Fjölbreyttar og gagnlegar upplýsingar um HACCP og framleiðslu sjávarfangs

Tengiliður

Margeir Gissurarson

Verkefnastjóri

margeir.gissurarson@matis.is

Það er ekki einfalt mál að tryggja öryggi neytenda og sjá til þess að allir geti verið vissir um að maturinn sem er á boðstólum sé öruggur. Á hverju ári deyja þúsundir í hinum stóra heimi vegna neyslu matar sem ekki var öruggur. Hafa verður í huga að sumir hópar neytenda eru viðkvæmari en aðrir, svo sem ung börn og fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Því verður að fara yfir allt ferli hverrar framleiðslu og sjá til þess með öllum tiltækum ráðum að neytendur matar verði ekki fyrir skaða vegna þess að ekki var rétt að verki staðið einhvers staðar í framleiðsluferlinu.

Það er og verður ábyrgðarhlutur að framleiða matvæli og því er nauðsynlegt að setja skýran ramma utan um alla þætti matvælavinnslu og að leiðarljósi verður að hafa almannahagsmuni og öryggi neytenda.

HACCP bókin er liður í því að koma á framfæri þekkingu til þeirra sem bera ábyrgð á öruggri matvælaframleiðslu. Í ríflega tvo áratugi hefur HACCP verið fastur liður í framleiðslu sjávarfangs á Íslandi og nú á enginn að hafa framleiðsluleyfi nema að vottað HACCP kerfi sé til staðar.

Páll Gunnar Pálsson, matvælafræðingur, vann texta og setti upp handbókina. Margeir Gissurarson, matvælafræðingur, var með í skipulagningu á efni, las yfir allt efnið og var ósínkur á að miðla af sinni þekkingu og reynslu.

  • Við gerð þessa efnis var stuðst við:
  • Fish and Fishery Products Hazards and Controls Guidance
  • Hazard Analysis and Critical Control Point – Training Curriculum
  • Code of practice for fish and fishery products

Matís fjármagnaði gerð þessarar handbókar með stuðningi Rannsóknasjóðs síldarútvegsins.

Handbókina má nálgast hér:

HACCP bókin – Fjölbreyttar og gagnlegar upplýsingar um HACCP og framleiðslu sjávarfangs (PDF)

Frysting og þíðing – mikilvæg fyrir gæði sjávarafurða

Tengiliður

Margeir Gissurarson

Verkefnastjóri

margeir.gissurarson@matis.is

Enn á ný sendir Matís frá sér fræðsluefni til eflingar íslensks sjávarútvegs. Að þessu sinni er það samantekt um frystingu og þíðingu sjávarafurða.

Frystar afurðir hafa skipt gríðarlega miklu máli frá því frysting sjávarafurða hófst í alvöru hér á landi á árunum 1930-1940. Í hverri byggð voru reist a.m.k. eitt frystihús allt í kringum landið og ekki þurfti lengur að stóla eingöngu á söltun, þurrkun eða siglingar með hráefni. Frystingin bauð upp á ný tækifræi og nýja markaði, nú var hægt að selja verðmætar vertíðarafurðir allt árið út um allan heim.

Hver sá sem vinnur með frystar afurðir þarf að þekkja alla keðjuna frá veiðum á borð neytenda. Í þessu riti er farið vel í gegnum þessa keðju og hnykkt á öllu því helsta sem máli skiptir.

Páll Gunnar Pálsson, matvælafræðingur, vann texta og setti upp handbókina, Margeir Gissurarson, matvælafræðingur og Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur, voru með í skipulagningu á efni, lásu yfir allt efnið og miðluðu af sinni þekkingu og reynslu.

Gerð þessarar handbókar var fjármögnuð af Matís með góðum stuðningi frá Rannsóknasjóði síldarútvegsins.

Hjá Matís er hægt að nálgast mikinn fróðleik um flest allt sem viðkemur sjávarafurðum og allir starfsmenn fyrirtækisins eru boðnir og búnir til að gera gott betra í samvinnu við íslenskan sjávarútveg.

Handbókina má nálgast hér (PDF).

Inngangur að fisktækni

Tengiliður

Margeir Gissurarson

Verkefnastjóri

margeir.gissurarson@matis.is

Matís og Fisktækniskólinn í Grindavík hafa unnið saman að gerð þessa efnis sem nú birtist og hefur fengið heitið „Inngangur að fisktækni“ en þar er að finna fjölbreyttar og gagnlegar upplýsingar um framleiðslu sjávarafurða.

Rannsóknasjóður síldarútvegsins styrkti þessa útgáfu í samvinnu við Matís og Fisktækniskólann. Efnið er fyrst og fremst hugsað fyrir nemendur í fisktækni, en ætti auk þess að henta öllum þeim sem vilja fræðast um hvernig eigi að standa að framleiðslu sjávarfangs. Það er gríðarlega mikilvægt að efla aðgang að fræðslu um vinnslu matvæla, auknar kröfur á mörkuðum krefjast aukinnar þekkingar og vandvirkni á öllum stigum virðiskeðju sjávarfangs. Það skiptir máli að allir þeir sem koma að öflun og vinnslu hráefnis viti hvernig á að standa að verki til að framleiða örugg hágæða matvæli fyrir okkar verðmætustu markaði.

Fiskbókin er opin

Tengiliður

Óli Þór Hilmarsson

Verkefnastjóri

oli.th.hilmarsson@matis.is

Búið er að opna Fiskbókina en bókin er fróðleikur um helstu nytjafiska, upplýsingar um veiði þeirra, s.s. veiðisvæði, á hvaða árstíma þeir veiðast og helstu veiðarfæri. Með þessari rafrænu útgáfu Fiskbókarinnar er mögulegt að koma á framfæri margvíslegum upplýsingum um fisk og fiskafurðir, fræðslu og rannsóknum sem þeim tengjast með mun skilvirkari og fjölbreyttari hætti en hægt er í prentaðri bók.

Fiskbókin er unnin í samstarfi við Íslandsstofu, Samtök fiskvinnslustöðva, nú samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), og Iceland Seafood International með stuðningi AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi.

Fiskbókin var opnuð í miðju erindi Matís starfsmanna um margföldun verðmæta til útflutnings að ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðarmála viðstöddum á ráðstefnunni Matvælalandinu í sl. viku.

Fiskbókin er önnur í röð rafrænna bóka frá Matís en áður hafði Kjötbókin verið sett í loftið.

Bókin er öllum opin til frjálsra afnota, þó ber að geta upprunans ef upplýsingar úr bókinni eru nýttar í hverskyns annarskonar útgáfu.  Vistun bókarinnar er með þeim hætti að hægt er að prenta hana út í heild, valda kafla eða einstakar síður og nýta þær sem hluta af kynningarefni. Hver einstök síða er merkt upprunanum og er innihald hennar óbreytanlegt.

Þurrkhandbókin

Tengiliður

Sigurjón Arason

Yfirverkfræðingur

sigurjon.arason@matis.is

Þurrkun á fiski

Matís hefur að undanförnu unnið að því að auka framboð af aðgengilegu fræðsluefni sem tengist framleiðslu sjávarafurða. Fyrir nokkru var gefin út rafræn handbók um framleiðslu á saltfiski og nú birtist handbók um þurrkun á fiski.

Þurrkun er ein mikilvægasta framleiðsluaðferðin til að varðveita matvæli og hér á landi hefur þessi aðferð örugglega verið notuð frá upphafi landnáms. Þekkingin og kunnáttan gekk mann fram af manni þar sem hvert heimili þurfti að sinna sinni eigin matvælaframleiðslu. Nú á tímum er þessi þekking langt í frá að vera jafn almenn og því nauðsynlegt að draga mikilvægustu þætti þurrkunar saman í fræðslurit sem nýst getur framleiðendum, almenningi í fróðleiksleit eða sem kennslurit í skólum.

Gerð þessarar bókar var fjármögnuð af Matís og AVS- sjóðurinn styrkti einnig útgáfuna.

Handbókina má nálgast hér: Þurrkhandbókin – Fjölbreyttar og gagnlegar upplýsingar um þurrkun á fiski.

Saltfiskhandbækur

Tengiliður

Sigurjón Arason

Yfirverkfræðingur

sigurjon.arason@matis.is

Saltfiskhandbækur

Matís hefur nú gefið út rit um hvernig búa á til góðan saltfisk. Páll Gunnar Pálsson hjá Matís hefur átt veg og vanda af útgáfunum.

Annað ritið varpar ljósi á vinnslu saltfisks í stærra samhengi, til framleiðslu og sölu. Það rit ritið byggir á rannsóknum og þróunarverkefnum sem unnin hafa verið á Matís í samvinnu við saltfiskframleiðendur undanfarin ár.

Hitt ritið er fyrst og fremst ætlað fyrir einstaklinga sem áhuga hafa á því að búa til hollan og góðan saltfisk úr afbragðs hráefni.

Saltfiskbókina má nálgast hér.

Ferskfiskhandbókin

Tengiliður

Margeir Gissurarson

Verkefnastjóri

margeir.gissurarson@matis.is

Ferskfiskhandbókin sem nú birtist á vefnum, fjallar um innganginn að allri almennri fiskvinnslu. Það skiptir í raun ekki máli hver lokaafurðin verður, þess er ætíð krafist að hráefnið sé af bestu gerð. Það er gamaldags og úrelt viðhorf að lélegt hráefni sé hæft til framleiðslu sumra afurða. Allir neytendur eiga kröfu á að þeim sé sýnd tilhlýðileg virðing með því að bjóða þeim aðeins upp á það besta.

Gríðarleg þekking hefur orðið til í kjölfar margra rannsókna- og þróunarverkefna undanfarin ár, tæki og búnaður í veiðiskipum hefur tekið stórstígum framförum og það sama á við í flestum vinnslum landsins. Svo allt er til staðar til að framleiða eingöngu gæðaafurðir.

Það er ljóst að þekking er undirstaða þess að framleiða sem mest verðmæti úr sjávarauðlindinni og það er fátt mikilvægara en að gera hlutina rétt frá byrjun, ferskfiskhandbókin er liður í þeirri viðleitni að auka aðgengið að handhægum upplýsingum.

Gerð þessarar handbókar var fjármögnuð af Matís með góðum stuðningi frá Rannsóknasjóði síldarútvegsins.

Hjá Matís er hægt að nálgast mikinn fróðleik um flest allt sem viðkemur sjávarafurðum og allir starfsmenn fyrirtækisins eru boðnir og búnir til að gera gott betra í samvinnu við íslenskan sjávarútveg.

Handbókina má nálgast hér: Ferskfiskbókin – Fjölbreyttar og gagnlegar upplýsingar um framleiðslu á kældum fiski

Handbók um hollustu lambakjöts

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Hugmyndir um hollustu lambakjöts hafa verið nokkuð á reiki. Kjötið hefur liðið fyrir neikvæða ímynd sem hefur loðað við lambafituna síðustu áratugi. Þekkingu í næringarfræði hefur fleygt fram á síðustu árum og ný efni og nýjar hliðar á þessum málum hafa komið í ljós. Lambakjötið hefur ýmsa góða kosti frá sjónarhóli næringar mannsins en athygli almennings hefur ekki beinst að þessum þáttum sem skyldi.

Í þessari skýrslu er leitast við að draga saman skýrar upplýsingar um hollustuþætti lambakjöts fyrir almenning og þá sem veita upplýsingar um vöruna. Ljóst er að margt á eftir að koma í ljós um hollustuþætti í lambakjöti á næstu árum og verður spennandi að fylgjast með þróuninni. Í þessu ættu að felast tækifæri fyrir sauðfjárframleiðendur.
Skýrslan er hluti af verkefni um hollustuþætti í lambakjöti. Styrkur frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins gerði vinnuna mögulega.

Handbókina má nálgast hér.

Skýrslur

Stöðugleiki frosinna fiskafurða

Útgefið:

29/03/2000

Höfundar:

Margrét Geirsdóttir

Styrkt af:

Rannsóknarráð Íslands

Markmið þessa verkefnisins er að kanna stöðugleika og geymsluþol frystra þorskafurða. Einnig að skoða hvort hægt sé að nota glermark (glass transition temperature) afurða við gerð spálíkana fyrir geymsluþol í frysti og sem stjórntæki við vöruþróun. Breytingar í stöðugleika afurðanna eru mældar með skynmati, áferðar- og efnamælingum og metið hvaða þættir breytast mest og hafa aðallega áhrif á stöðugleikann.

Einnig er markmið verkefnisins að mæla glermark í þorskholdi og kanna samspil þess og stöðugleika með gerð spálíkana fyrir geymsluþol afurða í frystigeymslu í huga. Þekking á stöðugleika og geymsluþoli verður nýtt við mat á neyslugæðum afurða sem leitt getur til meiri verðmætasköpunar. Þekking á glermarki getur nýst sem tæki við framleiðslustýringu og vöruþróun og þar með leitt til umbóta í vinnslunni.


Miklar tafir hafa orðið á verkefninu, aðallega þar sem nauðsynlegt reyndist að kaupa nýjan frystibúnað á Rf m.a. vegna þessa verkefnis. Keypt var frystikista fyrir mjög lágt hitastig og frystihermar voru settir upp sem gefa möguleika á nákvæmri stillingu og skráningu á hitastigi. Niðurstöður úr mælingum eftir 6 mánuði í frysti verða birtar sumarið/haustið 2000.

Erfiðlega hefur gengið að mæla glermark í þorksholdi. Þegar vinna hófst við að mæla glermark í þorski kom í ljós að kælibúnaður DSC tækis, sem notað er við mælingarnar, réð ekki við að kæla sýni niður í æskilegt hitastig. Styrkur fékkst frá Tækjakaupasjóði Rannsóknarráðs til að bæta við þennan búnað og kom nýr kælibúnaður í ágúst s.l. Er nú hægt að framkvæma mælingar við lægra hitastig og er rannsóknaraðstaða öll önnur eftir að þessi viðbót fékkst. Einnig var keyptur nýr hugbúnaður og tölva fyrir tækið sem eykur möguleika á úrvinnslu gagna. Ekki hefur tekist að mæla glermark í þorskholdi en vonast er til að breyttar mæliaðferðir muni gefa betri raun.

Skoða skýrslu
IS