Fréttir

Mjög vel sóttur fundur um loðnu

Nú stendur yfir ráðstefna á Akureyri um loðnu og loðnuveiðar en tilefnið er að hálf öld er liðin frá því að Íslendingar hófu hagnýtingu á loðnu. Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís, heldur erindi á ráðstefnunni og ber erindi Sigurjóns heitið “Tækniþróun í fiskimjölsiðnaði”.

Markmið ráðstefnunnar er að ná heildstæðu yfirliti um nýtingu á loðnu og sýna hvað hefur áunnist á fimmtíu árum. Farið verður yfir stöðu stofnsins, þróun iðnaðar, helstu afurðir og markaði, efnahagslegt mikilvægi loðnu og möguleg sóknarfæri.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna og tengiliði má finna á vef Háskólans á Akureyri og á vef Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri.

Nánari upplýsingar hjá Matís veitir Sigurjón Arason.

Fréttir

Nautnir norðursins – sýningar hefjast í kvöld á RÚV

Sjónvarpsþáttaröðin „Nautnir norðursins“ fer í sýningu á Ríkissjónvarpinu í kvöld kl. 20:05. Matís hefur unnið að gerð þáttana í samstarfi við Sagafilm. Markmiðið með þáttunum er að gefa jákvæða ímynd af matarmenningu og efla matartengda ferðaþjónustu á Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og í Noregi.

Í þáttunum verður fornum og hefðbundnum matarvenjum á Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og í Noregi gerð skil. Matreiðslumenn frá hverju landi fyrir sig munu jafnframt sýna nýjungar sem þeir framreiða úr staðbundnu hráefni. Vonast er til þess að þættirnir kveiki áhuga almennings og framleiðenda á að prófa sig áfram með nýtingu hráefna á nýstárlegan hátt sem og að nýta hráefni og aukaafurðir sem hafa hingað til ekki verið nýtt.

Norræna eldhúsið hefur vakið talsverða athygli á undanförnum árum og matartengd ferðaþjónusta hefur aukist, ekki síst vegna þess hversu sterk tengsl eru við hefðina þegar staðbundnar fæðu er neytt. Vinsældir nýnorrænnar matarhefðar hafa sannað sig í alþjóðlegu matreiðslukeppninni Bocuse d’Or þar sem norrænu þjóðirnar hafa verið í efstu sætunum síðan árið 2008. Ennfremur var haldin mjög áhugaverð og vel sótt ráðstefna á Selfossi þann 25. júní sl. þar sem 30 nýjar vörur frá Grænlandi, Færeyjum og Íslandi voru kynntar. Ráðstefnan var hluti af formennsku Íslands í norræna ráðherraráðinu á þessu ári. Nánar um verkefnið má finna á vef Nordtic.

Þessi mikli áhugi á norrænni matarhefð gefur framleiðendum tækifæri til að koma vörum sínum á framfæri utan heimalandsins og styrkja þar með matarímynd landsins út á við. Þjóðir á borð við Japan, Ítalíu, Frakkaland og Spán hafa skapað einkar jákvæða ímynd af matarmenningu sinni sem hefur á sama tíma styrkt útflutning matvæla og gert löndin að eftirsóttum ferðamannastöðum. Með því að koma matvælum frá Íslandi, Noregi, Grænlandi og Færeyjum á framfæri mætti stuðla að margþættri virðisaukningu bæði í ferðamanna- og fæðuiðnaði.

Í þáttunum verður villibráð, sjávarfangi, þangi, kryddjurtum o.fl. staðbundnum hráefnum gerð skil. Þá verður einnig fjallað um fornar geymsluaðferðir og hvernig hægt er að nýta þær sem og hráefnið með nýstárlegum hætti.

Alls voru gerðir 8 þættir, tveir helgaðir hverju landi. Þættirnir verða sýndir í Noregi, Finnlandi og Færeyjum, fleiri lönd hafa þegar sýnt þáttunum áhuga og má því vænta frekari dreifingar.

Nánari upplýsingar veitir Gunnþórunn Einarsdóttir hjá Matís.

Facebooksíða þáttarins

Skýrslur

Próteinverksmiðja Héðins (HPP) og lýsisverksmiðja Héðins (HOP) / Hedinn protein plant and Hedinn oil plant

Útgefið:

01/09/2014

Höfundar:

Magnús Valgeir Gíslason, Gunnar Pálsson, Sindri Freyr Ólafsson, Arnljótur Bjarki Bergsson, Björn Margeirsson, Sigurjón Arason, Magnea G. Karlsdóttir

Styrkt af:

AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi (R10 084-10 og R12 039-12)

Tengiliður

Sigurjón Arason

Yfirverkfræðingur

sigurjon.arason@matis.is

Próteinverksmiðja Héðins (HPP) og lýsisverksmiðja Héðins (HOP) / Hedinn protein plant and Hedinn oil plant

Markmið verkefnisins var að þróa sjálfvirkar fiskmjöls- og lýsisverksmiðjur (HPP og HOP). Verksmiðjurnar eru sjálfvirkar, umhverfisvænar og geta gengið fyrir rafmagni, gufu eða afgangsvarma. Framleiðsluferill fyrir fiskmjöl hefur verið endurhannaður að mörgu leyti. Þekking á ferlastýringu og eðliseiginleikum hráefnisins eru byggð á hefðbundnu fiskmjölsferli, og er sú þekking notuð sem grunnur fyrir þróun á búnaði til þess að fullvinna sjávarafurðir. Tilraunir með HPP skiptust í tvo megin þætti: 1) prófanir nýjum búnaði og framleiðsluferli og 2) úttekt á efnis- og orkuflæði í framleiðsluferlinu. Megin áherslan er á aukahráefni sem verður til við fiskvinnslu til manneldis, s.s. slóg og bein af hvítfiskum. Einnig hafa prófanir sýnt fram á ágæti verksmiðjunnar til þess að vinna mjöl og lýsi úr aukahráefnum frá rækjuvinnslu, laxfiskavinnslu og uppsjávarfiskvinnslu, en þessi hráefni hafa verið notuð í framleiðslu á fiskmjöli og lýsi í áratugi og eiginleikar þeirra þekktir. Tilraunir með HOP verksmiðjuna gengu út á að prófa mismunandi suðutíma og hitastig við suðu, ásamt því að takmarka aðgengi súrefnis að hráefni við vinnslu. Niðurstöðurnar sýna að HPP og HOP hefur getu til þess að framleiða fiskmjöl og lýsi úr áður lítið nýttum aukahráefnum. Gæði fiskmjölsins og lýsisins voru háð gæðunum á hráefninu sem fór inn í verksmiðjuna. Fyrir litla verksmiðju sem er staðsett nálægt fiskvinnslu, ætti ferskleiki hráefnisins ekki að vera vandamál. Efnamælingar á mjöli og lýsi sýndu lágt vatnsinnihald í lýsinu og lágt fituinnihald í mjöli, sem undirstrikar að nýr búnaðar sem notaður var í verksmiðjunni virkar eins vel og vonast var eftir.

The aim of the project is to develop an automatic fish meal and fish oil factory (HPP and HOP). The factory is automatic, environmentally friendly and runs on electricity, steam or waste heat. The manufacturing process and equipment for fish meal has been redesigned in various ways. The knowledge on the process management and the properties of the raw material based on fish meal processing will serve as a basis for the companies to develop new equipment for the full processing of marine products. Experiments with HPP consisted of two main parts: 1) testing new equipment and manufacturing process and 2) examination of mass- and energy flow through the process. Focus was on by-products from processing fish for human consumption e.g. viscera from whitefish and bones. Also experiments have been conducted on shell from shrimp and pelagic fish which has been used for fish meal processing for decades with its well-known properties. Experiments with HOP factory consist of testing different cooking time and temperature, in addition to limit accessibility of oxygen to the raw material in the process. The results showed that HPP and HOP can produce fish meal and fish oil from previously little utilized by-products of many species. The quality of the fish meal and oil depended on freshness on the raw material. For a small factory that can be stationed close to a fish processing plant, the freshness of raw material should not be a problem. Measurement of low water content in fish oil and low fat content in the meal, states that the new equipment and process are giving results as hoped.

Skoða skýrslu

Skýrslur

Markaðssetning og þróun á heilsuorkustöngum með fiskpróteinum / Health bars with fish proteins – development and marketing

Útgefið:

01/09/2014

Höfundar:

Margrét Geirsdóttir, Aðalheiður Ólafsdóttir, Sóley Ósk Einarsdóttir

Styrkt af:

AVS (V 13 012‐13)

Tengiliður

Margrét Geirsdóttir

Verkefnastjóri

mg@matis.is

Markaðssetning og þróun á heilsuorkustöngum með fiskpróteinum / Health bars with fish proteins – development and marketing

Markmið verkefnisins var að þróa og markaðssetja orkustangir sem innihalda fiskprótein. Á þann hátt myndast breiðari grundvöllur fyrir próteinafurðir MPF Ísland í Grindavík úr aukahráefni fisks. Framkvæmd verkefnisins gekk ágætlega fyrir sig og voru mismunandi tegundir orkustanga prófaðar, bakaðar og frystar og með mismunandi innihaldsefnum. Ágætis afurðir fengust en engin þótti nægjanlega góð til markaðssetningar en frekari tilraunir eru áætlaðar á grundvelli þeirrar reynslu sem var aflað í þessu verkefni.  

The aim of the project was to develop and market health bars with fish proteins and thereby strengthen the seafood industry in Grindavík the hometown of MPF Iceland and thereby in Iceland.   Different health bars were tried out and developed. Both frozen and baked types were processed but none was evaluated ready for marketing at this stage and further trials are therefore planned based on the presented findings.

Skýrsla lokuð til 01.09.2016

Skoða skýrslu

Skýrslur

Status of Cereal Cultivation in the North Atlantic Region / Staða kornræktar í löndum við norður Atlantshaf

Útgefið:

01/09/2014

Höfundar:

Ólafur Reykdal, Þórdís Anna Kristjánsdóttir, Jónatan Hermannsson, Peter Martin, Sigríður Dalmannsdóttir, Rólvur Djurhuus, Vanessa Kavanagh, Aqqalooraq Frederiksen

Styrkt af:

NORA, the Nordic Atlantic Cooperation. NORA project number 515-005

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Status of Cereal Cultivation in the North Atlantic Region / Staða kornræktar í löndum við norður Atlantshaf

Í skýrslunni er gerð grein fyrir úttekt á kornrækt í löndum við Norður Atlantshaf. Skýrslan er hluti af verkefninu Norrænt korn – Ný tækifæri sem styrkt er af NORA-sjóðnum. Þátttakendur eru Matís, Landbúnaðarháskóli Íslands, Bioforsk Nord í Noregi, Landbúnaðarmiðstöðin í Færeyjum, Landbúnaðarstofnunin í Orkneyjum og Forestry & Agrifoods Agency á Nýfundnalandi. Sambandi hefur einning verið komið á við Landbúnaðarþjónustuna í Grænlandi. Svæðin sem voru til skoðunar eru mjög breytileg með tilliti til þarfa kornræktar. Breytileiki í hitastigi og úrkomu geta skapað vandamál við kornræktina. Þegar litið er á svæðin í heild, er fjöldi kornbænda um 1.100 og rækta þeir um 40.000 tonn af korni á ári á um 9.400 hekturum. Mesta kornframleiðslan var í Orkneyjum. Mögulegt er að auka kornframleiðsluna, sérstaklega á Íslandi, Nýfundnalandi og í N-Noregi.

This review of Cereal Cultivation in the North Atlantic Region is a part of the project Northern Cereals – New Opportunities supported by the Nordic Atlantic Cooperation (NORA). Participants are Matis – Icelandic Food and Biotech R & D, The Agricultural University of Iceland, Bioforsk North Norway, Agricultural Centre Faroe Islands, Agronomy Institute Orkney Scotland and Forestry & Agrifoods Agency, Newfoundland and Labrador, Canada. Cooperation has also been established with The Agricultural Consulting Services in Greenland. Partner regions are very diverse with respect to conditions for cereal production. Temperature and rainfall are very variable and therefore a challenge for cereal producers. About 1,100 farmers grow cereals on 9,400 ha in the partner regions. Yearly cereal production is estimated to be about 40,000 tons. Greatest production occurs in Orkney. It is possible to increase the cereal production in most regions, particularly in Iceland, Newfoundland and N-Norway.

Skoða skýrslu

Skýrslur

Life Cycle Assessment on fresh Icelandic cod loins / Vistferilsgreining á ferskum þorskhnökkum

Útgefið:

01/09/2014

Höfundar:

Birgir Örn Smárason, Jónas R. Viðarsson, Gunnar Þórðarson, Lilja Magnúsdóttir

Styrkt af:

AVS (R13 042‐13)

Tengiliður

Birgir Örn Smárason

Fagstjóri

birgir@matis.is

Life Cycle Assessment on fresh Icelandic cod loins /   Vistferilsgreining á ferskum þorskhnökkum

With growing human population and increased fish consumption, the world’s fisheries are not only facing the challenge of harvesting fish stocksin a sustainable manner, but also to limit the environmental impacts along the entire value chain. The fishing industry, like all other industries, contributes to global warming and other environmental impacts with consequent marine ecosystem deterioration. Environmentally responsible producers, distributors, retailers and consumers recognize this and are actively engaged in mapping the environmental impacts of their products and constantly looking for ways to limit the effects. In this project a group of Icelandic researchers and suppliers of fresh Icelandic cod loins carried out Life Cycle Assessment (LCA) within selected value chains. The results were compared with similar research on competing products and potentials for improvements identified. The project included LCA of fresh cod loins sold in the UK and Switzerland from three bottom trawlers and four long‐ liners. The results show that fishing gear has considerable impact on carbon footprint values with numbers ranging from 0.3 to 1.1 kg CO2eq/kg product. The catching phase impacts is however dominated by the transport phase, where transport by air contributes to over 60% of the total CO2 emissions within the chain. Interestingly, transport by sea to the UK emits even less CO2 than the domestic transport.   Minimizing the carbon footprint, and environmental impacts in general, associated with the provision of seafood can make a potentially important contribution to climate change control. Favouring low impact fishing gear and transportation can lead to reduction in CO2 emissions, but that is not always practical or even applicable due to the limited availability of sea freight alternatives, time constrains, quality issues and other factors. When comparing the results with other similar results for competing products it is evident that fresh Icelandic cod loins have moderate CO2 emissions.

Samfara mikilli fólksfjölgun og aukinni fiskneyslu stendur sjávarútvegur á heimsvísu nú frami fyrir því mikilvæga verkefni að nýta fiskstofna á sjálfbæran hátt á sama tíma og þau þurfa að lágmarka öll umhverfisáhrif sem hljótast af veiðum, vinnslu, flutningunum og öðrum hlekkjum í virðiskeðjunni. Sjávarútvegur, líkt og allur annar iðnaður, stuðlar að hlýnun jarðar og hefur jafnframt í för með sér ýmiss önnur umhverfisáhrif sem hafa skaðleg áhrif á lífríki sjávar. Fyrirtækisem vilja sýna félagslega‐ og umhverfislega ábyrgð ísínum rekstri gera sér fulla grein fyrir þessu og sækjast því eftir að fylgjast betur með umhverfisáhrifum sinnar framleiðslu og leita leiða til að draga úr þeim. Með þetta í huga tók hópur íslenskra rannsóknaraðila, sjávarútvegsfyrirtækja og sölu‐  og dreifingaraðila saman höndum, til að framkvæma vistferilsgreiningu (LCA) í völdum virðiskeðjum ferskra þorskhnakka. Niðurstöðurnar voru svo bornar saman við niðurstöður sambærilegra rannsókna sem gerðar hafa verið á samkeppnisvörum, jafnframt því sem leiðir til að draga úr umhverfisáhrifum innan áðurnefndra virðiskeðja voru kannaðar. Rannsóknin náði til ferskra íslenskra þorskhnakka sem seldir eru í Bretlandi og Sviss. Hnakkarnir voru unnir úr afla þriggja togara og fjögurra línubáta. Niðurstöðurnar sýna að tegund veiðarfæris hefur mikil áhrif á sótspor / kolefnisspor afurðanna þar sem línubátarnir komu heilt yfir töluvert betur út en togararnir. Sótspor einstakra skipa í rannsókninni var á bilinu 0.3 til 1.1 kg CO2eq/kg afurð, sem verður að teljast nokkuð lágt í samanburði við fyrri rannsóknir. Þegar kemur að því að skoða alla virðiskeðjuna er það hins vegar flutningshlutinn eða flutningsmátinn sem skiptir langsamlega mestu máli þ.s. sá hluti ber ábyrgð á yfir 60% sótsporsins þegar varan er flutt út með flugi. Sé hún hins vegar flutt út með skipi verður sótspor flutningshlutans sáralítið og fer þá innanlandsflutningur að skipta meira máli en flutningurinn yfir hafið. Lágmörkun umhverfisáhrifa sem hljótast af veiðum, vinnslu og dreifingu sjávarafurða getur haft mikilvægt innlegg í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Með því að velja veiðiaðferðir og flutningsmáta með tilliti til sótspors er unnt að draga umtalsvert úr kolefnisútblæstri, en það þarf þó einnig að hafa í huga að það er ekki ávalt mögulegt eða raunhæft að velja eingöngu þá kosti sem hafa lægst sótspor. Niðurstöður þessara rannsóknar og samanburður við niðurstöður sambærilegra rannsókna sýnir að ferskir íslenskir þorskhnakkar sem komnir eru á markað í Bretlandi og Sviss hafa hóflegt sótspor og eru fyllilega samkeppnisfærir við aðrar fiskafurðir eða dýraprótein.

Skoða skýrslu

Fréttir

Rétt vara á réttan markað

QualiFish er norrænt samstarfsverkefni sem hefur það að markmiði að auka á þekkingu og þróa aðferðir, ferla og tækni sem stuðlað geti að enn frekari sjálfbærni og arðsemi veiða og vinnslu bolfiskafurða úr N-Atlantshafi.

Verkefnið sem hófst á vormánuðum er stýrt af norsku rannsóknarstofnuninni SINTEF og fjármagnað af Norska Rannsóknarráðinu (NRC). Auk Matís koma að QualiFish verkefninu þverfaglegur hópur sem samanstendur af útgerðum, fiskvinnslum, dreifingar- og markaðsfyrirtækjum, tækjaframleiðendum og rannsóknaraðilum.. Verkefninu er ætlað að rannsaka og þróa aðferðir sem framleiðendur geta nýtt sér til að mæta þörfum markaða með hágæða vörum allt árið um kring, en helstu áherslur verkefnisins eru meðal annars gæði, matvælaöryggi, tæknilausnir í vinnsluferlum og bestun í framleiðslu með tilliti til markaðs- og efnahagslegra sjónarmiða. Verkefnið er skipulagt í fjórum verkþáttum, hver með áherslu á tilteknum viðfangsefnum er viðkoma bolfisksiðnaðinum. Matís fer þar með forystu í verkþætti sem lýtur að því að þróa nýja/endurbæta tækni við uppþíðingu á sjófrystu hráefni; og er þátttakandi í verkþætti sem snýr að því að þróa nýja markaðsmiðaða tækni fyrir aðgreiningu á hráefni og afurðum, sem tryggir „rétta vöru á réttan markað“.

Nánari upplýsingar veitir Magnea G. Karlsdottir, fagstjóri hjá Matís en einnig má finna upplýsingar um verkefnið á heimasíðu QualiFish (www.qualifish.no).

Fréttir

Matís skipuleggur ráðstefnu á sjávarútvegssýningunni í Kópavogi

Matís, ásamt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Háskóla Íslands og Mercator Media, skipuleggur mjög áhugaverða ráðstefnu sem fram fer fyrsta dag Sjávarútvegssýningarinnar (IceFish) í Kópavogi en ráðstefnan fer fram dagana 25.-27. september nk.

Matís hefur tekið þátt í öllum IceFish sýningunum frá stofnun Matís árið 2007. Sýningin er sú stærsta sinnar tegundar hér á landi og þar koma saman allir helstu aðilarnir í sjávarútvegi og greinum tengdum sjávarútvegi hér á landi sem og frá öðrum löndum. Sýningin hefur stækkað jafnt og þétt frá upphafi árið 1984 og er það eftirtektarvert að þátttakendum og gestum fjölgaði verulega árin 2008 og 2011 og það þrátt fyrir margskonar þrengingar hér á landi.

Ráðstefnan sem Matís tekur þátt í að skipuleggja mun fjalla gaumgæfilega um hvernig við getum bætt okkur enn frekar þegar kemur að fullnýtingu sjávarfangs. Íslendingar standa mjög framarlega í fullnýtingu sjávarafla og margir horfa til Íslendinga þegar kemur að því að læra réttu handtökin ef svo má á orði komast. Þegar talið kemur til dæmis að þorski og fullnýtingu alls hráefnis sem kemur að landi þá ber nafn Sigurjóns Arasonar, yfirverkfræðings hjá Matís, jafnan á góma enda fáir ef nokkur með jafn mikla reynslu og þekkingu þegar kemur að bættri nýtingu þorsks og annarra fisktegunda og spannar starf hans með íslenskum sjávarútvegi meira en 30 ár.

Sigurjón mun halda fyrirlestur á ráðstefnunni sem og dr. Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís. Fleiri mjög áhugaverðir fyrirlesarar verða á ráðstefnunni og má þar nefna Friðrik Sigurðsson ráðgjafa sem lengi hefur starfað í sjávarútveginum í Noregi, Hólmfríði Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra Iceprotein á Sauðárkróki, en Hólmfríður starfaði um árabil í starfsstöð Matís á Króknum, og Ingólfi Arnarsyni, framkvæmdastjóra Skagans.

Nánar um ráðstefnuna má finna á heimsíðunni www.icefishconference.com

Nánari upplýsingar veita Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís og Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Fréttir

Viltu smakka söl og beltisþara?

Um helgina fer fram matarmarkaður Búrsins í Hörpunni, þar gefst tækifæri til að smakka söl, beltisþara og fleiri gómsæta þörunga. Þörungar eru fullir af steinefnum, vítamínum og öðrum heilsusamlegum næringarefnum sem gerir þá  næringarlega að góðri viðbót við allan mat. Þrátt fyrir að gífurlegt magn þeirra, rétt innan seilingar, þá eru þörungar vannýtt hráefni – en það á eftir að breytast segja fróðir menn. Þörungar gera allan mat áhugaverðari!

Þörungar vaxa meðfram ströndum okkar. Þeir teygja sig upp, niður og þversum og safna í sig sjávarsöltum og steinefnum. Þeir gefa fiskum, skeldýrum og örðum sjávarlífverum líf og vernd en hafa átt takmarkaðan sess í matarræði okkar. Margir spá því að í náinni framtíð verði sjávarþörungar hversdagsmatur á Norðurlöndunum. Þá má nota á margvíslegan hátt til að auka næringargildi matar samhliða því að styðja við baráttu Vesturlanda gegn ofþyngd sem og afleiðingu vannæringar þar sem hana er að finna.

Bakað bóluþang

Þörunga má matreiða á fjölbreyttan máta. Gott er að blanda þörung um í smoothie eða steikja þá lítillega með sesamfræjum auk þess sem gott getur verið að mala þá og sáldra síðan yfir ýmsa rétti. Bóluþang er frábært snakk eftir smá tíma í ofni með örlítilli olíu. Það má steikja kjúkling í eldföstu móti með smá þörungum í vatninu, til að gefa bragð. Í eftirréttum með sýrðum rjóma er hægt að nota sumar tegundir þörunga sem hleypiefni s.s. marínkjarna. Þörunga má einnig nota sem bragðauka í súpur og salöt, þurrkaða og skorna í smá bita. Þá er gott að setja þörunga í brauð, til dæmis söl. Það er því bara spurning um að prófa sig áfram. Fara sjálf að safna þörungum eða kaupa úti í næstu verslun. Vöruúrvalið er sífellt að verða betra og uppskriftir má finna í matreiðslubókum eða á netinu.

Eins og með önnur matvæli, þá er meðalhófið best. Það er mikilvægt að tryggja að þörungar séu skornir upp á hreinum svæðum og sumar tegundir af þörungum eru það ríkar af joði að eingöngu örlítið magn þarf af þeim til að fara yfir ráðlagða neyslu. Með það á bak við eyrað, eru þörungar frábært hráefni til að gera matarræði okkar heilsusamlegra.    

Heilsusamleg viðbót við norræna eldhúsið

Ný Norræn Matvæli, sem er verkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, hefur lagt áherslu á nýtingarmöguleika þar sem hugmyndin er að nýta matþörunga sem heilsusamleg viðbót við norræna eldhúsið. Nú í haust verða viðburðir á öllum Norðurlöndunum þar sem þemað er sjávarþörungar sem hollur og bragðgóður matur (sjá nánar hér). Markmiðið er að kynna hráefnið og hvetja almenning til að nýta þörunga til matar.

Á Matarmarkaði Búrsins helgina 30 – 31 ágúst verður sérstök kynning og sala á matþörungum. Helstu framleiðendur verða á staðnum til að kynna vörur sínar og spyrja spjörunum úr. Það er því um að gera að skella sér og kynnast  þessu skemmtilega hráefni.

Fréttir

Eldisfiskur gæti mettað heiminn

Sífellt vaxandi fólksfjöldi felur í sér miklar áskornir sem FAO (Matvæla-og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna) vekur athygli á í nýjustu útgáfu SOFIA. Talið er að mannfjöldi heimsins muni nema 9.6 milljörðum árið 2050. Nú þegar eru ýmis framleiðslusvæði komin að þenslumörkum, svo finna þarf nýjar leiðir til svara fæðuþörf vaxandi heims.

Í leiðara nýjustu útgáfu SOFIA (The State of World Fisheries and Aquaculture) sem er viðamesta rit FAO leggur José Graziano da Silva, framkvæmdastjóri FAO áherslu á mikilvægi þess að finna leiðir til að mæta hungursneyð í heiminum, án þess að það komi niður á gæðum matvæla eða stuðli að ofnýtingu auðlinda. Horfir hann hýru auga til þeirra möguleika sem liggja í fiskeldi og fram kemur að möguleiki sé á að fiskeldi geti spilað stórt hlutverk í að útrýma hungri, stuðla að bættri heilsu og minnka fátækt í heiminum.

Talið er að 800 milljónir manna búi nú þegar við hungursneyð og líkur eru á að sú tala hækki með auknum fólksfjölda. Landsvæði sem hafa verið notuð til ræktunar eru sumstaðar komin að þolmörkum og því er mikilvægt að efla sjávarútveginn og nýta þau tækifæri sem þar eru. Fiskneysla hefur aukist verulega á síðustu árum, en hún hefur verið einkar mikilvæg uppspretta próteina og næringarefna í fátækari löndum heims.

Blár hagvöxtur

Sú mikla aukning sem hefur verið í fiskeldi á síðustu árum hefur víða skapað atvinnu á svæðum sem hafa einkennst af fátækt og atvinnuleysi en í þróunarlöndum er fiskur oft ríflega helmingur útflutningsverðmæta. Á Íslandi hefur fiskeldi ýtt undir jákvæða byggðarþróun á svæðum sem hafa búið við fólksfækkun á undanförnum árum.

Í leiðaranum leggur da Silva jafnframt áherslu á að þrátt fyrir að stefnt sé að aukinni fæðuframleiðslu megi það ekki koma niður á auðlindum jarðar. Heilsa og fæða mannskyns sé háð heilsu jarðar. Því þurfi að efla sjálfbærar veiðar og fiskeldi og stuðla umfram allt að bláum hagvexti.

Hann segir bláan hagvöxtur fást með því að efla sjálfbæra notkun og varðveislu endurnýtanlegra vatnaauðlinda með hagfræði-, félags- og umhverfisvænum aðferðum. Blár hagvöxtur miðar að því að jafna og samrýma þau forgangsatriði sem stuðla hvortveggja að vexti sem og varðveislu og tryggja ávinning fyrir samfélög sem eiga allt sitt undir sjávarútvegi með því að viðhalda jafnvægi milli handverks-, iðnaðarveiða og fiskeldis.

Íslendingar eygja tækifæri í fiskeldi

Fiskeldi er sú fæðuframleiðslu grein sem hefur vaxið mest á síðustu árum og vex um þessar mundir hraðar en fólksfjölgun í heiminum. Fiskur framleiddur í fiskeldi er þegar orðið um helmingur þess fisks sem neytt er í heiminum og áætlað er að hlutur fiskeldis verið orðinn 62% árið 2030.

Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein hérlendis. Arnljótur Bjarki Bergsson sviðstjóri hjá Matís telur þó að frekari rannsóknir og þróunarvinnu þurfi til að efla fiskeldi hérlendis. Hann bendir á að Íslendingar veiði um 1-2% af veiddum fisk í heiminum en ali einungis 0,01% af heildar fiskframleiðslu.

„Hér eru vissulega tækifæri til aukningar en leita þarf leiða til að hámarka arðsemi fiskeldis til dæmis með því að þróa ódýrara fóður án þess að það komi niður á gæðum hráefnisins.“

Arnljótur bendir þó á að Íslendingar ættu frekar að horfa til gæða frekar en magns og stefna þar með á dýrari markaði. Lífhagkerfið við strendur Íslands sé viðkvæmt og varúðar þurfi að gæta svo það spillist ekki.

Arnljótur telur að þegar fram í sækir megi ætla að fiskeldi á vestfjörðum muni framleiða jafn mikinn ef ekki meiri fisk en veiddur eru á svæðinu í dag. Ísland getur spilað stórt hlutverk í baráttuni gegn hungri, ekki bara sem fæðuframleiðandi heldur einnig með rannsóknum og nýsköpun.

IS