Fréttir

Umhverfismerkingar í sjávarútvegi

Á síðustu misserum hefur áhugi á umhverfismerkingum sjávarfangs stóraukist, enda eru hin ýmsu umhverfissjónarmið farin að skipta meira og meira máli á öllum stigum virðiskeðju sjávarafurða.

Fólk virðist hins vegar ekki alltaf átta sig á því hvað liggi á bakvið þessi merki, það er að segja hvert hlutverk þeirra sé, hvernig þau virki, hvort þau virki, hvort merkin sem eru í boði séu sambærileg o.s.frv. Hér verður reynt að varpa ljósi á þessar vangaveltur og kynna þau merki sem snerta okkur Íslendinga hvað mest.

Út er komin frá Matís mjög áhugaverð grein um umhverfismerkingar í sjávarútvegi. Greinina má finna hér.

Fréttir

Aukin fiskneysla fæst með aukinni fræðslu

Ljóst er að foreldrar hafa mest hvetjandi og mótandi áhrif á fiskneyslu ungs fólks og þeir sem hafa vanist því að borða fisk í æsku halda því áfram síðar á ævinni. Í ljós kom að fræðsla og þekking jók greinilega fiskneyslu hjá ungu fólki.

Gunnþórunn Einarsdóttir hjá Matís útskrifaðist með MS-próf í matvælafræði frá Háskóla Íslands í október 2008. Meginviðfangsefni hennar var að afla upplýsinga um fiskneyslu ungs fólks og viðhorf þeirra til fisks og var verkefnið unnið innan AVS-verkefnisins : Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða.

Tilgangurinn var að leita leiða sem gætu stuðlað að bættri ímynd sjávarafurða meðal ungs fólks og aukið neyslu þeirra á þessum afurðum í samræmi við næringarfræðilegar ráðleggingar og þannig mögulega haft áhrif á þau sjálf og næstu kynslóð

Helstu niðurstöður verkefnisins voru þær að unga fólkið á aldrinum 17 til 26 ára borðaði fisk sem aðalrétt 1,3 sinnum í viku sem er undir ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um að borða eigi fisk tvisvar í viku eða oftar. Foreldrar hafa mest hvetjandi og mótandi áhrif á fiskneyslu unga fólksins. Það að hafa borðað fisk í æsku hefur mikil áhrif á viðhorf unga fólksins til fiskneyslu seinna meir. Sjá mátti einnig úr niðurstöðunum að sá hluti þessa fólks sem farið var að heiman borðaði minnst af fiski.

Óöryggi varðandi meðhöndlun á fiski eins og það að matbúa hann eru letjandi þættir á fiskneysluna. Íhlutun sem fól í sér aukið aðgengi að fiski gegnum skólamötuneyti, opna fræðslufyrirlestra og kynningu á vefnum skilaði betri þekkingu á fisknum og lýsisneyslan jókst um nær helming og meir hjá stúlkum en strákum. Þeim sem ekki voru fyrir fisk fyrir íhlutun geðjaðist betur að honum eftir íhlutun.

Hvað varðar þessa þróun á minnkandi fiskneyslu þá er mikilvægt að sporna við henni sem fyrst með því að auka m.a. þekkingu á mikilvægi fiskneyslu heilsunnar vegna ásamt því að kenna unga fólkinu að elda fisk. Fjölskyldan er sterkur áhrifavaldur varðandi fiskneyslu og því er mikilvægt að foreldrarnir taki einnig virkan þátt í því að fræða og kynna fiskinn fyrir börnunum sínum. Ef markaðssetja á fiskafurðir fyrir þennan aldurshóp eða auka fiskneyslu þeirra ber að hafa í huga að mikilvægt er fyrir unga fólkið að fiskmáltíðin taki mið af kröfum þeirra. Niðurstöðurnar sýndu að unga fólkið hefur mismunandi smekk og skoðanir og hægt er að skipta því upp í nokkra mismunandi hópa bæði eftir smekk þeirra fyrir fiskréttum og viðhorfa til heilsu og hollustu.

Rannsóknin í heild sýndi að fiskneyslan er undir viðmiðum og þekking á fiski er ekki góð. Þörf er á aðgerðum til að fá ungt fólk til að borða meiri fisk og fræða það um mikilvægi fisks fyrir heilsuna. Einnig sýndi rannsóknin að fræðsla skilar sér til unga fólksins og hafði hún meiri áhrif á þá sem voru minna fyrir fisk. Íslendingar hafa lifað á sjávarútvegi um aldir og þekking á fiskveiðum og fiskvinnslu er með því besta sem gerist í heiminum. Þekking á fiskneyslu og hvað ákvarðar fiskneyslu ætti að vera lykilatriði í markaðssetningu sjávarafurða.

Ef neysla Íslendinga á sinni meginframleiðslu er minnkandi getur það skaðað ímynd útfluttra sjávarafurða frá Íslandi. Þegar til framtíðar er litið þá er ljóst að samstilltar aðgerðir, sem byggja á ítarlegri neytendarannsóknum, markvissri fræðslu um bæði hollustu og matreiðslu sjávarfangs svo og auknu framboði að fjölbreyttum fiskréttum, geta orðið mikilvægir þættir í að snúa við neysluþróun síðustu ára og stuðlað að aukinni fiskneyslu og bættri lýðheilsu þjóðarinnar. Með þessari rannsókn er kominn stór gagnabanki sem er forsenda fyrir því að halda áfram að rannsaka viðhorf og fiskneyslu Íslendinga.

Hægt er að nálgast ritgerð Gunnþórunnar hér: Viðhorf og fiskneysla ungs fólks

Fréttir

Matís opnar líftæknismiðju á Sauðárkróki

Matís opnaði líftæknismiðju á Sauðárkróki sl. þriðjudag, 18. nóvember. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra opnaði smiðjuna að viðstöddu fjölmenni.

Með tilkomu líftæknismiðjunnar skapast rannsóknaraðstaða með tilheyrandi vinnsluaðstöðu þar sem vísindamenn og frumkvöðlar í líftækna geta þróað vörur sínar og vinnsluferla í samvinnu við Matís. Það þarf ekki að koma á óvart að Matís opni þessa smiðju í Skagafirði enda er matarkista Skagfirðinga alþekkt en þar vex hún og dafnar í skjóli öflugs og fjölbreytilegs matvælaiðnaðar. Líftæknismiðjan er opin öllum landsmönnum og þar geta einstaklingar og fyrirtæki fengið aðstöðu til skemmri tíma til að framleiða afurðir. Smiðjan verður nokkurs konar klakstöð nýrra sprotafyrirtækja í líftækni og mjög mikilvæg í að stytta ferlið frá hugmynd til markaðar.

Einar_Sjofn_3
Bjarki_Patricia

Á myndunum má m.a. sjá þegar Einar K. Guðfinnsson og Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís opna líftæknismiðjuna formlega ásamt Guðmundi Guðlaugssyni, sveitastjóra Skagafjarðar, Arnljóti Bjarka Bergssyni verkefnastjóra hjá Matís og Patriciu Hamaguchi frá Matís.

Fréttir

NÚNA er tækifærið – Matís með á fjöldafundi SI

Treystum stoðirnar – virkjum mannauðinn

Síðastliðinn föstudag, 14. nóvember, var haldinn fjöldafundur meðal fyrirtækja og fólks í hátækni- og sprotageiranum á Hilton Reykjavík Nordica.

Fundurinn kallaðist „Núna“ er tækifærið því að núna er einmitt tæifærið til að hefja markvissa uppbyggingu hátækni- og sprotafyrirtækja með virku samstarfi og samstöðu stjórnvalda, stjórnenda og starfsmanna um að treysta stoðir nýsköpunar og virkja mannauðinn. Tilgangur fundarins var að efla sóknarhug og sjálfstraust.

Á fundinum kynntu fyrirtækin starfsemina, komu með góðar fréttir um árangur af þróunar- og markaðsstarfi og kynntu tilboð sem fólu m.a. í sér að þau geti bætt við sig fólki að því gefnu að tiltekin starfsskilyrði og stoðir til nýsköpunar séu fyrir hendi.

Kynningu Matís má finna hér og hér má finna tilboð Matís.

Fulltrúar nokkura fyrirtækja tóku til máls auk Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Össurar Skarphéðinssonar. Valgeir Guðjónsson, tónlistarmaður bjó til tónlist á staðnum ásamt DJ Margeir og Björk Guðmundsdóttur, tónlistarmaður hélt hvatningaræðu. Fundarstjórar voru Þórólfur Árnason, forstjóri Skýrr og Svafa Grönfeldt rektor við HR.

Að fundinum stóðu Samtök iðnaðarins, Samtök líftæknifyrirtækja, Samtök sprotafyrirtækja, Samtök upplýsingafyrirtækja og Háskólinn í Reykjavík.

Dagskrá

16.00 Helgi Magnússon, formaður SI opnar fundinn og fundarstjórar taka við

16.10 Stutt innlegg frá fulltrúum fyrirtækja og stjórnvalda

Stiki – Svana Helen Björnsdóttir, framkvæmdastjóri

Össur – Egill Jónsson, framkvæmdastjóri framleiðslusviðs

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra

Skýrr- Sigrún Ámundadóttir, framkvæmdastjóri hugbúnaðarlausna

Klak – Eyþór Ívar Jónsson, framkvæmdastjóri

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra

Valgeir Guðjónsson býr til tónlist með þátttöku fundargesta       

Marel – Sigsteinn Grétarsson, forstjóri Marel á Íslandi

CCP – Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra

Marorka – Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri

Betware – Stefán Hrafnkelsson, framkvæmdastjóri

Stjörnuoddi – Jóhanna Ástvaldsdóttir, fjármálastjóri

SagaMedica – Perla Björk Egilsdóttir, sérfræðingur

Björk Guðmundsdóttir, tónlistarmaður

Lag Valgeirs Guðjónssonar og DJ Margeirs flutt 

17.00  Mannblendi

Fréttir

Matís hlýtur viðurkenningu

Á ráðstefnu um atvinnulíf og nýsköpun við lendur Vatnajökuls um síðustu helgi var haldin Uppskeruhátíð klasans að Smyrlabjörgum á föstudagskvöldinu sem að Ríki Vatnajökuls og Ferðamálafélag Austur- Skaftafellssýslu stóð fyrir.

Veittar voru viðurkenningar annars vegar frá Ríki Vatnajökuls og FASK, Vitinn – öðrum leiðarljós, og hins vegar frá Ferðamálasamtökum Íslands.

Fyrir valinu hjá þeim fyrrnefndu varð Hótel Höfn sem hefur verið mikil kjölfesta í ferðaþjónustu á svæðinu.
Vitinn – öðrum leiðarljós er veittur fyrirtækjum eða einstaklingum sem með einum eða örðum hætti hafa verið öðrum aðilum í greininni leiðarljós.

Þá veittu Ferðamálasamtök Íslands viðurkenningu fyrir Faglega uppbyggingu í ferðaþjónustu og rannsóknum, viðurkenninguna afhenti Pétur Rafnsson fyrir hönd ferðamálasamtakanna en viðurkenninguna hlutu Nýheimar. Við viðurkenningunni tók Ari Þorsteinsson fyrir hönd Nýheima.

Viðurkenningin var veitt öllum þeim aðilum innan Nýheima sem annars vegar hafa með markvissu samstarfi sín á milli og hins vegar með öflugu og vaxandi samstarfi við fyrirtæki í ferðaþjónustu, matvælum og menningu sem og áhugasama og atorkumikla einstaklinga og frumkvöðla, skotið nýjum sterkum stoðum undir rekstur ferðaþjónustu í Ríki Vatnajökuls. Með því hefur eflst enn frekar sú öfluga ferðaþjónusta sem byggst hefur upp á undanförnum áratugum og þekkt er á landsvísu fyrir samheldni, kjark og þor.

Samhliða þessu hefur markvisst verið unnið að því að byggja brýr til nágranna, jafnt í austri sem vestri sem og um landið þvert. Gildir það jafnt um samstarf á félagsvísu sem og á vegum einstakra fyrirtækja eða einstaklinga. Með þessu hefur verið haldið áfram að þróa þá vegferð sem frumkvöðlar fyrri ára lögðu upp í fyrir margt löngu með Árna Stefánsson hótelstjóra á Hótel Höfn í fararbroddi.

Aðilar í Nýheimum eru: (talið í stafrófsröð)
Búnaðarsamband Suðurlands
Framhaldsskólinn í Austur Skaftafellssýslu
Fuglaathugunarstöð Suðausturlands
Háskólasetur á Hornafirði
Menningarmiðstöð Hornafjarðar
Matís
Nýsköpunarmiðstöð Íslands, áður Frumkvöðlasetur Austurlands
Ríki Vatnajökuls
Þekkingarnet Austurlands
Náttúrulega
Auk þessara hafa fjölmörg fyrirtæki og verkefni haft þar aðstöðu um lengri eða skemmri tíma.

Fréttir

Ensím vinnur verkið

Notkun ensíms sparar mikinn tíma við hreinsun á lifur fyrir niðursuðu, en ensímið leysir upp himnuna á yfirborði lifrarinnar og við það losna ormar sem búið hafa um sig undir henni. Fram til þessa hefur þurft að handvinna þessa snyrtingu, sem er mjög tímafrek.

Matís hefur í samstarfi við niðursuðuverksmiðjuna Ice-w ehf. og Martak ehf. unnið að hönnun og þróun á búnaði í vinnsluferli fyrir ensímmeðhöndlun á lifur fyrir niðursuðu, ásamt búnaði til pæklunar á lifur. Markmið verkefnisins, sem stutt er af AVS sjóðnum, er að auka arðsemi við framleiðslu á niðursoðinni lifur með því að lækka framleiðslukostnað og auka gæði afurða, ásamt því að auka sjálfvirkni framleiðslunnar.

Ensímmeðhöndlun á lifrinni gerir það að verkum að bæði tími og mannafli sparast við hreinsun á himnu og ormum af yfirborði lifrar. Aldrei verður þó komið komist hjá einhverri snyrtingu á lifrinni þar sem fjarlægja þarf æð til lifrar og galllitaða lifur, áður en ensímmeðhöndlun fer fram.

Lokið er við hönnun á búnaði og hafa verið gerðar tilraunir á vinnsluferlinu. Í grófum dráttum er vinnsluferillinn uppbyggður þannig að lifrin fer á snyrtiborð til forsnyrtingar. Lifrin er síðan mötuð inn á færiband og þar ofan í kar með ensímlausn og er lausninni hringrásað frá hliðarkari. Lifrin fer síðan með færibandi í saltpækil og þaðan í skammtara sem skammtar lifrinni í dósir. Síðan tekur við hefðbundinn niðursuða.

Niðurstöður tilrauna hafa sýnt að hægt er að auka afköstin í umtalsvert auk þess sem nýting jókst um 20%. Árið 2007 voru framleidd um 900 tonn af niðursoðinni lifur á Íslandi eða 9 milljónir dósa og verðmæti þessa útflutnings var tæpar 320 m.kr. Þessi nýja vinnsluaðferð með ensímum getur aukið þessi verðmæti um 20-30%.

Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Ásbirni Jónssyni verkefnisstjóra hjá Matís.

Fréttir

Haustþing Rannís – forstjóri Matís með erindi

Tækifæri í rannsóknum og nýsköpun var yfirskrift haustþings Rannís sem haldið var 11. nóvember kl. 9:00 á Grand Hótel. Menntamálaráðherra setti þingið.

Frummælendur voru Bernhard Pálsson, Kári Stefánsson, Sjöfn Sigurgísladóttir, Guðmundur Hálfdanarson, Edda Lilja Sveinsdóttir og Eggert Claessen.

Hér má sjá dagskrá þingsins.

Fyrirlestur Sjafnar Sigurgísladóttur forstjóra Matís.

Fréttir

Birting ritrýndrar greinar frá vísindamönnum Matís

Matís þróar ný erfðagreiningasett byggt á endurteknum DNA stuttröðum (microsatellites) úr þorski.

Markmið verkefnisins var að þróa ný erfðagreiningasett byggð á endurteknum DNA stuttröðum (microsatellites) úr þorski. Útbúa átti 10 erfðamarkasett til notkunar í kynbótastarfi á aliþorski og einnig 20 erfðamarkasett til upprunagreininga á villtum þorski.

Auk þess nýtast þessi greiningasett til arfgerðargreininga fyrir rekjanleika og tegunda- og upprunagreininga á eggjum og lirfum í sjó og vegna vafamála á mörkuðum. Niðurstöður þessarar rannsóknar birtust fyrir stuttu í Molecular Ecology Resources og má sjá greinina hér.

Fréttir

Ráðstefna í ríki Vatnajökuls – Matís með erindi

Föstudaginn 7. og laugardaginn 8. nóvember verður haldin ráðstefna á Höfn og á Smyrlabjörgum um atvinnulíf og nýsköpun við lendur Vatnajökuls.

Ráðstefnan hefst með ávarpi ferðamálastjóra Ólafar Ýrar Atladóttur. Á föstudagskvöldinu verður uppskeruhátíð ferðaþjónustunna haldin á Smyrlabjörgum og hefst með borðhaldi kl. 20.30.

Mörg áhugaverð erindi verða á dagskrá og eru fólk hvatt til þess að mæta. Fyrirlestur Guðmundar H. Gunnarssonar verkefnastjóra hjá Matís má nálgast hér.

Eins og sést á dagskránni (sjá hér) hefst ráðstefnan á föstudegi í Höfn en um kvöldið flyst ráðstefnan yfir á Hótel Smyrlabjörg þar sem haldin verður Uppskeruhátíð Ríki Vatnajökuls og Ferðamálafélags A-Skaftafellssýslu. Dagskrá laugardagsins mun einnig fara fram á Smyrlabjörgum.

Frítt er á ráðstefnuna en verð á uppskeruhátíðina er 4.900 kr.

Tilkynna þarf um þátttöku á ráðstefnuna og uppskeruhátíðina hjá Söndru Björgu í netfang sbs@hi.is eða í síma 470-8044 í síðasta lagi mánudaginn 3. nóvember 2008.

Mögulegt er að gista á Smyrlabjörgum en panta þarf herbergi þar, sími 478-1074.

Fréttir

Matís opnar Matarsmiðjuna á Höfn í Hornafirði

Síðastliðinn miðvikudag opnaði Matís matarsmiðju á Höfn í Hornafirði. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra opnaði smiðjuna að viðstöddu fjölmenni en vel á annað hundruð manns voru mætt.

Í kjölfar formlegrar opnunar hlustuðu gestir á nokkra stutta fyrirlestra frá starfsfólki Matís um leið og boðið var upp á veitingar framleiddar úr staðbundnum hráefnum t.d. saltfisk, folald, reykta önd, ís ofl. en Matís hefur komið að þróun, hönnun og markaðssetningu á þessum matvælum.

Matarsmiðjan er sérstaklega sett upp til að styðja við frumkvöðla og fyrirtæki sem vilja hefja virðisaukandi smáframleiðslu matvæla úr íslensku hráefni.

Á myndinni má sjá þegar Einar K. Guðfinnsson klippir á borða við formlega opnun en til verksins notaði ráðherra sérstök humarskæri. Með honum á myndinni eru Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri á Höfn og Guðmundur M. Gunnarsson verkefnastjóri hjá Matís á Höfn.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Matís, www.matis.is.

Fyrirlestur dr. Harðar G. Kristinssonar frá opnuninni.

IS