Fréttir

Laust starf ritara

Laust er til umsóknar starf ritara til að starfa með s.k. „Resident Twinning Advisor (RTA)“ í  erlendu verkefni.

Verkefnið heitir„Institutional and laboratory capacity building to ensure food safety“ og mun standa yfir í 12 mánuði.  Aðsetur mun vera hjá Matís ohf. Í Reykjavík og mun starfið helst felast í að aðstoða RTA við að samhæfa heimsóknir þýskra sérfræðinga til Matís og MAST (Matvælastofnunar).  Gerð er krafa um ritfærni og góða kunnáttu í þýsku, íslensku og  ensku. Um er að ræða fullt starf.

Helstu verkefni:

  • Aðstoða RTA við stjórnsýslu og skipulag verkefnisins í heild
  • Skipuleggja ferðalög RTA og þýskra sérfræðinga
  • Aðstoð með tungumál og þýðingar RTA og þýskra sérfræðinga
  • Skipulagning funda og ráðstefna
  • Samantekt á gögnum og skýrsluskrif
  • Þýðingar (íslenska/enska, enska/íslenska)

Nánari upplýsingar:

http://www.eurojobs.com

Fréttir

Framkvæmdastjóri hjá PepsiCo á leið til landsins

Dr. Gregory L. Yep, framkvæmdastjóri langtímarannsókna hjá PepsiCo (Senior Vice President, PepsiCo R&D), mun halda fyrirlestur á morgunverðarfundi Matís á Hilton 4. júní nk.

Sjá nánar auglýsingu frá Matís. Taktu morguninn þann 4. júní frá!

Þetta er opinn fundur og er aðgangur ókeypis!

Nánar síðar en upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís

Fréttir

Hvað geta lífefni gert fyrir okkur?

Þann 15. maí næstkomandi munu þær Ásta María Einarsdóttir, mastersnemi við matvælafræði og Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, doktorsnemi við matvælafræði, halda fyrirlestra sem fjalla um rannsóknir og þróun lífefna úr matvælum.

Kl. 15:00 – 15:30
Ásta María Einarsdóttir flytur erindi um Fucoidan úr brúnþörungum 

Kl. 15:30-16:00
Sigrún Mjöll Halldórsdóttir flytur erindi um líflæknisfræðilega (biomedical) notkun þorskatrypsíns 

Ásta María mun fjalla um lífefnið fucoidan sem er fjölsykra úr frumuveggjum brúnþörunga sem sýnt hefur fjölbreytta lífvirkni í nýlegum rannsóknum. Í fyrirlestrinum verður farið yfir niðurstöður nýrrar yfirlitsgreinar þar sem helstu rannsóknum á lífvirkni fucoidan eru gerð skil (Vo TS and Kim SK (2013). „Fucoidans as a natural bioactive ingredient for functional foods.“ Journal of Functional Foods 5(1): 16-27). Rætt verður um áhrif fucoidan á þætti í blóðstorknun, áhrif fucoidans á veirur, æxli og bólgur auk andoxunarvirkni fucoidan.

Sigrún Mjöll fjallar um þorskatrypsín og notkunarmöguleika þess í líflæknisfræði. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þorskaensímin út frá nýrri yfirlitsgrein (Gudmundsdottir A, Hilmarsson H and Stefansson B (2013). “Review Article – Potential Use of Atlantic Cod Trypsin in Biomedicine”.  BioMed Research International, published online http://dx.doi.org/10.1155/2013/749078). Rannsóknir sýna að þorskatrypsín hefur margvíslega virkni t.d. gegn ýmsum veirum, húðvandamálum og sárum. Þorskatrypsín er einangrað úr viðbótarafurðum í fiskvinnslu og vinnsla þess stuðlar að fullnýtingu þorsks. Nú þegar eru ýmsar vörur á markaði sem innihalda þorskaensím undir nafninu ®Penzyme. 

Fyrirlestrarnir verða haldnir í húsnæði Matís að Vínlandsleið 12, á efstu hæð í sal 311 (Esja) frá kl.15 til kl.16, miðvikudaginn 15. maí (fuciodan kl.15 og þorsk trypsín kl.15:30).

Allir velkomnir!

Fréttir

Jón Gerald Sullenberg í Kosti er velkominn í viðskipti til Matís

Vegna greinar sem birtist í Morgunblaðinu, þar sem eigandi Kosts fjallar um matvælaeftirlit á Íslandi, vill Matís koma eftirfarandi á framfæri:

Matvælaeftirlit á Íslandi er í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga (HES). Yfirumsjón og samræming á þessu eftirliti er í höndum Matvælastofnunar (www.mast.is).

Matís (www.matis.is) er öflugt þekkingarfyrirtæki sem sinnir fjölbreyttu rannsókna- þjónustu- og nýsköpunarstarfi í matvælaiðnaði. Matís hefur ekkert hlutverk í matvælaeftirliti annað en það að fyrirtækið getur, með áháðum hætti, rannsakað matvælasýni fyrir eftirlitsaðila, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga. Til að mynda getur Matís kannað hvort í matvælum séu aðskotaefni eða önnur óæskileg efni, hvort í matvælum séu þau efni sem sagt er að þar sé að finna og hvort um einhverja sérstaka virkni (lífvirkni) sé að ræða í vörum eða innihaldsefnum matvæla

En Jón Gerald er ævinlega velkominn í viðskipti til Matís og höfum við nú þegar boðið honum til samstarfs m.a. er varðar mælingar á ávöxtum og grænmeti sem Kostur flytur inn frá Bandaríkjum.

Jón Gerald hefur nú þegar leiðrétt ruglinginn en ekki er úr vegi að varpa enn frekara ljósi á starfsemi Matís og hvernig hún tengist ekki matvælaeftirliti á Íslandi.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís

Fréttir

Skeiðgenið nú greint á Íslandi

Matís, sem sér um foreldragreiningar hesta, hefur nú hafið DNA greiningar á geninu DMRT3, hinu svokallaða skeiðgeni. Mikil umræða skapaðist meðal hestamanna í lok ársins 2012 þegar fréttir bárust af því að búið væri að finna gen í hrossum sem stjórnaði skeiðgangi þeirra.

Rannsakendurnir, Lisa Andersson hjá Capilet Genetics AB, ofl  sem uppgötvuðu þetta gen telja að þetta sé afar merkilegur fundur sem getur bætt kynbótastarf íslenska hestsins.

Hestar geta haft eina af þremur arfgerðum. Ein arfgerðin er þegar hestar eru arfhreinir fyrir þessu geni (AA) og búa slíkir hestar yfir skeiði. Séu tvö arfhrein hross með góðu skeiði pöruð saman þá gefa þau af sér arfhreint alhliðahross (AA). Aðrir erfðaþættir og umhverfisáhrif geta hins vegar haft áhrif á hversu gott það afkvæmi verður sem alhliða hross. Önnur arfgerðin gefur af sér arfblendna (CA) hesta og eru slíkir hestar yfirleitt  fjórgangshross en séu þeir paraðir við arfhreinan eða arfblendin einstakling geta þeir gefið af sér alhliða afkvæmi í 50% eða 25% tilfella. Þriðja arfgerðin er arfhrein án skeiðgensins (CC) og hestar með þessa arfgerð eru í flestum tilfellum gangtreg hross. Séu slík hross pöruð saman við arfhreinan einstakling með skeiði eða arfblendin einstakling munu afkvæmi annaðhvort verða klárhestar með tölti eða hreinir klárhestar.

Með því að DNA greina hross fyrir þessu geni geta ræktendur valið undaneldisgripina með tilliti til þess hvort þeir séu alhliða hestar (arfhreinir), klárhestar með tölti (arfblendnir) eða hreinir klárhestar.

Frekari upplýsingar um DNA greiningar fyrir skeiðgenið er hægt að nálgast með því að senda tölvupóst á alexandram@matis.is

Fréttir

Ferskara gerist hráefnið ekki

Ásbjörn Jónsson matvælafræðingur hjá Matís fór í eina veiðiferð með fullkomnasta línuveiðiskipi heims þar sem hann hafði hönd í bagga með að framleiða nokkrar spennandi niðursuðuvörur úr afbragsfersku hráefni.

Í Noregi er að finna línuveiðiskipið „Fröyanes“ en þar um borð er stefnt að því að nýta allt hráefni sem inn fyrir borðstokkinn kemur. Lítil niðursuðuverksmiðja er um borð og er markmiðið að nýta til niðursuðu lifur, hrogn, svil, skötubörð og gellur.

Fröyanes er eitt fullkomnasta línuveiðiskip heimsins og því mikill akkur fyrir sérfræðinga Matís að taka þátt í vöruþróun um borð í þessu skipi.

Ferð Ásbjörns voru gerð mjög góð skil í Fiskifréttum 11. apríl sl. (©Mynd af Fröyanes: www.fiskifrettir.is).

Fréttin í Sunnmörsposten laugardaginn 23. mars sl. (opna nr. 10).

Fréttir

Breytum ekki skít í gull

Enginn efast um framlag Sigurjóns Arasonar, yfirverkfræðings hjá Matís og prófessors við HÍ, til aukinnar verðmætasköpunar í íslenskum sjávarútvegi. Sigurjón hefur verið viðriðin sjávarútveginn undanfarna áratugi í starfi sínu hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (Rf) og Matís.

Helsti styrkleiki Sigurjóns þegar kemur að sjávarútveginum er að hugsa í lausnum og hvernig hægt er að gera hlutina betur en í gær, bæði til þess að auka verðmæti en ekki síður til þess að fara betur með þá gullkistu hollustu og auðæfa sem íslenskt sjávarfang er. Sigurjón er ekki bara mikils metinn hér á landi heldur erlendis einnig og er starf hans rómað ekki hvað síst í Noregi, þaðan sem oft er leitað til hans þegar leysa þarf tæknilegar áskoranir í t.d. í fiskvinnslu.

Síðastliðinn föstudag fékk Sigurjón viðurkenningu frá fyrirtækjum inna Íslenska sjávarklasans. Viðurkenning þessi er rós í hnappagat Sigurjóns og staðfestir enn frekar hversu ótrúlega stórt framlag Sigurjóns hefur verið til íslensks sjávarútvegs. Á myndinni má sjá hvar Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf. veitir Sigurjóni viðurkenninguna (©mynd: Íslenski sjávarklasinn/Eva Rún Michelsen).

Við hjá Matís erum ótrúlega stolt af Sigurjóni og vonumst til að halda áfram að fá að njóta visku, reynslu og þekkingar Sigurjón næstu ár.

Til hamingju Sigurjón!

Meira efni tengt Sigurjóni Arasyni og viðurkenningu Íslenska sjávarklasans (www.sjavarklasinn.is):

Fréttir

Sæbjúgu við getuleysi?

Á laugardaginn var haldið málþing um íslenskan matvælaiðnað, umhverfismál og vistvæna nýsköpun.  Á sama tíma var efnt til sýningar á verkefnum nemenda í vistvænni nýsköpun matvæla en nemendur höfðu keppt um titilinn vænlegasta og vistvænasta nýsköpunarhugmyndin á matvælasviði árið 2013 (Ecotrophelia).

Berglind Ósk Alfreðsdóttir, Helga Franklínsdóttir og Sigríður Hulda Sigurðardóttir nemendur við Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands sigruðu í Ecotrophelia Iceland að þessu sinni en þær framleiddu og hönnuðu vöruna Hai Shen sem er sæbjúgasúpa og er ætlunin að markaðssetja súpuna á Kínamarkað.  Súpan fékk afburða dóma er varðar bragð, útlit, þróun og ekki síst hve umhverfisvæn framleiðslan er.

Ecotrophelila Iceland er haldin af Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Matís og Samtökum iðnaðarins.

Þess má að lokum geta að sigurvegarar keppninnar munu fara með vöruna í Evrópukeppni Ecotrophelia í Köln í október.

Nánari umfjöllun fréttamiðla má finna á:

Fréttir

Skyndileg aukning í PCB efnum vegna hvalskurðar?

Vöktun á mengunarefnum í lífríki við strendur Íslands hefur farið fram síðan 1990. Verkefnið er unnið af Matís í samstarfi við Rannsóknastofu í Lyfja- og eiturefnafræði við HÍ og Hafrannsóknastofnun.

Verkefnið er fjármagnað af Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og er Umhverfisstofnun umsjónaraðili verkefnisins. Markmið verkefnisins er m.a. að fylgjast með styrk mengunarefna í kræklingi á 11 stöðum við strendur landsins og greina hvort breytingar verði á styrk efnanna. Vegna þess hve fjárhagsrammi vöktunarverkefnis er þröngur hefur ekki verið hægt að meta með tölfræðilegum aðferðum hvort greina megi aukningu eða minnkun mengandi efna í lífríki sjávar hér við land fyrr en nú. Árið 2011 fékkst styrkur úr Rannsóknarsjóði Rannís til að gera tölfræðilega greiningu á breytingu mengunar í Íslandshöfum.  Nú er búið að birta fyrstu vísindagreinina úr þessu rannsóknarverkefni „Spatial and temporal trends of contaminants in mussel sampled around the Icelandic coastline” sem birtist í Science og The Total Environment. http://dx.doi.org/10.1016/j.scitotenv.2013.03.042

Helstu niðurstöður vísindagreinarinnar

Greina mátti uppsprettur mengunar á nokkrum stöðum. Árið 2009 og 2010 mátti greina skyndilega aukningu  í þrávirku lífrænu efnunum DDE, transnonachlor og PCB við Hvalstöðina í Hvalfirði en árið 2009 hófst aftur hvalskurður við stöðina eftir langt hlé. Þekkt er að styrkur þrávirkra lífrænna efna er hár í hvölum og því líklegt að hvalskurðurinn hafi valdið þessarar hækkun við stöðina. Einnig mátti greina aukningu á þrávirkum efnum í Mjóafirði á Austfjörðum og er hugsanlegt að það sé vegna fiskeldis sem rekið var þar um tíma. Við Úlfsá í Skutulsfirði mældist bæði mun hærri styrkur af HCB og arsen en á hinum tíu stöðunum. Líklegt þykir að háan styrk HCB megi rekja til sorpbrennslunar Funa en ekki er vitað hver uppspretta arsens gæti verið. Sorpbrennslunni hefur nú verið lokað og sé hún orsök mengunar við Skutulsfjörð þá ætti áframhaldandi vöktun að sýna minnkandi styrk næstu árin.

Almennt hafði styrkur þrávirku lífrænu efnanna farið minnkandi á flestum vöktunarstöðunum á tímabilinu 1990-2010. Styrkur þrávirku lífrænu efnanna reyndist vera mun lægri hér við land samanborið við það sem mælst hefur í kræklingi við strendur Noregs, Bandaríkjanna og Kína.

Styrkur arsens, kvikasilfurs og sinks var nokkuð stöðugur yfir tímabilið en meiri sveiflur mátti greina í styrk kadmíums. Samaborðið við það sem greinst hefur í kræklingi við strendur Noregs, Bandaríkjanna og Kína, þá er styrkur kvikasilfurs og blýs mun lægri hér við land en styrkur kadmíum og sinks hefur hins vegar greinst í hærri styrk hérlendis. Ekki er vitað um neinar uppsprettur kadmíums hér við land og talið er að hærri styrkur þess hérlendis megi rekja til íslenska bergsins.

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir fagstjóri hjá Matís.

Fréttir

Hvert er ástand neysluvatns í þínu sumarhúsi?

Sumarhúsum hefur fjölgað mikið síðustu ár, en samkvæmt Þjóðskrá Íslands voru 12.225 sumarbústaðir á landinu 2011.  Með fjölgun sumarbústaða hefur vatnsveitum í einkaeign fjölgað.  Heilbrigðiseftirlit sveitafélaga sér um eftirlit á neysluvatni frá stærri vatnsveitum en það er á ábyrgð eigenda einkavatnsbóla að fylgjast með gæðum neysluvatns úr minni veitunum.

Örverufræðilegt ástand neysluvatns er einn mikilvægasti þátturinn varðandi gæði og öryggi þess. Örverur leynast víða í umhverfinu og geta borist auðveldlega í neysluvatnið og margir alvarlegir sjúkdómar geta borist með neysluvatni eins og sýkingar af völdum SalmonellaCampylobacter og nóróveira.

Mesta hætta á sýkingu er þegar neysluvatn hefur mengast af saur manna eða dýra, en saur inniheldur bakteríur, veirur og frumdýr sem geta valdið sýkingum í fólki.  Hér á Íslandi hafa komið upp nokkrar hópsýkingar af völdum Campylobakter í neysluvatni en þær voru á Stöðvarfirði 1984, Djúpavogi 1993 og í veiðihúsi í Borgarfirði 1998.  Einnig hafa komið upp nokkrar hópsýkingar af völdum nóróveiru, en þær voru í Húsafelli og á Mývatni 2004 en þá sýktust rúmlega 300 manns í þessum hópsýkingum.  Einnig hafa komið upp mörg tilfelli þar sem talið var að fólk hefði smitast af nóróveirum eftir neyslu drykkjarvatns en í þeim tilfellum var það ekki staðfest.

Frágangur vatnsbóla þarf að vera réttur til að tryggja öryggi neysluvatnsins.  Við borholur og brunna er mikilvægt að grunnvatnið mengist ekki af yfirborðsvatni á svæðinu þar sem það getur oft á tíðum verið mengað af völdum óæskilegra örvera.  Það hafa einnig komið upp tilfelli þar sem neysluvatn hefur mengast frá rotþróm sem eru í námunda við vatnstökustaðinn og því þarf einnig að huga vel að staðsetningu þeirra og frágangi.

Til að tryggja öryggi neysluvatns er nauðsynlegt að láta rannsaka það reglulega m.t.t ákveðinna örveruþátta.  Niðurstöður slíkra rannsókna gefa til kynna hvort neysluvatnið uppfylli ákveðnar kröfur neysluvatnsreglugerðar um nothæfi og öryggi til neyslu. 

Langflestar mælingar á efnainnihaldi grunnvatns hafi sýnt fram á að íslenskt vatn sé mjög öruggt m.t.t. efnafræðilegrar mengunar og því sé ekki talið nauðsynlegt framkvæma dýrar efnamælingar á neysluvatni úr minni vatnsbólum.

Undanfarin ár hefur orðið mikil vitundarvakning meðal sumarbústaðareiganda sem vilja tryggja að neysluvatnið þeirra uppfylli þær kröfur sem eru gerðar til neysluvatns.  Rannsóknastofa Matís hefur áratuga reynslu af rannsóknum á neysluvatni og hægt er að fá allar upplýsingar um framkvæmd sýnatöku og nauðsynleg sýnatökuílát hjá rannsóknastofunni í síma 422-5116 og tölvupóstfanginu radgjof@matis.is.

IS