Fréttir

Matís var tilnefnt til Fjöreggsins 2012

Matís var tilnefnt fyrir Kjötbókina á rafrænu formi. Íslenska kjötbókin kom fyrst út árið 1994 og hefur verið í notkun til dagsins í dag.

Endurútgáfa bókarinnar kom út á formi vefbókar í október 2011. Miklar framfarir hafa orðið í kjötiðn og matvælafræðum og því er hér tímabært verkefni á ferðinni, sem höfðar til breiðs hóps. Í dag eru í kjötbókinni, www.kjotbokin.is, kaflar um lambakjöt, nautakjöt og hrossakjöt.

Stefnt er á útgáfu kafla um grísakjöt og fuglakjöt. Aðgangur að kjötbókinni er öllum opinn og er hann ókeypis.

Gróðrarstöðin Lambhagi ehf. hlaut Fjöreggið að þessu sinni og óskar Matís fyrirtækinu til hamingju með verðlaunin.

Nánari upplýsingar veitir Óli Þór Hilmarsson hjá Matís.

Fréttir

Kafað eftir kvöldmatnum

Á hafsbotni leynist ýmis fjársjóður og fjölskrúðugt lífriki. Margt ætilegt er þar að finna en sjaldgæft er að fólk beinlínis tíni upp það sem það sér í botninum og leggi sér til munns.

Þessi upplifun er kjarninn í undirbúningsverkefninu „Frá köfun til maga” (e. “Gourmet Diving”) sem styrkt er af AVS og sem Matís hefur unnið að í sumar í samstarfi við Náttúrustofu Vestfjarða, Núp ehf., Dive.is, Alan Deverell og síðast en ekki síst Sveinbjörn Hjálmarsson, kafara.

„Hugmyndin er sú að fara með ferðamenn í köfunarferðir á Vestfjörðum og leyfa þeim að tína upp skeljar og fleira sem hægt er að borða. Þeir myndu síðan fá matinn eldaðan af kokki frá Hótel Núpi, annaðhvort í fjöruborðinu þegar þeir koma upp úr sjóum eða þá á hótelinu. Maturinn yrði eldaður fyrir framan þá svo þeir fá að fylgjast með öllu ferlinu,“ segir Sveinbjörn og bætir við að á sumum stöðum sé eitthvað af flatfisk sem gott er að fanga með höndunum. Því geti ferðamennirnir hæglega orðið sér úti um stórar og góðar máltíðir.

Landslagið mjög breytilegt
Sveinbjörn kafaði og snorklaði á nokkrum stöðum á Vestfjörðum ásamt Bjarka Sigurjónssyni sem var sumarnemi á vegum Matís. Markmiðin voru þau að finna ætar tegundir, skoða staðhætti ofan- og neðansjávar og leggja gróft mat á það hversu mikið mætti tína á hverjum stað fyrir sig. „Þessir staðir eru aldrei eins, þó það séu kannski ekki nema hundrað metrar á milli þeirra, landslagið er svo breytilegt. Á nánast hverjum stað var eitthvað áhugavert að skoða betur, bæði fyrir augað og svo auðvitað bragðlaukana. Við fundum mikið af öðuskel, kúfskel og ígulkerum. Þá var einnig töluvert af hörpudiski, kræklingi, smyrslingi sem er skeljategund, trjónukrabba, einbúakrabba og beitukóngi, svo eitthvað sé nefnt. Ferðamennirnir myndu fá leiðbeiningar áður en farið er ofan í sjóinn um hvað megi tína og hvað ekki, auk þess sem ég myndi leiða þá áfram og benda þeim á hvað og hvar megi tína,“ segir Sveinbjörn.

Hugmynd sem varð til fyrir vestan
Ólafur Ögmundarson hjá Matís segir að hugmyndin sé mjög góð og þess vegna hafi fyrirtækið ákveðið að taka þátt í undirbúningsverkefninu sem gæti síðar meir leitt af sér stofnun fyrirtækis sem tæki að sér að fara með ferðamenn í köfunarferðir. „Í þessu tilviki kom umsóknin inn á borðið til mín og ég ákvað að sækja um styrk til þess að ráðast í verkefnið. Hlutverk okkar hefur að mestu snúið að verkefnastjórnun og framkvæmdum á rannsóknum. Bjarki vann að þessu fyrir okkar hönd og var undir handleiðslu minni og Kristjönu Einarsdóttur frá Náttúrustofu Vestfjarða,“ segir Ólafur.

„Hugmyndin byggir á meistararitgerð Alan Deverell. Hann var nemi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Því má segja að hugmyndin hafi orðið til á svæðinu og við fórum svo lengra með hana. Lokatakmarkið er svo það að Sveinbjörn geti nýtt sér lokaskýrsluna til þess að setja af stað fyrirtæki sem selur svona köfunarferðir á Vestfjörðum,“ segir Ólafur að lokum.

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Ögmundarson hjá Matís.

Grein þessi birtist fyrst í 7. tbl. Ægis (www.athygli.is)

Fréttir

Starfsmaður Matís í áhrifastöðu hjá SAFE

Oddur Már Gunnarsson, sviðsstjóri Viðskiptaþróunar hjá Matís, hefur tekið við starfi aðalritara SAFE. Mikill heiður er fyrir Odd persónulega og fyrir Matís að hann skuli hafa verið valinn til þess að sinna þessu mikilvæga starfi en SAFE Consortium er net rannsóknafyrirtækja og stofnana um matvælaöryggi.

Val Odds í aðalritarastöðuna sýnir best stöðu Matís þegar kemur að matvælaöryggismálum en eitt af hlutverkum Matís samkvæmt lögum er að tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu.

Auk þess að fara með stöðu aðalritara SAFE þá veitir Matís netinu formennsku og hefur umsjón með öllum rekstri þess.

„Eitt af því sem við gerum í netinu er að efna til nýrra verkefna sem snúa að matvælaöryggi og undanfarið höfum við leitt þessa vinnu sem formennskuaðili,“ segir Oddur Már Gunnarsson, sviðsstjóri hjá Matís og aðalritari SAFE.

Nánari upplýsingar veitir Oddur Már.

Heimasíða SAFE Consortium: www.safeconsortium.org/

Fréttir

Flotbryggjur festar tryggilega, án kafara, niður á allt að 100 metra dýpi

Fyrir stuttu afhenti Króli ehf Fjallabyggð formlega nýja flotbryggju í Innri Höfn á Siglufirði. Þetta er fyrsta flotbryggjan frá Króla ehf þar sem notast er við skrúfuakkeri sem Hafbor ehf hefur þróað, til að festa bryggjuna í sjávarbotninn. Um er að ræða samstarf Króla, Hafbors, Rannís og Matís.

Við það tækifæri var undirritaður samningur milli Hafbor ehf á Siglufirði og Króla í Garðabæ og tengdra aðila um markaðssetningu á tæknilausnum Hafbor fyrir aðila sem starfrækja eða setja upp hafnir, flotbryggjur og sambærileg mannvirki annars vegar og hinsvegar aðila sem starfrækja eða reisa vindorkuver á erlendum markaði.

KRÓLI ehf, sem er í eigu Kristjáns Óla Hjaltasonar, hefur undanfarin ár byggt upp sérhæfða þjónustu með steinsteyptar flotbryggjur og búnað fyrir íslenskar hafnir en með fyrstu bryggjunum voru einingar sem hafa þjónað Siglfirðingum vel yfir 20 ár. Flotbryggjurnar eru sænsk hönnun en fyrir 2 árum var undirritaður samningur við hönnuð eininganna að hefja framleiðslu hérlendis. Framleiðslan er í höndum Loftorku í Borgarnesi ehf en þar er í öllu farið eftir gæðakröfum SF Marina AB í Svíþjóð sem hefur verið í fremstu röð bryggjuframleiðanda á heimsvísu. Siglufjarðarhöfn er fyrsti kaupandi á steinsteyptum 12 metra fingrum sem er nýjung í viðlegu við flotbryggjur en fingurnir eru hentugir till viðlegu stórra yfirbyggðra báta sem kalla eftir auknu rými við bryggjur.

Hafbor ehf á Siglufirði sem er í eigu Erlings Jónsonar, Hilmars Erlingssonar og Gunnars Júlíussonar hefur undanfarin þrjú ár hannað, þróað og prófað búnað sem festir skrúfuakkeri í sjávarbotn með nýrri tækni í samstarfi við Matís, Rannís ofl. Tæknin gerir kleift að setja niður öflugar festingar í sjávarbotn án kafara á allt að 100 metra dýpi. Tæknin er miðuð að notkun fyrir kræklingarækt og fiskeldi á miklu dýpi en nýtist einnig við ýmsar aðrar aðstæður og notkun þar sem festa þarf hluti við sjávarbotn.

Samningurinn veitir Króla ehf leyfi til markaðssetningar á tæknilausnum Hafbor í gegnum alþjóðlegt tengslanet SF Marina AB og Seaflex AB en þessir aðilar hafa þegar lýst áhuga sínum og væntingum til hinns nýja búnaðar og er þess vænst að með samning þessum eflist innlend framleiðsla og þekking.

Hafbor ehf mun einbeita sér að markaðssetningu gagnvart fiskeldi af öllum gerðum og þess má geta að nú er samningagerð á lokastigi við KZO Seafarms og Catalina Seafarms í Californiu í um uppsetningu á fyrstu kræklinga og ostrurækt í Bandaríkjunumsem staðsett er utan 3. mílna fylkislögsögu, á alríkishafsvæði átta mílur frá Los Angeles. Stefnt að undirritun samninga á næstu vikum og að framkvæmdir hefjist í byrjun janúar 2013. Kræklingarækt KZO og Catalina Seafarms verður undir ströngu eftirliti vísindamanna næstu árin og miklar kröfur gerðar um allan búnað sem notaður er á svæðinu. Fyrsti áfangi felur í sér uppsetningu á 90 kræklingalínum á tveimur svæðum og ef leyfi fæst er stefnt að því að tífalda línufjölda á næstu fimm til sex árum.

Framkvæmdarstjóri Hafbor ehf er Ingvar Erlingsson og er fyrirtækið með aðsetur að Gránugötu 5 á Siglufirði.

Nánari upplýsingar hjá Matís veitir Gunnar Þórðarson stöðvarstjóri á Ísafirði.

Fréttir

Horft til framtíðar – Sjávarútvegsráðstefnan 2012

Sjávarútvegsráðstefnan verður haldin á Grand Hótel í Reykjavík 8.-9. nóvember 2012 og ber heitið ,,Horft til framtíðar“. 

 Á ráðstefnunni verða haldin rúmlega 30 erindi og málstofur verða eftirfarandi: 

  •  Íslenskur sjávarútvegur
  • Eiga Íslendingar að vera með sameiginlegt markaðsstarf?
  • Framtíðartækifæri í fiskeldi
  • Allt  hráefni á land?
  • Er framtíð í fullvinnslu á Íslandi?
  • Heimsframboð samkeppnistegunda botnfiska
  • Framboð samkeppnistegunda uppsjávarfiska í N-Atlantshafi
  • Fishery management and harvesting in Iceland and the EU

Nú er hægt að sækja dagskrá Hér.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Sjávarútvegsráðstefnunnar, sjavarutvegsradstefnan.is/

Fréttir

Afgerandi gæðamunur þegar fiskur er látinn blæða með Rotex búnaði

3X Technology, Matís og fiskvinnslan Jakob Valgeir ehf. hafa sameiginlega staðið fyrir rannsóknarverkefni í sumar þar sem nýr búnaður, Rotex, hefur verið prófaður við blóðgun á þorski.

Nú liggja fyrir fyrstu niðurstöður sem sýna með afgerandi hætti gæðamun á lönduðum fiski sem hefur verið látin blæða út í Rotex búnaði.  Hefðbundin blóðgun um borð í línubátum í smábátakerfinu er með þeim hætti að fiskur er blóðgaður í krapa í keri sem er síðan losað við löndun yfir í annað ker áður en fiskur er tekin til slægingar. 3X Technology hefur þróað blóðgunarbúnað, Rotex, þar sem blóðgunarferli er stýrt áður en gengið er frá fiski í krapakeri í lest og hefur fyrirtækið þegar fengið einkaleyfi á búnaðinum.

Eykur gæði landaðs afla
„Nú liggja fyrir niðurstöður rannsókna á ferskum afurðum sem benda allar til þess að Rotex búnaður geti aukið gæði landaðs afla verulega. Fiskurinn var hvítari, minna blóð mældist í honum og gæði þess hráefnis sem fór í gegnum búnaðinn reyndust mun jafnari. Þrjár aðferðir eru notaðar til að meta gæðin; skynmathópur sem treystir á huglægt mat sérfræðinga, litgreining með sérstökum búnaði þar sem treyst er á hlutlægt mat á gæðum og að síðustu nýjustu aðferðir við mat á blóðtæmingu, mælingar á rauðublóðkornum. Áfram verður fylgst með áhrifum blóðgunar á frosnar afurðir næstu átján mánuðina og þær niðurstöður birtar seinna,“ segir Gunnar Þórðarson, stöðvarstjóri Matís á Ísafirði.

Augljóst er að hér er um mikla hagsmuni að ræða þar sem landaður afli smábáta er upp undir 100 þúsund tonn á ári, og aukin gæði þess afla getur skipt sjávarútveg og samfélagið miklu máli. Lífsgæði þjóðarinnar eru að miklu leyti byggð á afkomu mikilvægustu auðlindar hennar, og því mikilvægt að hámarka þau verðmæti sem sjávarútvegurinn gefur af sér.

Framtíðin byggir á rannsóknum og þróun
„Segja má að samvinna aðila á markaði sé burðarás árangurs í slíkum verkefnum. Í þessu tiltekna verkefni hafa unnið saman; tækjaframleiðandinn 3X Technology, fiskframleiðandinn Jakob Valgeir ehf. og rannsóknarfyrirtækið Matís. Slík verkefni verða hins vegar ekki til án aðkomu rannsóknasjóða en verkefnið er styrkt af AVS rannsóknasjóði og Vaxtarsamningi Vestfjarða. Framtíð íslensk sjávarútvegs mun byggja á rannsóknum og þróun til að treysta samkeppnishæfni á markaði og tryggja sölu á hæst borgandi mörkuðum í framtíðinni.

Fyrir utan blóðgun getur kæling á hráefni, strax eftir veiðar, skipt miklu máli. 3X Technology hefur þegar þróað í samvinnu við Íslandssögu á Suðureyri, krapabúnað fyrir stærri báta til að snögg kæla aflann eftir blóðgun. Slíkt seinkar dauðastirðnun, en engir skemmdaferlar hefjast fyrir en eftir að henni lýkur. Með seinkun á dauðastirðnun er hægt að tryggja að slæging, sem er framkvæmd í landi, eigi sér ekki stað á meðan hún stendur yfir, en slíkt veldur mikilli gæðarýrnun á hráefni. Fyrirtækið mun áfram þróa búnað sem hentar um borð í bátum í smábátakerfinu,“ segir Gunnar að lokum.

Nánari upplýsingar veitir Gunnar Þórðarson, stöðvarstjóri hjá Matís.

Fréttir

Gríðarlegur áhugi á þarapasta úr íslensku byggi

Vísindavaka Rannís 2012 var haldin föstudaginn 28. september. Mikill fjöldi fólks sótti vísindavökuna og er óhætt að segja að aldrei hafi fleiri, en einmitt nú, heimsótt bás Matís.

Íslenskur þari og íslenskt þang var þemað hjá Matís að þessu sinni og var bás Matís skreyttur í þeim anda. Mikil tækifæri liggja í þaranum og þanginu og má reikna með því að á allra næstu árum verði mýmörg matvæli sem innihaldi hvorttveggja í einhverri mynd. 

Á Vísindavökunni var þarapasta úr íslensku byggi kynnt og fólki leyft að smakka. Ásóknin í þessa nýju vöru var ótrúleg og þurfti að leita að ílátum í Háskólabíói til þess að fólk gæti smakkað. Svo mikill var áhuginn að þau 200 ílát sem upphaflega áttu allt kvöldið kláruðust á fyrsta klukkutímanum.

Einnig voru húðkremin frá UNA Skincare kynnt en UNA Skincare línan er á allra vörum og gengur sala þessa lífvirka andlitskrems mjög vel (unaskincare.com/)

Svo var þaraskyrið að sjálfsögðu kynnt en nú styttist óðum í að skyrið komi á markað.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Fréttir

Matvæladagur Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands – forstjóri Matís stjórnar fundi 16. október nk!

Matvæladagur MNÍ 2012 verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík á alþjóðlegum fæðudegi Sameinuðu þjóðanna, þriðjudaginn 16. október, kl. 13-17. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Matvælaöryggi og neytendavernd – Hvar liggur ábyrgðin?“

Búið er að opna fyrir skráningu á Matvæladaginn á vef Matvæla- og næringarfræðafélagsins, www.mni.is. Þar er einnig að finna nánari upplýsingar og dagskrá. Allir eru velkomnir á Matvæladaginn, þátttökugjald er kr. 7.000 en 3.500 fyrir nemendur.

Matvælaöryggi og neytendavernd Hvar liggur ábyrgðin?
Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands (MNÍ) boðar til Matvæladags MNÍ þriðjudaginn 16. október næstkomandi á Grand Hótel Reykjavík. Matvæladagurinn er árviss viðburður sem haldinn hefur verið frá árinu 1993 og er nú haldinn í 20. sinn.

Með innleiðingu nýrrar matvælalöggjafar ESB er lögð aukin áhersla á ábyrgð framleiðenda á matvælaöryggi. Matvælaeftirlit skal jafnframt byggjast á áhættumati. Fyrr á árinu var mikil umræða í fjölmiðlum og víðar í tengslum við ákveðin mál sem upp komu í eftirliti í matvælaiðnaði og urðu uppspretta vangaveltna og umræðna um öryggi matvæla á Íslandi. Í framhaldi af því telur MNÍ að þörf sé fyrir ábyrga umræðu og aukna fræðslu til allra þeirra sem koma að slíkum málum og hefur því valið matvælaöryggi og neytendavernd sem yfirskrift Matvæladagsins í ár með von um að leggja með því sitt af mörkum til uppbyggilegra umræðna á opinberum vettvangi. Megininntak dagsins þetta árið er áhættumat í matvælaframleiðslu og eftirliti, ábyrgð framleiðenda og neytenda sjálfra á meðhöndlun matvæla. Einnig verður rætt um ábyrgð fjölmiðla í umfjöllun um matvæli og markaðssetningu þeirra.

Steingrímur J. Sigfússon, nýsköpunar og atvinnuvegaráðherra, mun setja ráðstefnuna og fundarstjóri er Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.

Við setningu ráðstefnunnar mun Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, afhenda Fjöregg MNÍ, en það er verðlaunagripur sem veittur er fyrir lofsvert framtak á sviði matvæla-framleiðslu og manneldis. Gripurinn er hannaður og smíðaður af Gleri í Bergvík og hefur frá árinu 1993 verið gefinn af Samtökum iðnaðarins.

Þátttöku á ráðstefnuna þarf að tilkynna á vefsíðu MNÍ, www.mni.is, en skráningu lýkur kl. 24:00, mánudaginn 15. október. Almennt þátttökugjald er 7000 kr., en nemar þurfa aðeins að greiða 3.500 kr.. Ráðstefnugögn og léttar veitingar eru innifaldar í verði en dagskráin stendur frá kl. 13:00 til 17:00 og er birt á heimasíðu MNÍ. Þar birtast einnig fréttir af ráðstefnunni þegar nær dregur svo og listi yfir þá sem kynna munu sínar vörur og rannsóknir á þessu sviði.

Matvæladagurinn er opinn almenningi og er áhugafólk um matvæli, næringu og neytendavernd hvatt til að mæta.

Nánari upplýsingar veitir Fríða Rún Þórðardóttir, s. 898-8798, frida@lsh.is.

Fréttir

Vísindavaka Rannís – Matís með þara- og þangbás!

Vísindavaka Rannís fer fram í Háskólabíói föstudaginn 28. september nk. Úrval spennandi rannsóknaverkefna verða kynnt á Vísindavökunni í ár eins og undanfarin ár.

Þema Matís í ár verður þari. Boðið verður upp á að smakka pasta sem framleitt er m.a. úr íslensku byggi og íslenskum þara. Einnig mun UNA Skincare kynna dag- og næturkremslínu sína sem einmitt er m.a. framleidd úr íslensku þangi.

Nánari upplýsingar um Vísindavökuna og Vísindakaffi, sem munu fara fram alla vikuna, má finna á vef Rannís, http://www.rannis.is/visindavaka/visindavaka/

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Fréttir

Alþjóðlegt samstarf

Alþjóðlegt samstarf er mikilsverður þáttur í daglegu starfi Matís og hefur aldrei verið mikilvægara en einmitt núna að eiga í samstarfi við erlenda aðila.

Samstarfið birtist í fjölbreyttum myndum. Einn hluti þess er samstarf við erlenda aðila að rannsókna- og vísindaverkefnum, í öðrum tilfellum er um að ræða verkefni þar sem erlendir aðilar kaupa rannsóknaþjónustu af Matís en í ársskýrslu Matís fyrir árið 2011 má lesa um nokkur vel valin verkefni sem Matís var þátttakandi í með erlendum aðilum árið 2011. Þá er ótalinn ýmiss samstarfsvettvangur á erlendri grundu, t.d. fundir og ráðstefnur, þar sem starfsfólk Matís hittir erlent fagfólk í sínum vísindagreinum. Að síðasttöldu eru á hverjum tíma allmargir erlendir fræði- og rannsóknarmenn og konur sem starfa hjá Matís, oft og tíðum allt árið um kring. Allt skilar þetta beinum ávinningi í uppbyggingu Matís en ekki síður aukinni þekkingu starfsmanna.

Í tækni nútímans verður stöðugt auðveldara að taka þátt í fjölþjóðlegu vísindastarfi og það nýtir Matís sér. Bæði eru í því fólgnir möguleikar til aukinnar sölu á rannsóknaþjónustu og þar með aukinna erlendra tekna fyrir fyrirtækið en um leið styrkist sá þekkingargrunnur sem Matís byggir sína þjónustu á fyrir innlenda viðskiptavini.

Ávinningur er þannig lykilorð um erlent samstarf, hvort sem horft er til Matís sem fyrirtækis, starfsmanna þess, viðskiptavina eða eigenda, þ.e. íslenska ríkisins.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

IS