Fréttir

Vöruþróunarsetur sjávarafurða miðar að aukinni verðmætasköpun

Staðsetning starfstöðva Matís vítt og breitt um landið hefur auðveldað frumkvöðlum að leita eftir samstarfi og stuðningi.

Páll Gunnar Pálsson matvælafræðingur hjá Matís segir að meðal algengustu viðfangsefna fyrirtækisins sé þátttaka í vöruþróun og skipulagi verkferla hjá matvælafyrirtækjum. „Helsta leiðarljós Matís er að auka gæði, verðmæti, hollustu og öryggi framleiðslunnar og efla þannig samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs á alþjóðlegum vettvangi og stuðla að betri lýðheilsu.“

Tíu starfsstöðvar

„Meginaðsetur Matís er í Reykjavík en þar að auki eru starfræktar níu starfsstöðvar um allt land. Starfsemin er margvísleg en með sérstakri áherslu á samvinnu við fyrirtæki og einstaklinga. Starfsmannafjöldi Matís er um eitthundrað og innan þess hóps eru margir af helstu sérfræðingum landsins í matvæla- og líftækni auk fjölda meistara- og doktorsnema í rannsóknatengdu nám.“

Páll Gunnar segir að mörg verkefnin séu smá og afmörkuð og eigi því  ekki möguleika á styrkjum hjá samkeppnissjóðunum auk þess sem umsóknafrestur og afgreiðslutími sjóða getur verið það langur að verkefnin lognast út af meðan beðið er..

Nauðsynlegt að bregðast hratt við

„Öflun sjávarfangs er háð árstíðum og ef ekki tekst að koma verkefni í gang á tilteknum tíma getur biðtími orðið langur. Það er því mikilvægt að hægt sé að bregðast skjótt við og hefja vinnu strax við mikilvægar verkefnahugmyndir sem vakna.

Undanfarin ár hefur Mátís lagt ríka áherslu á samstarf við einstaklinga og fyrirtæki sem eru að leita leiða til að auka verðmæti eða eru að undirbúa vinnslu nýrra afurða.

Vegna þessa settum við á laggirnar verkefnið Vöruþróunarsetur sjávarafurða með stuðningi Verkefnasjóðs sjávarútvegsins. Innan þess er unnið að fjölbreyttum vöruþróunarverkefnum á sviði sjávarútvegs út um allt land.  Verkefninu er ætlað að mæta þörf íslensks sjávarútvegs fyrir vöruþróun og frekari fullvinnslu. Í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur af starfseminni hefur mikilvægi þess að geta brugðist við óskum fyrirtækja og einstaklinga um aðstoð við vöruþróun aukist,“ segir Páll Gunnar.

Páll Gunnar Pálsson
Páll Gunnar Pálsson

Tökum vel á móti öllum

Páll Gunnar segir að verkefni sem rati inn á borð hjá Matís séu oftar en ekki komin frá fyrirtækjum og einstaklingum á landsbyggðinni og hefur efling starfsemi Matís á landsbyggðinni haft mikil áhrif þar á.

„Við tökum sem sagt vel á móti öllum sem hafa góða hugmynd að vöruþróun eða þurfa aðstoð við að koma hugmynd sinni í rétta búning og við getum hafist handa mun fyrr en ef við þyrftum að reyna fjármögnun í gegnum hið hefðbundna sjóðakerfi.

Á þessum tveimur árum sem verkefnið hefur verið starfrækt hefur Matís komið að ríflega 50 verkefnum og hafa sum þeirra  þegar skilað vörum og nýrri starfsemi. Má þar nefna afurðir byggðar á þara eins og þaraskyr og  smyrsl. Sem stendur er unnið að þróun fæðubótarefna úr þara, byggþarapasta, reykingu á ufsa, olíu unninni úr humar, heilsusnakki úr sjávarfangi, bættri nýtingu grásleppu, leiðbeiningum fyrir fólk sem búa vill til sinn eigin saltfisk, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Páll Gunnar.

Nánari upplýsingar veitir Páll Gunnar Pálsson.

Fréttir

Myndbönd um starfsstöðvar Matís

Myndbönd frá nokkrum starfsstöðvum Matís hafa nú verið framleidd. Myndböndin eru um 4 mínútur hvert að lengd og þar er margt merkilegt að sjá og heyra.

Ólafur Rögnvaldsson hjá Axfilms ehf. átti veg og vanda að framleiðslu þessara myndbanda.

Myndböndin, bæði á íslensku og ensku, má finna hér.

Fréttir

Hvernig býr maður til góðan saltfisk?

Matís hefur nú gefið út rit um hvernig búa á til góðan saltfisk. Páll Gunnar Pálsson hjá Matís hefur átt veg og vanda af útgáfunni.

Ritið er fyrst og fremst ætlað fyrir einstaklinga sem áhuga hafa á því að búa til hollan og góðan saltfisk úr afbragðs hráefni. Síðar meir mun Matís gefa út bækling sem varpar ljósi á vinnslu saltfisks í stærra samhengi, til framleiðslu og sölu.

Ritið má sjá hér.

Nánari upplýsingar veitir Páll Gunnar Pálsson hjá Matís.

Fréttir

Starfsmaður Matís ver doktorsritgerð sína

Mánudaginn 26. nóvember n.k. fer fram doktorsvörn við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Þá ver J. Sophie R.E. Jensen lyfjafræðingur doktorsritgerð sína: „Lífvirk náttúruefni úr íslenskum soppmosum – frumdýra- og krabbameinsfrumuhemjandi virkni“ (enska: „Bioactive compounds from Icelandic liverworts – anti-protozoal and cytotoxic activity“).

Mánudaginn 26. nóvember n.k. fer fram doktorsvörn við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Þá ver J. Sophie R.E. Jensen lyfjafræðingur doktorsritgerð sína: Lífvirk náttúruefni úr íslenskum soppmosum – frumdýra- og krabbameinsfrumuhemjandi virkni“ (enska: „Bioactive compounds from Icelandic liverworts – anti-protozoal and cytotoxic activity“).

Andmælendur eru Dr. Lars Bohlin, prófessor við Uppsalaháskóla í Svíþjóð og Dr. Hörður G. Kristinsson, rannsóknastjóri og deildarstjóri líftækni- og lífefnadeildar Matís.

Leiðbeinandi í verkefninu var Dr. Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor og meðleiðbeinandi Dr. Sesselja Ómarsdóttir, dósent við Lyfjafræðideild HÍ.

Dr. Már Másson, forseti Lyfjafræðideildar HÍ, stjórnar athöfninni sem fer fram í hátíðasal, Aðalbyggingu og hefst klukkan 14.

Soppmosar er hópur frumstæðra mosa, sem framleiða óvenjuleg lífvirk efnasambönd. Þessar plöntur hafa verið notaðar í austurlenskum alþýðulækningum um aldir, aðallega sem þvagræsandi, við krabbameini, bakteríu- og sveppasýkingum.

Markmið rannsóknarinnar var að einangra og ákvarða sameindabygginar efnasambanda úr íslensku soppmosunum Marchantia polymorpha og Chiloscyphus pallescens, með áherslu á lífvirkni gegn krabbameinsfrumum og frumdýrum. Lífvirknileidd einangrun krabbameinsfrumuhemjandi efna, leiddi til bis-bíbensýl efnasambandsins marchantin A. Það hindraði frumufjölgun hjá nokkrum tegundum brjóstafruma, auk þess að sýna samverkandi, frumudrepandi áhrif á krabbameinsfrumur þegar það var gefið með Aurora-A kínasa hindranum MLN8237. Einnig var sýnt fram á hindrandi áhrif marchantin A á nokkur sjúkdómsframkallandi frumdýr, þ.m.t. Plasmodium falciparum sem veldur malaríu. Auk þess sýndi marchantin A hindrun á ensímið PfFAbZ í lifrarformi frumdýrsins sem gæti bent til sjúkdómsfyrirbyggjandi notkunarmöguleika.

Samantekið þá hafa niðurstöður verkefnisins aukið þekkingu á efnafræði þessara tveggja soppmosategunda og sýnt fram á áður óþekkta lífvirkni á sjúkdómsframkallandi frumur í rækt, sem gætu haft lyfjafræðilegt gildi.

Sophie vann um nokkra mánaða skeið að verkefni sínu hjá samstarfsaðilum í Kaupmannahöfn. Virknipróf á frumdýrum fóru fram hjá samstarfsaðilum, Dr. Morten A. Nielsen við Kaupmannahafnarháskóla og Dr. Deniz Tasdemir við Lyfjafræðideild Lundúnarháskóla. Auk þess var verkefnið að hluta unnið á Rannsóknastofu í krabbameinsfræðum við Læknadeild HÍ hjá Dr. Helgu M. Ögmundsdóttur sem jafnframt sat í doktorsnefnd Sophie. Auk hennar og leiðbeinenda voru í nefndinni Dr. Jerzy W. Jaroszewski prófessor við Kaupmannahafnarháskóla (hann lést 18. október 2011) og Dr. Már Másson, prófessor við Lyfjafræðideild HÍ.

English abstract
Liverworts are a group of primitive mosses that produce unique compounds of potential interest for pharmacological research. They have been applied in oriental folk medicine as diuretics, anti-tumour, anti-bacterial and anti-fungal agents. The general aim of the project was to isolate and characterise bioactive compounds from the Icelandic liverworts Marchantia polymorpha and Chiloscyphus pallescens, with focus on cytotoxic and anti-protozoal bioactivity. Bio-guided isolation led to the bis-bibenzyl compound marchantin A, which proved cytotoxic to several types of breast cancer cells. Further studies on cancer cells showed that marchantin A and the Aurora-A kinase inhibitor MLN8237 act synergistically. Furthermore, marchantin A was shown to be parasitocidal against several types of pathogenic protozoa, including the malaria parasite Plasmodium falciparum, as well as showing malaria prophylactic potential by inhibiting the PfFAbZ enzyme of the liver stage of the infection.

The results have contributed significantly to the knowledge of distribution of liverworts compounds in the two Icelandic liverwort species and furthermore demonstrated previously unknown biological effects of therapeutic interest.

Um Sophie
J. Sophie R.E. Jensen (f. 1979) lauk kandídatsprófi í lyfjafræði frá Lyfjafræðideild HÍ 2006 og tók 1 misseri í skiptinámi við Kaupmannahafnarháskóla 2004. Á árunum 2006-7 tók Sophie 3 mánuði í starfsnám á rannsóknastofu hjá Novartis í Boston í Bandaríkjunum, ferðaðist í 3 mánuði um Asíu og Eyjaálfu og vann í hlutastarfi hjá Lyfju og hjá Íshestum. Sophie hóf doktorsnám 2008.

Foreldrar Sophie eru Elsa Jensen og Peter Ydregård. Eiginmaður Sophie er Sigurður Arnar Friðriksson og dóttir þeirra er Sól Lilja.

Fréttir

Vestfirskar aðventukrásir í Víkinni 22. nóvember

Félagið Matur-saga-menning verður með kynningu á þjóðlegum vestfirskum matarhefðum í Víkinni, sjóminjasafninu í Reykjavík, fimmtudaginn 22. nóvember frá kl. 20.00-22.00.

Vestfirðingarnir Halldór Hermannsson skipstjóri á Ísafirði flytur erindi um vestfirska skötu. Halldór hefur verið ötull í að kynna skötuhefð í gegnum tíðina. Kolbrún Ösp Guðrúnardóttir úr Stykkishólmi fjallar um vestfirskar hveitikökur, sem hún fékk í sveitinni hjá ömmu sinni á Ingjaldssandi og hafa þær lengi verið ómissandi hluti af jólunum. Kolbrún hefur selt í Jólaþorpinu í Hafnarfirði við góðar undirtektir. Þá mun Guðrún Pálsdóttir Flateyri flytja erindi um vestfirskan harðfisk. Hún hefur áralanga reynslu af harðfiskverkun og rekur ásamt fjölskyldu sinni EG Harðfiskverkun á Flateyri.

Enginn aðgangseyrir og allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Heitt verður á könnunni.

Félagið Matur-saga-menning
facebook: matur saga menning

Fréttir

Mikilvægi aðgreiningar á bolfiski úr Norður-Atlandshafinu frá ódýrari hvítfisktegundum

Málstofa um markaðsaðgreiningu bolfisks frá Norður-Atlantshafi. Niðurstöður rannsókna á markaðsaðgreiningu bolfisks frá Norður-Atlantshafi verða kynntar á málstofu hjá Matís þann 4. desember næstkomandi.

Niðurstöðurnar koma úr verkefninu WhiteFishMaLL sem styrkt er af Norrænu Nýsköpunarmiðstöðinni (Nordic Innovation Centre) og aðilar frá Noregi, Íslandi, Færeyjum og Kanada vinna að. Markmið verkefnisins er að tryggja frekari aðgreiningu á bolfiski úr Norður-Atlandshafinu frá ódýrari hvítfisktegundum, sem nú streyma inn á okkar helstu markaðssvæði, sér í lagi inn á Bretlandsmarkað.

Vinna við verkefnið hófst í byrjun árs og hafa farið fram markaðsrannsóknir í Bretlandi á meðal fiskneytenda, auk þess sem viðtöl og fundir hafa verið haldnir með aðilum sem starfa í þessum geira við vinnslu, sölu og markaðsstarf. Viðhorf rýnihópa sem samanstanda af dæmigerðum fiskneytendum í Bretlandi hafa hefur verið könnuð gagnvart bolfiskafurðum frá N-Atlantshafi og hvernig bæta megi upplifun þeirra við innkaup, matreiðslu og neyslu.

Í framhaldinu var gerð skoðanakönnun á meðal 1500 neytenda í Bretlandi þar sem þeir voru spurðir útí fjölmarga þætti sem viðkoma fiski og hvernig bæta má aðgengi, upplifun og auka fræðslu til að sinna þörfum neytenda enn betur. Eftirfarandi áhersluþættir hafa þróast í framhaldinu og mynda þeir grunninn að markaðsaðgreiningunni:

  • Gagnsæi upplýsinga og rekjanleiki í tengslum við virðiskeðju fisks.
  • Persónulegra viðmót í markaðsstarfi verslana í tengslum við afurðir.
  • Upplýsingar um sjálfbærni afurða byggð á staðreyndum og áreiðanlegum gögnum.
  • Áhersla á þægindi og heilnæli afurða.
  • Aðferðafræðileg lausn á því hvernig söluaðilar geta komið til móts þarfir neytenda.

Á málstofunni er ætlunin að meta áhersluþætti sem mótaðir hafa verið í verkefninu við að draga fram sérstöðu afurða og er ætlunin að þróa þetta áfram næstu tvö árin. Því er mikilvæg að fulltrúar úr atvinnulífinu taki virkan þátt í málstofunni og rýni niðurstöðurnar með þeim sem að verkefninu standa.

Málstofan mun fara fram á ensku og er öllum opin, en nauðsynlegt er að skrá sig á heimasíðu verkefnisins (www.whitefishmall.com), athugið takmarkað sætaframboð. Málstofan fer fram á Matís, Vínlandsleið þriðjudaginn 4. desember.

Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís, jonast.r.vidarsson@matis.is, 858-5107.

Fréttir

Áhættugreining til að tryggja matvælaöryggi og neytendavernd

Matís heldur námskeið um áhættugreiningu á sviði matvæla- og næringarfræði dagana 16., 19. og 20.  nóvember en áhættugreining er vel skilgreind aðferð til að skilja og meta áhættu vegna neyslu matvæla og hvernig hægt er að minnka hana. Mikill áhugi er á þessum málaflokki og nú er svo komið að fullt er orðið á námskeiðið.

Á námskeiðinu munu erlendir sérfræðingar frá Federal Institute for Risk Assessment (BfR) í Þýskalandi flytja áhugaverða fyrirlestra um meginþætti áhættugreiningar (en. Risk analysis) í tengslum við neyslu matvæla þ.e.a.s. áhættumat, áhættustjórnun og áhættukynning. Sömuleiðis verður farið yfir nýleg hagnýt dæmi um matvælavá sem byggja á raunverulegum tilfellum í heimalandi sérfræðinganna.

Þessir fyrirlestar eru hluti af kennslu í námskeiðinu Matvælaöryggi sem er kennt í fyrsta sinn á þessu haustmisseri í meistaranámi í matvælavísindum, en þetta framhaldsnám er ávöxtur samvinnu Háskóla Íslands, þriggja annarra ríkisháskóla og Matís.  Sérfræðingarnir frá BfR sem við höfum fengið til liðs við okkur eru þau; Dr. Anja Buschulte dýralæknir og sérfræðingur á sviði matvælaöryggis og Prof. Matthias Greiner sérfræðingur á sviði áhættumats vegna neyslu matvæla.

Um er að ræða einstakt námskeið um áhættugreiningu á sviði matvæla- og næringarfræði sem hentar þeim sem vilja efla og dýpka þekkingu sína á því hvernig má nýta áhættugreiningu á þessu sviði.

Námskeiðið verður haldið á ensku og nánari upplýsingar um dagskrá er að finna hér:

Föstudagur 16.11.2012
8.30-9.10Dr. Anja BuschulteInvestigation of Food-borne Outbreaks in Germany
9.20-10.00Dr. Anja BuschulteInvestigation of Food-borne Outbreaks in Germany
10.10-10.50Dr. Anja BuschulteLessons learned from Food-borne Outbreaks
11.00-11.40Dr. Anja BuschulteRisk communication and Management
Mánudagur 19.11.2012
8.30-9.10Dr. Anja BuschulteGeneral Introduction to Risk Assessment
9.20-10.00Prof. Matthias GreinerRisk Assessment -Risk modelling; basics of probabilistic risk assessment
10.10-10.50Prof. Matthias GreinerRisk Assessment -Risk modelling; fitting statistical distributions to empirical data or expert assumptions
11.00-11.40Prof. Matthias GreinerRisk Assessment -Risk modelling; Monte Carlo simulation
11.50-12.30Prof. Matthias GreinerRisk Assessment -Risk modelling; Practical application
Þriðjudagur 20.11.2012
8.30-9.10Prof. Matthias GreinerDose response analysis; basic concepts
9.20-10.00Prof. Matthias GreinerDose response analysis; comparative applications in microbiology and toxicology
10.10-10.50Prof. Matthias GreinerDose response analysis; Practical application
11.00-11.40Prof. Matthias GreinerPredictive microbiology; basic concepts
11.50-12.30Prof. Matthias GreinerPredictive microbiology; Practical application

 Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Viltu taka þátt í að auka veg staðbundinna matvæla innan ferðaþjónustunnar?

Matar-málþing í Breiðabliki á Snæfellsnesi föstudaginn 16. nóv. kl. 14:30-18:00

Ferðaþjónusta er ein af þeim atvinnugreinum sem taldar eru til vaxtarsprota Íslands. Enþrátt fyrir mikinn vöxt í greininni undanfarin áratug hefur það ekki skilað sér sem skildi íauknum hagvexti á landsbyggðinni. Ein leið til að styrkja ferðaþjónustuna  og aukahagræn áhrif hennar í sveitum landsins er að efla tengsl og auka samstarf  ferðaþjónustuog staðbundinnar matvælaframleiðslu.

Markmið málþingsins er að:

  • Vekja athygli á möguleikum sem felast í heimavinnslu matvæla og sölu beint frá býli.
  • Varpa ljósi á þróunarferlið – frá hugmynd til heimavinnslu.
  • Hvetja til samtals og samstarfs milli matvælaframleiðenda í héraði og ferðaþjónustuaðila.

Dagskrá:
Fundarstjóri: Halla Steinólfsdóttir, Ytri-Fagradal

14:30   Málþing sett. Margrét Björk Björnsdóttir, SSV
14:40   Uppbygging á matartengdri ferðaþjónustu – reynslusögur frumkvöðla

     Arnheiður Hjörleifsdóttir, Bjarteyjarsandi 
     Þorgrímur E. Guðbjartsson, Erpsstöðum.

15:30   Kaffihlé
15:45   Uppbygging sveitamarkaðsverslunar & matarklasa í Ríki Vatnajökuls. Rósa Björk Halldórsdóttir, Markaðsstofa Vesturlands
16:00   Samstarf matvælaframleiðanda, ferðaþjónustu og stoðkerfis í héraði. Þóra Valsdóttir, Matís
16:15   Matarmerki og svæðisbundin matvæli. Margrét Björk Björnsdóttir, SSV
16:25   Sýn söluaðila á handgerðar og heimaunnar vörur. Eirný Sigurðardóttir, Búrið
16:45   Hvað er beint frá býli? Hlédís Sveinsdóttir, Beint frá býli
16:55   Heimilisiðnaðareldhús – hugmyndafræði, framkvæmd og nýting. Margrét Björk Björnsdóttir, SSV
17:10   Samantekt og umræður. Halla Steinólfsdóttir, Ytri-Fagradal

Allir áhugasamir velkomnir – Aðgangur ókeypis

Nánari upplýsingar veitir Margrét Björk Björnsdóttir, forsvarsmaður „Sveitaverkefnis“  maggy@ssv.is.

Fréttir

Margir merkilegir fyrirlestrar á Sjávarútvegsráðstefnunni

Sjávarútvegsráðstefnunni lauk núna í hádeginu.  Mjög margt áhugavert kom fram og voru einir fjórir starfsmenn Matís með erindi en auk þess var Sveinn Margeirsson forstjóri Matís með fundarstjórn og Anna Kristín Daníelsdóttir situr í stjórn Sjávarútvegsráðstefnunnar.

Sarah Helyar hélt fyrirlestur um genarannsóknir og notkun þeirra í fiskeldi og Sigurjón Arason hélt erindi um hvað er tæknilega framkvæmanlegt þegar kemur að nýtingu aukahráefna um borð í fiskiskipum. Hólmfríður Sveinsdóttir hélt fyrirlestur sem vakti verðskulda athygli en erindi hennar fjallaði um tækifærin í vinnslu á aukahráefni. Að lokum á þessum fyrsta degi var erindi frá Matís um hvaða tækifæri það eru sem liggja í fullvinnslu á uppsjávarfiski en Guðmundur Stefánsson fór með þann fyrirlestur í fjarveru Vígfúsar Þ. Ásbjörnssonar, stöðvarstjóra Matís á Höfn í Hornafirði.

Matís var auk þess með bás þar sem þarapasta úr byggi var kynnt, UNA Skincare húðvörur (unaskincare.com) og Gunna á Rifi sem á og rekur Reykhöll Gunnu kynnti líka dásemtar reyktan ufsa sem hún hefur þróað í nánu samstarfi við Matís.

Gunna í Rifi hefur unnið við íslenskt sjávarfang í fjöldamörg ár. Hún er faglærð í meðhöndlun þess og íslenskt sjávarfang hefur verið og er eitt af hennar áhugamálum. Markmið umsækjenda er að styrkja stoðir fyrirtækis hennar, Reykhallar Gunnu, með auknu vöruúrvali og bæta markaðslegt útlit fyrirtækisins. Með því telja umsækjendur að hægt sé að auka umsvif fyrirtækisins sem mun nýtast nær umhverfi þess með auknum störfum á svæðinu og ekki síður styrkja samstarf frumkvöðla eins og Gunnu við fyrirtæki á svæðinu.

Verkefnið er þróun á nýrri vöru á íslenskummarkaði, sætreyktum fisk, byggt á aldagamalli uppskrift indíána norður-Ameríku. Markmiðið er að þróa nýja vöru úr íslensku hráefni með áherslu á uppruna þess frá Snæfellsnesi. Hugmyndafræði verkefnisins er að búa til fullunna vöru með samstarfi á milli fyrirtækis í fullvinnslu og hráefnisframleiðanda. Með því er verið að auka virði hráefnis á svæðinu og um leið að búa til matarminjagrip fyrir ferðamenn á svæðinu og nýja vöru fyrir íslenskan neytendamarkað. Til þess að það gangi upp telja umsækjendur að jafnframt þurfi að bæta vörumerki og markaðsmál Reykhallar Gunnu.

Reykhöll Gunnu á Rifi

Með verkefninu er verið að hvetja frumkvöðul eins og Gunnu til frekari afreka og gera fyrirtæki hennar kleift að skapa sér sess á meðal fyrirtækja á svæðinu. Framtíðarsýnin er sú að fullvinna fleiri sjávar- og jafnvel landbúnaðarafurðir undir merkjum Reykhallar Gunnu. Með þessu samstarfi er verið að leggja grunninn að nánara samstarfi fyrirtækjanna í framtíðinni varðandi vöruþróun og fullvinnslu. Fyrir hráefnisframleiðanda eins og Sjávariðjunna getur orðið ómetanlegt að vera í nálægð við sterkt fullvinnslufyrirtæki eins og ætlunin er að Reykhöll Gunnu geti orðið.

Afurð verkefnisins er ný vara unnin úr hráefni á svæðinu sem mun skila verðmætaaukningu og nýrri þekkingu. Í verkefninu verður til vinnsluferill fyrir nýja vöru; sætreyktan fisk. Slík vara er þekkt erlendis og hefur skapað sér fastan sess. Ákveðnir þættir þessarar framleiðslu eru ekki nægilega vel þekktir hér á landi til að skila samkeppnishæfri vöru en með verkefninu verður sú þekking til. Afurð verkefnisins er því nýtt vinnsluferli, ný þekking, ný vara og sterkara vörumerki á fullunni vöru frá Snæfellsnesi.

Með þessu samstarfsverkefni er verið að styðja við nýsköpun og vöruþróun hjá frumkvöðli sem vill efla vöruframboð, auka virði vöru og samkeppnishæfni sína. Með verkefninu er verið að auka umsvif og skapa fleiri störf í nánustu framtíð hjá Reykhöll Gunnu í Rifi.

Aðkoma Matís að verkefninu mun stuðla að yfirfærslu þekkingar á vinnsluferlum og meðhöndlun hráefnisins. Að sama skapi mun aðkoma Sjávariðjunnar að verkefninu efla  samstarf við Reykhöll Gunnu en ætlunin er að Sjávariðjan komi að hráefnismeðhöndlun fyrir reykingu og leggi hönd á plóg við aðstöðu fyrir þurrkun. Þannig mun verkefnið stuðla að aukinni atvinnuuppbyggingu í Snæfellsbæ. Samstarf fyrirtækjanna í verkefninu mun efla þekkingu Reykhallar Gunnu, auka framboð á vöru, efla vöruþróun og afla nýrrar þekkingar á sviði reykingar sem auka verðmæti hráefnis á svæðinu.

Alla dagskrá Sjávarútvegsráðstefnunnar má finna hér.

Fréttir

Staða mengunar þungmálma og annarra eiturefna í hafinu umhverfis landið – ný skýrsla Matís

Mengun þungmálma og annarra eiturefna í hafinu umhverfis landið er almennt vel undir alþjóðlegum viðmiðunarmörkum, eins og fram kemur í nýrri skýrslu Matís um breytingar á lífríki sjávar við landið (skýrsla 28-12).

Styrkur kadmíns í íslenskum kræklingi er hinsvegar hærri en almennt gerist í kræklingi frá hafsvæðum Evrópu og Ameríku og er ástæðan rakin til náttúrlegs kadmíum bakgrunns frá jarðlögum.

Frá árinu 1989 hefur verið í gangi árlegt vöktunarverkefni á mengunarefnum í lífríki hafsins við Ísland. Verkefnið er fjármagnað af Umhverfisráðuneytinu, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og Matís ohf. Umhverfisstofnun er umsýsluaðili verkefnisins.

Markmiðið með vöktunarverkefninu er að bera kennsl á breytingar sem kunna að verða á styrk snefilefna í lífríki sjávar umhverfis landið á ákveðnu tímabili og á milli ólíkra haf- og strandsvæða. Ýmis mengandi efni í hafinu geta borist í sjávarlífverur eða lífverur sem nærast á sjávarfangi. Í mörgum tilfellum stafar þessi mengun af mannavöldum og eru vaxandi áhyggjur af þeirri þróun. Mengandi efni berast með loft- og sjávarstraumum frá meginlandi Evrópu og Ameríku auk mengunar frá Íslandi. Það er því mikilvægt að fylgjast með magni mengandi efna hér við land, bæði í umhverfi og lífverum sem lifa við landið. Þá er ennfremur mikilvægt að geta borið saman stöðu lífríkis hafsins í kringum Ísland við ástandið í öðrum löndum, ekki síst vegna mikilvægis sjávarafurða fyrir þjóðina. Rannsóknin skiptir meðal annars miklu máli fyrir sölu á íslensku sjávarfangi bæði á innlendum og erlendum mörkuðum þar sem hægt er að sýna fram á með vísindalegum gögnum að íslenskur fiskur sé veiddur í ómenguðu umhverfi.

Í skýrslu Matís (skýrsla 28-12 á vef Matís) eru birtar niðurstöður mælinga á mengandi efnum fyrir árin 2010 og 2011. Í rannsókninni eru mæld snefilefnin blý, kadmín, kvikasilfur, kopar og sink, arsen og selen, þrávirku lífrænu efnin HCH, HCB, PCB, klórdan, trans-nonachlor, toxaphen, DDT og PBDE. Fram kemur í skýrslunni að styrkur þungmálma eins og kvikasilfurs er afar lágur. Hins vegar hefur styrkur kadmín stundum mælst hærri í lífríki sjávar hér við landi en á suðlægari slóðum. Magn kadmíns er þó lágt í þeim lífverum sem rannsökuð eru t.d. á bilinu 0,1-1 mg/kg í kræklingi. Hár styrkur kadmíns hér við land er svæðisbundinn og talinn eiga sér náttúrulegar orsakir þar sem ekkert hefur komið fram sem bendir til kadmínmengunar af manna völdum. Niðurstöður sýna breytingar í mynstri styrks klórlífrænna efna í kræklingi sem safnað var nálægt Hvalstöðinni í Hvalfirði í september 2010 sem eru sambærilegar við niðurstöður frá sama stað frá árinu 2009. Ekki voru sýnilegar breytingar í styrk þessara efna á söfnunarstað kræklings við Hvammsvík í Hvalfirði né á neinum öðrum söfnunarstað í kringum landið sem rannsakaður var 2010. Mikilvægt er að fylgjast með þessum breytingum í mynstri styrks klórlífrænna efna í kræklingi í vöktunarverkefninu á næstu árum til að sjá hvort þær eru enn til staðar. Ítarleg tölfræðigreiningu á gögnunum er í gangi þ.a. hægt verði að meta með vísindalegum aðferðum aukningu eða minnkun mengandi efna í lífríki sjávar hér við land.

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir hjá Matís.

IS