Fréttir

Fyrsta skýrsla Matís fjallar um áhrif kælihraða á gæði lambakjöts

Fyrsta skýrslan sem gefin er út á vegum Matís ohf fjallar um rannsóknir á því hvernig kælihraði hefur áhrif á gæði lambakjöts. Þar kemur m.a. fram að undanfarin ár hefur vélkæling í kjötsal sláturhúsa aukist verulega og kæling í kjöti er því hraðari en áður tíðkaðist, sem stundum vill koma niður á gæðum kjötsins.

Skýrslan nefnist Áhrif kælingar á meyrni í lambakjöti og í henni kemur fram að hraði kælingar hefur mikil áhrif á gæði kjöts og kælingin verði að fylgja dauðastirðnunarferlinu á þann hátt að kjötgæði verði sem mest. Of hröð kæling eða frysting lambakjöts stuttu eftir slátrun getur orsakað kæliherpingu í kjötinu og afleiðingin verði stífara (seigara) kjöt. Að sögn Ásbjörns Jónssonar, eins höfundar skýrslunnar, nást betri gæði ef beðið er með að frysta kjötið þar til dauðastirðnunarferlinu er að fullu lokið.

Meginmarkmið með verkefninu var að rannsaka áferðareiginleika (meyrni) í lambakjöti við mismunandi kælihitastig og -tíma í kjötsal sláturhúsa. Gerðar voru mælingar á hitastigi í dilkaskrokkum í kjötsal sláturhúsa við mismunandi lofthita. Sýni voru tekin úr hryggvöðva dilkaskrokka eftir mislanga viðveru í kjötsal, og þau fryst. Áferðarmælingar voru síðan framkvæmdar á sýnunum til að meta áhrif kælingar á vöðvann. Rannsóknin sýndi að kjöt sem var geymt í kjötsal og var fryst samdægurs (eftir 4-5 klst.) var stífara en kjöt sem fékk lengri kælitíma í kjötsal eftir slátrun.

Þeir sem unnu að verkefninu voru, auk Ásbjörns, Óli Þór Hilmarsson og Valur Norðri Gunnlaugsson. Þeirstörfuðu allir hjá Matra, en hófu störf hjá Matís ohf um síðustu áramót. Verkefnið var styrkt af Framkvæmdarnefnd búvörusamninga.

Lesa skýrslu

Skýrslur

Áhrif kælingar á meyrni í lambakjöti

Útgefið:

01/01/2007

Höfundar:

Ásbjörn Jónsson, Óli Þór Hilmarsson, Valur Norðri Gunnlaugsson

Styrkt af:

Framkvæmdarnefnd búvörusamninga

Tengiliður

Óli Þór Hilmarsson

Verkefnastjóri

oli.th.hilmarsson@matis.is

Áhrif kælingar á meyrni í lambakjöti

Undanfarin ár hefur kæling í kjötsal sláturhúsa aukist verulega. Því er kæling í kjöti hraðari. Hraði kælingar hefur mikil áhrif á gæði kjöts. Kælingin verður að fylgja dauðastirðnunarferlinu á þann hátt að kjötgæði verði sem mest og því er mikilvægt að hafa stjórn á kæliferlinum. Of hröð kæling eða frysting lambakjöts stuttu eftir slátrun getur orsakað kæliherpingu í kjötinu og afleiðingin er stífara kjöt. Meginmarkmið með verkefninu var að rannsaka áferðareiginleika (meyrni) í lambakjöti við mismunandi kælihitastig og tíma í kjötsal sláturhúsa. Framkvæmdar voru mælingar á hitastigi í dilkaskrokkum í kjötsal sláturhúsa við mismunandi lofthita. Sýni voru tekin úr hryggvöðva dilkaskrokka eftir mislanga viðveru í kjötsal, og þau fryst. Áferðarmælingar voru síðan framkvæmdar á sýnunum til að meta áhrif kælingar á vöðvann. Niðurstöður þessarar rannsóknar sýndu að kjöt sem var geymt í kjötsal og var fryst samdægurs (eftir 4-5 klst.) var stífara en kjöt sem fékk lengri kælitíma í kjötsal. Verkefnið var unnið af starfsmönnum Matís og styrkt af Framkvæmdarnefnd búvörusamninga.

In recent years chilling in abattoirs has increased significantly and, furthermore, chilling in meat has become more rapid. The chilling rate has great effects on the quality of meat. The chilling has to correlate with rigor mortis to gain the best quality of the meat. A too rapid chilling or freezing of the meat shortly after slaughtering will cause cold shortening in the meat and the result is tough meat. The main object of the project was to study the textural properties of lamb meat at different chilling conditions and time in abattoirs. Samples were taken from the M. longissimus after different storage in the chilling room, and frozen. Measurements of textural properties were performed on the samples to estimate the impact of chilling of the muscle. The results indicated that meat stored for a short time in the chilling room and then frozen the same day (after 4 -5 hours) was tougher than meat stored for longer time in the chilling room. The project was done by employees of Matís and sponsored by the Ministry of agriculture.

Skoða skýrslu

Skýrslur

Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða

Útgefið:

01/01/2007

Höfundar:

Gunnþórunn Einarsdóttir, Kolbrún Sveinsdóttir, Emilía Martinsdóttir, Friðrik H. Jónsson, Inga Þórsdóttir, Fanney Þórsdóttir

Styrkt af:

AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi

Tengiliður

Kolbrún Sveinsdóttir

Verkefnastjóri

kolbrun.sveinsdottir@matis.is

Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða

Verkefnið hafði það að markmiði að afla upplýsinga um viðhorf og fiskneyslu ungs fólks. Í skýrslunni er gerð grein fyrir niðurstöðum viðhorfs- og neyslukönnunar hjá fólki 17-26 ára og var gögnum safnað á tvennan hátt árið 2006. Upplýsingar frá Hagstofu Íslands sýndu að 61,5% fólks á þessum aldri voru í skóla og var könnunin lögð fyrir þann hóp í kennslustundum. Alls náðist í 800 framhaldsskólanema og 399 háskólanema. Úr 2300 manna tilviljunarúrtaki úr hópi vinnandi fólks (100% starfshlutfall) á aldrinum 17-26 ára frá Hagstofunni fengu 2252 spurningalistann sendan í pósti. Alls svöruðu 536 (24%) netkönnuninni. Samtals voru þetta 1735 svarendur af 2000 (86,7%) sem stefnt var að í upphafi. Spurningalistanum má skipta upp í tíu hluta. Í fyrsta hluta var spurt um viðhorf til heilsu og fæðuflokka. Í næsta hluta var spurt um fiskneyslu, neyslu fisktegunda, ýmissa matvæla og innkaup á fiski. Í þriðja hluta var spurt um smekk á mismunandi fiskréttum. Spurt var um hvað skipti mestu máli við innkaup á fiski í fjórða hluta. Í fimmta hluta var spurt um þætti sem hafa áhrif á fiskneyslu. Í sjötta hluta voru forsendur fiskneyslu metnar, þ.e. hvetjandi og letjandi þætti. Í þeim sjöunda var spurt um utanaðkomandi áhrifavalda á fiskneyslu. Í áttunda hluta var þekking á næringargildi og meðhöndlun fisks metin. Í níunda hluta var kannað hvaðan neytendur fá upplýsingar um fisk og það traust sem þeir bera til slíkra upplýsinga. Að lokum var spurt um bakgrunn viðmælenda. Spurningarnar voru greindar m.t.t. kyns, aldurs, menntunar, búsetu, fjölda barna yngri en 18 ára á heimili, hvort einstaklingarnir áttu börn eða ekki og heimilistekna. Að meðaltali borðar ungt fólk á aldrinum 17- 26 ára fisk sem aðalrétt 1,3 sinnum í viku eða um það bil fimm sinnum í mánuði sem er töluvert undir því sem ráðlagt er. Í ljós kom að matarvenjur í æsku hafa mótandi áhrif á fiskneyslu fólks og einnig búseta, annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni sem og búseta í útlöndum á unga aldri. Fólk á aldrinum 17- 26 ár virðist hafa verið alið upp við fiskneyslu sem hefur veruleg áhrif á þeirra fiskneyslu. Einnig kom fram að sá hluti þessa fólks sem farið er að heiman borðar minnst af fiski. Þeir sem búa á landsbyggðinni hafa ekki fiskbúðir eða ferskfiskborð í matvörubúðunum í sínu byggðarlagi og hafa þar af leiðandi ekki úr jafn mörgum fiskréttum að velja í verslunum og borða frekar hefðbundnar fisktegundir og rétti. Fiskibollur, fiskur í raspi og soðinn fiskur, sem allt má telja fremur hefðbundna rétti virðist falla að smekk ákveðins hóps neytenda. Annar hópur er hrifnari af svo kölluðum földum fiski (létt sósa, þykk sósa, plokkfiskur og ofnréttir), og þriðji hópurinn kýs framandi rétti (mexíkóskt, suðrænt, indverskt og japanskt). Kynbundinn munur er þó nokkur í viðhorfum og svara karlmenn að þeir séu minna fyrir hollan mat, fisk, grænmeti, pastarétti en eru hins vegar meira fyrir kjöt og skyndibita en konur. Konur eru meira fyrir fisk og njóta matarins betur með fiski heldur en án hans. Þær eru samt almennt minna fyrir mat en finnst meira gaman að elda mat. Fjölskyldan er sterkur áhrifavaldur varðandi fiskneyslu, mest er leitað til hennar um upplýsingar og mest traust er borið til hennar. Svo virðist sem ungt fólk treysti vísindafólki til að gefa áreiðanlegar upplýsingar, en lítið er leitað til þeirra um upplýsingar. Upplýsingar sem ungt fólk fær koma að miklu leyti af netinu og öðrum miðlum. Þetta þarf vísindafólk að nýta sér í meira mæli við að koma upplýsingum á framfæri sem eiga erindi til almennings.

Skoða skýrslu

Fréttir

Saltfiskur tilbúinn í pottinn og á pönnuna

Nýlega kom út skýrsla á Rf úr verkefninu Þíddur saltfiskur í neytendapakkningum, þar sem m.a. voru rannsakaðir þættir eins og hvernig hægt væri að hámarka geymsluþol útvatnaðra þorskflaka.

Eins og margir vita hefur saltfiskur verið ein af mikilvægustu útflutningsvörum Íslendinga frá því snemma á 19. öld og enn í dag nemur útflutningur saltaðra sjávarafurða um 15-20% af útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða. Margir neytendur í dag telja sig hvorki hafa tíma né áhuga á að eyða of miklum tíma í matseld og því hefur eftirspurn eftir ferskum, tilbúnum eða fljótelduðum matvælum aukist verulega. Slíkar matvörur eru hins vegar mun viðkvæmari en saltaðar eða frystar og hafa mun styttra geymsluþol.

Til að saltfiskur haldi markaðshlutdeild sinni áfram er nauðsynlegt að hægt sé að bjóða upp á hann útvatnaðan og tilbúinn til suðu/steikingar. Til að það sé hægt þarf að tryggja að hann hafi nægilega langt geymsluþol sem kælivara.

Í nýju skýrslunni, sem ber titilinn Þídd, útvötnuð þorskflök í neytendapakkningum var athyglinni m.a. beint að með því að kanna nánar samspil gassamsetningar, kalíum sorbatstyrks og sítrónusýrustyrks með tilliti til þátta eins og örveru- og efnabreytinga, bragðs, lyktar, áferðar, útlits og drips.

Einnig voru í verkefninu gerðar geymsluþolstilraunir á útvötnuðum, þíddum, saltfiskflökum eftir mislanga frystigeymslu og gæði slíkra flaka borin saman við ófryst flök. Þá voru áhrif mismunandi hráefnisgæða á geymsluþol pakkaðra afurða könnuð svo og vaxtarmöguleikar nokkurra sýkla og bendiörvera í gaspökkuðum, útvötnuðum flökum.

Höfundar skýrslunnar Hannes Magnússon, Kolbrún Sveinsdóttir, Ása Þorkelsdóttir, Emilía Martinsdóttir, en þau starfa öll á Rannsóknasviði Rf.

Fréttir

Fyrirtæki í Ástralíu notar rannsóknir frá Rf til að auglýsa vörur sínar

Fyrirtæki í Ástralíu hefur stuðst við niðurstöður úr vísindagrein frá Rf til að auglýsa tæki sem það framleiðir. Aðalhöfundur greinarinnar, sem birtist nýlega á vísindaritinu Journal of Microbiological Methods er Eyjólfur Reynisson, líffræðingur á Rannsóknasviði Rf.

Ástralska fyrirtækið nefnist Corbett Research og framleiðir tæki, tól og hvarfefni fyrir rauntíma PCR. Þeir framleiða m.a. Rotorgene3000 sem er rauntíma PCR tæki en það var notað við rannsóknina sem Rf birti á árinu. Í rannsókninni kom fram að með þeirra tæki hefði næmni greiningaraðferðarinnar verið hæst í samanburði við tvö önnur kerfi sem einnig voru prófuð.

Greinin sem hér um ræðir nefnist Evaluation of probe chemistries and platforms to improve the detection limit of real-time PCR og er Eyjólfur Reynisson aðalhöfundur hennar. Aðrir höfundar eru M.H. Josefsen, M. Krause og J. Hoorfar.

Þeir sem hafa áhuga á að lesa greinina geta farið á Cv-síðu Eyjólfs.

Fréttir

Minni notkun próteins í fóðri – aukin arðsemi í þorskeldi?

Nýlega lauk verkefninu Próteinþörf þorsks þar sem leitað var leiða til að draga úr kostnaði við þorskeldi og gera þessa ungu atvinnugrein þ.a.l. arðbærari. Fóðurkostnaður er 40-60% af heildarframleiðslukostnaði í eldinu og því beindist athyglin að því hvort og hvernig hægt væri að minnka hann. Í nýrri Rf skýrslu er greint frá niðurstöðum þessarar rannsóknar.

Mikið hefur verið fjallað um meint bágborið ástand villtra fiskistofna að undanförnu og í tímaritinu Science birtist nýlega skýrsla þar sem spáð var hruni allra fiskistofna heims fyrir miðja þessa öld.  Reyndar voru ekki allir tilbúnir að taka undir þessa bölsýnu spá, þeirra á meðal forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar.

Burtséð frá þessum deilum er því spáð að fiskeldi, ekki síst eldi sjávartegunda eins og þorsks muni vaxa gríðarlega á næstu árum og áratugum.  Íslendingar hafa fylgst vel með þessari þróun, líkt og margar þjóðir við N-Atlantshaf og þorskeldi er nú þegar hafið á nokkrum stöðum hér á landi. 

Sem fyrr segir er fóðurkostnaður á milli 40-60% af heildarframleiðslukostnaði í eldinu og til að hægt sé að auka arðsemi í þessari atvinnugrein er ljóst að þar er vænlegast að finna leiðir til að draga úr kostnaði.  Prótein er dýrasta næringarefnið í fóðri fyrir fisk og þ.a.l. mjög mikilvægt að lámarka innihald þess þannig að það fari fyrst og fremst til uppbyggingar á vöðum en ekki til orkunotkunar, þar sem ódýrari næringarefni, svo sem fita, geta komið að svipuðum notum.

Í nýrri Rf skýrslu Protein requirements of farmed cod er m.a. greint frá rannsókn þar sem markmiðið var að finna kjörpróteininnihald fyrir tvo stærðarflokka af þorski, annars vegar 30-100g og hins vegar 300-500g þorsk.  Á meðal þess sem rannsóknirnar sýndu var  að þörf stærri þorsksins (300-500g) fyrir prótein var minni en það sem venjulega er notað í verksmiðjuframleiddu fóðri í dag.  Þarna er því hugsanlega að finna eina leið til að draga úr fóðurkostnaði án þess það komi niður á gæðum þorsksins.

Próteinþörf þorsks sem var tveggja ára verkefni, sem AVS sjóðnum styrkti. Verkefnið var hluti af stærra verkefni, Feed for Atlantic cod, sem styrkt var af Norræna Iðnþróunarsjóðnum okt 2003 – 2006. Íslenskir þátttakendur í verkefninu voru Rf, Fóðurverksmiðjan Laxá, Hólaskóli, SR mjöl, Háskólinn á Akureyri og Brim fiskeldi.

Fréttir

Vísindamaður á Rf hlaut heiðursverðlaun á alþjóðlegri ráðstefnu

Dr. Guðrún Ólafsdóttir, matvælafræðingur á Rf, hlaut á dögunum heiðursverðlaun sem kennd eru við Earl P. McFee. Verðlaunin voru afhent á hátíðardagskrá í tengslum við ráðstefnuna TAFT 2006, sem fram fór í Quebec City í Kanada dagana 29. okt. til 1. nóv.

Að ráðstefnunni stóðu WEFTA (West European Fish Technologists Association), sem eru samtök vísindamanna á sviði fiskiðnaðarrannsókna í V-Evrópu og AFTC (Atlantic Fisheries Technologists Conference), sem eru sambærileg samtök vísindamanna á austurströnd N-Ameríku og Kanada.

Gamall draumur margra vísindamanna rættist árið 2003 þegar haldin var hér á Íslandi ráðstefnan TAFT 2003 (Trans Atlantic Fisheries Technology Conference) þar sem margir af fremstu vísindamönnum Evrópu, Bandaríkjanna og Kanada á sviði rannsókna á sjávarfangi og nýtingu þess komu saman í fyrsta skipti og báru saman bækur sínar. Rf sá um skipulagningu ráðstefnunnar 2003 og svo vel þótti takast til að þá þegar var byrjað að ræða um aðra TAFT ráðstefnu, sem haldin yrði Vestanhafs 2006 og varð Quebec City í Kanada fyrir valinu.

Verðlaunin eru kennd við Earl P. McFee, en hann var brautryðjandi um miðja síðustu öld varðandi brauðaðar afurðir úr frystum fiskblokkum og notkun í fiskborgara hjá McDonalds. AFTC samtökin stofnuðu The Earl P. McFee verðlaunin árið 1971 í þeim tilgangi að veita viðurkenningu þeim sem taldir væru verðskulda sérstakan heiður fyrir störf sín á sviði rannsókna og tækniþróunar í tengslum við vinnslu á fiski og sjávarafurðum og fyrir að stuðla að samskiptum vísindamanna, iðnaðar og stjórnvalda. Áherslan í dag er að styrkja frekar samvinnu AFTC og WEFTA og stefna að sameiginlegum ráðstefnum og rannsóknarsamvinnu á sviði sjávarfangs.

Margir heimsþekktir vísindamenn á þessu sviði hafa hlotið verðlaunin á undanförnum áratugum og nokkrir þeirra voru viðstaddir á TAFT 2006, má þar t.d. nefna Herb Hultin (University of Massachusetts, Amherst), Tom Gill (Dalhousie University, Halifax), Michael Morrissey (Oregon State University), Chong Lee (University of Rhode Island), Tyre C. Lanier og David Green (North Carolina State University), og Luc Leclerc (Aquatic Products Technology Centre, Ministère de l’Agriculture, des Pêcheries et de l’Alimentation, Québec, Canada), sem jafnframt var skipuleggjandi ráðstefnunnar ásamt Pierre Blier (Québec University, Rimouski). Torger Börresen hjá dönsku fiskrannsóknastofnunni DIFRES, sem hlaut verðlaunin 2003 afhenti verðlaunin að þessu sinni, en þau voru auk viðurkenningarinnar, lítil stytta gerð af kanadískum listamanni af inúítaættum.

McFee Verðlaunagripur

Fréttir

Unnið að gæðamálum fiskihafna á Sri lanka

Eins og greint var frá hér á vefnum fyrr á árinu, fóru tveir starfsmenn Rf til Sri Lanka í maí s.l. á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) til að gera úttekt á gæðamálum fiskihafna þar í landi og var tilgangurinn að útbúa námskeið til að koma þessum málum í betra horf. Í fréttabréfi ÞÞSÍ er greint frá því að nýlega hafi fyrsta námskeiðið verið haldið þar ytra.

Í frétt á Rf-vefnum þ. 5.júlí var sagt frá för þeirra Birnu Guðbjörnsdóttur og Sveins V. Árnasonar til Sri Lanka í maí, sem farin var til að kynnast aðstæðum og gera úttekt á þeim úrbótum sem mest lægi á að gera í gæðamálum hafna og fiskvinnslu á Sri Lanka. Afraksturinn af þeirri ferð var síðan námskeiðið sem nýlega var haldið ytra.

Að sögn Árna Helgasonar, umdæmisstjóra ÞSSÍ á Sri Lanka, er gæðarýrnun mikið vandamál í fiskiðnaði á Sri Lanka, en talið er að 30-40% af afla spillist frá því fiskur er veiddur þar til hann er kominn á borð neytenda. “Verðmætatap og minnkað næringargildi er mikið af þessum sökum,” segir Árni, í viðtali á vef ÞSSÍ.

Námskeiðið, sem Rf tók þátt í að útbúa, samanstendur af 16 fyrirlestrum um ýmsa þætti gæðamála fiskafurða og skipulag góðrar meðferðar á fiski á hafnarsvæðum. Námsefnið var gefið út á ensku, sinhala og tamíl, sem eru tungumálin sem töluð er á Sri lanka. Þá voru veggspjöld gerð á sinhala og tamíl og verða þau hengd upp á hafnarsvæðum og löndunarstöðvum til að kynna og minna á mikilvægi góðrar meðferðar á fiski.

Sjá nánar um námskeiðið á vef Hafrannsóknastofnunar Srl Lanka (NARA).

Fréttir

Erindi Sjafnar á Málþingi í morgun

Í morgun var haldið málþing Stofnunar stjórnsýslufræða við H.Í. og Félags forstöðumanna ríkisstofnana þar sem rætt var um kosti og galla hlutafélagaformsins í opinberri starfsemi og það borið saman við hefðbundið form opinbers rekstrar. Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Rf og verðandi forstjóri Matís ohf var á meðal þeirra sem fluttu erindi á málþinginu.

Málþingið var haldið á Grand hótel Reykjavík og þau sem fluttu erindi voru Arnar Þór Másson, sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu og aðjúnkt við stjórnmálafræðiskor HÍ, Páll Magnússon útvarpsstjóri og Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Rf og verðandi forstjóri Matís ohf.

Erindi Sjafnar bar yfirskriftina Hlutafélagavæðing opinberrar starfsemi kostir og gallar og hægt er að skoða glærur úr erindinu með því að smella hér.

Fréttir

Þjónustusvið Rf fær góða umsögn SWEDAC

Í gær fór fram árleg úttekt sænsku löggildingarstofunnar SWEDAC vegna faggildingar á þjónustumælingum á Rf. Þetta var í 10 skiptið sem slík úttekt er gerð á Rf og jafnframt í síðasta sinn því Rf sameinast tveimur öðrum stofnunum í Matís ohf um næstu áramót.

Að sögn Heiðu Pálmadóttur, deildarstjóra Þjónustusviðs Rf, hafa reglugerðir ESB kveðið á um það frá árinu 1994 að allar mælingar skuli framkvæmdar á faggildum prófunarstofum. Í árlegum heimsóknum fer SWEDAC (Styrelsen för ackreditering och tekninsk kontrol) m.a. yfir allt gæðakerfið til að sannreyna hvort það standist kröfur um faggildingu.  

Eftir áramót, þegar nýja fyrirtækið Matís ohf tekur til starfa verður að sækja um að nýju um faggildingu, enda verða þá sameinaðar tvær faggildar einingar.

Margareta Ottosson var yfirmatsmaður að þessu sinni og sá um úttekt á efnamælingum og Ann-Charlotte Steneryd tók út örverumælingar.

Þær stöllur voru ánægðar með starfsemina á Rf og veittu starfsfólki einnig gagnlegar upplýsingar  um það sem betur mætti fara, en það eru einmitt slíkar ábendingar sem hafa hjálpað starfsfólki Þjónustusviðs Rf til að vera í fremstu röð á sínu sviði á síðustu árum.

IS