Fréttir

Rannsókn á heildarneyslu aðskotaefna úr matvælum

Nýlega hófst vinna við nýtt Evrópuverkefni, TDS Exposure, sem Matís tekur þátt í. Markmið verkefnisins er að samræma rannsóknir á heildarneyslu óæskilegra aðskotaefna í matvælum.

Verkefnið er mikilvægt fyrir áhættumat og alla þá sem fylgjast með áhrifunum aðskotaefnanna á heilsu. Heiti Evrópuverkefnisins á ensku er Total Diet Study Exposure og stutt heitið þess er TDS-Exposure en verkefnið hefur fengið íslenska heitið Rannsókn á heildarneyslu aðskotaefna úr matvælum.

Verkefnið miðar að því að bæta og staðla vöktun á því hversu útsett við erum fyrir óæskilegum aðskotaefnum í matvælum eins og við borðum þau. Vinnan við verkefnið byggir á aðferð sem á ensku gengur undir heitinu Total Diet Studies (TDS). Aðferðin metur það magn sem fólk fær af óæskilegum aðskotaefnum úr fullunnum og elduðum matvælum og gefur því trausta mynd af vandamálinu út frá sjónarhorni neytanda og eftirlitsaðila.

Sá hluti rannsóknarinnar sem Matís tekur þátt í, felur m.a. í sér þróun og innleiðingu á gæðaramma fyrir aðila sem stunda rannsóknir á heildarneyslu aðskotaefna, en einnig greiningu á gögnum um aðskotaefni. Matís mun einnig taka þátt í tilraun til að framkvæma samræmda rannsókn á heildarneyslu á a.m.k. einu aðskotaefni á Íslandi og verða þær niðurstöður bornar saman við sambærilegar rannsóknir sem framkvæmdar verða í Tékklandi, Finnlandi, Þýskalandi og Portúgal. Sömuleiðis stýrir Matís vinnupakka sem á að miðla upplýsingum varðandi niðurstöður verkefnisins til hagsmunaaðila.

Virkt eftirlit með óæskilegum efnum í matvælum og áhættumat eru lykilatriði til að tryggja örugg matvæli sem eru laus við heilsuspillandi aðskotaefni eins og sveppaeiturefni, þungmálma og varnarefni. Niðurstöður úr rannsóknum á heildarneyslu aðskotaefna gera eftirlitsaðilum kleift að fá raunverulegt mat á því hvaða aðskotaefni og hvaða matvæli skipta mestu máli við mat á heildarneyslu óæskilegra efna í fæðu. En þær veita líka upplýsingar til þess að hægt sé að gera áhættumat vegna neyslu þessara efna og meta áhrif þeirra á heilsu manna yfir langan tíma. Fjöldi mismunandi aðferða hafa verið notaðir í Evrópu, en í sumum löndum hafa rannsóknir á heildarneyslu aðskotaefna ekki enn verið stundaðar.

TDS Exposure kick-off meeting
Frá Kisk-off fundi verkefnisins

Rannsóknaraðilar frá 19 ólíkum Evrópuríkjum taka þátt í verkefninu sem mun prófa og samræma þær aðferðir sem notaðar hafa verið í Evrópu við sýnatöku matvæla, mælingar á aðskotaefnum í matvælum og gæðamat á gögnum og í kjölfarið skilgreina besta verklag við rannsóknirnar. Þessar upplýsingar verða ómetanlegar fyrir eftirlits- og áhættumatsaðila og fyrir stofnanir eins og Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) og Alþjóða heilbrigðisstofnunina (WHO).

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Nemendur í orkulíftækni við HA í heimsókn

Fyrir stuttu voru tveir meistaranemendur í orkulíftæknifræði við háskólann á Akureyri við vinnu hjá Matís við að raðgreina hitakæra bakteríustofna.

Bakteríustofnarnir sem um ræðir eru úr hverum hér á Íslandi og eru áhugaverðir fyrir þær sakir að þeir framleiða vetni, etanól og metan meðal annarra lokaafurða.

Meistaraverkefni nemendanna eru rannsóknir á örverum úr hverum á Íslandi sem framleiða afurðir sem hægt er að nýta sem orkugjafa. Aðaláherslan er á að leita að bakteríustofnum sem framleiða æskileg efni úr ódýru hráefni sem fellur til á Íslandi eða er auðvelt og arðbært að rækta innanlands til framleiðslunnar. Nemendur þessir heita Hrönn Brynjarsdóttir og Jan Eric Jessen og verður áhugavert að sjá framvindu verkefnis þeirra. Leiðbeinandi þeirra heitir Jóhann Örlygsson.

Hjá Matís er mikil þekking til staðar á hitakærum örverum og gengur eitt verkefnið, sem Matís er lykilþátttakandi í, út á að þróa aðferðir í líftækni til að framleiða etanól úr viðar- og plöntumassa, þ.e.a.s. að nýta lífmassa sem fellur til í að nota sem eldsneyti.

Timbur á eldsneytistankinn
Einn af vaxandi þáttum í starfsemi Matís er líftækni og hvernig beita má þeirri tækni til að þróa nýjar framleiðsluaðferðir og efla þannig nýja þekkingu. Eitt af norrænum verkefnum sem Matís vinnur nú að er einmitt þróun á líftækni til að framleiða etanól úr viðar- og plöntulífmassa. Þetta mætti orða þannig að timbri sé umbreytt til nota á eldsneytistankinn, þ.e. að lífmassinn verði nýttur til eldsneytisframleiðslu en verulegt magn af honum fellur til á Norðurlöndum.

Að verkefninu standa Matís frá Íslandi, Statoil ASA, Wayland AB og SINTEF frá Noregi, INNVENTIA AB frá Svíþjóð, Technical University of Denmark (DTU) og Technical Research Centre of Finland (VIT). Verkefnið fékk öndvegisstyrk frá Norræna ráðherraráðinu í gegnum Nordic Energy sjóðinn.

Verkefnið er mjög fjölþætt og felst meðal annars í að þróa aðferðir til að formeðhöndla lífmassann svo hann nýtist gerjunarlífverum til etanólframleiðslu. Einnig að þróa skilvirka ensímtækni til að brjóta lífmassa niður í gerjanlegar sykrur og gera erfðaendurbætur á gersveppum svo þeir geti sundrað fjölsykrum. Matís mun þróa og endurbæta hitakærar etanólmyndandi gerjunarbakteríur með erfðatækni en bakteríur sem einangraðar hafa verið úr heitum hverum geta oft brotið niður sellulósa á skilvirkan hátt. Hins vegar mynda þessar bakteríur aukaefni, svo sem ediks- og mjólkursýru.

Markmiðið er því að með öflugri hitakærum bakteríum verði unnt að auka etanólframleiðsluna, minnka eða stöðva alveg framleiðslu aukaefna og brjóta niður sellulósa. Endanlegt markmið er að búa til framleiðslukerfi þar sem saman fer niðurbrot á sellulósa og gerjun í etanól í einni líffræðilegri einingu/kerfi.

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Óli Hreggviðsson hjá Matís.

Fréttir

Þegar bændur hittu hönnuði

Fyrir fjórum árum var hrundið af stað nýsköpunarverkefni Listaháskóla íslands sem bar yfirskriftina Stefnumót hönnuða og bænda og er Matís mikilvægur hlekkur í þessu verkefni.

Í verkefninu var teflt saman einni elstu starfstétt landsins, bændum, og þeirri yngstu, vöruhönnuðum. Afraksturinn er nú til sýnis í fyrsta skipti í heild í Sparkdesign Space við Klapparstíg. Þórunn Kristjánsdóttir, blaðamaður á Fréttatímanum, rifjar hér upp þetta ævintýri en umfjöllun þessi birtist í Fréttatímanum 30. mars 2012.

Umfjöllunina má finna hér.

Fréttir

Kynning á spennandi meistaranámi

Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands verður með kynningu á nýju alþjóðlegu meistarnámi í matvælafræði fimmtudaginn 12. apríl nk. kl. 10-12 í stofu HT-300 á Háskólatorgi.

Háskóli Íslands í samstarfi við Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskólann, Háskólann á Hólum og Matís, hefur sett á laggirnar mastersnám í matvælavísindum þar sem áherslurnar eru frábrugðnar því sem áður hefur þekkst.

Kynning á náminu verður núna á fimmtudaginn 12. apríl á Háskólatorgi – sjá hér.
Nýtt meistaranám í matvælafræði

Meistaranám í matvælafræði í samvinnu Háskóla Íslands, annarra ríkisháskóla og Matís, með aðkomu fyrirtækja í matvæla- og líftækniiðnaði.

Boðið verður upp á þrjár námsleiðir í náminu og ljúka þá nemendur meistaragráðu í matvælafræði með áherslu á framleiðslustjórnun, gæðastjórnun eða líftækni.

  • Framleiðslustjórnunarlína: áhersla á vinnslu, vöruþróun og virðisaukningu
  • Gæðastjórnunarlína: áhersla á örverumælingar og rannsóknir og innleiðingu og útfærslu gæðaeftirlits
  • Líftæknilína: áhersla á lífefnavinnslu, rannsóknir og nýsköpun

Ætlunin er að tengja námið atvinnulífi með beinum hætti, bæði með gestafyrirlesurum úr atvinnulífi og með hagnýtum nemendaverkefnum sem unnin verða í samstarfi við öflug matvælafyrirtæki. Jafnframt því að tengja námið betur atvinnulífi
en áður hefur þekkst á þessu sviði verður alþjóðlegt samstarf eflt, auk þess sem bætt hefur verið inn í námið stjórnunar- og rekstraráherslum.

Um er að ræða hagnýtt nám sem hentar þeim sem lokið hafa grunnnámi í matvælafræði eða öðrum raunvísindagreinum eins og efnafræði, líffræði og verkfræði og hafa áhuga að gegna leiðandi hlutverki í matvæla- og líftækniiðnaði við stjórnun, nýsköpun eða rannsóknir.

Nánari upplýsingar má finna hér og einnig með því að hafa samband við Guðjón Þorkelsson sviðsstjóra hjá Matís og dósent við Hí og Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Heimasíða námsins: www.framtidarnam.is.

Saltfiskhandbækur

Tengiliður

Sigurjón Arason

Yfirverkfræðingur

sigurjon.arason@matis.is

Saltfiskhandbækur

Matís hefur nú gefið út rit um hvernig búa á til góðan saltfisk. Páll Gunnar Pálsson hjá Matís hefur átt veg og vanda af útgáfunum.

Annað ritið varpar ljósi á vinnslu saltfisks í stærra samhengi, til framleiðslu og sölu. Það rit ritið byggir á rannsóknum og þróunarverkefnum sem unnin hafa verið á Matís í samvinnu við saltfiskframleiðendur undanfarin ár.

Hitt ritið er fyrst og fremst ætlað fyrir einstaklinga sem áhuga hafa á því að búa til hollan og góðan saltfisk úr afbragðs hráefni.

Saltfiskbókina má nálgast hér.

Skýrslur

Þurrkun á síldarflökum / Drying of herring fillets

Útgefið:

01/04/2012

Höfundar:

Vigfús Ásbjörnsson, Guðjón Þorkelsson, Loftur Þórarinsson, Arnljótur Bjarki Bergsson, Aðalheiður Ólafsdóttir

Styrkt af:

AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi

Tengiliður

Guðjón Þorkelsson

Stefnumótandi sérfræðingur

gudjon.thorkelsson@matis.is

Þurrkun á síldarflökum / Drying of herring fillets

Markmið verkefnisins er að skapa virðisaukningu með fullvinnslu á síldarafurðum á Íslandi með því að rannsaka verkferla á þurrkaðri síld til manneldis á erlenda markaði. Rannsakaðir voru markaðir á þurrkaðri síld í Japan og vinnsluaðferðir. Tilraun var gerð með framleiðsluferil sem miðar að því að stytta verkferla í aldagamalli Japanskri þurrkunaraðferð sem kallast Migaki verkun á síld (loftþurrkun).

The projects goal is to create increased value through processing of herring products in Iceland by analyzing production methods of dried herring for human consumption in foreign markets. Analyses where performed on dried herring markets in Japan as well as production methods. Experiment was performed that aims to shorten the procedures of an ancient Japanese method of drying herring known as the Migaki method, (air drying).

Skoða skýrslu

Skýrslur

Auðgaðir sjávarréttir / Enriched seafood

Útgefið:

01/04/2012

Höfundar:

Emilía Martinsdóttir, Rósa Jónsdóttir, Kolbrún Sveinsdóttir, Margrét Geirsdóttir, Aðalheiður Ólafsdóttir, Helga Helgadóttir, Gísli M. Gíslason

Styrkt af:

AVS

Tengiliður

Rósa Jónsdóttir

Fagstjóri

rosa.jonsdottir@matis.is

Auðgaðir sjávarréttir / Enriched seafood

Verkefninu Auðgaðir sjávarréttir sem unnið var í samvinnu við fyrirtækið Grím kokk í Vestmannaeyjum og Iceprotein á Sauðárkróki er nú að ljúka. Þar voru þróaðar nokkrar frumgerðir af vörum úr íslensku sjávarfangi og bætt í þær lífefnum eins og þörungaþykkni með skilgreinda lífvirkni, hýdrólysötum til að auka próteininnihald og lýsi til að auka ómega‐3 fitusýrur. Niðurstöðurnar sýna að vel er hægt að auka magn ómega‐3 fitusýra í fiskibollum án þess að það komi niður á bragðgæðum. Sama má segja um íblöndun þörungadufts og einnig tókst vel að auka próteinmagn í fiskbollunum.   Neytendakannanir voru framkvæmdar til að kanna smekk neytenda fyrir frumgerðum í samanburði við hefðbundna vöru sem þegar er á markaði.   Upplýsingar um lífvirku efnin og virkni þeirra hafði áhrif á hvernig fólki geðjaðist að vörunum. Áhrif upplýsinga voru háð ýmsum þáttum, eins og viðhorfum til heilsu og matar og viðhorfum til innihaldsefna í þeirri vöru sem prófuð var. Neytendakönnun á netinu sem yfir 500 manns tóku þátt í sýndu að fólk er almennt jákvæðara gagnvart auðgun ef um er að ræða þekkt hollustuefni á borð við ómega‐3. Einnig að betra er að veita upplýsingar um virkni þó að um þekkt efni sé að ræða, þar sem það eykur á jákvæða upplifun fólks af vörunni. Auðgun með þara virðist einnig vera raunhæfur kostur þar sem upplýsingar um notkunargildi þarans í vöru voru gefnar og svipað má segja varðandi fiskiprótein. Þessar vörur höfða almennt frekar til fólks sem leggur áherslu á hollustu matvæla, sem er nokkuð stór hópur samkvæmt þessum niðurstöðum. Almennt má álykta út frá þessum niðurstöðum að auðgun sjávarrétta sé raunhæfur möguleiki en huga þarf að merkingum og upplýsingagjöf til neytenda. Það má álykta út frá þessum niðurstöðum auðgun sjávarrétta sé raunhæfur möguleiki en huga þarf að merkingum og upplýsingagjöf til neytenda.

Prototypes of seafood dishes enriched with bioactive compounds from the ocean, such as seaweed, fish proteins and fish oil to increase omega‐ 3 fatty acids have been developed to meet market demand. The results show that it is possible to increase the content of omega‐3 fatty acids in fishcakes without negatively affecting the flavour. Also the enrichment of seaweed and fish proteins to increase protein content was successful. Consumers were asked about liking of various prototypes compared to traditional fish dishes. Information on the added compounds and their bio‐activity affected the liking of the consumers. Influence of information depended on various factors like attitudes towards health, food and the added ingredients.   Web‐based consumer survey (500 respondents) showed that consumers were more positive towards enrichment of seafood if well‐known ingredients like omega‐3 were used. The information on health‐effect and bio‐activity was also positive regarding the consumer experience. even though the ingredients was well‐known. Enrichment using seaweed or proteins also seems to be a realistic option based on information of the health effect given. These kinds of products appeal more to consumers emphasising health benefits of their food. It can be stated from the results of the project that enrichment of seafood is a realistic option but labelling and information to consumers is important.

Skýrsla lokuð til 01.04.2015

Skoða skýrslu

Fréttir

Hönnunarverðlaun Grapevine

Skyrkonfekt, Ragnheiður Ösp Sigurðardóttir og KRADS hlutu vöruhönnunarverðlaun blaðsins Reykjavík Grapevine en þess má geta að Matís kom að þróun Skyrkonfektsins.

Skemmtileg frétt birtist á www.mbl.is fyrir stuttu. Þar er sagt frá Vöruhönnunarverðlaunum Reykjavík Grapevine. Skyrkonfektið frá Erpsstöðum fékk góða dóma.

………segir dómnefnd að skyrkonfekt sé „vel úthugsað dæmi um það gagn sem hönnun getur gert samfélaginu[…], smekkleg

og góð vara sem gerð er úr staðbundnu og lífrænu hráefni.“ Konfektið sé auk þess í „bráðfallegum umbúðum sem henta innihaldinu einstaklega vel“.

Hægt er að gæða sér á skyrkonfektinu á HönnunarMars 2012 en nánari fréttir um hátíðina og verkefnið Stefnumót hönnuða og bænda má finna hér.

Nánari upplýsingar veitir Irek Klonowski hjá Matís.

Mynd með frétt: Vigfús Birgisson

Ofangreind frétt birtist þann 11.3. á www.mbl.is og má sjá hana í heild sinni hér að neðan.

Skyrkonfekt, Ragnheiður Ösp Sigurðardóttir og KRADS hlutu vöruhönnunarverðlaun blaðsins Reykjavík Grapevine í ár í flokkunum vörulína ársins, vara ársins og verkefni ársins. Verðlaunin voru afhent í húsakynnum Hönnunarmiðstöðvar Íslands á föstudag.

Ragnheiður Ösp og vörulína hennar átti að mati dómnefndar vörulínu ársins, en hún á heiðurinn af NotKnot-koddunum. Segir í rökstuðningi dómnefndar að NotKnot sé „nýstárleg úrvinnsla á á íslensku ullinni, bráðfallegir koddar með skemmtilegt form“ sem sýni „sterka og sjálfstæða sýn frá skapandi íslenskum hönnuði“ og sé „frábært dæmi um handgerða vöru sem er um leið á viðráðanlegu verði.

Fyrir vöru ársins hlaut hópurinn að baki skyrkonfekti viðurkenningu, en skyrkonfekt er skilgetið afkvæmi Bændaverkefnisins, sem hafði það að markmiði að örva bændur til þess að skapa nýjar vörur í samstarfi við hönnuði. Í rökstuðningi sínum segir dómnefnd að skyrkonfekt sé „vel úthugsað dæmi um það gagn sem hönnun getur gert samfélaginu[…], smekkleg og góð vara sem gerð er úr staðbundnu og lífrænu hráefni.“ Konfektið sé auk þess í „bráðfallegum umbúðum sem henta innihaldinu einstaklega vel“.

Verkefni ársins er svo nýr flokkur í vöruhönnunarverðlaununum, en það var arkitektastofan KRADS sem hlaut viðurkenningu þar fyrir samstarfsverkefni þeirra við LEGO. Að mati dómnefndar er afraksturinn afbragðs dæmi um verkefni sem nær til allra og vekur áhuga á hönnun og umhverfi, „útlitslega sterk hugmynd sem fólk laðast náttúrulega að.“ Þykir verkefninu takast einkar vel að bæta nýrri og óvæntri vídd við merkingarþrungið vörumerki og útkoman sé tól til náms og nýsköpunar, „fögur blanda leiks og fagmennsku sem blæs nýju lífi í arkítektúr.“

Dómnefndin var skipuð hönnuðunum Herði Kristbjörnssyni, fyrir hönd Reykjavík Grapevine, Sari Peltonen, fyrir hönd Hönnunarmiðstöðvar Íslands, Auði Karítas frá versluninni Geysi, Hafsteini Júlíussyni hönnuði og Tinnu Gunnarsdóttir, fyrir hönd Vöruhönnunar við Listaháskóla Íslands.

Dómnefnd voru settar þær skorður í vali sínu að verðlaunaðar yrðu vörur sem væru raunverulegir og áþreifanlegir hlutir, allt frá keramiki að skartgripum. Ákveðið var að útiloka fatahönnun úr menginu, en þó kom til greina að verðlauna fatalínur í flokknum besta vörulínan. Skilyrði var og sett um að vörurnar hefðu komið fram árið 2011.

Útgefandi Reykjavík Grapevine, Hilmar Steinn Grétarsson, segir að markmið verðlaunanna sé að vekja athygli á því sem vel er gert og að styðja við bakið á ört vaxandi og gífurlega spennandi geira hér á landi.

Fréttir

Getum við lært af dóttur Isabellu Rossellini eða getur hún lært af okkur? – Norræna eldhúsið vekur athygli!

Eins og margir vita þá er Elettra Wiedermann í heimsókn á Íslandi vegna HönnunarMars 2012. Færri vita þó að hún er hvatamaður að mjög sérstökum veitingastað en hráefnin sem hún notar eru að mestu leyti staðbundin. Það sama á við um matarsmiðjur sem eru að ryðja sér til rúms um allan heim.

Nú stendur yfir fundur hér á landi um nýjan norrænan mat (New Nordic Food) og fer fundurinn fram í húsakynnum Matís. Margir góðir gestir mæta á fundinn en þar má nefna eiganda og einn stofnenda vinsælasta veitingahúss í heimi árin 2010 og 2011, NOMA – Nordic Cuisine. Claus Meyer, sem ásamt René Redzepi, stofnaði NOMA árið 2004 er hér vegna þessa fundar. Mikilvægi norrænnar matargerðar og áhugi fólks á henni hefur sjaldan verið meiri. René prýðir einmitt forsíðu TIME núna 26. mars nk. og er það til merkis um aukinn áhuga Bandaríkjamanna á því sem norrænu ríkin eru að gera í mat og drykk, þá sérstaklega þegar kemur að staðbundinni matvælaframleiðslu og fullnýtingu hráefna.

Mikilvægi matarsmiðja er verulegt, ekki bara hér á Íslandi heldur víðar, þá sérstaklega á hinum Norðurlöndunum. Flestar frændþjóðir okkar hafa lagt umtalsverðar upphæðir í að styðja við matvælaframleiðslu úr nærumhverfinu, bæði fyrir uppbyggingu ferðamennsku en ekki síður til að skapa aukin verðmæti sem sjálf salan á matvælum skapar. Þegar horft er til staðbundinnar matvælaframleiðslu er óhætt að segja að fátt annað stuðli að jafn heilbrigðri uppbyggingu atvinnulífs. Hér er veri ð að búa til verðmæti úr alvöru vöru, ekki ímyndaðri vöru eins og við þekktum fram að hruni árið 2008. Staðbundin matvælaframleiðsla er gríðarlega mikilvæg fyrir efnahag hvers svæðis og hvers lands en ekki síður vegna ímyndarsköpunar landanna sjálfra í stóru samhengi þar sem fullnýting hráefna er oftar en ekki haft að leiðarljósi.

Í matarsmiðjum Matís býðst frumkvöðlum og litlum fyrirtækjum tækifæri til að stunda vöruþróun og hefja smáframleiðslu á matvælum gegn vægu leigugjaldi. Þannig spara þeir sér fjárfestingu í dýrum tækjabúnaði strax í upphafi rekstrar. Með þessu gefst einstakt tækifæri til að prófa sig áfram bæði við framleiðsluna og á markaði. Sérstök áhersla er á uppbyggingu í tengslum við staðbundin matvæli  og matarferðaþjónustu.

Aðstaðan er hugsuð til notkunar á landsvísu. Forsenda þess að komast í aðstöðuna er að kaupa ráðgjöf um góða framleiðsluhætti í upphafi. Þannig munu notendur læra rétt vinnubrögð frá upphafi. Með aðstöðunni í Matarsmiðjunni á Hornafirði gefst einstakt tækifæri til nýsköpunar í smáframleiðslu matvæla. Nú þegar er fjöldi verkefna komin í gang í matarsmiðjum Matís og er sífelld aukning í áhuga á smiðjunum.

Meira um Goodness, veitingastað Elettru Wiedermann, má finna hér og upplýsingar um NOMA veitingastaðinn má finna hér.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Fréttir

Má bjóða þér rabarbarakaramellu, sláturtertu, rúgbrauðs-rúllutertu eða skyrkonfekt?

Samstarf Matís og Listaháskóla Íslands, Stefnumót hönnuða og bænda, einn af 8 bestu molunum á HönnunarMars 2012.

Lilja Gunnarsdóttir, ritstjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands, valdi bestu og girnilegustu molana úr dagskrá HönnunarMars 2012 og þótti henni Stefnumót við bændur einn besti molinn þetta árið.

Matís er þátttakandi í HönnunarMars 2012. Annars vegar kemur Matís að verkefninu Stefnumót við bændur sem er verkefni leitt af Listaháskóla Íslands en markmið þess var að leiða saman tvo mjög svo ólíka hópa; hönnuði annars vegar og bændur hins vegar. Matís var þar sem mikilvægur samstarfsaðili þegar kom að því að búa til neytendavænar vörur úr hráefnum, oft á tíðum vannýtum, sem bændur hafa handa á milli. 

„Stefnumót bænda og hönnuða“ er frumkvöðlaverkefni í þágu atvinnulífsins þar sem tvær starfstéttir eru leiddar saman  til að skapa einstaka afurð. Mikil sóknartækifæri felast í  matvælaframleiðslu og með markvissri nýsköpun á hráefninu og vöruþróun er hægt að margfalda virðisaukann.

Sýningarmoli þessi fer fram á Klapparstíg 33 í Reykjavík. Fréttatilkynning: Stefnumót vð bændur.

Sjá nánar á www.sparkdesignspace.com og www.designersandfarmers.com (vefsvæði opnar á laugardaginn).

Hins vegar er Matís þátttakandi á HönnunarMars í sýningu á afrakstri háskólanámskeiðsins “Vistvæn nýsköpun matvæla” (EcoTrophelia Iceland).

Á EcoTrophelia er keppt um titilinn ljúffengasta, frumlegasta og vistvænasta matvaran 2012. Keppnin og sýningin eru haldin innan ramma HönnunarMars og fara viðburðirnir fram í nýjum húsakynnum Hönnunar- og arkitektúrsdeildar Listaháskóla Íslands, Þverholti 11.

Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson afhendir verðlaun í nemendakeppninni við athöfn á sýningarsvæðinu laugardaginn 24. mars kl 14.30. Sýningin er öllum opin og hér er auglýsing vegna hennar.

Markmið EcoTrophelia Iceland er að minnka umhverfisáhrif frá íslenskum matvælaiðnaði með því að skapa nýjar vistvænar mat- og drykkjarvörur í gegnum vöruþróunarsamkeppni háskólanemenda. Nýsköpunarmiðstöð Íslands ásamt Matís hefur stofnað til samstarfs við fimm íslenska háskóla um að efna til námskeiðs á mastersstigi í vistvænni nýsköpun á  matvælum. Þverfagleg teymi nemenda frá ólíkum skólum og sérsviðum eru leidd í gegnum vöruþróunarferlið, frá hugmynd að markaðshæfri vöru, með sérstakri áherslu á umhverfismál og hönnun. Í lok námskeiðs býr hvert teymi yfir fullþróaðri frumgerð matvöru og fullbúinni viðskipta- og markaðsáætlun. Nemendur geta markaðssett vöruna sína sjálfir eða selt nýsköpunarhugmyndina til starfandi matvælafyrirtækis. Námskeiðið endar á samkeppni, EcoTrophelia Iceland, milli vöruhugmyndanna, en  vinningsliðið tekur þátt í Evrópukeppninni EcoTrophelia Europe síðar sama ár. Að keppninni standa, auk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Matís, Þróunarvettvangur á sviði matvæla – Food for Life og Samtök iðnaðarins.

Nánari upplýsingar um EcoTrophelia má finna hér.

IS