Fréttir

Alþjóðlegt samstarf er lykillinn að framþróun rannsókna

Matís er ekki aðeins öflugt rannsókna- og þekkingarfyrirtæki á íslenskan mælikvarða heldur stenst Matís fyllilega samanburð við sambærileg erlend fyrirtæki og stofnanir.

Sem dæmi er leitun að fyrirtæki með jafn mikla og víðfeðma þekkingu og reynslu innanborðs á rannsóknum sem tengjast sjávarfangi. Á því sviði má segja að Matís sé með allra fremstu fyrirtækjum í heiminum,“segir Hörður G. Kristinsson, rannsóknastjóri Matís.

Frá upphafi hefur alþjóðlegt rannsóknar- og þróunarstarf Matís og þátttaka í erlendum verkefnum aukist jafnt og þétt og er nú orðið stór hluti af starfsemi þess. Starfsfólk Matís býr í senn yfir menntun og víðtækri reynslu sem nýtist í verkefnatengslum í nánast öllum heimsálfum.

„Þessi sókn á erlend mið er nauðsynleg til að viðhalda öflugu starfi Matís og tengja starfsemina enn frekar við sterka rannsóknar- og þróunarhópa erlendis.  Alþjóðlegt samstarf er lykilinn að frekari framþróun rannsókna til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Sem dæmi um þann mikla árangur sem náðst hefur í starfi Matís má nefna að við erum nú þátttakendur í um 30 alþjóðlegum rannsóknarverkefnum. Af þeim leiðir Matís yfir tíu verkefni sem öll eru mjög stór og með mörgum alþjóðlegum samstarfsaðilum,“ segir Hörður.

Nýjar aðferðir – ný nálgun
Hörður nefnir sem dæmi Amylomics og Ecofishman, hvort tveggja verkefni sem eru myndarlega styrkt úr sjöundu rammaáætlun Evrópusambandsins og hlutu framúrskarandi mat. Verkefnin eru mjög ólík en Hörður segir þau endurspegla vel þá miklu breidd og sérfræðiþekkingu sem er hjá Matís. „Amylomics verkefnið snýst um að finna ný ensím úr íslenskum hverum til að umbreyta sterkju á nýjan máta. Þetta getur leitt til byltingar í notkun nýrra sterkjuafbrigða t.d. í matvælaiðnaði, auk þess að koma nýjum íslenskum ensímum í framleiðslu. Ecofishman verkefnið snýst um að skoða nýja nálgun í fiskveiðistjórnun þar sem hagsmunaaðilar hafa tækifæri til að hafa áhrif á þróun fiskveiðistjórnunar. Útkoma verkefnisins getur leitt til mikilvægra umbóta á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, öllum til hagsbóta,“ segir Hörður.

Matís í öllum heimsálfum
Auk stórra Evrópuverkefna er mikill kraftur í norrænu samstarfi Matís. Sem sjá má af framúrskarandi árangri Matís í að afla sér styrkja hjá Nordic Innovation Program haustið 2011. Matís leiðir fimm stór verkefni sem fengu styrk úr sjóðnum og er þátttakandi í nær öllum verkefnum sem voru styrkt.

„Þetta er gott dæmi um þann mikla kraft og metnað sem er í starfi Matís.  Verkefnin eru allt frá því að þróa nýjar neytendavörur úr íslensku þangi í að búa til áætlun um markaðssetningu norrænna hvítfiskafurða,“ segir Hörður.
Erlent samstarf Matís er ekki aðeins bundið mörkum Evrópu. Verkefni fyrirtækisins og samstarfsaðilar eru í nær öllum heimsálfum. Má sem dæmi nefna þróunarverkefni sem hófst haustið 2011 fyrir stjórnvöld í Tansaníu tengt rannsóknum á fiski, fiskvinnslu og úttekt á félagslegri stöðu fiskveiðisamfélaga við Tanganyikavatn. Matís hefur síðustu misseri unnið önnur mikilvæg þróunarverkefni í Afríku, t.d. í Kenía og í Mósambik sem tengjast gæðamálum og þjálfun fiskeftirlitsmanna og tæknifólks. Hinum megin við Atlantshafið hefur Matís m.a. tekið þátt í fiskeldisverkefnum í Chile og rannsóknum á lífvirkum sjávarefnum í Bandaríkjunum í samstarfi við bæði háskóla og stór fyrirtæki. Einnig er nýhafið verkefni með kanadískum vísindamönnum þar sem rannsökuð verða áhrif fiskipróteina á sykursýki tvö, sem er vaxandi vandamál á heimsvísu. Þessi verkefni eru flest tilkomin vegna þeirrar sérþekkingar og reynslu sem starfsmenn Matís hafa og er afar eftirsótt á heimsvísu.

Met í fjölda nemendaverkefna
Hlutverk og þáttur Matís í menntun og þjálfun nemenda hefur farið vaxandi og er fyrirtækið með sterk tengsl við marga virta erlenda háskóla. Hörður nefnir mjög farsælt samstarf við UNU, Háskóla Sameinuðu þjóðanna, frá stofnun hans en starfsmenn Matís gegna veigamiklu hlutverki í kennslu við svokallaða gæðalínu skólans og eru nemendur staðsettir hjá Matís og gera sín lokaverkefni þar. „Síðastliðið ár var sett nýtt met í fjölda nema á Matís sem unnu að hinum og þessum verkefnum. Þar af voru margir erlendir nemar víðsvegar úr heiminum sem nutu góðs af leiðsögn vísindamanna Matís og þeirri framúrskarandi aðstöðu sem fyrirtækið getur boðið nemendum. Þeim þykir Matís spennandi kostur vegna þess hversu vel fyrirtækið er tengt bæði háskólaumhverfinu og fyrirtækjum, enda eru flest nemendaverkefnin af þeim toga að verið er að vinna vísindaleg verkefni með hagnýtingu í huga.“

Nánari upplýsingar veitir Hörður.

Fréttir

Nýjar áherslur í meistaranámi í matvælavísindum

Háskóli Íslands í samstarfi við Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskólann, Háskólann á Hólum og Matís, hefur sett á laggirnar mastersnám í matvælavísindum þar sem áherslurnar eru frábrugðnar því sem áður hefur þekkst.

Nýtt meistaranám í matvælafræði

Meistaranám í matvælafræði í samvinnu Háskóla Íslands, annarra ríkisháskóla og Matís, með aðkomu fyrirtækja í matvæla- og líftækniiðnaði.

Boðið verður upp á þrjár námsleiðir í náminu og ljúka þá nemendur meistaragráðu í matvælafræði með áherslu á framleiðslustjórnun, gæðastjórnun eða líftækni.

  • Framleiðslustjórnunarlína: áhersla á vinnslu, vöruþróun og virðisaukningu
  • Gæðastjórnunarlína: áhersla á örverumælingar og rannsóknir og innleiðingu og útfærslu gæðaeftirlits
  • Líftæknilína: áhersla á lífefnavinnslu, rannsóknir og nýsköpun

Ætlunin er að tengja námið atvinnulífi með beinum hætti, bæði með gestafyrirlesurum úr atvinnulífi og með hagnýtum nemendaverkefnum sem unnin verða í samstarfi við öflug matvælafyrirtæki. Jafnframt því að tengja námið betur atvinnulífi
en áður hefur þekkst á þessu sviði verður alþjóðlegt samstarf eflt, auk þess sem bætt hefur verið inn í námið stjórnunar- og rekstraráherslum.

Um er að ræða hagnýtt nám sem hentar þeim sem lokið hafa grunnnámi í matvælafræði eða öðrum raunvísindagreinum eins og efnafræði, líffræði og verkfræði og hafa áhuga að gegna leiðandi hlutverki í matvæla- og líftækniiðnaði við stjórnun, nýsköpun eða rannsóknir.

Nánari upplýsingar má finna hér og einnig með því að hafa samband við Guðjón Þorkelsson sviðsstjóra hjá Matís og dósent við Hí og Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Heimasíða námsins: www.framtidarnam.is.

Fréttir

Háskólanemar hvattir til að hanna sína eigin framtíð

Aukið samstarf háskóla og rannsóknastofnana leiðir af sér nýtt námskeið, það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.

Fimm háskólar eru nú um nokkurt skeið búnir að vera í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Matís og eru að bjóða upp á fyrsta námskeið sinnar tegundar á Íslandi. Námskeiðið ber heitið „Vistvæn nýsköpun matvæla“ og er nemendum frá mismunandi námssviðum og mismunandi háskólum stefnt saman og þeir leiddir í gegnum alla þá þætti sem viðkoma ferlinu frá því að forma hagkvæma vöruhugmynd að því að þróa fullbúna vistvæna vöru og koma henni á innlenda og erlenda markaði.

Talað er um nýsköpun sem vænlegan og áhrifaríkan kost til að skapa vöxt og hagnað, bæði innan einstakra fyrirtækja og heilla hagkerfa. Full ástæða þykir til að mennta og þjálfa íslenska háskólanemendur í þeim nýsköpunarferlum sem stuðla að tilurð, markaðssetningu og sölu nýrra vöruhugmynda.  Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskólinn, Listaháskólinn og Háskólinn á Hólum hafa því tekið höndum saman í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Matís og bjóða upp á námskeið þar sem nemendurnir sjálfir skapa nýjar vöruhugmyndir og þróa fullmótaðar og markaðshæfar vörur í samstarfi við atvinnulífið, rannsóknargeirann og nemendur frá öðrum sérsviðum og skólum þannig að sérþekking úr mismunandi áttum nýtist í heildarferlinu. Árangur í vöruþróun byggir meðal annars á slíku samstarfi og samvinnu aðila með ólíka faglega þekkingu og reynslu og er sjálfbær nýting auðlinda og áhrif framleiðslu-, vinnslu- og dreifiaðferða  á umhverfið einnig farin að hafa mikil áhrif á nýsköpun í matvælaiðnaði.

Kallaðir eru til aðilar frá landbúnaðinum, matvælafyrirtækjum, rannsóknarstofnunum ásamt háskólakennurum á viðeigandi sviðum til að tryggja að nýsköpunarhugmyndirnar sem koma fram  grundvallist á íslensku hráefni, íslenskri sérþekkingu og íslenskum hagsmunum. Teymi nemenda eru mynduð þvert á háskólana og þvert á viðkomandi fagsvið þannig að sérþekking hvers og eins nýtist. Það er til mikils að vinna en sú vöruhugmynd sem ber sigur úr býtum í keppni um vænlegustu og vistvænustu nýsköpunarhugmyndina á matvælasviði sem haldin verður í lok námskeiðsins fær að taka þátt í evrópukeppninni Eco-Trophelia, þar sem vistvænar nýsköpunarhugmyndir á matvælasviði frá ýmsum löndum í Evrópu munu keppa sín á milli.

Keppnin á Íslandi verður haldin í tengslum við Hönnunarmars og munu nemendur etja kappi með hugmyndir sínar og vörur fyrir luktum dyrum 23. mars nk. Úrslit verða svo kunngjörð með pompi og prakt laugardaginn 24. mars.

Hópurinn sem sigrar fær vegleg verðlaun og verða meðlimiðir hans fulltrúar Íslands í EcoTrophelia evrópukeppninni.

Nánari upplýsingar veitir Fanney Frisbæk hjá Nýsköpunarmiðstöð, fanney@nmi.is, 522-9144.

Fréttir

Besti saltfiskrétturinn 2012

Félagið Matur-saga-menning (MSM) og Grindavíkurbær standa fyrir uppskriftakeppni um besta saltfiskréttinn 2012.

Matreiðslumennirnir Sigurvin Gunnarsson og Friðrik V. Karlsson meðlimir í MSM velja fimm uppskriftir. Hægt er að senda uppskriftir í tölvupósti til sigurvingunnars@simnet.is í síðasta lagi 23.mars.

Vinningsuppskriftir verða valdar í lok Menningarviku Grindavíkur 17. – 25. mars, sjá nánar um fjölbreytta dagskrá á www.grindavik.is

1. verðlaun eru kr. 30.000,  2. verðlaun kr. 20.000, 3. verðlaun kr. 10.000, 4. verðlaun kr. 5.000 og 5. verðlaun kr. 5.000.

Vinningsuppskriftir verða sýnilegar á vefsíðum www.matarsetur.is og www.grindavik.is. Í Menningarviku mun Salthúsið í Grindavík bjóða upp á saltfiskrétti sjá www.salthusid.is.

Félagið Matur saga menning
www.matarsetur.is
facebook: matur saga menning

Fréttir

Sumarstörf hjá Matís

Vorið er handan við hornið. Hjá Matís er byrjað að skoða í hvaða verkefni fyrirtækið mun leitast við að fá sumarnemendur. Á hverju sumri ræður Matís inn töluverðan fjölda sumarnemenda og verður væntanlega lítil breyting á þetta sumarið þó enn sé ekkert ákveðið með fjölda.

Hér má sjá lista yfir þau verkefni sem sumarnemendur geta unnið í sumar. Ráðning er háð fjármörgnun og er best að setja sig í samband við tengilið hvers verkefnis varðandi öll atriði verkefnisins sem og möguleikann á ráðningu (upplýsingar um starfsmenn má finna hér).

Tekið er á móti umsóknum um sumarstörf hér.

Nánari upplýsingar veitir Jón Haukur Arnarson, mannauðsstjóri Matís.

Fréttir

Matís býður nemendum í heimsókn

Á morgun, föstudaginn 2. mars kl. 16-18, býður Matís nemendum í háskólanámi í heimsókn að Vínlandsleið 12 í Grafarholti.

Nemendur í háskólum og þeir aðilar sem hyggja á meistara- eða doktorsnám geta kynnt sér starfssemi Matís og hvernig hægt er að tengja námið við skemmtileg og krefjandi verkefni hjá Matís og samstarfsaðilum Matís.

Auglýsinguna um heimboðið má finna hér.

Fréttir

Samstarf Náttúrustofunnar og Matís skilar nýjum hugsunum

Samstarf Náttúrustofu Vestfjarða og Matís vegna rannsókna á umhverfismálum strandsjávar hefur án efa skilað sér í nýjum hugsunum og nálgunum, að sögn Þorleifs Eiríkssonar, forstöðumanns Náttúrustofu Vestfjarða.

Þorleifur segir í samtali við Útvegsblaðið að samstarfið sýni þá möguleika sem felast í klasasamstarfi eins og Íslenska sjávarklasanum.

Rannsóknarsamstarf Náttúrustofu Vestfjarða og Matís hefur verð allt frá athugunum á ákjósanlegum staðsetningum fyrir fiskeldi yfir í það hvað verður um lífræn umframefni sem ofauðga botn og sjó. Samstarfið hófst þegar Náttúrustofa Vestfjarða kom að rannsóknum Matís varðandi tilraunir við að nota ljós til að seinka kynþroska þorsks. Þá kom Náttúrustofan einnig að rannsókn Matís á umhverfisþáttum fiskeldis sem fyrirtækið vann með fiskeldisfyrirtækjum á Vestfjörðum.

Vegna samstarfsins hefur Náttúrustofa Vestfjarða getað í auknum mæli þróað ýmsar kenningar sem hægt er að alhæfa ! út frá. Þá hafa rannsóknirnar leitt fram niðurstöður sem nýtast fiskeldi betur en þröngar þjónusturannsóknir. „Frá þeim tíma hefur samvinna okkar gert Náttúrustofu Vestfjarða kleift að færa sig yfir í hreinar akademískar grunnrannsóknir á umhverfismálum strandsjávar til viðbótar við ráðgjöf og þjónustu rannsóknir fyrir einstök fyrirtæki. Við höfum meðal annars stundað rannsóknir á því hvað verður um lífræn umframefni sem berast út í umhverfið og áhrif þeirra á lífríkið í sjónum. Það verkefni hefur þróast yfir í að vera okkar stærsta samstarfsverkefni,“ segir Þorleifur við Útvegsblaðið.

Ný hugsun og nálganir hafa komið í kjölfar samstarfsins. „Þegar kemur að okkar verkefnum er aðalatriðið að vinna að rannsóknum sem stuðla að vistvænu fiskeldi. Þær rannsóknir hafa síðan þróast yfir í stærri verkefni þar sem við erum að reyna að skilja þessi umhverfismál í stærri heild. Við vorum að ljúka grunnrannsóknarverkefni sem við köllum „Lífríki fjarð! a.“ Þar er um að ræða grunnrannsókn á þolmörkum íslenskra fjarða fyrir lífrænni mengun.“

Aðrar rannsóknir hafa verið unnar í samstarfi við Matís að sögn Þorleifs, t.d. á þróun eldiskvía og hvaða ásætur festast á kvíarnar. Þá vinnur Náttúrustofa Vestfjarða, í samstarfi við Matís, að því að skoða sameldi þorsks og kræklings, en of snemmt er að greina frá þeim niðurstöðum.

Frétt þessi birtist á vefsvæði Bæjarins Besta, www.bb.is (asta(at)bb.is)

Fréttir

Hvernig stendur þitt fyrirtæki varðandi örverufræðileg viðmið?

Matvælastofnun sendi í desember 2011 frá sér drög að leiðbeiningum um örverufræðileg viðmið sem byggja á ákvæðum Evrópureglugerðar (EB/2073/2005) sem tekið hefur gildi hér á landi.

Ljóst er að með leiðbeiningunum er verið að fara fram á aukna sýnatöku við matvælaframleiðslu hjá flestum matvælafyrirtækjum til að sannprófa að þær aðferðir sem beitt er til að fyrirbyggja hættur, séu að skila tilætluðum árangri.

Matís rekur stærstu faggildu matvælarannsóknastofu landsins og starfar með fjölmörgum matvælafyrirtækjum stórum sem smáum, víðsvegar um landið. Við gerum tilboð í mælingar eftir þörfum einstakra fyrirtækja og getum einnig veitt ráðgjöf og aðstoð vegna sýnatöku og gerð sýnatökuáætlana.

Vinsamlegast hafið samband við Franklín Georgsson í síma 422-5000 eða 858-5040 eða á netfangið profun@matis.is.

Hjá Matís starfa sérfræðingar með mikla reynslu og þekkingu á öllum sviðum matvælaframleiðslu. Við getum því einnig boðið matvælafyrirtækjum upp á alhliða þjónustu og ráðgjöf sem sniðin er að þörfum hvers viðskiptavinar. Má þar nefna þjónustu varðandi:

  • Túlkun á niðurstöðum mælinga m.t.t. viðmiða reglugerða
  • Ráðgjöf og aðstoð við uppsetningu og viðhald gæðahandbóka og gæðakerfa
  • Ráðgjöf varðandi vinnslu matvæla, hættugreiningu vinnslunnar og lágmörkun hættu við vinnslu og dreifingu
  • Mat á árangri þrifa og sótthreinsiaðgerða og leiðir til úrbóta

Við bjóðum fyrirtækjum að hafa samband við Margeir Gissurarson í síma 422-5000 eða 858-5093 en einnig má senda fyrirspurnir á netfangið radgjof@matis.is.

Fréttir

Háskóladagurinn 2012! Nýjar áherslur í meistaranámi í matvælavísindum

Á háskóladeginum er landsmönnum boðið að koma í heimsókn í háskóla landsins og skoða og sjá með eigin augum og eyrum hvað er í boði í skólunum. Á dagskránni eru ótal viðburðir, kynningar og uppákomur sem sýna vísindin í litríku og lifandi ljósi.

Í Háskóla Íslands fara fram kynningar á fjöldamörgum námsleiðum. Til dæmis verða kynningar á matvælafræði, næringarfræði og nýju meistaranámi í matvælafræði. Matís er þátttakandi ásamt fleirum í nýju mastersnámi í matvælavísindum.

Nánari upplýsingar um nýja meistaranámið má finna hér.

Á háskóladeginum geta gestir kynnt sér fjölbreytt námsframboð háskólans, bæði grunn- og framhaldsnám, starfsemi og þjónustu, skoðað rannsóknastofur, tæki, búnað og húsakynni. Á staðnum verða  vísindamenn og nemendur úr öllum deildum skólans sem svara spurningum um allt milli himins og jarðar – eða því sem næst. Námsráðgjafar gefa góð ráð og kynnt verður sú margþætta þjónusta og litríka félagslíf sem stúdentum Háskóla Íslands stendur til boða.

Háskóli Íslands kynnir allt nám í Aðalbyggingu, Háskólatorgi, Öskju og verður auk þess með vísindasýningar í Háskólabíói. Í Háskólabíói verða einnig Háskólinn á Akureyri, Hólaskóli-Háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskóli Íslands, Listaháskóli Íslands, Keilir og norrænir háskólar með kynningu á sínu námi.

Þar verður einnig hið landsfræga Sprengjugengi Háskóla Íslands með litríkar sýningar og Vísindasmiðja Háskóla Íslands verður opnuð upp á gátt í anddyri Háskólabíós með formlegum hæti.

Háskólinn í Reykjavík verður með kynningu á sínum námsleiðum í Nauthólsvík en Listaháskóli Íslands verður einnig þar samhliða því að vera í Háskólabíói.

Heimasíða Háskóladagsins.

Fréttir

Ársskýrsla Matís 2011

Ársskýrsla Matís 2011 er nú komin út. Sérstök áhersla var lögð á alþjóðlegt samstarf í skýrslu sl. árs

Skýrsluna má nálgast hér.

IS