Fréttir

Þegar bændur hittu hönnuði

Fyrir fjórum árum var hrundið af stað nýsköpunarverkefni Listaháskóla íslands sem bar yfirskriftina Stefnumót hönnuða og bænda og er Matís mikilvægur hlekkur í þessu verkefni.

Í verkefninu var teflt saman einni elstu starfstétt landsins, bændum, og þeirri yngstu, vöruhönnuðum. Afraksturinn er nú til sýnis í fyrsta skipti í heild í Sparkdesign Space við Klapparstíg. Þórunn Kristjánsdóttir, blaðamaður á Fréttatímanum, rifjar hér upp þetta ævintýri en umfjöllun þessi birtist í Fréttatímanum 30. mars 2012.

Umfjöllunina má finna hér.

Fréttir

Kynning á spennandi meistaranámi

Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands verður með kynningu á nýju alþjóðlegu meistarnámi í matvælafræði fimmtudaginn 12. apríl nk. kl. 10-12 í stofu HT-300 á Háskólatorgi.

Háskóli Íslands í samstarfi við Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskólann, Háskólann á Hólum og Matís, hefur sett á laggirnar mastersnám í matvælavísindum þar sem áherslurnar eru frábrugðnar því sem áður hefur þekkst.

Kynning á náminu verður núna á fimmtudaginn 12. apríl á Háskólatorgi – sjá hér.
Nýtt meistaranám í matvælafræði

Meistaranám í matvælafræði í samvinnu Háskóla Íslands, annarra ríkisháskóla og Matís, með aðkomu fyrirtækja í matvæla- og líftækniiðnaði.

Boðið verður upp á þrjár námsleiðir í náminu og ljúka þá nemendur meistaragráðu í matvælafræði með áherslu á framleiðslustjórnun, gæðastjórnun eða líftækni.

  • Framleiðslustjórnunarlína: áhersla á vinnslu, vöruþróun og virðisaukningu
  • Gæðastjórnunarlína: áhersla á örverumælingar og rannsóknir og innleiðingu og útfærslu gæðaeftirlits
  • Líftæknilína: áhersla á lífefnavinnslu, rannsóknir og nýsköpun

Ætlunin er að tengja námið atvinnulífi með beinum hætti, bæði með gestafyrirlesurum úr atvinnulífi og með hagnýtum nemendaverkefnum sem unnin verða í samstarfi við öflug matvælafyrirtæki. Jafnframt því að tengja námið betur atvinnulífi
en áður hefur þekkst á þessu sviði verður alþjóðlegt samstarf eflt, auk þess sem bætt hefur verið inn í námið stjórnunar- og rekstraráherslum.

Um er að ræða hagnýtt nám sem hentar þeim sem lokið hafa grunnnámi í matvælafræði eða öðrum raunvísindagreinum eins og efnafræði, líffræði og verkfræði og hafa áhuga að gegna leiðandi hlutverki í matvæla- og líftækniiðnaði við stjórnun, nýsköpun eða rannsóknir.

Nánari upplýsingar má finna hér og einnig með því að hafa samband við Guðjón Þorkelsson sviðsstjóra hjá Matís og dósent við Hí og Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Heimasíða námsins: www.framtidarnam.is.

Fréttir

Hönnunarverðlaun Grapevine

Skyrkonfekt, Ragnheiður Ösp Sigurðardóttir og KRADS hlutu vöruhönnunarverðlaun blaðsins Reykjavík Grapevine en þess má geta að Matís kom að þróun Skyrkonfektsins.

Skemmtileg frétt birtist á www.mbl.is fyrir stuttu. Þar er sagt frá Vöruhönnunarverðlaunum Reykjavík Grapevine. Skyrkonfektið frá Erpsstöðum fékk góða dóma.

………segir dómnefnd að skyrkonfekt sé „vel úthugsað dæmi um það gagn sem hönnun getur gert samfélaginu[…], smekkleg

og góð vara sem gerð er úr staðbundnu og lífrænu hráefni.“ Konfektið sé auk þess í „bráðfallegum umbúðum sem henta innihaldinu einstaklega vel“.

Hægt er að gæða sér á skyrkonfektinu á HönnunarMars 2012 en nánari fréttir um hátíðina og verkefnið Stefnumót hönnuða og bænda má finna hér.

Nánari upplýsingar veitir Irek Klonowski hjá Matís.

Mynd með frétt: Vigfús Birgisson

Ofangreind frétt birtist þann 11.3. á www.mbl.is og má sjá hana í heild sinni hér að neðan.

Skyrkonfekt, Ragnheiður Ösp Sigurðardóttir og KRADS hlutu vöruhönnunarverðlaun blaðsins Reykjavík Grapevine í ár í flokkunum vörulína ársins, vara ársins og verkefni ársins. Verðlaunin voru afhent í húsakynnum Hönnunarmiðstöðvar Íslands á föstudag.

Ragnheiður Ösp og vörulína hennar átti að mati dómnefndar vörulínu ársins, en hún á heiðurinn af NotKnot-koddunum. Segir í rökstuðningi dómnefndar að NotKnot sé „nýstárleg úrvinnsla á á íslensku ullinni, bráðfallegir koddar með skemmtilegt form“ sem sýni „sterka og sjálfstæða sýn frá skapandi íslenskum hönnuði“ og sé „frábært dæmi um handgerða vöru sem er um leið á viðráðanlegu verði.

Fyrir vöru ársins hlaut hópurinn að baki skyrkonfekti viðurkenningu, en skyrkonfekt er skilgetið afkvæmi Bændaverkefnisins, sem hafði það að markmiði að örva bændur til þess að skapa nýjar vörur í samstarfi við hönnuði. Í rökstuðningi sínum segir dómnefnd að skyrkonfekt sé „vel úthugsað dæmi um það gagn sem hönnun getur gert samfélaginu[…], smekkleg og góð vara sem gerð er úr staðbundnu og lífrænu hráefni.“ Konfektið sé auk þess í „bráðfallegum umbúðum sem henta innihaldinu einstaklega vel“.

Verkefni ársins er svo nýr flokkur í vöruhönnunarverðlaununum, en það var arkitektastofan KRADS sem hlaut viðurkenningu þar fyrir samstarfsverkefni þeirra við LEGO. Að mati dómnefndar er afraksturinn afbragðs dæmi um verkefni sem nær til allra og vekur áhuga á hönnun og umhverfi, „útlitslega sterk hugmynd sem fólk laðast náttúrulega að.“ Þykir verkefninu takast einkar vel að bæta nýrri og óvæntri vídd við merkingarþrungið vörumerki og útkoman sé tól til náms og nýsköpunar, „fögur blanda leiks og fagmennsku sem blæs nýju lífi í arkítektúr.“

Dómnefndin var skipuð hönnuðunum Herði Kristbjörnssyni, fyrir hönd Reykjavík Grapevine, Sari Peltonen, fyrir hönd Hönnunarmiðstöðvar Íslands, Auði Karítas frá versluninni Geysi, Hafsteini Júlíussyni hönnuði og Tinnu Gunnarsdóttir, fyrir hönd Vöruhönnunar við Listaháskóla Íslands.

Dómnefnd voru settar þær skorður í vali sínu að verðlaunaðar yrðu vörur sem væru raunverulegir og áþreifanlegir hlutir, allt frá keramiki að skartgripum. Ákveðið var að útiloka fatahönnun úr menginu, en þó kom til greina að verðlauna fatalínur í flokknum besta vörulínan. Skilyrði var og sett um að vörurnar hefðu komið fram árið 2011.

Útgefandi Reykjavík Grapevine, Hilmar Steinn Grétarsson, segir að markmið verðlaunanna sé að vekja athygli á því sem vel er gert og að styðja við bakið á ört vaxandi og gífurlega spennandi geira hér á landi.

Fréttir

Getum við lært af dóttur Isabellu Rossellini eða getur hún lært af okkur? – Norræna eldhúsið vekur athygli!

Eins og margir vita þá er Elettra Wiedermann í heimsókn á Íslandi vegna HönnunarMars 2012. Færri vita þó að hún er hvatamaður að mjög sérstökum veitingastað en hráefnin sem hún notar eru að mestu leyti staðbundin. Það sama á við um matarsmiðjur sem eru að ryðja sér til rúms um allan heim.

Nú stendur yfir fundur hér á landi um nýjan norrænan mat (New Nordic Food) og fer fundurinn fram í húsakynnum Matís. Margir góðir gestir mæta á fundinn en þar má nefna eiganda og einn stofnenda vinsælasta veitingahúss í heimi árin 2010 og 2011, NOMA – Nordic Cuisine. Claus Meyer, sem ásamt René Redzepi, stofnaði NOMA árið 2004 er hér vegna þessa fundar. Mikilvægi norrænnar matargerðar og áhugi fólks á henni hefur sjaldan verið meiri. René prýðir einmitt forsíðu TIME núna 26. mars nk. og er það til merkis um aukinn áhuga Bandaríkjamanna á því sem norrænu ríkin eru að gera í mat og drykk, þá sérstaklega þegar kemur að staðbundinni matvælaframleiðslu og fullnýtingu hráefna.

Mikilvægi matarsmiðja er verulegt, ekki bara hér á Íslandi heldur víðar, þá sérstaklega á hinum Norðurlöndunum. Flestar frændþjóðir okkar hafa lagt umtalsverðar upphæðir í að styðja við matvælaframleiðslu úr nærumhverfinu, bæði fyrir uppbyggingu ferðamennsku en ekki síður til að skapa aukin verðmæti sem sjálf salan á matvælum skapar. Þegar horft er til staðbundinnar matvælaframleiðslu er óhætt að segja að fátt annað stuðli að jafn heilbrigðri uppbyggingu atvinnulífs. Hér er veri ð að búa til verðmæti úr alvöru vöru, ekki ímyndaðri vöru eins og við þekktum fram að hruni árið 2008. Staðbundin matvælaframleiðsla er gríðarlega mikilvæg fyrir efnahag hvers svæðis og hvers lands en ekki síður vegna ímyndarsköpunar landanna sjálfra í stóru samhengi þar sem fullnýting hráefna er oftar en ekki haft að leiðarljósi.

Í matarsmiðjum Matís býðst frumkvöðlum og litlum fyrirtækjum tækifæri til að stunda vöruþróun og hefja smáframleiðslu á matvælum gegn vægu leigugjaldi. Þannig spara þeir sér fjárfestingu í dýrum tækjabúnaði strax í upphafi rekstrar. Með þessu gefst einstakt tækifæri til að prófa sig áfram bæði við framleiðsluna og á markaði. Sérstök áhersla er á uppbyggingu í tengslum við staðbundin matvæli  og matarferðaþjónustu.

Aðstaðan er hugsuð til notkunar á landsvísu. Forsenda þess að komast í aðstöðuna er að kaupa ráðgjöf um góða framleiðsluhætti í upphafi. Þannig munu notendur læra rétt vinnubrögð frá upphafi. Með aðstöðunni í Matarsmiðjunni á Hornafirði gefst einstakt tækifæri til nýsköpunar í smáframleiðslu matvæla. Nú þegar er fjöldi verkefna komin í gang í matarsmiðjum Matís og er sífelld aukning í áhuga á smiðjunum.

Meira um Goodness, veitingastað Elettru Wiedermann, má finna hér og upplýsingar um NOMA veitingastaðinn má finna hér.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Fréttir

Má bjóða þér rabarbarakaramellu, sláturtertu, rúgbrauðs-rúllutertu eða skyrkonfekt?

Samstarf Matís og Listaháskóla Íslands, Stefnumót hönnuða og bænda, einn af 8 bestu molunum á HönnunarMars 2012.

Lilja Gunnarsdóttir, ritstjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands, valdi bestu og girnilegustu molana úr dagskrá HönnunarMars 2012 og þótti henni Stefnumót við bændur einn besti molinn þetta árið.

Matís er þátttakandi í HönnunarMars 2012. Annars vegar kemur Matís að verkefninu Stefnumót við bændur sem er verkefni leitt af Listaháskóla Íslands en markmið þess var að leiða saman tvo mjög svo ólíka hópa; hönnuði annars vegar og bændur hins vegar. Matís var þar sem mikilvægur samstarfsaðili þegar kom að því að búa til neytendavænar vörur úr hráefnum, oft á tíðum vannýtum, sem bændur hafa handa á milli. 

„Stefnumót bænda og hönnuða“ er frumkvöðlaverkefni í þágu atvinnulífsins þar sem tvær starfstéttir eru leiddar saman  til að skapa einstaka afurð. Mikil sóknartækifæri felast í  matvælaframleiðslu og með markvissri nýsköpun á hráefninu og vöruþróun er hægt að margfalda virðisaukann.

Sýningarmoli þessi fer fram á Klapparstíg 33 í Reykjavík. Fréttatilkynning: Stefnumót vð bændur.

Sjá nánar á www.sparkdesignspace.com og www.designersandfarmers.com (vefsvæði opnar á laugardaginn).

Hins vegar er Matís þátttakandi á HönnunarMars í sýningu á afrakstri háskólanámskeiðsins “Vistvæn nýsköpun matvæla” (EcoTrophelia Iceland).

Á EcoTrophelia er keppt um titilinn ljúffengasta, frumlegasta og vistvænasta matvaran 2012. Keppnin og sýningin eru haldin innan ramma HönnunarMars og fara viðburðirnir fram í nýjum húsakynnum Hönnunar- og arkitektúrsdeildar Listaháskóla Íslands, Þverholti 11.

Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson afhendir verðlaun í nemendakeppninni við athöfn á sýningarsvæðinu laugardaginn 24. mars kl 14.30. Sýningin er öllum opin og hér er auglýsing vegna hennar.

Markmið EcoTrophelia Iceland er að minnka umhverfisáhrif frá íslenskum matvælaiðnaði með því að skapa nýjar vistvænar mat- og drykkjarvörur í gegnum vöruþróunarsamkeppni háskólanemenda. Nýsköpunarmiðstöð Íslands ásamt Matís hefur stofnað til samstarfs við fimm íslenska háskóla um að efna til námskeiðs á mastersstigi í vistvænni nýsköpun á  matvælum. Þverfagleg teymi nemenda frá ólíkum skólum og sérsviðum eru leidd í gegnum vöruþróunarferlið, frá hugmynd að markaðshæfri vöru, með sérstakri áherslu á umhverfismál og hönnun. Í lok námskeiðs býr hvert teymi yfir fullþróaðri frumgerð matvöru og fullbúinni viðskipta- og markaðsáætlun. Nemendur geta markaðssett vöruna sína sjálfir eða selt nýsköpunarhugmyndina til starfandi matvælafyrirtækis. Námskeiðið endar á samkeppni, EcoTrophelia Iceland, milli vöruhugmyndanna, en  vinningsliðið tekur þátt í Evrópukeppninni EcoTrophelia Europe síðar sama ár. Að keppninni standa, auk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Matís, Þróunarvettvangur á sviði matvæla – Food for Life og Samtök iðnaðarins.

Nánari upplýsingar um EcoTrophelia má finna hér.

Fréttir

Fréttabréf Matís

Fréttabréf Matís er nýútkomið. Þar má finna helstu fréttir undanfarinna vikna, samanteknar þannig að auðvelt er að lesa.

Fréttabréfið má finna hér: www.matis.is/frettabref

Fréttir

Alþjóðlegt samstarf er lykillinn að framþróun rannsókna

Matís er ekki aðeins öflugt rannsókna- og þekkingarfyrirtæki á íslenskan mælikvarða heldur stenst Matís fyllilega samanburð við sambærileg erlend fyrirtæki og stofnanir.

Sem dæmi er leitun að fyrirtæki með jafn mikla og víðfeðma þekkingu og reynslu innanborðs á rannsóknum sem tengjast sjávarfangi. Á því sviði má segja að Matís sé með allra fremstu fyrirtækjum í heiminum,“segir Hörður G. Kristinsson, rannsóknastjóri Matís.

Frá upphafi hefur alþjóðlegt rannsóknar- og þróunarstarf Matís og þátttaka í erlendum verkefnum aukist jafnt og þétt og er nú orðið stór hluti af starfsemi þess. Starfsfólk Matís býr í senn yfir menntun og víðtækri reynslu sem nýtist í verkefnatengslum í nánast öllum heimsálfum.

„Þessi sókn á erlend mið er nauðsynleg til að viðhalda öflugu starfi Matís og tengja starfsemina enn frekar við sterka rannsóknar- og þróunarhópa erlendis.  Alþjóðlegt samstarf er lykilinn að frekari framþróun rannsókna til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Sem dæmi um þann mikla árangur sem náðst hefur í starfi Matís má nefna að við erum nú þátttakendur í um 30 alþjóðlegum rannsóknarverkefnum. Af þeim leiðir Matís yfir tíu verkefni sem öll eru mjög stór og með mörgum alþjóðlegum samstarfsaðilum,“ segir Hörður.

Nýjar aðferðir – ný nálgun
Hörður nefnir sem dæmi Amylomics og Ecofishman, hvort tveggja verkefni sem eru myndarlega styrkt úr sjöundu rammaáætlun Evrópusambandsins og hlutu framúrskarandi mat. Verkefnin eru mjög ólík en Hörður segir þau endurspegla vel þá miklu breidd og sérfræðiþekkingu sem er hjá Matís. „Amylomics verkefnið snýst um að finna ný ensím úr íslenskum hverum til að umbreyta sterkju á nýjan máta. Þetta getur leitt til byltingar í notkun nýrra sterkjuafbrigða t.d. í matvælaiðnaði, auk þess að koma nýjum íslenskum ensímum í framleiðslu. Ecofishman verkefnið snýst um að skoða nýja nálgun í fiskveiðistjórnun þar sem hagsmunaaðilar hafa tækifæri til að hafa áhrif á þróun fiskveiðistjórnunar. Útkoma verkefnisins getur leitt til mikilvægra umbóta á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, öllum til hagsbóta,“ segir Hörður.

Matís í öllum heimsálfum
Auk stórra Evrópuverkefna er mikill kraftur í norrænu samstarfi Matís. Sem sjá má af framúrskarandi árangri Matís í að afla sér styrkja hjá Nordic Innovation Program haustið 2011. Matís leiðir fimm stór verkefni sem fengu styrk úr sjóðnum og er þátttakandi í nær öllum verkefnum sem voru styrkt.

„Þetta er gott dæmi um þann mikla kraft og metnað sem er í starfi Matís.  Verkefnin eru allt frá því að þróa nýjar neytendavörur úr íslensku þangi í að búa til áætlun um markaðssetningu norrænna hvítfiskafurða,“ segir Hörður.
Erlent samstarf Matís er ekki aðeins bundið mörkum Evrópu. Verkefni fyrirtækisins og samstarfsaðilar eru í nær öllum heimsálfum. Má sem dæmi nefna þróunarverkefni sem hófst haustið 2011 fyrir stjórnvöld í Tansaníu tengt rannsóknum á fiski, fiskvinnslu og úttekt á félagslegri stöðu fiskveiðisamfélaga við Tanganyikavatn. Matís hefur síðustu misseri unnið önnur mikilvæg þróunarverkefni í Afríku, t.d. í Kenía og í Mósambik sem tengjast gæðamálum og þjálfun fiskeftirlitsmanna og tæknifólks. Hinum megin við Atlantshafið hefur Matís m.a. tekið þátt í fiskeldisverkefnum í Chile og rannsóknum á lífvirkum sjávarefnum í Bandaríkjunum í samstarfi við bæði háskóla og stór fyrirtæki. Einnig er nýhafið verkefni með kanadískum vísindamönnum þar sem rannsökuð verða áhrif fiskipróteina á sykursýki tvö, sem er vaxandi vandamál á heimsvísu. Þessi verkefni eru flest tilkomin vegna þeirrar sérþekkingar og reynslu sem starfsmenn Matís hafa og er afar eftirsótt á heimsvísu.

Met í fjölda nemendaverkefna
Hlutverk og þáttur Matís í menntun og þjálfun nemenda hefur farið vaxandi og er fyrirtækið með sterk tengsl við marga virta erlenda háskóla. Hörður nefnir mjög farsælt samstarf við UNU, Háskóla Sameinuðu þjóðanna, frá stofnun hans en starfsmenn Matís gegna veigamiklu hlutverki í kennslu við svokallaða gæðalínu skólans og eru nemendur staðsettir hjá Matís og gera sín lokaverkefni þar. „Síðastliðið ár var sett nýtt met í fjölda nema á Matís sem unnu að hinum og þessum verkefnum. Þar af voru margir erlendir nemar víðsvegar úr heiminum sem nutu góðs af leiðsögn vísindamanna Matís og þeirri framúrskarandi aðstöðu sem fyrirtækið getur boðið nemendum. Þeim þykir Matís spennandi kostur vegna þess hversu vel fyrirtækið er tengt bæði háskólaumhverfinu og fyrirtækjum, enda eru flest nemendaverkefnin af þeim toga að verið er að vinna vísindaleg verkefni með hagnýtingu í huga.“

Nánari upplýsingar veitir Hörður.

Fréttir

Nýjar áherslur í meistaranámi í matvælavísindum

Háskóli Íslands í samstarfi við Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskólann, Háskólann á Hólum og Matís, hefur sett á laggirnar mastersnám í matvælavísindum þar sem áherslurnar eru frábrugðnar því sem áður hefur þekkst.

Nýtt meistaranám í matvælafræði

Meistaranám í matvælafræði í samvinnu Háskóla Íslands, annarra ríkisháskóla og Matís, með aðkomu fyrirtækja í matvæla- og líftækniiðnaði.

Boðið verður upp á þrjár námsleiðir í náminu og ljúka þá nemendur meistaragráðu í matvælafræði með áherslu á framleiðslustjórnun, gæðastjórnun eða líftækni.

  • Framleiðslustjórnunarlína: áhersla á vinnslu, vöruþróun og virðisaukningu
  • Gæðastjórnunarlína: áhersla á örverumælingar og rannsóknir og innleiðingu og útfærslu gæðaeftirlits
  • Líftæknilína: áhersla á lífefnavinnslu, rannsóknir og nýsköpun

Ætlunin er að tengja námið atvinnulífi með beinum hætti, bæði með gestafyrirlesurum úr atvinnulífi og með hagnýtum nemendaverkefnum sem unnin verða í samstarfi við öflug matvælafyrirtæki. Jafnframt því að tengja námið betur atvinnulífi
en áður hefur þekkst á þessu sviði verður alþjóðlegt samstarf eflt, auk þess sem bætt hefur verið inn í námið stjórnunar- og rekstraráherslum.

Um er að ræða hagnýtt nám sem hentar þeim sem lokið hafa grunnnámi í matvælafræði eða öðrum raunvísindagreinum eins og efnafræði, líffræði og verkfræði og hafa áhuga að gegna leiðandi hlutverki í matvæla- og líftækniiðnaði við stjórnun, nýsköpun eða rannsóknir.

Nánari upplýsingar má finna hér og einnig með því að hafa samband við Guðjón Þorkelsson sviðsstjóra hjá Matís og dósent við Hí og Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Heimasíða námsins: www.framtidarnam.is.

Fréttir

Háskólanemar hvattir til að hanna sína eigin framtíð

Aukið samstarf háskóla og rannsóknastofnana leiðir af sér nýtt námskeið, það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.

Fimm háskólar eru nú um nokkurt skeið búnir að vera í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Matís og eru að bjóða upp á fyrsta námskeið sinnar tegundar á Íslandi. Námskeiðið ber heitið “Vistvæn nýsköpun matvæla” og er nemendum frá mismunandi námssviðum og mismunandi háskólum stefnt saman og þeir leiddir í gegnum alla þá þætti sem viðkoma ferlinu frá því að forma hagkvæma vöruhugmynd að því að þróa fullbúna vistvæna vöru og koma henni á innlenda og erlenda markaði.

Talað er um nýsköpun sem vænlegan og áhrifaríkan kost til að skapa vöxt og hagnað, bæði innan einstakra fyrirtækja og heilla hagkerfa. Full ástæða þykir til að mennta og þjálfa íslenska háskólanemendur í þeim nýsköpunarferlum sem stuðla að tilurð, markaðssetningu og sölu nýrra vöruhugmynda.  Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskólinn, Listaháskólinn og Háskólinn á Hólum hafa því tekið höndum saman í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Matís og bjóða upp á námskeið þar sem nemendurnir sjálfir skapa nýjar vöruhugmyndir og þróa fullmótaðar og markaðshæfar vörur í samstarfi við atvinnulífið, rannsóknargeirann og nemendur frá öðrum sérsviðum og skólum þannig að sérþekking úr mismunandi áttum nýtist í heildarferlinu. Árangur í vöruþróun byggir meðal annars á slíku samstarfi og samvinnu aðila með ólíka faglega þekkingu og reynslu og er sjálfbær nýting auðlinda og áhrif framleiðslu-, vinnslu- og dreifiaðferða  á umhverfið einnig farin að hafa mikil áhrif á nýsköpun í matvælaiðnaði.

Kallaðir eru til aðilar frá landbúnaðinum, matvælafyrirtækjum, rannsóknarstofnunum ásamt háskólakennurum á viðeigandi sviðum til að tryggja að nýsköpunarhugmyndirnar sem koma fram  grundvallist á íslensku hráefni, íslenskri sérþekkingu og íslenskum hagsmunum. Teymi nemenda eru mynduð þvert á háskólana og þvert á viðkomandi fagsvið þannig að sérþekking hvers og eins nýtist. Það er til mikils að vinna en sú vöruhugmynd sem ber sigur úr býtum í keppni um vænlegustu og vistvænustu nýsköpunarhugmyndina á matvælasviði sem haldin verður í lok námskeiðsins fær að taka þátt í evrópukeppninni Eco-Trophelia, þar sem vistvænar nýsköpunarhugmyndir á matvælasviði frá ýmsum löndum í Evrópu munu keppa sín á milli.

Keppnin á Íslandi verður haldin í tengslum við Hönnunarmars og munu nemendur etja kappi með hugmyndir sínar og vörur fyrir luktum dyrum 23. mars nk. Úrslit verða svo kunngjörð með pompi og prakt laugardaginn 24. mars.

Hópurinn sem sigrar fær vegleg verðlaun og verða meðlimiðir hans fulltrúar Íslands í EcoTrophelia evrópukeppninni.

Nánari upplýsingar veitir Fanney Frisbæk hjá Nýsköpunarmiðstöð, fanney@nmi.is, 522-9144.

Fréttir

Besti saltfiskrétturinn 2012

Félagið Matur-saga-menning (MSM) og Grindavíkurbær standa fyrir uppskriftakeppni um besta saltfiskréttinn 2012.

Matreiðslumennirnir Sigurvin Gunnarsson og Friðrik V. Karlsson meðlimir í MSM velja fimm uppskriftir. Hægt er að senda uppskriftir í tölvupósti til sigurvingunnars@simnet.is í síðasta lagi 23.mars.

Vinningsuppskriftir verða valdar í lok Menningarviku Grindavíkur 17. – 25. mars, sjá nánar um fjölbreytta dagskrá á www.grindavik.is

1. verðlaun eru kr. 30.000,  2. verðlaun kr. 20.000, 3. verðlaun kr. 10.000, 4. verðlaun kr. 5.000 og 5. verðlaun kr. 5.000.

Vinningsuppskriftir verða sýnilegar á vefsíðum www.matarsetur.is og www.grindavik.is. Í Menningarviku mun Salthúsið í Grindavík bjóða upp á saltfiskrétti sjá www.salthusid.is.

Félagið Matur saga menning
www.matarsetur.is
facebook: matur saga menning

IS