtingu lifandi auðlinda á landi og í sjó þar sem leitast er við að hámarka ávinning án þess að ganga á auðlindirnar.
 
Á þessu ári lýkur þriggja ára formennskuáætlun Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni en hún hófst árið 2014 þegar Ísland gegndi formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Af því tilefni er boðað til ráðstefnu í Hörpu, þar sem einstakt tækifæri gefst til að fræðast um lífhagkerfið og NordBio verkefnin, heyra um alþjóðlega strauma og stefnur á þessu sviði og leggja á ráðin um það hvernig framtíðin eigi að líta út.

Ráðstefnan fer fram í Hörpu og fyrir utan fyrirlestra, veggspjaldasýningar, sýningar á sýndarveruleikamyndbandi þá gefst gestum tækifæri til að smakka vörur sem framleiddar hafa verið úr lífhagkerfi norræna svæða; Grænlands, Færeyja og Íslands svo dæmi séu tekin.

Sjá nánar um ráðstefnuna.

Sýndarveruleikamyndbönd Matís

Fréttir

Rannsaka íslenska njólann

Í dag, föstudaginn 7. október, heldur Árný Ingveldur Brynjarsdóttir meistaravörn sína í auðlindafræðum. Vörnin hefst kl. 11:00 og verður í stofu M-201 á Sólborg en markmið verkefnisins var m.a. að ákvarða útdráttaraðferð og mæla lífvirkni í íslenska njólanum.

Meistaravörn í auðlindadeild

Verkefni Árnýjar ber heitið „Seasonal and In-Plant Variation in Composition and Bioactivity of Northern Dock (Rumex longifolius DC.) Extracts“. Markmið verkefnisins var að ákvarða útdráttaraðferð og mæla lífvirkni í íslenska njólanum og kanna hvort fótur væri fyrir fyrir þeim eiginleikum sem hefðbundar

íslenskar náttúrlækningar segja til um. Skoðaðar voru tvær mismunandi útdráttaraðferðir, þrír útdráttarvökvar (metanól, etanól og vatn), mismunandi plöntuhlutar (rætur, laufblöð og fræ), mismunandi vinnsluaðferðir (ferskt, frostþurrkað og loftþurrkað) og þrír mismunandi uppskerutímar (júní, júlí og ágúst) og mældir andoxandi og bólguhamlandi eiginleikar sýna.

Rumex Longifolius Njóli | Rumex Longifolius.

Meginhluti vinnunnar fór fram við Háskólann á Akureyri en mælingar voru að hluta til framkvæmdar í samstarfi við sérfræðinga Matís.  Árny lauk bakkalár (B.Sc) prófi í líftækni frá auðlindadeild Háskólans á Akureyri vorið 2013.

Leiðbeinendur verkefnisins voru Eva Kuttner verkefnastjóri hjá Matís og Rannveig Björnsdóttir dósent við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri.

Andmælandi er Sesselja Ómarsdóttir, forstöðumaður gæðarannsókna hjá Alvotech og prófessor við lyfjafræðideild Háskóla Íslands.

Fréttir

NordBio ráðstefnan hefst á morgun – kynning á vörum smáframleiðenda frá Grænlandi, Færeyjum og Íslandi

NordBio ráðstefnan hefst á morgun en ráðstefnan er loka punkturinn í þriggja ára formennskuáætlun Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni. Samhliða ráðstefnunni verða sýningar / kynningar á vörum sem smáframleiðendur unnu að innan áætlunarinnar, veggspjaldakynningar og kynningar á sýndarveruleikaefni um lífhagkerfið. Ókeypis aðgangur er á þessar sýningar / kynningar.

Sýningarnar / kynningarnar verða á Eyrinni, sem er 300 fermetra rými, sem staðsett er á annarri hæð Hörpu.

VR_taekni_birt_af_vef_www.ruv.isSýndarveruleikatæknin nýtt til kennslu í Árskóla á Sauðárkróki (mynd af vef RÚV, www.ruv.is, nánar: http://ruv.is/frett/360-gradu-syndarveruleiki-a-saudarkroki).

Fréttir

“Bestun sjóflutninga á ferskum fiskflökum og -bitum” og “Einangrun, vatnsrof og lífvirkni kollagens úr þorskroði”

Hvað eiga titlarnir hér að ofan sameiginlegt? Jú þetta eru efnistök tveggja fyrirlestra sem fram fara í dag og tengjast báðir Matís. Fyrirlestrarnir eru hluti af meistargráðu tveggja nemenda í matvælafræði við Háskóla Íslands.

MS fyrirlestur í matvælafræði
Dagný Björk Aðalsteinsdóttir

Matís, Stofa 312. Vínlandsleið 14 Reykjavík
3. október 2016 kl. 14:00-15:00

Einangrun, vatnsrof og lífvirkni kollagens úr þorskroði
“Isolation, hydrolysation and bioactive properties of collagen from cod skin”.


Markmið þessa verkefnisins má skipta upp í þrjú skref. Fyrsta skrefið var að finna aðferð til þess að einangra kollagen úr þorskroði með góðum heimtum, annað skrefið var að vatnsrjúfa kollagen með mismunandi ensímum til þess að fá sem hæst DH gildi og þriðja skrefið var að mæla lífvirkni kollagen peptíða. Markmiðið var að athuga hvaða áhrif mismunandi DH gildi höfðu á lífvirknina. Ensímin sem voru valin í vatnsrofið voru: Alcalase, Flavourzyme, Neutrase, Protamex, Tail-37 and TZ-02-L og lífvirknimælingarnar sem voru gerðar: ACE-inhibiting, elastase-inhibiting, Metal Chelating, ORAC and Reducing power.

Einangrunarskrefið var árangursríkt og kollagen var einangrað úr þorskroðinu með góðum heimtum. Kollagenið var vatnsrofið með mismunandi ensímum og tegund og hlutfall ensíma hafði áhrif á stig vatnsrofs og lífvirkni. Niðurstöðurnar sýndu fram á lág gildi í andoxunarmælingum en niðurstöðurnar sýndu einnig fram á að kollagen úr þorskroði geti haft hamlandi áhrif á elastase og haft góð áhrif á húðina.

Verkefni til meistaragráðu í matvælafræði unnið á Matís í samstarfi við Codland með stuðningi frá Nordic Innovation.

Leiðbeinendur: Margrét Geirsdóttir MSc Matís og Sigurjón Arason prófessor við matvæla- og næringarfræðideild og yfirverkfræðingur við Matís.

Prófdómari: Þórhallur Ingi Halldórsson prófessor við matvæla- og næringarfræðideild

MS fyrirlestur í matvælafræði
Ásgeir Jónsson

Matís, Stofa 312. Vínlandsleið 14 Reykjavík
3. október 2016 kl. 15:00-16:00

Bestun sjóflutninga á ferskum fiskflökum og -bitum. Gæði og kostnaður
“Optimized Sea Transport of Fresh Fillets and Loins. Quality and Cost”.

Markmið þessa verkefnis er að greina þróun flutninga á ferskum flökum og bitum frá Íslandi undanfarin ár. Einnig að meta áhrif þess á gæði og geymsluþol þegar ferskri afurð er pakkað á hefðbundinn hátt í frauðkassa samanborið við að pakka henni í ískrapa í ker. Í síðasta lagi að bera saman umbúða- og flutningskostnað þessara tveggja pökkunaraðferða.

Niðurstöðurnar sýna að magn ferskra flaka og bita sem flutt er með skipum frá Íslandi tæplega sexfaldaðist frá 2004 til 2014. Árin 2013 og 2014 fór um 90% af þeim fersku flökum og bitum sem fluttir voru með skipum á tvo markaði; Bretland og Frakkland. Niðurstöður rannsókna sýna að sterk jákvæð tengsl eru milli lengra geymsluþols og þess að pakka afurð í ískrapa í ker samanborið við frauðkassa. Ískrapinn bætti einnig upp fyrir skort á forkælingu fyrir pökkun. Niðurstöður kostnaðargreiningar sýna að umtalsvert ódýrara er að pakka vöru í ker en frauðkassa. Þá er flutningskostnaðar einnig lægri í flestum tilvikum þegar ker eru borin saman við frauðkassa. Meira en helmingi lægri ef borinn er saman kostnaður við að flytja fullan gám af kerum annars vegar og 3 kg frauðkössum hins vegar. Sveigjanleikinn við notkun kera er þó mun minni og dregur það úr notkunarmöguleikum

Verkefni til meistaragráðu í matvælafræði unnið á Matís í samstarfi við Sæplast, ThorIce,  Eimskip, Samskip og Sjávarútvegsklasa Vestfjarða með stuðningi AVS Rannsóknasjóðs í sjávarútvegi.

Leiðbeinendur: Dr. Björn Margeirsson ráðgjafi Matís, Sigurjón Arason prófessor við matvæla- og næringarfræðideild og yfirverkfræðingur við Matís og Ögmundur Knútsson forseti viðskipta- og raunvísindasviðs Háskólans á Akureyri.

Prófdómari: Daði Már Kristófersson prófessor og Forseti Félagsvísindasviðs HÍ.

Skýrslur

Áhrif dauðastirðnunar á gæði fiskflaka / The effect of rigor mortis on fillet quality

Útgefið:

01/10/2016

Höfundar:

Gunnar Þórðarson, Albert Högnason, Anton Helgi Guðjónsson

Styrkt af:

AVS Rannsóknasjóður í sjávarútvegi (R 16 014-16)

Tengiliður

Gunnar Þórðarson

Svæðisstjóri

gunnar.thordarson@matis.is

Áhrif dauðastirðnunar á gæði fiskflaka / The effect of rigor mortis on fillet quality

Tilgangur rannsóknarinnar var annars vegar að rannsaka áhrif ofurkælingar á dauðstirðnun og bera saman við hefðbundna kælingu og hins vegar að útbúa kynningarefni sem hægt væri að nota til að kynna hagsmunaaðilum í sjávarútvegi mikilvægi þess að stýra dauðastirðnunarferlinu. Rannsókn var gerð á þorski og laxi og hún framkvæmd á tveimur mismunandi árstímum fyrir þorsk, en mikill munur getur verið á ástandi hráefnis eftir því hvenær og hvar fiskur er veiddur. Rannsóknin var tvíþætt þar sem annars vegar var aflað gagna um áhrif kælingar á dauðastirðnunarferlið þar sem hóparnir voru bornir saman; ofurkældur og hefðbundinn, og hins vegar að túlka niðurstöður fyrir kynningarefni. Ofurkæling í þorski er miðuð við kælingu niður í -0,8 °C og laxi í -1,5 °C en hefðbundin kæling er miðuð við 0 °C fyrir báðar tegundir. Bæði var skoðaður mismunur milli hópa ásamt því að bera saman mismun innan hópa. Lítill munur innan hópa bendir til nákvæmari og trúverðugri niðurstöðu. Niðurstöður sýna að mikill munur er á samdrætti fiskvöðva við að fara í gegnum dauðstirðnunarferlið eftir því hvort hann er ofurkældur eða notast er við hefðbundna kælingu. Draga má þá ályktun að mikill gæðaávinningur sé í notkun ofurkælingar fyrir dauðastirðnun, sem dregur úr samdrætti og þar af leiðandi úr spennu milli vöðva og hryggs. Við of hraðan og mikinn samdrátt við dauðastirðnun getur vöðvi auðveldlega orðið fyrir skemmdum eins og losi, stinnleiki flaka minnkar o.fl.

The purpose of this project was to study the effect of superchilling on rigor mortis process and compare it to traditional chilling with ice. Also to prepare promotional material to enlighten the fishery industry on the importance of managing the process of rigor mortis for product quality. A study was conducted on cod and salmon, including seasonality effect on rigor mortis for cod. The definition on sub chilling in this study is; for cod it is based on cooling to -0.7 °C and for salmon down to -1.5 °C and for traditional chilling by ice is targeted at 0 °C for both species. The rigor process was studied between groups, sub-chilled and traditional, and within groups to investigate standard deviation between samples to sample credibility of outcome. The results indicate a large difference in the contraction process on whether the fish is super chilled or traditional cooling used. The conclusion of the study indicates that sub chilling, which reduces the contraction and consequently the tension between muscle and backbone in the process, can have a large effect on fillet quality, less gaping and a firmer product.

Skoða skýrslu

Fréttir

Matvælarannsóknir í breyttum heimi

Matvæladagur MNÍ 2016 verður haldinn föstudaginn 20 . október. Titill ráðstefnunnar í ár: Matvælarannsóknir í breyttum heimi. Fjölgun íbúa jarðar, skuldbindingar loftslagsmálum, takmarkaðar náttúruauðlindir og auknar kröfur um öryggi matvæla mun hafa áhrif á framleiðslu, vinnslu, dreifingu, sölu og neyslu matvæla.

Matvæladagurinn fjallar um vandamál, áskoranir, lausnir og tækifæri sem þessu fylgir á heimsvísu og á Íslandi. Vandamál og tækifæri á heimsvísu og íslenskur veruleiki fara oft saman. Sjálfbær nýting auðlinda kallar á átak í umhverfismálum og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Lausnirnar geta verið að minnka sóun og úrgang með því að þróa dreifileiðir og kælikerfi eða verðmætar afurðir úr því sem áður var hent. Það kallast á við efnahagslega og samfélagslega sjálfbærni.

Tölvu-, upplýsinga-, líf- og erfðatækni munu hafa enn meiri áhrif á alla virðiskeðju matvæla, rannsóknir og eftirlit en í dag.  Rannsóknir á matvælum eru í hlutarins eðli hagnýtar. Þær byggja þó oftast á grunnrannsóknum í þeim greinum vísinda sem matvælafræðin byggir á sem eru fjölmargar. Þær eru lausnamiðaðar og nær alltaf unnar í samvinnu við, fyrir eða að frumkvæði hagsmunaaðila sem geta verið allt samfélagið, opinber stjórnvöld, matvælaframleiðendur, matvæla- og sprotafyrirtæki, neytendur og grasrótarsamtök.  Markmiðið er alltaf að bæta hag, auka velferð og tryggja öryggi.

Tilgangurinn er líka að þjálfa upp stjórnendur og starfsfólk framtíðarinnar.  Iðnaður sem byggir á færni og þekkingu mun skipta máli fyrir hagsæld á Íslandi í enn ríkari mæli en í dag.  Samstarf þar sem brotnir voru niður múrar á milli háskóla og iðnaðar hefur skilað góðum árangri í matvælafræði. Þar hefur Matís verið brúin sem tengir þessa aðila saman. Matvælafræðingum með MS gráðu frá Háskóla Íslands hefur þannig fjölgað um helming á síðustu fjórum ári. 

Matvæladagurinn hefur frá fyrstu tíð verið vel sóttur af fjölda fólks úr mismunandi geirum enda er fjallað um matvælaframleiðslu, vöruþróun og gjaldeyrissköpun, matarhefðir, fæðubótarefni, matvælaöryggi, neytendavernd og næringarráðleggingar allt með skírskotun í matvæli, næringu og heilsu. Matur er mannsins megin verður gefið út í tilefni dagsins eins og verið hefur undanfarin ár en í blaðinu er fjallað um ýmis áhugaverð málefni á sviði matvælaframleiðslu, næringar og heilsu með sérstaka áherslu á megin þema hvers Matvæladags.

Rannsakendum, nemendum og fyrirtækjum mun standa til boða að vera með kynningar á sínum rannsóknum og vörum á meðan á skráningu stendur sem og í kaffihléi. Nánari upplýsingar um það verða sendar á fyrirtæki og háskólasamfélagið en áhugasamir eru hvattir til að hafa samband við Þóru Valsdóttir, thora.valsdottir@matis.is  varðandi nánari upplýsingar.

Á Matvæladegi er Fjöregg MNÍ afhent en það er veitt fyrir lofsvert framtak á sviði matvæla og næringar. Fjöreggið er veglegur verðlaunagripur, hannaður og smíðaður af Gleri í Bergvík og hefur frá upphafi verið gefinn af Samtökum iðnaðarins. Óskað verður eftir tilnefningum af hálfu Fjöreggsnefndar MNÍ.

Framkvæmdanefnd Matvæladagsins vinnur nú í því að leggja síðustu hönd á dagskránna og mun hún verða birt fljótlega. Skemmtinefnd MNÍ hefur einnig verið skipuð en fyrirhugað er að halda árshátíð MNÍ föstudaginn 21. október en það verður auglýst nánar þegar nær dregur.

Drög að dagskrá (með fyrirvara um breytingar):

MNI_2016_dagskra

Fréttir

Framúrstefnuverðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar 2016

Ert þú með framúrstefnuhugmynd til að efla íslenskan sjávarútveg og tengdar atvinnugreinar? Næsta Sjávarútvegsráðstefna verður haldin í Hörpu dagana 24.-25. nóvember 2016.

Sjávarútvegsráðstefnan kallar eftir framúrstefnulegum nýsköpunarhugmyndum, sem veita á viðurkenningu fyrir á næstu ráðstefnu vettvangsins. Markmiðið er að hugmyndirnar séu framsæknar og frumlegar og skapi umræðugrundvöll eða nýja hugsun.

Það sem þarf að hafa í huga

Framúrstefnuhugmynd skal setja fram á hnitmiðaðan hátt þar sem fram kemur lýsing á hugmynd, tillaga að framkvæmd, væntanlegur afrakstur og áhrif til góðs fyrir ímynd íslenskra afurða (hámark 2 bls). Sjá nánar á slóðinni: www.sjavarutvegsradstefnan.is/efni/verdlaun

Tímafrestur

Frestur til að skila inn umsóknum er 25. október

Hvert á að senda hugmyndina?

Eingöngu er gert ráð fyrir að frammúrstefnuhugmyndin verði send inn rafrænt. Sendið hugmyndina sem viðhengi (word eða pdf skjal) á tölvupóstfang ráðstefnunnar: valdimar@sjavarutvegur.is Bíðið eftir staðfestingu um móttöku og ef hún berst ekki innan sólahrings, hringið þá í síma 695 2269.

Verðlaun og kynning

Eftirfarandi verðlaun og kynning fyrir bestu hugmyndirnar:

  • Veitt verður verðlaunafé að upphæð kr. 500 þús.
  • Þrjár bestu hugmyndirnar fá kynningu og sérstaka viðurkenningu á Sjávarútvegsráðstefnunni.
  • Þrjár bestu hugmyndirnar fá sýningabás á ráðstefnunni til að kynna sínar hugmyndir.
  • Fleiri hugmyndirnar fá síðan sérstaka kynningu í veglegu ráðstefnuhefti Sjávarútvegsráðstefnunnar.
  • 10 bestu hugmyndasmiðirnir fá frítt fyrir einn á ráðstefnuna.

Til að styðja enn frekar við góðar framúrstefnuhugmyndir verða bestu hugmyndir hvers árs að finna í ráðstefnuheftum á næstu árum. Jafnframt munu hugmyndasmiðir fá tækifæri að kynna sýnar framúrstefnuhugmyndir á Sjávarúvegsráðstefnunni á næstu árum. Árið 2015 voru fjórar framúrstefnuhugmyndir kynntar og gert er ráð fyrir svipuðum fjölda á þessu ári.

Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu ráðstefnunnar.

Fréttir

Matís þátttakandi í risavöxnu verkefni

Þekkingarfyrirtækið Matís, sem sinnir fjölbreyttu rannsókna-, þjónustu- og nýsköpunarstarfi í matvæla- og líftækniiðnaði, hefur tryggt sér þátttöku í umfangsmiklu samevrópsku verkefni. Þar koma saman tugir leiðandi fyrirtækja, rannsókna- og menntastofnana til að finna leiðir til nýsköpunar á heimsmælikvarða og ýta undir frumkvöðlastarf innan álfunnar. Nýsköpunar- og tæknistofnun Evrópu (EiT) fjárfestir í verkefnunum fram til ársins 2020 fyrir 2,4 milljarða evra eða 290 milljarða íslenskra króna. Heildarfjárfestingin mun stappa nærri tíu milljörðum evra, eða 1.200 milljörðum íslenskra króna en þátttakendur fjármagna 75% af rannsóknunum sjálfir.

Evrópa er á eftir

Hörður G. Kristinsson, rannsókna- og nýsköpunarstjóri Matís, segir áætlunina byggjast á nýrri hugsun og snúa að átta sértækum verkefnum (Knowledge Innovation Community – KIC), og þar af eitt sem snýst um matvæli og nýsköpun í matvælaiðnaðinum í Evrópu (EIT Food). Þar er snertipunktur Matís við áætlunina, en tilurð hennar er sú staðreynd að Evrópa hefur verið að dragast aftur úr í nýsköpun og mikil áhersla sé lögð á að snúa þeirri þróun við. Verkefnin átta (KIC) séu lykiltól til þess; þau eru sjálfstæðar einingar með forstjóra og framkvæmdastjórn og ráða því hvernig fénu er ráðstafað innan hópsins, eftir ákveðnum reglum sem hópurinn setur sér.

Í hnotskurn er hlutverk KIC-verkefnanna að auka samkeppnis- og nýsköpunarhæfni Evrópu. Stuðla að auknum vexti efnahagslífsins með þróun og uppbyggingu nýrra fyrirtækja, og fjölga störfum með því að þróa nýjar vörur og þjónustu. Eins, og ekki síst, að þjálfa næstu kynslóð frumkvöðla.

„Matís er einn af aðeins tveimur þátttakendum frá Norðurlöndunum sem eru meðlimir í EIT Food og er litið sérstaklega til okkar hvað varðar þekkingu og hæfni þegar kemur að rannsóknum og þróun á afurðum og efnum úr hafinu og ferlum tengdum þeim, eða bláa lífhagkerfinu. Þetta er gríðarlega mikil viðurkenning fyrir Matís og þá vinnu sem okkar frábæra starfsfólk hefur unnið síðustu ár, sem og Ísland. Það má segja að þetta hafi lyft okkur úr fyrstu deild yfir í meistaradeildina,“ segir Hörður og bætir við að umsóknarferlið fyrir einstök verkefni sé afar umfangsmikið og samkeppnin um styrkféð sé gríðarleg.

Án fordæma

„EIT Food er verkefnið sem vann eftir mikla vinnu og mjög stranga síu. Það er til sjö ára. Fimmtíu aðilar frá þrettán­ löndum koma að því; allt fyrir­tæki, háskólar og rannsóknastofnanir eða fyrirtæki sem eru fremst á sínu sviði í Evrópu og heiminum,“ segir Hörður og nefnir tvö stærstu matvælafyrirtæki heims, Nestlé og PepsiCo. Einnig Givaudan sem er stærsti bragðefnaframleiðandi heims, fyrirtækin DSM, Roquette, Nielsen, Siemens og Bosch. Einnig taka háskólarnir í Cambridge, ETH Zürich og Tækniháskólinn í München þátt. Önnur öflug rannsóknafyrirtæki, eða stofnanir, í verkefninu ásamt Matís eru m.a. VTT í Finnlandi, Fraunhofer í Þýskalandi og Azti á Spáni.

EIT mun á næstu sjö árum setja allt að 48 milljörðum króna í verkefnið gegn 145 milljarða mótframlagi þátttakenda. „Heildarfjárfestingin er því allra stærsta aðgerð sem farið hefur verið í í Evrópu á sviði matvælarannsókna,“ segir Hörður.

Þungamiðja umbyltinga

En hvaða áskoranir ætla þátttakendur, og Matís þeirra á meðal, að takast á við?

„Það verður sett saman sjö ára viðskiptaáætlun á næsta ári til að móta hvernig við sem hópur ætlum að takast á við nokkrar stórar áskoranir sem Evrópa er að kljást við hvað varðar matvælageirann og neytendur. Við ætlum okkur að gera Evrópu að þungamiðju umbyltinga í nýsköpun og framleiðslu á matvælum og fá neytendur beint að borðinu í þessu ferli og þróa 290 nýjar eða bættar afurðir, þjónustu og ferla. Við ætlum einnig að styðja við og skapa 350 ný fyrirtæki, þjálfa yfir 10.000 nemendur í framhaldsnámi og fagaðila í matvælafræði og tengdum greinum fyrir 2024 auk þess að draga um 40% úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda í evrópska matvælageiranum fyrir 2030,“ segir Hörður og nefnir dæmi.

„Matís mun taka virkan þátt í öllu verkefninu en við verðum með sérstaklega stórt hlutverk hvað varðar sjávarfang og innihaldsefni unnin úr sjávarfangi og vannýttu hráefni úr hafinu. Það eru mikil tækifæri í matvælaiðnaðnum hvað varðar notkun á hráefnum og innihaldsefnum úr hafinu til að mæta þörfum framtíðarneytenda. Neytandinn verður miðpunkturinn í þessu mikla verkefni en við munum draga hann að borðinu til að hjálpa okkur að umbylta evrópska matvælageiranum. Þetta verkefni opnar gríðarleg tækifæri fyrir okkur og Ísland og tengir okkur föstum böndum við afar öflugan hóp fyrirtækja, háskóla og rannsóknastofnana,“ segir Hörður.

Risavaxið verkefni í hnotskurn

  • Sjö ára viðskiptaáætlun sett upp á næsta ári.
  • Þróa á 290 nýjar eða bættar afurðir, þjónustu og ferla.
  • Styðja á við og skapa 350 ný fyrirtæki, þjálfa yfir 10.000 nemendur í framhaldsnámi og fagaðila í matvælafræði og tengdum greinum fyrir 2024.
  • Stefnt á að draga um 40% úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda í evrópska matvælageiranum fyrir 2030.
  • Nýsköpunar- og tæknistofnun Evrópu (EIT) fjárfestir í verkefnunum fram til ársins 2020 fyrir 2,4 milljarða evra eða 290 milljarða íslenskra króna.
  • Heildarfjárfestingin nemur 1.200 milljörðum íslenskra króna en þátttakendur fjármagna 75% af rannsóknunum sjálfir.
  • Matís starfar beint og óbeint með Nestlé og PepsiCo, Givaudan sem er stærsti bragðefnaframleiðandi heims, fyrirtækjunum DSM, Roquette, Nielsen, Siemens og Bosch.
  • Háskólarnir í Cambridge, ETH Zürich­ og Tækniháskólinn í München taka þátt.
  • Önnur öflug rannsóknafyrirtæki, eða stofnanir, í verkefninu ásamt Matís eru m.a. VTT í Finnlandi, Fraunhofer í Þýskalandi og Azti á Spáni.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu / Svavar Hávarðsson

IS