Fréttir

Neytendakönnun á Rf byrjar vel

Eins og glöggir gestir Rf – síðunnar hafa væntanlega tekið eftir var nýlega óskað eftir fólki til að taka þátt í neytendakönnunum á þorski hér á Rf. Fyrri hluti könnunarinnar hófst í dag og munu alls um 100 manns taka þátt í henni í dag.

Þátttakendum er skipt í sex hópa og kom fyrsti hópurinn kl. 10 í morgun og sá síðasti mun koma kl. 8 í kvöld. Hver hópur mun smakka þrjú mismunandi sýni af þorski og svara spurningum í kjölfarið um þorsksýnin og síðan um fiskneyslu almennt.

Síðari hluti könnunarinnar felst í því að fólk fær afhentan þorsk sem það á að matreiða heima hjá sér, alls 6 sinnum yfir 6 vikna tímabil (alla þriðjudaga) frá 17. október til 21. nóvember. Hér var einkum óskað eftir þátttöku fjölskyldna, þar sem a.m.k tveir væru 18 ára eða eldri. 

Fólk lét ekki kuldann úti aftra sér frá því að koma niður á Skúlagötu 4 í morgun fá sér þorsk í morgunmat.

Fréttir

Lækkun þrifakostnaðar í fiskvinnslu

Nýlega lauk verkefni hér á Rf þar sem kannað var hvort mögulegt sé að nota minna af þvottaefnum við venjubundin þrif á fiskvinnslubúnaði, en með sama árangri. Lækkun á styrk þvottaefna getur þýtt fjárhagslega hagræðingu fyrir fiskvinnslufyrirtækin og ekki síst umhverfisvænni vinnubrögð.

Til að komast að þessu var sett upp tilraunaröð þar sem kannaðir voru nokkrir þættir í almennu þrifaferli en þeir voru: Gerð yfirborða (ryðfrítt stál og plast), hitastig skolvatns (8 eða 28°C), tvær gerðir þvottaefna og styrkur þvottaefna (2% og 4,5%).

Til að meta þessa þætti var notast við nýuppsetta þvottastöð á Rf sem gerir kleift að staðla þrifin betur en áður þekktist. Bakteríur úr sínu náttúrulega umhverfi (hökkuðum þorski) voru notaðar til að mynda bakteríuþekju á stál- og plastyfirborði. Bakteríutalningar voru notaðar til að meta áhrif þáttanna í þvottaferlinu. Niðurstöðurnar sýndu að á stályfirborði er mögulegt að nota lægri styrk þvottaefna en mælt er með og samt náð sambærilegum árangri (Mynd 1). Eins og sjá má þá ná þessir þvottaferlar að eyða öllum bakteríum á yfirborðinu, óháð hitastigi skolvatns og styrk þvottaefnis.

Hins vegar, þegar um plastyfirborð var að ræða, voru niðurstöðurnar ekki eins afdráttarlausar og þar var að jafnaði erfiðara að útrýma bakteríunum.

 AVS súlurit
Mynd 1. Dæmi um niðurstöður eftir þvottaferil á stályfirborði. 

Önnur hlið á þessu verkefni var greining á náttúrulegri bakteríuflóru í bakteríuþekjunni og samanburður á aðferðum sem byggjast á ræktun (Mynd 2) og aðferðum sem byggjast á mögnun erfðaefnisins með sameindalíffræðilegum aðferðum. Sýni voru tekin af stál- og plastyfirborðum úr hefðbundnum þvottaferlum fiskvinnsluhúsa.  Nokkuð sambærilegar niðurstöður fengust með hvorri aðferðinni fyrir sig.

 Bakteríur á járnagar
 Mynd 2. Bakteríuflóra ræktuð á járnagar.

Verkefnið var fjármagnað af AVS og af sjávarútvegsráðuneytinu.

Út er komin skýrsla í verkefninu sem nefnist Better washing practises in fish processing plants (Rf skýrsla 26 – 06) Lesa

Einnig er stefnt að því að birta niðurstöður verkefnisins í ritrýndu vísindariti.

Fréttir

Haustvertíð á Rf – margar nýjar skýrslur komnar út

Segja má að hálfgerð haustvertíð hafi verið í útgáfu skýrslna á Rf, en á síðustu tveimur vikum hefur verið lokið við níu Rf skýrslur, sem er óvenju mikið á svo stuttum tíma. Flestar þessara skýrslna eru opnar og aðgengilegar á vef Rf.

Í gamla daga var talað um að haustvertíð hæfist 29. sept. og stæði fram til jóla og þessi haustyrkja á Rf hófst einmitt um það leyti, en hvort þessi vertíð stendur fram að jólum verður tíminn að leiða í ljós. Ein skýring á þessari grósku í útgáfu gæti verið sú að um áramótin mun Rf sameinast tveimur öðrum stofnunum í fyrirtækinu Matís ohf og því er nú lagt allt kapp á að ljúka þeim verkefnum sem bundin eru Rf fyrir þann tíma.

Af þessum níu skýrslum sem nýkomnar eru út eru, sem fyrr segir, flestar opnar, en aðrar eru trúnaðarskýrslur, a.m.k. tímabundið. Ýmsar athyglisverðar niðurstöður eru birtar í skýrslunum og má þar nefna úttekt á möguleikum þess að vinna kolmunna í miklu verðmætari afurðir en nú er gert (skýrsla 25-06), í annarri er lýst tilraunum til þess að mæla yfirborðspennu Pseudomonas putida og Listeria monocytogenes, til þess að geta skýrt hvers vegna þessar bakteríur eru svo algengar í matvælaiðnaði (skýrsla 24-06), en um var að ræða sameiginlegt verkefni Rf og Iðntæknistofnunar.

Árið 2003 hófst, að frumkvæði sjávarútvegsráðuneytisins, vöktun á óæskilegum efnum í sjávarafurðum, bæði afurðum sem ætlaðar eru til manneldis sem og afurðum til lýsis- og mjöliðnaðar. Tilgangurinn með vöktuninni er að meta ástand íslenskra sjávarafurða m.t.t. magns aðskotaefna. Þriðja skýrslan úr þessu verkefni er nú komin út og nær hún yfir árið 2005 (skýrsla 22-06).

Vaxandi umræða er nú víða um hvaða reglur skuli gilda um merkingar á matvælum og er skemmst að minnast umræðu um erfðabreytt matvæli.  Fiskur og sjávarafurðir eru ekki undanskilin þessari umræðu og í skýrslu 21-06 er reynt að varpa ljósi á hvort viðbætt fiskprótein í fiskafurðir séu merkingarskyld.  Ennfremur var leitað upplýsinga um aðferðir sem nota má til að mæla viðbætt efni, s.s. fosfat, vatn og fiskprótein, í fiskafurðum.

Loks má nefna skýrslu þar sem fjallað er um flokkun örvera og tilraunir með notkun bætibaktería í fiskeldi, sem er e.k. forvarnarverkefni með það að markmiði að nota umhverfisvænar aðferðir til að auka afkomu lúðu- og þorsklirfa í eldi (18-06).

Þessar og aðrar opnar Rf skýrslur má finna með því að smella hér.

Fréttir

Rf óskar eftir þátttakendum í neytendakönnun á þorski

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (Rf) er að leita að fólki til að taka þátt í neytendakönnunum á þorski. Kannanirnar verða gerðar um miðjan október og standa fram í nóvember næstkomandi.

Um er að ræða tvær kannanir:

1) könnun sem fer fram á Rf fimmtudaginn 19. október og er þá óskað eftir fólki, 18 ára og eldri, til að koma til okkar á Skúlagötu 4 þann dag og smakka fisk Opna eyðublað

2) könnun þar sem fólk fær fisk með sér heim til matreiðslu alls 6 sinnum yfir 6 vikna tímabil (alla þriðjudaga) frá 17. október til 21. nóvember. Hér erum við að leita að fjölskyldum, þar sem a.m.k 2 eru 18 ára eða eldri. Opna eyðublað

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu verkefni eru vinsamlega beðnir um að smella á viðkomandi slóð hér fyrir ofan og fylla út það skjal eyðublað sem tilheyrir þeirri könnun sem þeir hafa áhuga á að taka þátt í og senda á:  fisk@rf.is  (ATH! aðeins er hægt að vera þátttakandi í einni könnun)

Þátttakendur fá þakklætisvott fyrir þátttökuna

Frekari upplýsingar í síma: 530 8665 / 530 8666 / 530 8667

Fréttir

Fréttatilkynning frá Matís ohf.

Sjöfn Sigurgísladóttir hefur verið ráðin forstjóri Matís ohf. en það er hið nýja fyrirtæki sem verður til við sameiningu Rf, RUST og Matvælarannsókna á Keldnaholti. Nýja fyrirtækið sendi í morgun frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

Dr. Sjöfn Sigurgísladóttir hefur verið ráðin forstjóri hins nýstofnaða fyrirtækis Matís ohf. frá 1. janúar 2007, en þá hefst eiginleg starfsemi félagsins. Sjöfn hefur verið forstjóri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins síðan árið 2002, en þar áður starfaði hún á sviði matvælaöryggis hjá Hollustuvernd (nú Umhverfisstofnun) og við rannsóknar- og þróunarmál hjá Iðntæknistofnun í samstarfi við matvælaiðnaðinn. Sjöfn hefur einnig sinnt nefndar- og trúnaðarstörfum á þessum vettvangi undanfarin ár, bæði innanlands og erlendis. Hún er 43 ára.

Matís ohf. er opinbert hlutafélag sem stofnað var með lögum nr. 68/2006 þann 3. júní sl. í þeim tilgangi að sameina matvælarannsóknir á vegum hins opinbera í eitt félag. Starfsemi þriggja stofnana/eininga verður sameinuð í eitt félag, Matís ohf. frá 1. janúar 2007, þ.e.  frá  Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, RUST (rannsóknastofnun Umhverfisstofnunar) og Matvælarannsóknir á Keldnaholti (samstarf Landbúnaðarháskólans og Iðntæknistofnunar.   

Matís ohf. verður með starfsemi sína á nokkrum stöðum á landinu, en með aðalstöðvar í Reykjavík. Starfsvið Matís ohf. er fyrst og fremst að sinna rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvælaöryggis.

Öllum starfsmönnum eininganna þriggja er boðið starf hjá Matís ohf.

Nánari upplýsingar veitir Friðrik Friðriksson stjórnarformaður í síma 896 7350.

Fréttir

Fréttabréf frá Akureyri

Nýlega bættust fjórir nemendur í rannsóknatengdu meistaranámi við fiskeldishóp Rf á Akureyri og stunda þau öll nám við Viðskipta- og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri. Þetta eru þau Rut Hermannsdóttir, Bjarni Jónasson og G.Stella Árnadóttir, sem öll luku BS prófi frá Auðlindadeild Háskólans á Akureyri s.l. vor, og Eyrún Gígja Káradóttir sem lauk BS prófi frá Háskóla Íslands s.l. vor.

Bjarni Jónasson og Rut Hermannsdóttir unnu BS verkefni sín við rannsóknaverkefni sem þau vinna áfram við í meistaranáminu. Rut tekur þátt í verkefninu “Lífvirk efni í lúðueldi” og Bjarni er þátttakandi í verkefninu “Þróun bleikjufóðurs,” en þessi verkefni eru bæði styrkt af AVS sjóðnum.

Stella Árnadóttir vann lokaverkefni sitt til BS prófs við verkefnið “Fóður fyrir þorsk” sem styrkt var af AVS sjóðnum og Norræna Iðnþróunarsjóðnum, en því verkefni lauk nýverið og verður lokaskýrsla fljótlega birt á heimasíðu AVS. Stella mun í meistaranámi sínu vinna við verkefnið “Ljósastýring í þorskeldi” sem unnið er að í tilraunaeldiskvíum Rf í Ísafjarðardjúpi og er styrkt af AVS sjóðnum.

Bjarni JónassonEyrún Gígja Káradóttir Rut Hermannsdóttir Stella Árnadóttir
 Bjarni Jónasson Eyrún Gígja Káradóttir Rut Hermannsdóttir Stella Árnadóttir

Eyrún Gígja Káradóttir mun í meistaranámi sínu vinna við verkefnið “Bætibakteríur í lúðueldi” sem nýverið hlaut styrk úr Tækniþróunarsjóði Rannís.

Nemendurnir hafa verið iðnir við að kynna verkefni sín og helstu niðurstöður rannsókna í BS náminu. Grein eftir Bjarna birtist nýverið í tímaritinu Ægi og stytt útgáfa af þeirri grein mun birtast bráðlega í 2.tbl. Rannísblaðsins 2006. Rut kynnti meistaraverkefni sitt í málstofu við Viðskipta- og raunvísindadeild HA föstudaginn 22. september og var í framhaldi af kynningunni í viðtali á morgunvakt Rásar 1. þann 26.september.

Rut er einnig nýkomin af stórri ráðstefnu um rannsóknir á sviði ónæmisfræði sem haldin var í París  6-9. september s.l. Tilgangur fararinnar var fyrst og fremst að fræðast um helstu aðferðir sem notaðar eru við ónæmisfræðirannsóknir í dag.

Hildigunnur Rut Jónsdóttir hefur síðastliðin tvö ár verið nemandi í rannsóknatengdu meistaranámi við Auðlindadeild HA. Hildigunnur vann rannsóknahluta námsins við verkefnið “Forvarnir í fiskeldi” og útskrifaðist hún með meistaragráðu frá Auðlindadeild HA í júní s.l.

Fréttir

Meistaravörn 3. október

Þriðjudaginn 3. október n.k. mun Runólfur Guðmundsson verja meistaraverkefni sitt, ,,Ákvarðanataka og bestun í sjávarútvegi”.  Vörnin fer fram í húsnæði Verkfræðideildar Háskóla Íslands (VRII), Hjarðarhaga 6, stofu V-158 og hefst kl. 13.45. 

Meistaraverkefnið er hluti af verkefninu ,,Vinnsluspá þorskafla” sem styrkt hefur verið af AVS og rannsóknasjóði Rannís. Markmiðið með meistaraverkefninu var að greina gögn sem safnað hefur verið sl. 5 ár um flakanýtingu, hringorma og los og sýna hvernig er hægt að nota þá þekkingu sem skapast hefur til að auka hagnað sjávarútvegsfyrirtækja. Í verkefni sínu þróaði Runólfur bestunarlíkan af ákvarðanatöku í útgerðarfyrirtæki og sýnir hann með því hvernig hægt er að notast við gögn og aðferðafræði af þessum toga við stýringu á sjávarútvegsfyrirtæki.

Leiðbeinendur Runólfs voru þeir Páll Jensson, prófessor við Véla- og iðnaðarverkfræðiskor HÍ, Sigurjón Arason dósent við Raunvísindadeild og Sveinn Margeirsson doktorsnemi við HÍ og DTU. Prófdómari er Snjólfur Ólafsson, prófessor við Hagfræði- og viðskiptadeild HÍ.

Allir eru velkomnir!

Fréttir

Fundur í Chill-on verkefninu

Dagana 21-22 september s.l. var haldinn á Rf fundur í Evrópuverkefninu Chill-on, sem er stórt samþætt verkefni sem hófst nú í sumar. Verkefnið er styrkt af ESB og nemur styrkurinn alls um 9,8 milljónir Evra og er umfang þess alls um 15,1 m. Evra eða um 1,4 miljarðar íslenskra króna.

Rf stýrir einni af fjórum meginrannsóknarstoðum Chill-on verkefnisins auk þess að vera þáttakandi í fleiri verkþáttum þess. Fundurinn á Rf var í þeim rannsóknarhópi sem Rf stýrir og fjallar um kælitækni og flutninga á viðkvæmum matvælum eins og ferskum fiski og hvernig megi auka öryggi og gæði afurða með nýrri tækni.

Á vefsíðu verkefnisins kemur m.a. fram að markaðssvæði Evrópusambandsins sé annar stærsti markaður í heimi fyrir fersk og frosin matvæli og að viðskipti með kæld og frosin matvæli aukist um meira en 10% á ári. Þar segir einnig að fiskur sé í þriðja sæti af þeim matvælum sem mest sé neytt af í Evrópu og vegna þess hve ferskur fiskur sé viðkvæm vörutegund hafi verið ákveðið að rannsaka allt sem viðkemur gæðamálum og rekjanleika í birgðakeðju og flutningum með kældan og frystan fisk í verkefninu.

Rannsóknir Rf í verkefninu snúa að mestu að fiskafurðunum og aðferðum til að auka geymsluþol og öryggi þeirra, en samstarfsverkefni af þessari stærð opnar fyrir ýmsa nýja möguleika og þekkingarflæði hingað heim.

Í Chill-on verkefninu verður jafnframt unnið að þróun sömu þátta fyrir kjúklingaafurðir og birgðaleiðir slíkra afurða til Evrópu. Má í þessu sambandi geta þess að frá Brasilíu eru t.d. flutt um 250 þús tonn árlega af kjúklingabringum til markaða í Evrópu. Í Chill-on verkefninu eru alls 24 þátttakendur frá Evrópu og fjarlægum löndum s.s. Kína, S-Ameríku, en þátttakendur á fundinum í Reykjavík, fyrir utan vísindamenn frá Rf, komu frá Ísrael, Tyrklandi, Spáni, og Þýskalandi.

Verkefnisstjóri í Chill-on fyrir hönd Rf er dr. Sigurður Bogason:

Upplýsingar um verkefnið fást hjá Matís, matis@matis.is 

Fréttir

Fundur á Rf í Seabac – hluta SEAFOODplus

Í síðustu viku var haldinn tveggja daga fundur hér á Rf í einum hluta SEAFOODplus klasaverkefnisins. Um er að ræða verkefnið Seabac, sem er eitt af fjórum flokkum sem heyra undir þriðju stoð (3.rd pillar) Sfplus.

Fullt heiti Seabac er Seafood: Enhanced assessment of bacterial associated contamination og verkefnastjóri þess er dr. Rachel Rangdale frá The Centre for Environment, Fisheries & Aquaculture Science (CEFAS) í Bretlandi.

Að sögn Sigrúnar Guðmundsdóttur, sem starfar að þessu verkefni fyrir hönd Rf og skipulaði fundinn hér í Reykjavík var um venjubundinn verkefnafund að ræða. “Við erum að vinna að því að þróa aðferðir til þess að finna sjúkdómsvaldandi Vibrio spp. í skelfiski. Við notum bæði PCR aðferðir og svo kallaðar “hybridization” aðferðir,” segir hún. Sigrún segir að einnig sé unnið að því að þróa  PFGE aðferð til þess að bera saman skyldleika V. parahaemolyticus stofna sem hafa fundist.  

Á fundinn mættu þátttakendur frá Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Portúgal og Íslandi. Þáttakandi frá Spáni sá sér ekki fært að mæta á fundinn.

Fréttir

Viltu smakka fisk?

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (Rf) er að leita að fólki til að taka þátt í neytendakönnunum á fiski. Kannanirnar verða gerðar um miðjan október og standa fram í nóvember næstkomandi.

Um er að ræða tvær kannanir:

1) könnun sem fer fram á Rf fimmtudaginn 19. október og er þá óskað eftir fólki, 18 ára og eldri, til að koma til okkar á Skúlagötu 4 þann dag og smakka fisk,

2) könnun þar sem fólk fær fisk með sér heim til matreiðslu alls 6 sinnum yfir 6 vikna tímabil (alla þriðjudaga) frá 17. október til 21. nóvember. Hér erum við að leita að fjölskyldum, þar sem a.m.k 2 eru 18 ára eða eldri.

Frekari upplýsingar og skráning þátttöku:

fisk@rf.is  og í síma: 530 8667

IS