Fréttir

Nýstarlegt fiskiker dregur úr rýrnun fisks

Promens Dalvík, áður þekkt sem Sæplast, hefur hafið framleiðslu á nýstárlegu fiskikeri sem er léttara en önnur ker og með meira inntaksrúmmál en áður hefur þekkst. Hönnun keranna gerir það að verkum að þau draga úr rýrnun og mari á fiski og bæta gæði hráefnis. Fiskikerið er þróað í samvinnu við Matís ohf. (Matvælarannsóknir Íslands) og FISK Seafood á Sauðárkróki og til verkefnisins fékkst styrkur hjá AVS.

Hönnun kersins er með þeim hætti að við stöflun lokar efra kerið því neðra. Í fjögurra kera stæðu þarf því ekki nema eitt lok. Þá er búið að færa göt fyrir lyftaragafla utar á kerið svo að ekki sé hætta á að óhreinindi berist með botni í neðri ker þegar þeim er staflað. Með þessum hætti er hægt að minnka farg á fiski í neðstu lögum keranna og þar með draga úr rýrnum og mari á fiski.

Álagsprófanir á nýju kerunum hafa gefið góða raun hjá Promens. Þá er gert ráð fyrir að FISK Seafood á Sauðárkróki prófi nokkur ker í nokkrar vikur áður en varan fer endanlega í fjöldaframleiðslu.

Upplýsingar á keri frá veiðum til vinnslu

Stefnt er að því að nýju kerin komi til með að búa yfir RFID flögu sem geymir upplýsingar um fisk frá veiðum til vinnslu og tryggir rekjanleika í gegnum vinnsluna. Slíkar upplýsingar eru mikilvægar fyrir sölu á markaði því þær stuðla að auknu upplýsingaflæði og auka öryggi. Upplýsingakerfið er unnið í samstarfi FISK Seafood, Maritech og Matís, en AVS studdi einnig þennan þátt verkefnisins.

Bjarki Magnússon hjá Promens á Dalvík segir að mikill áhugi sé fyrir þessari framleiðslu, það hafi berlega komið í ljós þegar kerið var kynnt opinberlega á Sjávarútvegssýningunni í Brussel í Belgíu á síðasta ári.

Fréttir

Átta Rf skýrslur opnaðar

Nýlega voru átta Rf skýrslur, sem höfðu verið lokaðar tímabundið eftir að vinnu í viðkomandi verkefnum lauk, opnaðar. Skýrslurnar eru frá árunum 2003 og 2005.

Skýrslurnar frá árinu 2003 eru allar úr verkefni sem hófst árið 2000 og lauk árið 2003. Vinnuheiti verkefnisins var  Léttsöltun, stöðugleiki og nýting frosinna afurða og markmiðið í því var að skoða hvernig hægt væri að stýra vatnsheldni, efnasamsetningu og áferð fiskholdsins með léttsöltun. 

Rannsakað var hvort hægt væri að framleiða safaríkari afurðir heldur en hægt var með hefðbundinni vinnslu fyrir frystingu. Áhrif af notkun salts, fosfata og unnina próteina við pæklun á fyrrnefnda þætti voru metin og  upplýsingum um reglugerðir og markaðsviðhorf sem tengjast stjórnun á efnasamsetningu fiskafurða var safnað.  Skýrslurnar sem nú birtast úr þessu verkefni eru númer 07-03; 10-03; 12-03 og 13-03.  Ein skýrsla úr áðurnefndu verkefni birtist þegar árið 2003, skýrsla nr. 09-03.

Af þeim skýrslum frá árinu 2005 sem nú er búið að opna, eru þrjár úr sama verkefni sem hófst árið 2004 og lauk á síðasta ári.  Vinnuheiti þess var Framleiðsla á formuðum fiskbitum og gelblokk úr afskurði og marningi, og hafði það að markmiði að þróa vinnsluferli til að framleiða formaða fiskbita með fisklími. Hugmyndin var að nýta verðminni aukaafurðir og fisktegundir í fisklímsgerðina, s.s. afskurð, marning og kolmunna.

Framleiðsla á formuðum fiskflökum hófst hérlendis upp úr 1980 og í fyrstu var einkum um að ræða hráefni sem hafði verið skorið smátt og síðan mótað í kökur eða önnur form með stimplum. Með því móti var afskurður úr flakavinnslu nýttur beint í afurðir til brauðunar þar sem líkja mátti eftir náttúrulegu útliti fiskbita. Hærra verð hefur fengist fyrir slíkarafurðir en þegar hráefnið hefur verið sett í blokk. Blokkir, sem framleiddar eru úr beinlausum og roðflettum flökum úr hvítfiski, hafa hins vegar verið framleiddar í meira en 50 ár og eru enn í dag mikilvægt hráefni í framhaldvinnslu á fiskafurðum í Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu.

Við endurmótun í fiskiðnaði er notaður þrýstingur sem raskar eðlilegri vöðvabyggingu og maukar fiskinn. Í áðurnefndu verkefni var eitt aðalmarkmiðið að nýta fisklímið til að geta dregið úr þrýstingi við mótun og viðhalda/skapa eðlilega vöðvabyggingu í vörunni, sem er nýjung.  Skýrslurnar þrjár sem nú hafa verið opnaðar eru númer 19 til 21 árið 2005.

Loks má nefna skýrslu nr. 24-05 sem ber titilinn Prótein í frárennslisvatni Forathugun á magni og eiginleikum og markmið þess var að afla grunnupplýsinga um magn oggerð próteina í frárennslisvatni í því skyni að athuga hvort hugsanlega mætti nýta þau á einhvern hátt til manneldis.

Þessar skýrslur og fjöldi annarra er að finna á vef Matís undir Útgáfa/Rf/Skýrslur

Fréttir

Minnkandi fiskneysla sögð áhyggjuefni

Fiskneysla ungs fólks fer minnkandi og ef ekkert verður að gert mun hún halda áfram að minnka á komandi árum. Þar kom fram að matarvenjur í æsku hafa mótandi áhrif á neyslu síðar meir. Einnig kemur fram munur á fiskneyslu eftir landshlutum og þá virðast ungar konur hrifnar af fiski og grænmeti en ungir karlar eru hrifnari af skyndibita og kjöti. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra, sem tók þátt í fundinum, sagði niðurstöðu þessarar rannsóknar vera áhyggjuefni.

Hann sagði að rannsóknin ætti að vera fólki hvatning til þess að gera betur í þessum málum.

Rannsókn Matís náði til ungs fólks á aldrinum 17 til 26 ára og niðurstöðurnar benda til að Íslendingar muni borða enn minna af fiski í framtíðinni en þeir gera í dag ef ekkert verður að gert. Ungt fólk borðar fisk sem aðalrétt að meðaltali rúmlega einu sinni í viku sem er töluvert undir þeirri fiskneyslu sem Lýðheilsustöð ráðleggur. Fiskneysla þessa aldurshóps hefur dregist verulega saman á undanförnum árum.Rannsóknin er samvinnuverkefni Matís ohf., Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, Rannsóknarstofu í næringarfræði á Landspítala Háskólasjúkrahúsi og fyrirtækisins Icelandic Services. Í verkefninu voru kannaðar neysluvenjur ungs fólks (17-26) ára á Íslandi. Könnunin tók meðal annars til viðhorfa til heilsu, fiskneyslu, neyslu annarra matvæla, innkaupa á fiski og einnig smekk á mismunandi fiskréttum. Spurt var um þætti sem hafa áhrif á fiskneyslu, kannað hvaðan neytendur fá upplýsingar um fisk og það traust sem þeir bera til slíkra upplýsinga.


Greining á afstöðu ungs fólks til matar og heilsu leiddi í ljós þrjá aðskilda neysluhópa. Minnsti hópurinn er 18% af heildinni og mótast neysla hans af heilsu og áhuga á eldamennsku. Þessi hópur neytir fisks. Í næsta hóp (39%) eru yfirleitt karlmenn sem borða þann mat sem settur eru fyrir þá en kjósa helst kjöt og skyndibita. Stærsti hópurinn (43%) eru mestan part konur sem njóta þess að borða fisk en eru óöruggar um hvernig skal matreiða hann.Fjölskyldan er sterkur áhrifavaldur á fiskneyslu en í ljós kom að matarvenjur í æsku hafa mótandi áhrif á fiskneyslu unga fólksins og einnig búseta þeirra í æsku. Einnig kom fram að sá hluti fólks sem er fluttur úr foreldrahúsum borðar minnst af fiski. Þá virðist munur á fiskneyslu eftir landshlutum en fólk á landsbyggðinni hefur ekki jafn greiðan aðgang að fiskbúðum eða ferskfiskborði í matvörubúðunum og fólk á höfuðborgarsvæðinu. Fólk á landsbyggðinni hefur þar af leiðandi ekki úr jafn mörgum fiskréttum að velja í verslunum og borðar frekar hefðbundnar fisktegundir og -rétti.


Úrtak rannsóknarinnar var 1.735 manns og svarhlutfall 86,7%.Rannsóknaverkefnið er styrkt af AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi.

Sjávarútvegsráðherra á blaðamannafundi um niðurstöður rannsóknarinnar í Sjóminjasafninu.

Mynd: Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, á blaðamannafundi í Sjóminjasafninu um niðurstöður rannsóknarinnar.

Viðhorf og fiskneysla ungs fólks á aldrinum 18 til 25 ára – Lýsandi tölfræðiúrvinnsla

Fréttir

Ferskleiki ávaxta og grænmetis: Rétt hitastig er mikilvægt

Það er afar mikilvægt að velja rétt hitastig til þess að viðhalda gæðum og ferskleika ávaxta og grænmetis frá því að varan er tínd og þar til hún endar í maga fólks.

Geymsluþol grænmetis og ávaxta er mjög misjafnt eftir tegundum. Sumar tegundir geymast aðeins í nokkra daga, en aðrar geymast svo mánuðum skiptir án þess að tapa ferskleika sínum.

Þegar grænmeti eða ávextir eru tíndir stöðvast upptaka vatns og næringarefna úr jarðveginum. Ljóstillífun stöðvast og ekki verður um frekari forðasöfnun að ræða. Hér hætta þó ekki öll efnaskipti plöntunnar, heldur nýtir hún orkuna úr forðanæringunni, sem safnaðist upp á vaxtarskeiðinu, til að viðhalda tilteknum efnaskiptum. Það er talað um að plantan haldi áfram að anda og sumar tegundir, eins og margir ávextir, halda áfram að þroskast eftir að þær eru tíndar. Því hægar sem þessi efnaskipti ganga því lengur geymist varan. Eftir því sem geymsluhitastig er lægra hægir á öndun og varan þroskast hægar. Talið er að hraði öndunar aukist tvöfalt til fjórfalt fyrir hverjar 10 gráður sem geymsluhitastigið hækkar. Því er lykilatriði að hafa góða stjórn á hitastigi ef gæði og ferskleiki eiga að haldast frá því varan er tínd og þar til hún endar í maga neytenda.

Mismunandi hitastig eftir tegundum

Það er mismunandi eftir tegundum við hvaða hitastig varan geymist best. Þess vegna er mikilvægt að velja rétt hitastig. Flestar grænmetis- og berjategundir geymast best við hitastig rétt yfir 0°C. Sumar tegundir geymast hins vegar illa við svo lágt hitastig og geta þá orðið fyrir kuldaskemmdum. Dæmi um þetta eru ylræktaðar tegundir eins og tómatar, paprikur og gúrkur en einnig útiræktað grænmeti eins og kartöflur. Ávextir geymast yfirleitt best við nokkru hærra hitastig en grænmeti eða í kringum 10°C. Það getur því verið nokkuð snúið fyrir neytendur að finna kjöraðstæður fyrir ávexti í hýbýlum sínum.

Grænmeti og ávextir tapa raka við útgufun. Það veldur breytingu á byggingu, áferð og útliti en þessar afurðir eru að langstærstum hluta vatn. Það er því mjög mikilvægt að minnka þetta vatnstap á geymslutímanum til að viðhalda ferskleika og takmarka rýrnun. Viðkvæmum afurðum er oft pakkað í plast til að koma í veg fyrir að þær tapi vatni og þorni upp og sumar ávaxtategundir eru hjúpaðar með vaxi í sama tilgangi eða húðaðar með öðrum neysluhæfum efnum. Tegundir, sem eru samsettar úr mörgum lögum, s.s. laukar og jöklasalat nota ystu lögin sem vörn gegn vatnstapi þar sem lítið vatn flyst milli laga. Vatnið tapast þá fyrst og fremst úr ystu blöðunum sem síðan er hægt að fjarlægja fyrir neyslu.

Ávextir

Höfundur: Valur N. Gunnlaugsson matvælafræðingur

Fréttir

Fiskeldi vex hröðum skrefum á heimsvísu

Fiskeldi er stór hluti af framleiðslu á sjávarfangi og fer stækkandi á heimsvísu og því mikilvægt fyrir Íslendinga að vera virkir þátttakendur í rannsóknum og þróun á þessu sviði, segir Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís í samtali við Viðskiptablaðið.

Sjöfn segir að eitt af stóru verkefnum Matís sé eldisrannsóknir á þorski, lax og lúðu.”Eitt af stóru verkefnunum eru eldisrannsókni á þorski, lax og lúðu. Eldið er stór hluti af framleiðslu á sjávarfangiog fer hækkandi á heimsvísu. Við verðum að spila með því. Það er komin heilmikil þekking á Íslandi í fiskeldi,” segir Sjöfn sem telur að almennt hugsi menn bara um eldi varðandi útflutning. “Þetta er svo lítill markaður hér á landi.”

Eldisþorskur

Nánar í Viðskiptablaðinu miðvikudaginn 14. mars.

Fréttir

Stefnt að fjölgun stöðugilda á Akureyri

Matís á Akureyri (Matvælarannsóknir Íslands) hefur tekið í notkun myndgreinibúnað sem mun stórefla rannsóknir fyrirtækisins á svæðinu. Þegar hefur verið fjölgað um hálft stöðugildi og stefnt að því að fjölga um nokkur stöðugildi til viðbótar með frekari eflingu rannsókna á þessu sviði.

Myndgreinibúnaðurinn gefur möguleika á að rannsaka smásæja byggingu matvæla og tölfræðilegri úrvinnslu gagna. Búnaðurinn gerir Matís því mögulegt að efla rannsóknar- og þróunarstarf í þágu fyrirtækja í matvælaiðnaði. Má þar nefna rannsóknir á gæðum og eiginleikum matvæla og nýtingu þeirra, svo sem lambakjöts, mjólkurafurða og fisks. Búnaðurinn mun einnig nýtast við rannsóknir á ónæmiskerfi lúðu- og þorsklirfa á fyrstu og viðkvæmustu stigum eldisins. Þá verður hægt að efla enn frekar rannsóknir á eldisfiski og öðrum eldistegundum, svo sem áhrifum fóðurs á eiginleika afurða.

“Matís hefur lagt mikla áherslu á að styrkja rannsóknarstarf sitt á Akureyri og myndgreinibúnaðurinn er einn liður í því. Við sjáum fram á að fjölga um 2-3 stöðugildi ef okkur tekst að fullnýta búnaðinn í samvinnu við framleiðendur og fyrirtæki í matvælaiðnaði. Þá kemur búnaðurinn einnig til með að nýtast háskóla- og vísindasamfélaginu á Akureyri sem er í mikilli sókn,” segir Rannveig Björnsdóttir deildarstjóri hjá Matís.

Starfsmenn hjá Matís á Akureyri eru 5 talsins en fyrirtækið sinnir matvælarannsóknum í samstarfi við Háskólann á Akureyri, aðrar stofnanir og fyrirtæki á Norðurlandi. Auk þess eru 4 nemendur á vegum Matís í meistaraverkefnum á Akureyri.

Matís tók til starfa um síðustu áramót en þar sameinast starfsemi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti (MATRA), Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar, líftæknifyrirtækisins Prokaria og Iceprotein.

Prokaria

Skýrslur

Nordic information and communication network regarding safety of seafood products. Final Report

Útgefið:

01/03/2007

Höfundar:

Helga Gunnlaugsdóttir, Björn Auðunsson

Styrkt af:

NSK (strategi-reserveren), NEF(Nordisk Embedsmans komité for fiskeripolitik), IFL

Nordic information and communication network regarding safety of seafood products. Final Report

Þessi skýrsla er lokaskýrsla í verkefninu Nordic information and communication network regarding safety of seafood products, sem hófst árið 2005 og lauk formlega í árslok 2006. Í verkefninu var þróuð sameignleg Norræn vefsíða (www.seafoodnet.info) þar sem safnað er saman á einum stað viðeigandi krækjum sem innihalda upplýsingar um efnainnihald sjávarafurða, bæði óæskileg efni og einnig næringarefni. Ísland (fyrst Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og síðan Matís ohf) sá um að þróa vefsíðuna og sér um að viðhalda henni en hvert land ber ábyrgð á sínum upplýsingum og á uppfærslu þeirra. Verkefninu lauk formlega í árslok 2006, en þá var nýbúið að færa vefsíðuna í nýtt vefumsjónarkerfi, Eplica, sem einfaldar alla umsjón með vefnum og auðveldar ennfremur gestum að finna það efni sem leitað er að á honum. Vonast er til að þessar muni gera það kleift að halda vefnum “lifandi” áfram með lítilli fyrirhöfn og kostnaði.

This report is the final report in a Nordic project called “Nordic information and communication network regarding safety of seafood products and utilization of the resources from the sea”. The report contains a summary of the activities in the projects after the 2nd workshop in the project, which was held in Copenhagen, Denmark on April 21st 2006 until the project formally ended at the end of 2006. During this period the website was transferred into a new web content management system called Eplica product suite, which makes administering much easier than in the earlier version and accessing the website much more user-friendly. This was done in accordance with agreements reached at the workshop in Copenhagen. Although the project has formally ended, it is hoped that the seafoodnet.info website will continue to live for some time to come, as a common database or co-ordination of information and reporting of chemical substances, i.e. nutrients and undesirable substances in seafood. Furthermore, it was hoped that the project would be a cornerstone for further networking and innovative transnational research with the participation of scientists in the Nordic countries and EU.

Skoða skýrslu

Fréttir

Íslenskur kjötiðnaður á tímamótum

Íslensk kjötframleiðsla og kjötiðnaður standa á tímamótum. Innflutningsvernd mun minnka og enn meiri kröfur verða um hagræðingu og lægra verð, að því er fram kom í erindi Guðjóns Þorkelssonar sviðsstjóra hjá Matís á Fræðaþingi landbúnaðarins.

Guðjón segir í erindi sínu, sem fjallar um þróun matvæla úr íslenskum landbúnaði með áherslu á kjöt, að íslensk framleiðsla og íslenskur iðnaður muni ekki geta staðist samkeppni við innflutning nema geta sýnt fram á sérstöðu varðandi nálægð við markaðinn, framleiðsluaðferðir, öryggi, gæði, næringargildi, vörutegundir og vöruframboð.

Íslenskar kindur

Þá segir Guðjón: “Mikilvægt er að koma á framfæri bæði við almenna neytendur og alþjóðlegt vísindasamfélag þeim miklu upplýsingum sem þegar hefur verið safnað um sérstöðu afurða úr íslenskum landbúnaði. Einnig þarf að stunda meiri rannsóknir, safna meiri upplýsingum og koma þeim á framfæri. Allt þarf þetta síðan að tengjast menntun á framhaldskóla- og háskólastigi og þá sérstaklega rannsóknanámi nemenda.”

Hægt er að nálgast erindi Guðjóns í heild sinni hér.

Fréttir

Deildarstjóri yfir vöruþróun og neytendarannsóknum

Dr. Þorbjörg Jensdóttir hefur verið ráðin deildarstjóri yfir vöruþróun og neytendarannsóknum hjá Matvælarannsóknum Íslands (Matís ohf.). Hjá Matís mun Þorbjörg hafa umsjón með nýsköpun og matvælarannsóknum sem meðal annars byggja á þörfum neytenda.

Þorbjörg lauk tvöföldu doktorsprófi við Kaupmannahafnarháskóla árið 2006; annars vegar í heilbrigðisfræðum við tannlæknadeild háskólans og hins vegar svonefndri iðnaðargráðu (Industrial Ph.D.). Hún lauk meistaraprófi í næringarfræði við Háskóla Íslands 2002 og fjallaði lokaritgerð hennar um drykki og glerungseyðingu tanna.

Þorbjörg

Sælgætisfyrirtækið Toms Group A/S, sem framleiðir meðal annars Anton Berg, Gajol, Pingvin og Spunk, styrkti doktorsnám Þorbjargar í Danmörku. Þar þróaði hún nýja aðferðarfræði við rannsóknir á glerungseyðingu tanna af völdum súrra drykkja og fastrar fæðu, svo sem sælgæti. Toms Group hefur sótt um einkaleyfi á aðferðarfræði Þorbjargar.

Matís tók til starfa um síðustu áramót en þar sameinast starfsemi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti (MATRA), Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar, líftæknifyrirtækisins Prokaria og Iceprotein.

Fréttir

Óléttupróf fyrir þorsk?

Stór þáttur í starfsemi Matís tengist fiskeldi og eru rannsóknir á því sviði af ýmsum toga og unnin í samstarfi við bæði innlenda og erlenda aðila. Nýlega voru gangsettir verkefnavefir í tveimur Evrópuverkefnum sem Matís tekur þátt í.

Annars vegar er um að ræða verkefnið Codlight-Tech þar sem markmiðið er að þróa nýja gerð ljósa til notkunar í sjókvíaeldi – en með því móti er ætlunin að koma í veg fyrir að þorskur verði kynþroska á eldistímanum. Kynþroski þorsks í eldi, það sem eldismenn kalla “ótímabæran” kynþroska, veldur stöðnun í vöðvavexti þar sem fiskurinn notar alla orku í þroska kynkirtla. Ennfremur er það óæskilegt að þorskurinn hrygni í sjókvíum þar sem þá getur átt sér stað blöndun erfðaefnis úr eldisfiski og villtum fiski.Eitt af meginmarkmiðum verkefnisins verður ennfremur að þróa “óléttupróf” fyrir þorsk – þ.e. að tæki til að greina á einfaldan hátt og með mikilli nákvæmni stöðu fiska m.t.t. kynþroska. Með því móti verður auðveldara fyrir eldismenn að skipuleggja eldi fram í tímann. Heildarvelta verkefnisins eru um 170 milljónir króna og stendur verkefnið í tvö og hálft ár og eru dr. Þorleifur Ágústsson hjá Matís og dr. Herve Migaud hjá háskólanum i Stirling í Skotlandi upphafsmenn verkefnisins. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu verkefnisins sem unnin er í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða http://www.codlight-tech.com

Sjá frétt mbl.is um “óléttupróf” fyrir þorska. Þá má einnig vekja athygli vestfirska vefmiðilsins Bæjarins besta um sama mál.Hins vegar er um að ræða verkefni á sviði velferðar eldisfisks í Evrópu. Hér er um að ræða mjög stórt verkefni sem styrkt er af Evrópusambandinu og með þátttakendum frá 16 Evrópulöndum. Tveir íslenskir vísindamenn eru þátttakendur í verkefninu, dr. Þorleifur Ágústsson hjá Matís ohf. og dr. Helgi Thorarensen hjá Háskólanum á Hólum. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu verkefnisins sem unnin er í samvinnu við Háskólasetur Vestfjarða. http://www.fishwelfare.com

IS