Fréttir

Lítið magn af óæskilegum efnum er að finna í íslensku sjávarfangi

Út er komin skýrsla frá Matís ohf. sem ber heitið Undesirable substances in seafood products – results from the Icelandic marine monitoring activities in the year 2010.

Skýrslan sýnir niðurstöður mælinga á magni óæskilegra efna, lífrænna og ólífrænna, í íslenskum sjávarafurðum á árinu 2010 og er hluti af sívirku vöktunarverkefni sem styrkt er af Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneytinu og hefur verið í gangi frá árinu 2003. Árið 2010 voru eftirfarandi efni mæld í sjávarafurðum sem ætlaðar eru til manneldis sem og afurðum til lýsis- og mjöliðnaðar: dioxin, dioxinlík PCB og bendi PCB efni, eldhemjandi efni (PBDEs), málmar og 12 mismunandi tegundir varnarefna (skordýra og plöntueitur). Gert var sérstak átak í mælingum á eldhemjandi efnum (PBDE) og  málmum árið 2010 og var styrkur þeirra almennt lágur í íslenskum sjávarafurðum. Líkt og fyrri ár vöktunarninnar mældist almennt lítið magn óæskilegra efna í íslensku sjávarfangi árið 2010 samanborið við þau hámörk sem Evrópulöndin hafa viðurkennt. Olía og mjöl gert úr kolmunna á það þó til að vera nálægt eða fara yfir leyfileg mörk fyrir viss efni.

Gögnin sem safnað er ár frá ári í þessu verkefni fara í að byggja upp sífellt nákvæmari gagnagrunn um ástand íslenskra sjávarafurða m.t.t. mengunarefna. Skýrslan er á ensku og er aðgengileg á vef Matís (hér) þannig að hún nýtist framleiðendum, útflytjendum, stjórnvöldum og öðrum við kynningu á öryggi og heilnæmi íslenskra fiskafurða.

Niðurstöður mælinga á fiskimjöli og lýsi til fóðurgerðar staðfesta nauðsyn þess að fylgjast vel með magni óæskilegra efna,  ekki síst þrávirkra lífrænna efna eins og díoxíns, PCB efna og varnarefna í þessum afurðum á vorin. Styrkur þrávirku efnanna er háður næringarlegu ástandi uppsjávarfiskistofnanna sem afurðirnar eru unnar úr og nær hámarki á hrygningartíma. Þá hættir magni díoxína og díoxín-líkra PCB efna auk einstakra varnarefna til þess að fara yfir leyfileg mörk Evrópusambandsins.  Þetta á sérstaklega við um afurðir unnar úr kolmunna.

Nýlegar er einnig komin út bæklingurinn “Valuable facts about Icelandic seafood” en þar hafa verið teknar saman mikilvægar upplýsingar úr þessu vöktunarverkefni í 10 verðmætustu fiskitegundunum sem Íslendingar veiða. Höfundar skýrslunnar eru Vordís Baldursdóttir, Natasa Desnica, Þuríður Ragnarsdóttir og Helga Gunnlaugsdóttir. Verkefnastjóri er Helga Gunnlaugsdóttir.

Fréttir

Sjálfbærni í staðbundinni matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu

Viltu taka þátt í að móta leiðir til að auka veg staðbundinna matvæla innan ferðaþjónustunnar?

Ráðstefna og málstofa á sveitahótelinu Smyrlabjörgum í Suðursveit 26.-27. október 2011

Hvernig getur staðbundin matvælaframleiðsla stuðlað að sjálfbærni í ferðaþjónustu?
Hvernig skal staðið að markaðssetningu staðbundinna matvæla, hvaða kröfur skal setja?
Er til mælikvarði fyrir vottun á sjálfbærni sem frumkvöðlar geta unnið að, hvernig á hann að vera?

Ráðstefnan hefst miðvikudaginn 26. október kl 9:30 með fyrirlestrum. Fimmtudaginn 27. október verður haldin málstofa þar sem eftirfarandi málefni verða rædd í rýnihópum.

  • Upprunamerkingar og markaðssetning svæðisbundna matvæla
  • Staðbundin sjálfbærni, samstarf einstaklinga, fyrirtækja og opinbera aðila, vottun á sjálfbærni

Vinnuhópar skila inn greinagerð um stöðu mála í dag og tillögum að betrumbótum.

Þátttaka á ráðstefnunni er ókeypis. Þátttakendur fá sérstakt tilboð í gistingu og kvöldverð á Smyrlabjörgum. Gisting með morgunverð kr. 5.500 – kvöldverður kr. 2.800. Rútuferð í boði frá flugvellinum á Hornafirði að Smyrlabjörgum fyrir þá sem koma með flugi (40 mín).

Málþingið er liður í verkefninu Matur og sjálfbær ferðþjónusta sem er eitt af öndvegisverkefnum RANNÍS. Verkefnishópinn skipa Matís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Atvinnuþróunarfélag Suðurlands, Þróunarfélag Austurlands, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Rannsóknarsetur HÍ á Hornafirði og Háskóli Íslands (sjá nánar um verkefnið hér að neðan).

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna á: www.matis.is og www.nmi.is

Taktu þátt í mótun sjálfbærra leiða í staðbundinni matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu!

Skráning fer fram hér: tinna@nmi.is

Drög að dagskrá

Fundarstjóri málþings: Hjalti Þór Vignisson bæjarstjóri Hornafjarðar

Dagur 1. (9:30-16:00)

Fyrir hádegi

  •  Hvað er sjálfbærni? Svæðisbundin sjálfbærni á Íslandi, hvað hefur verið gert á Íslandi og hverju hefur það skilað? Getum við lært af dæmum erlendis frá? Hver er núverandi stefna yfirvalda? Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur, Environice.
  • Matur og sjálfbær ferðaþjónusta: Mælingar á sjálfbærni – niðurstöður tilraunaverkefnis kynntar. Dr. Þorvarður Árnason, forstöðumaður, & Johannes T. Welling, verkefnastjóri, Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Hornafirði
  • Svæðisbundin sérstaða út frá sögulegum, menningarlegum og listrænum sjónarhóli, vörueiginleikar og hönnun. Fyrirlesari óstaðfestur.
  • Svæðisbundnar/staðbundnar merkingar – staðan í dag, framtíðarsýn. Laufey Haraldsdóttir, lektor, Hólaskóli háskólinn á Hólum.
  • Viðhorf notenda/grasrót – stuttar kynningar frá nokkrum aðilum um starfsemi sína og reynslu. Erlendur Pálsson frá SólheimumLaufey Helgadóttir á Smyrlabjörgum og Fanney Björg Sveinsdóttir Heimamarkaðsbúðin Höfn.  

Eftir hádegi

  • Sjálfbær framtíð – Framtíðarsýn fyrir Ísland. Kynning á Samleiðniverkefninu (Converge). Dr. Kristín Vala Ragnarsdóttir, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands
  • Slow food. Leið til sjálfbærar matvælaframleiðslu? Ari Þorsteinsson, Slow food.
  • Sjálfbærni í ferðaþjónustu, Vakinn. Elías B. Gíslason, forstöðumaður Þróunarsviðs, Ferðamálastofa
  • Frá stoðkerfi í iðnaðinn. Sjónarhóll á staðbundin matvæli og sjálfbærni. Guðmundur Heiðar Gunnarsson, Framleiðslutjóri, Skinney-Þinganes.

Dagur 2. (9:30-16:00)

Rýnihópar fjalla um málefni fyrri dags. Nánari dagskrá síðar.

Verkefnið Matur og sjálfbær ferðaþjónusta
Í verkefninu Matur og sjálfbær ferðaþjónusta er unnið að því að byggja upp staðbundna matvælaframleiðslu á ólíkum svæðum á Vestur-, Suður- og Austurlandi til að stuðla að aukinni sjálfbærni í ferðaþjónustu. Reynslan úr verkefninu verður síðan nýtt til að yfirfæra yfir á önnur svæði á landinu. Með átaki um aukna nýsköpun og framleiðslu verður unnið markvisst að því að auka framboð og eftirspurn eftir staðbundnum matvælum innan ferðaþjónustunnar á hverju svæði. Lögð verður áhersla að veltan skili sér betur til viðkomandi samfélaga, þar sem  dregið er úr hagrænum leka vegna aðflutnings matvæla inn á svæðin. Þannig er hagræn sjálfbærni ferðaþjónustunnar aukin til muna.

Með nálguninni er horft til nýrra atvinnutækifæra í smáframleiðslu matvæla. Eins er lagt upp úr þverfaglegu og dýnamísku samstarfi hagsmunahópa sem hafa nú þegar verið stofnaðir á öllum svæðunum og teymis sérfræðinga frá háskólum og rannsóknastofnunum. Þetta er gert til að vega á móti takmörkuðum aðgangi að sérhæfðri þekkingu í vöruþróun/hönnun matvæla á svæðunum. Með þessu er samfélagsleg sjálfbærni svæðanna aukin til muna sem styrkja mun enn frekar ferðaþjónustu á svæðinu með nýjum tækifærum í sölu á afurðum sem veita ferðamanninum tækifæri að upplifa land og þjóð í gegnum staðbundin matvæli og skapandi iðnað.

Ekki er síður mikilvægt að benda á aukin lífsgæði íbúa á svæðunum sem nú búa jafnvel við takmarkað aðgengi að ferskum og heilnæmum matvælum. Með aukinni vinnslu afurðar innan svæðanna eykst umhverfisleg sjálfbærni einnig verulega. Þannig styttast allar flutningsleiðir mikið sem dregur úr sótsporum (“food milage”) matvæla bæði á svæðinu í heild sinni og innan ferðaþjónustu.  Enn fremur dregur einföldun á dreifingu úr sóun í ferlinu.

Smáframleiðsla afurða byggir á forsendum sjálfbærrar þróunar þar sem lagt er upp úr takmarkaðri framleiðslu á grænan hátt. Verðmæti slíkrar framleiðslu byggir í dag á því að líta á neytandann sem meðframleiðanda. Varan er því háð því að uppfylla væntingar neytandans um heilnæmi og góða framleiðsluhætti.

Fréttir

Sjávarútvegsráðstefnan 13. og 14. október nk. – Matís er þátttakandi

Sjávarútvegsráðstefnan verður haldin á Grand Hótel í Reykjavík 13.-14. október 2011 og ber heitið ,,Frá tækifærum til tekjusköpunar“. Matís er þátttakandi að venju en þar mun m.a. Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, greina frá nýjum nýsköpunarverkefnum í sjávarútvegi og afrakstri þeirra.

Nýustu útgáfu af dagskrá er hægt að sækja hér. Helstu nýjungar frá síðustu Sjávarútvegsráðstefnu er kynning á frammúrstefnuhugmyndum og jafnframt munu bestu hugmyndirnar fá verðlaun á ráðstefnunni. Einnig verður veglegra ráðstefnuhefti þar sem m.a. verður að finna tölfræðilegar upplýsingar um íslenskan sjávarútveg. Á ráðstefnunni verða haldin 36 erindi og málstofur verða eftirfarandi:

  • Íslenskur sjávarútvegur
  • Markaðstækifæri í Evrópu
  • Sóknarfærði í veiðitækni
  • Markaðssvæði framtíðarinnar
  • Vöruþróun
  • Sjávarútvegur og fjölmiðlar
  • Tækifæri erlendis
  • Evrópusambandið og íslenskir fjölmiðlar
  • Sjávarklasinn á Íslandi

Í lokin munu vera samantektir frá málstofum, pallborðsumræður og kynningar á frammúrstefnuhugmyndum og verðlaunaafhending.

Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Sjávarútvegsráðstefnunnar ehf, www.sjavarutvegsradstefnan.is.

Fréttir

Námskeið – innra eftirlit og gerð gæðahandbókar

Matís mun standa fyrir námskeiðum í innra eftirliti og gerð gæðahandbókar í matvælafyrirtækjum dagana 17.-18. október næstkomandi

Innra eftirlit – 17.10, kl. 10:00 – 17:00
Innra eftirlit er kerfisbundin aðferð matvæla- fyrirtækja sem hefur þann tilgang að tryggja öryggi, gæði og hollustu (heilnæmi) matvæla. Öll matvælafyrirtæki eiga að vera með innra eftirlit. Með innra eftirliti á að vera hægt að sýna hvað er gert til að tryggja að þau matvæli sem eru framleidd séu örugg til neyslu. Til að ná árangri er mikilvægt að allt starfsfólk taki virkan þátt í innra eftirliti og hafi skilning á tilgangi, markmiðum og ávinningi þess. 

Gerð gæðahandbókar – 18.10., kl. 09:00 – 16:00
Gæðahandbók er eitt af þeim skilyrðum sem framleiðendur þurfa að uppfylla til þess að geta fengið framleiðsluleyfi fyrir sína framleiðslu. Farið verður í vöru- og framleiðslulýsingar, hættu- greiningu og viðbrögð, sýnatökuáætlun og húsnæði.
 
Námskeiðin eru ætluð öllum þeim sem vinna í matvælafyrirtækjum eða hafa hug á slíku!

Verð fyrir hvert námskeið fyrir sig er 25.000 kr og verða haldin í Nýheimum á Höfn í Hornafirði.

Bent er á á starfsmenntunarasjóðir endurgreida kostnað vegna námskeiðahalds til einstaklinga og fyrirtækja allt ad 75%. Sjá nánari upplýsingar um starfsmenntasjóði og úthlutunarreglur hér:

www.starfsafl.is – www.landsmennt.is – www.starfsmennt.is

Nánari upplýsingar og skráning í síma 858-5136 og vigfus.th.asbjornsson@matis.is

Fréttir

Matís opnar kjötbók á netinu

Ókeypis aðgangur að upplýsingaveitu um íslenskt kjöt. Nýr upplýsingavefur um kjöt var opnaður fyrir skömmu á vefslóðinni www.kjotbokin.is.

Það var Sindri Sigurgeirsson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, sem opnaði vefinn formlega þegar hann hringdi í  höfuðstöðvar Matís ofan af Holtavörðuheiði en þar var hann í göngum ásamt fleiri Borgfirðingum. Vefbókin var kynnt
á opnu húsi hjá Matís, sem er útgefandi kjötbókarinnar.

Vefrit í stað gömlu bókarinnar Í kjötbókinni, sem er ítarlegt vefrit um kjöt, verður til að byrja með einungis að finna upplýsingar um lambakjöt en aðrar kjöttegundir munu koma í kjölfarið ef áætlanir útgefanda ganga upp. Vefritinu er ætlað að koma í  staðinn fyrir gömlu kjötbókina sem gefin var út árið 1994. Markhópur bókarinnar er fjölbreyttur en víst er að nýja útgáfan
mun koma sér vel í kjötvinnslum, hjá sláturhúsum, nemendum, bændum og ekki síst kjötkaupendum sem vilja fræðast um kjötvörurnar. Aðgangur að kjötbókinni er ókeypis og ekki er fyrirhugað að selja aðgang að vefnum í framtíðinni. Vandaðar myndir og fjölbreyttar upplýsingar Í nýju bókinni eru vandaðar myndir af kjötinu, upplýsingar um kjötmat og það hvaðan úr skrokk einstakir vöðvar eru teknir, stærð og þyngd stykkja ásamt öllum heitum þeirra. Hægt er að prenta út upplýsingaspjöld um hvern bita og nálgast margskonar efni sem tengist kjöti, m.a. um prótein-, fitu- og kolvetnainnihald. Númerakerfi sem m.a. er notað í erlendri markaðssetningu á lambakjöti nær yfir alla bita en það gerir samskipti á milli kjötkaupenda og seljenda auðveldari en áður.

Auðvelt að uppfæra
Að sögn Óla Þórs Hilmarssonar, kjötiðnaðarmeistara hjá Matís og eins af höfundum bókarinnar, verður auðvelt að bæta við  efni í vefbókina eftir því sem tímar líða. „Það opnast á ýmsar tengingar í gegnum vefinn í framtíðinni. Í nágrannalöndum okkar eru svona vefir tengdir beint við fyrirtækin sem setja þar inn ýmsar upplýsingar um sínar vörur, m.a. efnainnihald og næringargildi,“ segir Óli Þór.

Kjötbókin

Það eru þau Guðjón Þorkelsson, Óli Þór Hilmarsson og Gunnþórunn Einarsdóttir hjá Matís sem eiga veg og vanda af gerð bókarinnar en verkefnið hlaut meðal annars stuðning hjá Markaðsráði kindakjöts. Vefritið er í raun sett upp eins og hefðbundin bók á Netinu en grafísk hönnun var á hendi Port hönnunar, vefinn forritaði Einar Birgir Einarsson og Odd Stefán ljósmyndari tók flestar ljósmyndir.

Nánari upplýsingar veitir Óli Þór Hilmarsson hjá Matís.


Ofangreind frétt birtist fyrst í Bændablaðinu 15. september sl.

Fréttir

Matvæladagur Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands – forstjóri Matís stjórnar fundi 18. október nk!

Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands (MNÍ) boðar til Matvæladags MNÍ þriðjudaginn 18. október næstkomandi á Hilton Reykjavík Nordica hóteli. Matvæladagurinn er árviss viðburður sem haldinn hefur verið frá árinu 1993 og er nú haldinn í nítjánda sinn. 

Matís tekur stóran þátt í deginum en þess má geta að auk fundarstjórnar munu margir starfsmenn Matís halda erindi. Auk þess er markaðsstjóri Matís í undirbúningsnefnd Matvæladags. Dagskrá Matvæladags 2011 má finna hér.

Matvæladagur MNÍ 2011 ber yfirskriftina Heilsutengd matvæli og markfæði.  Megininntak dagsins þetta árið er vöruþróun, framleiðsla, rannsóknir og markaðssetning á heilsutengdum matvælum og markfæði úr íslensku hráefni. Flutt verða fjórtán stutt erindi sem gefa innsýn í umfjöllunarefnið. Meðal annars verður fjallað um íslenskt morgunkorn, lýsi, próteindrykki, sósur úr fiskroði, notkun þangs í matvælaframleiðslu, heilsufullyrðingar á matvælum og D-vítamínbætingu matvæla.

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, mun setja ráðstefnuna og fundarstjóri er Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.

Matvæladagur 2011

Við setningu ráðstefnunnar mun Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, afhenda Fjöregg MNÍ, en það er verðlaunagripur sem veittur er fyrir lofsvert framtak á sviði matvælaframleiðslu og manneldis. Gripurinn er hannaður og smíðaður af Gleri í Bergvík og hefur frá árinu 1993 verið gefinn af Samtökum iðnaðarins. Tilnefningar til Fjöreggs MNÍ árið 2011 má finna á heimasíðu MNÍ, www.mni.is. Nánari upplýsingar um tilnefningarnar veitir Borghildur Sigurbergsdóttir, borghildurs(at)gmail.com, gsm 896-1302.

Þátttöku á ráðstefnuna þarf að tilkynna á vefsíðu MNÍ, www.mni.is, en skráningu lýkur kl. 13:00, mánudaginn 17. október. Almennt þátttökugjald er 4.500 kr., en nemar þurfa aðeins að greiða 3.000 kr. Ef skráning á sér stað eftir 14. október hækkar þátttökugjald um 1000 kr. Ráðstefnugögn og léttar veitingar eru innifaldar í verði en dagskráin stendur frá kl. 12:00 til 18:00 og er birt á heimasíðu MNÍ en þar birtast einnig fréttir af ráðstefnunni þegar nær dregur svo og listi yfir þá sem kynna munu sínar vörur og rannsóknir á þessu sviði.

Matvæladagurinn er opinn almenningi og er áhugafólk um matvæli og næringu hvatt til að mæta.

Nánari upplýsingar veitir Fríða Rún Þórðardóttir, 898-8798, frida@isport.is.

Fréttir

Matís tekur þátt í sýningunni Matur-inn á Akureyri

Sýningin MATUR-INN 2011 í Íþróttahöllinni á Akureyri er um komandi helgi. Búist er við þúsundum gesta á sýninguna – sölusýning með á fjórða tug þátttakenda – fag- og leikmannakeppnir í matreiðslu – ókeypis aðgangur!

Sýningin MATUR-INN verður haldin á Akureyri í fimmta sinn um komandi helgi. Sýningin hefur verið haldin á tveggja ára fresti og var hún síðast haldin árið 2009. Þá voru gestir 12-14  þúsund og er búist við öðru eins í ár. Sýningarbásar eru fleiri en á síðustu sýningu og sýningasvæðið enn stærra. Sem fyrr er aðgangur ókeypis og undirstrikað að um er að ræða sölusýningu og því hægt er að gera góð kaup hjá sýnendum. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, mun opna sýninguna formlega en hún verður opin kl. 11-17 á laugardag og sunnudag.

Mikil fjölbreytni
Óhætt er að segja að MATUR-INN 2011 sé hápunktur í norðlenskri matarmenningu. Sýningin er haldin af félaginu Mat úr Eyjafirði í góðu samstarfi við Þingeyska matarbúrið og Matarkistuna Skagafjörð. Að baki þessum félögum standa matvælaframleiðendur stórir sem smáir, veitingaaðilar, ferðaþjónustufyrirtæki, verslanir- og þjónustufyrirtæki – allt aðilar sem eiga það sammerkt að matur kemur við sögu í þeirra starfi. Á fjórða tug aðila tekur þátt í sýningunni MATUR-INN 2011 og verður fjölbreytni mikil. 

Skemmtilegar matreiðslukeppnir og haustmarkaður
Keppt verður í matreiðslu á eldhússvæði sýningarinnar. Til að mynda munu þjóðþekktir einstaklingar spreyta sig á laxaréttum, matreiðslumenn munu keppa um besta makrílréttinn, bakarar glíma við eftirrétti og loks munu veitingahús keppa í flatbökugerð.

Á sýningunni verða sýningarbásar fyrirtækja og matarmenningarfélaga, markaðstorg þar sem t.d. hægt verður að kaupa ferska haustuppskeru og sultur margs konar.

Samhliða sýningunni verður húsbúnaðarsýning í anddyri Íþróttahallarinnar og á laugardaginn verður kveikt upp í risagrilli útifyrir þar sem hefst sólarhringsgrillun á nautsskrokk. Hann verður síðan tilbúinn á sunnudag og gefst þá gestum tækifæri til að bragða á herlegheitunum.

Á sunnudag verða einnig afhent frumkvöðlaverðlaun félagsins Matar úr Eyjafirði en þau hafa verið fastur liður á sýningum félagsins hingað til.

Í tilefni af sýningunni verða átta veitingahús á Akureyri með sérréttamatseðil þessa viku þar sem þau útfæra hvert með sínum hætti hráefni úr héraði. Þannig má segja að matur og matarævintýri verði þema Eyjafjarðar og Norðurlands alla þessa viku og nái hápunkti um helgina.

Dagskrá

Laugardagur 1. október
kl. 11 – Sýningin opnar
kl. 11:30  – Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, opnar sýninguna formlega
kl. 13-14 – Matreiðslumenn keppa um besta makrílréttinn
kl. 15  – Þjóðþekktir einstaklingar keppa í matreiðslu á laxi
kl. 17  – Sýningin lokar

Sunnudagur 2. október
kl 11 – Sýningin opnar
kl. 13 – Bakarar keppa í eftirréttagerð
kl. 14 – Flatbökukeppni veitingastaðanna
kl. 15 – Uppboð á varningi frá sýnendum – ágóði rennur til Hetjanna – aðstandendafélags langveikra barna á Norðurlandi
kl. 15:30 – Frumkvöðlaverðlaun félagsins Matar úr héraði veitt.
kl. 17  – Sýningin lokarÞátttakendur í MATUR-INN 2011
Í sýningarbásum: 

  • Bautinn, Akureyri
  • Beint frá býli – framleiðendur
  • Brauðgerð Kr. Jónssonar, Akureyri
  • Darri – Eyjabiti, Grenivík
  • Ektafiskur, Hauganesi
  • Greifinn, Akureyri
  • Nýja kaffibrennslan, Akureyri
  • Kexsmiðjan Akureyri
  • Kjarnafæði, Akureyri
  • Kung Fu, Akureyri
  • Laufabrauðssetrið, Akureyri
  • Lostæti, Akureyri
  • Matarkistan Skagafjjörður, framleiðendur og fyrirtæki í Skagafirði
  • Matís, Akureyri
  • MS Akureyri
  • Norðlenska, Akureyri
  • Purity Herbs, Akureyri
  • Strikið, Akureyri
  • Urtasmiðjan, Svalbarðsströnd
  • Þingeyska matborðið, framleiðendur og fyrirtæki í Þingeyjarsýslu

Á vínkynningarsvæði:

  • Brugghúsið Gæðingur, Skagafirði
  • Bruggsmiðjan, Árskógssandi

Á markaðstorgi:

  • Júlíus Júlíusson, Dalvík
  • Ósk Sigríður Jónsdóttir, Svarfaðardal
  • Reykir II, Fnjóskadal
  • Holt og heiðar ehf., Hallormsstað

 Húsbúnaðarsýning í anddyri:

  • Laufabrauðssetrið
  • Mímósa

Nánari upplýsingar veitir Jóhann Ólafur s. 899-9865

Fréttir

Kokkakeppni – búðu til stuttmynd

Búðu til stuttmynd með símanum eða annari myndbandstökuvél eða búðu til albúm með ljósmyndum. Þú getur unnið ferð til Washington, DC.

Þú getur, meðal annars: Hjálpað til við að búa til mat fyrir 30.000 nemendur í skólum í Washington, unnið með færum leiðbeinendum, aukið færni þína sem kokkur, matreitt á einum af norrænu sendiráðunum í Washington og fengið að búa til mat á einum af  betri veitingastað Washingtonborgar.

Ef að þú ert á aldrinum 18 og 24 ára og getur ferðast á tímabilinu 21-28. október, gætir þú unnið allt þetta. Nánari upplýsingar á www.nordicinnovation.org/is/verkefni/kokkakeppni-buou-til-stuttmynd/

Að taka þátt
Búðu til stuttmynd með símanum eða annari myndbandstökuvél eða búðu til albúm með ljósmyndum. Þú átt að matreiða bragðgóða máltíð úr norrænum hráefnum, og sem auðvelt væri að búa til í skólaeldhúsum í Bandaríkjunum. Þá þarf að vera mögulegt að nálgast hráefnin á auðveldan hátt í Bandaríkjunum. Rétturinn á að vera hollur, bragðgóður og auðveldur fyrir ungt fólk að matreiða. Þú átt að sýna okkur uppskriftina og kynna sjálfan þig þar sem þú segir okkur af hverju þú ættir að vera einn af þeim sem vinnur ferð til Washington.

Umsóknirnar eiga að vera á ensku eða einu af skandinavísku tungumálunum

Myndböndin og ljósmyndirnar munu verða birtar á heimasíðu Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar. Dómnefnd mun meta allar umsóknirnar og velja fimm bestu. Dómnefndin mun ekki bara einblína á uppskriftina heldur á umsækjendurnar og hvernig þeir koma hollum Norrænum mat á framfæri.

Umsóknir verða að hafa borist okkur fyrir lok dags 3. október 2011.

Fyrir frekar upplýsingar um keppnina og umsóknir, hafið samband við Elisabeth Smith (e.smith@nordicinnovation.org) hjá Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni.

Fréttir

Staða mengunar þungmálma og annarra eiturefna í hafinu umhverfis landið – ný skýrsla Matís

Mengun þungmálma og annarra eiturefna í hafinu umhverfis landið er almennt vel undir alþjóðlegum viðmiðunarmörkum, eins og fram kemur í nýrri skýrslu Matís um breytingar á lífríki sjávar við landið (hér)

Styrkur kadmíns í íslenskum kræklingi er hinsvegar hærri en almennt gerist í kræklingi frá hafsvæðum Evrópu og Ameríku.

Frá árinu 1989 hefur verið í gangi árlegt vöktunarverkefni á mengunarefnum í lífríki hafsins við Ísland. Verkefnið er fjármagnað af umhverfisráðuneytinu, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og Matís ohf. Umhverfisstofnun er umsýsluaðili verkefnisins.

Ýmis mengandi efni í hafinu geta borist í sjávarlífverur eða lífverur sem nærast á sjávarfangi. Í mörgum tilfellum stafar þessi mengun af mannavöldum og eru vaxandi áhyggjur af þeirri þróun. Mengandi efni berast með loft- og sjávarstraumum frá meginlandi Evrópu og Ameríku auk mengunar frá Íslandi. Það er því mikilvægt að fylgjast með magni mengandi efna hér við land, bæði í umhverfi og lífverum sem lifa við landið. Þá er ennfremur mikilvægt að geta borið saman stöðu lífríkis hafsins í kringum Ísland við ástandið í öðrum löndum, ekki síst vegna mikilvægis sjávarafurða fyrir þjóðina.

Í skýrslu Matís (skýrsla 24-11 á vef Matís) eru birtar niðurstöður vöktunarverkefnisins fyrir árin 2009 og 2010. Í rannsókninni eru mæld snefilefnin blý, kadmín, kvikasilfur, kopar og sink, arsen og selen, þrávirku lífrænu efnin HCH, HCB, PCB, klórdan, trans-nonachlor, toxaphen, DDT og PBDE. Markmiðið með vöktunarverkefninu er að bera kennsl á breytingar sem kunna að verða á styrk snefilefna í lífríki sjávar umhverfis landið á ákveðnu tímabili og á milli ólíkra haf- og strandsvæða. Rannsóknin skiptir meðal annars miklu máli fyrir sölu á íslensku sjávarfangi bæði á innlendum og erlendum mörkuðum þar sem hægt er að sýna fram á með vísindalegum gögnum að íslenskur fiskur sé veiddur í ómenguðu umhverfi.

Fram kemur í skýrslunni að styrkur þungmálma eins og kvikasilfurs er afar lágur. Hins vegar hefur styrkur kadmín stundum mælst hærri í lífríki sjávar hér við landi en á suðlægari slóðum. Magn kadmíns er þó lágt í þeim lífverum sem rannsökuð eru t.d. á bilinu 0,1-1 mg/kg í kræklingi. Hár styrkur kadmíns hér við land er svæðisbundinn og talinn eiga sér náttúrulegar orsakir þar sem ekkert hefur komið fram sem bendir til kadmínmengunar af manna völdum. Niðurstöður sýna breytingar í mynstri styrks klórlífrænna efna í  kræklingi sem safnað var nálægt Hvalstöðinni í Hvalfirði í september 2009, ekki voru sýnilegar breytingar í styrk þessara efna á söfnunarstað kræklings við Hvammsvík í Hvalfirði né á neinum öðrum söfnunarstað í kringum landið sem rannsakaður var 2009. Mikilvægt er að fylgjast með þessum breytingum í mynstri styrks klórlífrænna efna í kræklingi í vöktunarverkefninu  á næstu árum til að sjá hvort þær eru enn til staðar. Ítarleg tölfræðigreiningu á gögnunum er í gangi þ.a. hægt sé að meta með vísindalegum aðferðum aukningu eða minnkun mengandi efna í lífríki sjávar hér við land.

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Fullt hús matar á Sjávarútvegssýningunni í Kópavogi?

Matís tekur þátt í Sjávarútvegssýningunni í Kópavogi 22.-24. sept. nk. Á bás Matís, nr. C50, verður margt um að vera og má þar nefna kynningu á skyri með lífvirkum þara sem einu innihaldsefna og þar með öllum þeim andoxunareiginleikum sem þari hefur að geyma, bragðmikinn heitreyktan makríl og ljúffenga humarsúpu.

Dagskrá kynninga hjá Matís er eftirfarandi:

  • Fimmtudagur 22. sept. kl. 16:30-17:30: Heitreyktur makríll
  • Föstudagur 23. sept. kl. 16:00-17:30: Humarsúpa frá Höfn
  • Laugardagur 24. sept. kl. 13:00-15:00: Þaraskyr úr lífrænni mjólk og þara úr Breiðafirði

Ekki missa af þessu!

Þess má geta að þaraskyrið er á leiðinni í úrslitakeppni  Ecotrophelia Europe, sem vænlegasta og vistvænasta nýsköpunarhugmyndin á matvælasviði árið 2011?

Nánari upplýsingar veitir markaðsstjóri Matís, Steinar B. Aðalbjörnsson, 858-5111.

IS