Fréttir

Saltfiskur tilbúinn í pottinn og á pönnuna

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nýlega kom út skýrsla á Rf úr verkefninu Þíddur saltfiskur í neytendapakkningum, þar sem m.a. voru rannsakaðir þættir eins og hvernig hægt væri að hámarka geymsluþol útvatnaðra þorskflaka.

Eins og margir vita hefur saltfiskur verið ein af mikilvægustu útflutningsvörum Íslendinga frá því snemma á 19. öld og enn í dag nemur útflutningur saltaðra sjávarafurða um 15-20% af útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða. Margir neytendur í dag telja sig hvorki hafa tíma né áhuga á að eyða of miklum tíma í matseld og því hefur eftirspurn eftir ferskum, tilbúnum eða fljótelduðum matvælum aukist verulega. Slíkar matvörur eru hins vegar mun viðkvæmari en saltaðar eða frystar og hafa mun styttra geymsluþol.

Til að saltfiskur haldi markaðshlutdeild sinni áfram er nauðsynlegt að hægt sé að bjóða upp á hann útvatnaðan og tilbúinn til suðu/steikingar. Til að það sé hægt þarf að tryggja að hann hafi nægilega langt geymsluþol sem kælivara.

Í nýju skýrslunni, sem ber titilinn Þídd, útvötnuð þorskflök í neytendapakkningum var athyglinni m.a. beint að með því að kanna nánar samspil gassamsetningar, kalíum sorbatstyrks og sítrónusýrustyrks með tilliti til þátta eins og örveru- og efnabreytinga, bragðs, lyktar, áferðar, útlits og drips.

Einnig voru í verkefninu gerðar geymsluþolstilraunir á útvötnuðum, þíddum, saltfiskflökum eftir mislanga frystigeymslu og gæði slíkra flaka borin saman við ófryst flök. Þá voru áhrif mismunandi hráefnisgæða á geymsluþol pakkaðra afurða könnuð svo og vaxtarmöguleikar nokkurra sýkla og bendiörvera í gaspökkuðum, útvötnuðum flökum.

Höfundar skýrslunnar Hannes Magnússon, Kolbrún Sveinsdóttir, Ása Þorkelsdóttir, Emilía Martinsdóttir, en þau starfa öll á Rannsóknasviði Rf.