Fréttir

Breytileiki í fitusamsetningu þorsks

Unnið er að rannsóknum sem auka eiga þekkingu á eiginleikum fitu og stöðugleika hennar m.t.t. ástands fisks við veiði.

Fitusamsetning í þorskholdi (Gadus morhua) eftir árstíma og veiðarsvæðum

Í mögrum fiski eins þorski var þránun á fitu ekki talin vandamál.  Hins vegar inniheldur þorskvöðvi mikið af ómettuðum fitusýrum sem að þrána auðveldlega við geymslu.  Þessar breytingar hafa neikvæð áhrif á bragð og útlit afurða.  Unnið er að rannsóknum sem auka eiga þekkingu á eiginleikum fitu og stöðugleika hennar m.t.t. ástands fisks við veiði.  Ástand fisks ræðast af ýmsum þáttum, svo árstíð, veiðarsvæði, stærð og aldri fisksins.   Bætt þekking á hráefni og stöðugleika þess við vinnslu og geymslu mun auðvelda framleiðslustýringu við fiskvinnslu, þar sem geymsluþol og gæði afurða eru höfð að leiðarljósi. 

Rannsóknirnar eru styrktar af Verkefnasjóði Sjávarútvegsins en þær munu standa yfir út árið 2011.

Þátttakendur í verkefninu eru Oddi hf, KG Fiskverkun ehf, Þorbjörn, Skinney-Þinganes hf og Matís ohf.  Verkefnisstjóri er Kristín A. Þórarinsdóttir, Matís ohf. 

Heiti verkefnis: Fitusamsetning í þorskholdi (Gadus morhua) eftir árstíma og veiðarsvæðum

Nánari upplýsingar veitir Kristín A. Þórarinsdóttir, s: 422-5081, tölvupóstfang: kristin.a.thorarinsdottir@matis.is.

Fréttir

Mikill munur er á vinnslueiginleikum eldisþorsks og villts þorsks

Nýtt verkefni er nú hafið hjá Matís sem ætlunin er að kanna á áhrif mismunandi söltunaraðferða og íblöndunarefna m.t.t. að draga úr neikvæðu áhrifum dauðastirðnunar á upptöku pækils. 

Mikill munur er á vinnslueiginleikum eldisþorsks og villts þorsks.  Vöxtur eldisþorsks er hraðari og aðstæður í umhverfi aðrar.  Einnig er stýring á slátrun og meðhöndlun önnur við veiðar á villtum fiski.  Í fyrri rannsóknum hefur komið fram að best sé að vinna eldisþorsk fyrir dauðastirðnun en það hefur skapað vandkvæði við framleiðslu á léttsöltuðum afurðum.   Þeir lífeðlisfræðilegu ferlar sem eiga sér stað við dauðastirðnun vinna á móti þyngdaraukningu, m.a. vegna þess að vöðvinn dregst saman.  Vorið 2010, samþykkti AVS (www.avs.is), að styrkja verkefni þar sem kanna á áhrif mismunandi söltunaraðferða og íblöndunarefna m.t.t. að draga úr neikvæðu áhrifum dauðastirðnunar á upptöku pækils.  Ráðist verður í tilraunir með haustinu en áætluð verkefnislok eru í júní 2011.

Þátttakendur í verkefninu er Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf og Matís ohf.  Kristján G. Jóakimsson er verkefnisstjóri en Kristín A. Þórarinsdóttir, kristin.a.thorarinsdottir@matis.is, stýrir þeirri vinnu sem fram fer af hálfu Matís í verkefninu. 

Verkefnaheiti: Léttsaltaðar afurðir úr eldisþorski

Fréttir

Varnir fyrir lífvirk, heilsubætandi efni – doktorsvörn frá HÍ

Mánudaginn 6. september fer fram doktorsvörn við Matvæla og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Þá ver Þrándur Helgason matvælafræðingur doktorsritgerð sína „Örferjur fyrir lífvirk efni“

Doktorsvörn í matvælafræði frá Matvæla- og næringarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands

Örferjur fyrir lífvirk efni
Mánudaginn 6. september fer fram doktorsvörn við Matvæla og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Þá ver Þrándur Helgason matvælafræðingur doktorsritgerð sína „Örferjur fyrir lífvirk efni“ (Formation of Solid Lipid Nanoparticles as Delivery Systems for Bioactive Ingredients).Andmælendur eru dr. John Coupland prófessor  við Pennsylvania State University og dr. Ragnar Jóhannsson sviðsstjóri á Matís ohf.  Leiðbeinendur og í doktorsnefnd voru dr. Kristberg Kristbergsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, dr. Jochen Weiss, prófessor við University of Hohenheim í Stuttgart í Þýskalandi og dr. D. Julian McClements, prófessor við University of Massachusetts, Amherst í Bandaríkjunum.

Dr. Inga Þórsdóttir, prófessor og deildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni, sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu og hefst kl. 13:00.

Ágrip úr rannsókn
Aukning á fæðutengdum sjúkdómum eins og offitu, hjarta- og æðasjúkdómum og háþrýstingi hefur valdið því að áhugi hefur aukist mjög fyrir því að þróa matvæli sem innihalda lífvirk efni sem geta hjálpað til við að halda þessum sjúkdómum í skefjum.  Rannsóknir hafa sýnt fram á að draga má verulega úr slíkum sjúkdómum með því að gera ákveðin lífvirk efni að hluta af daglegri fæðu.  Vandamál er fólgið í því að mörg af þessum lífvirku efnum eru mjög óstöðug og þola illa venjulega vinnslu og geymslu á matvælum.  Þetta á sérstaklega við um efni eins og omega-3 fitusýrur, b-carotene og lykópen sem brotna niður og nýtast ekki.  Vandamál tengd stöðugleika gera það að verkum að mun minna er notað af þessum efnum en æskilegt er í almenn matvæli.  Tilgangur þessa verkefnisins var að þróa sérstakar örferjur sem burðarefni fyrir heilsuaukandi lífvirk efni sem bæta má í matvæli til að tryggja stöðugleika þeirra og árangursríka upptöku við meltingu.  Örferjurnar voru gerðar úr efnum sem algeng eru í matvælum eins og ákveðnum fitum, fosfólípíðum og ýruefnum sem voru sérhönnuð til að auka stöðugleika og bæta upptöku lífvirkra efna.  Í verkefninu voru stöðugleiki efna og virkni þeirra metin.

Um doktorsefnið
Þrándur Helgason fæddist 1980 og lauk BS prófi í matvælafræði við Háskóla Íslands árið 2004. Hann varði meistaraprófsritgerð í matvælafræði við Háskóla Íslands árið 2006  og var í framhaldi af því ráðinn í stöðu doktorsnema við Háskóla Íslands í samstarfi við University of Massachusetts þar sem hann vann mikinn hluta af tilraunavinnu. Árið 2009 fluttist hann til Stuttgart í Þýskalandi þar sem rannsóknum var haldið áfaram. Þrándur er sonur hjónannna Helga Jóhannessonar og Elínu Sigurbjargar Jónsdóttur. Eiginkona Þrándar er Hanna Salminen.

Nánari upplýsingar veita Þrándur Helgason, netfang thrandur@hi.is, sími 00491606034768 eða Kristberg Kristbergsson, prófessor, netfang kk@hi.is, sími 525-4052.

Sjá einnig á vef Háskóla Íslands:

Sjá einnig á vef Háskóla Íslands: www.hi.is/

Fréttir

Fyrsta sjávarútvegsráðstefnan haldin 6. og 7. september – Matís einn styrktaraðila og forstjóri með erindi

Fyrsta sjávarútvegsráðstefnan verður haldin 6.–7. september 2010 á Grand Hótel í Reykjavík. Ráðstefnan er með vefinn www.sjavarutvegsradstefnan.is þar sem hægt er að sækja dagskrá og aðrar upplýsingar.

Sjávarútvegsráðstefnan ehf.
Í byrjun ársins var Sjávarútvegsráðstefnan ehf. stofnuð en hlutverk félagsins er að halda árlega sjávarútvegsráðstefnu og er tilgangur hennar að:

  • stuðla að faglegri og fræðandi umfjöllun um sjávarútveg
  • vera vettvangur fyrir samskipti allra þeirra sem koma að sjávarútvegi á Íslandi

Fyrsta sjávarútvegsráðstefnan verður haldin 6.–7. september 2010 á Grand Hótel í Reykjavík. Ráðstefnan er með vefinn www.sjavarutvegsradstefnan.is þar sem hægt er að sækja dagskrá og aðrar upplýsingar.

Hugmyndin
Hugmyndin að sjávarútvegsráðstefnunni er að skapa samskiptavettvang allra þeirra sem koma að sjávarútvegi á Íslandi. Innan þessa hóps eru þeir sem starfa við veiðar, eldi, frumvinnslu, framhaldsvinnslu, sölu og markaðssetningu, þjónustu og rannsóknir og þróun, einnig opinberir aðilar, kennarar og nemendur, fjölmiðlar og aðrir áhugamenn. Í dag eru ýmsar ráðstefnur og fundir innan sjávarútvegsins en þá yfirleitt tengt einstökum félögum, samtökum eða efni. Félagið er ekki hagsmunasamtök einstakra hópa og vinnur ekki að hagsmunagæslu.

Sjávarútvegsráðstefnan er fyrir alla!
Markmið sjávarútvegsráðstefnunnar er að ná saman á einum stað þversneið af greininni til að vinna að framförum og sókn. Sjávarútvegsráðstefnan er vettvangur þar sem menn hittast, styrkja sambönd og samstarf í greininni. Á ráðstefnunni er fjallað um mikilvæg viðfangsefni á sviði sjávarútvegs og vonast er að hún verði uppspretta hugmynda og hvatning til góðra verka sem ráðstefnugestir hafa sem veganesti í lok hennar.

Efni ráðstefnunnar
Á hverju ári verður tekið fyrir nýtt efni og á fyrstu ráðstefnunni verður lögð áhersla á eftirfarandi þema: markaðir og vöruþróun, tækifæri til verðmætasköpunar, vörumerkið Ísland, umhverfismerkingar og ferðaþjónusta og sjávarútvegur. Á ráðstefnunni verða haldin tæplega 30 erindi um ýmis málefni sjávarútvegsins.

Fréttir

Áhugaverður fyrirlestur við Háskóla Íslands

Á morgun, föstudaginn 27. ágúst, heldur starfsmaður Matís og mastersnemi við HÍ, Ásta Heiðrún E. Pétursdóttir, fyrirlestur um arsen í fiskimjöli.

Fyrirlesturinn ber heitið: Greining eitraðra og hættulausra efnaforma arsens í fiskimjöli (Determination of toxic and non-toxic arsenic species in fish meal).

Fyrirlesturinn fer fram í stofu158 í byggingu VR-II föstudaginn 27. ágúst kl. 12.30.

Abstrakt
Í lífríkinu er mikið til af arseni í lífrænum efnasamböndum sem og á ólífrænu formi og hafa fundist meira en 50 náttúruleg efnaform af arseni. Sjávarfang inniheldur frá náttúrunnar hendi háan styrk heildararsens. Stærsti hluti arsens í sjávarfangi er hins vegar bundið á lífrænu formi, svokallað arsenobetaníð, sem er talið hættulaust. Önnur form arsens í sjávarafurðum eru að jafnaði til staðar í lægri styrk, m.a. ólífrænt arsen (arsenít og arsenat) sem er eitrað. Í þessari ritgerð koma m.a. fram niðurstöður og tölfræðileg úrvinnsla á mælingum á heildarstyrk í yfir 100 sýnum af íslensku fiskimjöli. Meðal annars var skoðað hvort árstíðamunur á heildarstyrk arsens fyrirfyndist. Síðan var áhersla lögð á greiningu eitraðs ólífræns arsens og voru mismunandi aðferðir prófaðar og metnar. Áður birt alkalí-alkóhól úrhlutunaraðferð, til að greina ólífrænt arsen, var aðlöguð og sýnin mæld með HPLC búnaði tengdum við ICP-MS. Í ljós kom að arsenóbetaníð var í öllum tilfellum ríkjandi efnaform arsens. Ólífrænt arsen reyndist vera undir fjórum prósentum af heildarstyrk í tólf mismunandi fiskimjölssýnum. Alkalí-alkóhól úrhlutunaraðferðin gaf sannfærandi efri mörk á styrk ólífræns arsens. Þörfin fyrir frekar þróun efnagreiningaaðferða á þessu sviði er brýn.

Nánari upplýsingar veitir Ásta, asta.h.petursdottir@matis.is.

Fréttir

Stjórnendur Whole Foods Market í heimsókn hjá Matís

Frá því snemma í morgun hafa nokkrir af lykil stjórnendum Whole Foods Market verslunarkeðjunnar verið í heimsókn hjá Matís og kynnt sér í þaula starfssemi fyrirtækisins.

Whole Foods Market (www.wholefoodsmarket.com/) er stór bandarísk verslunarkeðja sem hóf starfsemi í Texasríki árið 1980. Verslunarkeðjan er með starfsemi í yfir 270 búðum í Bandaríkjunum og á Englandi og er hún hvað þekktust fyrir sölu á matvælum sem eins lítið hefur verið átt við í framleiðslu og mögulegt er. Til dæmis er úrval verslunarkeðjunnar á lífrænt ræktuðum matvælum með því allra mesta sem þekkist í heiminum. Einnig hefur fyrirtækið lagt mikla áherslu á að vita hvaðan matvæli koma og haft sérstakan áhuga á upprunamerkingum og rekjanleika matvæla. Heimsókn Whole Foods Market til Matís var m.a. einmitt í þeim tilgangi að kynnast betur rekjanleika og upprunamerkingum á matvælum en Matís hefur skipað sér í fremstu röð í rannsóknum í þessum málaflokki.

Einnig höfðu gestirnir mikinn áhuga á gagnabanka Matís um aðskotaefni í íslensku sjávarfangi (sjá hér) og hversu hreint sjávarfangið okkar er.

Meðfylgjandi eru tvær myndir frá heimsókninni; hér og hér.

Einnig má finna hér skemmtilegt myndband frá Whole Foods Market um íslenskan fjárbúskap.

Fréttir

Aukin nýting og verðmætasköpun úr fiskpróteinum – doktorsvörn frá HÍ

Föstudaginn 10. september nk.  fer fram doktorsvörn við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.

Þá ver Gholam Reza Shaviklo matvælafræðingur doktorsritgerð sína  „Properties and applications of fish proteins in value added convenience foods“. (Eiginleikar og notkun fiskpróteina í tilbúin matvæli).

Eiginleikar og notkun fiskpróteina í tilbúin matvæli
Föstudaginn 10. september nk.  fer fram doktorsvörn við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.  Þá ver Gholam Reza Shaviklo matvælafræðingur doktorsritgerð sína  Properties and applications of fish proteins in value added convenience foods. (Eiginleikar og notkun fiskpróteina í tilbúin matvæli).

Andmælendur eru dr. Javier Borderias  frá Institudo del Frio í Madrid, Spáni og dr. Kristberg Kristbergsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands Leiðbeinendur og í doktorsnefnd voru Guðjón Þorkelsson dósent við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og sviðsstjóri hjá Matís ohf, Sigurjón Arason dósent við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur hjá Matís ohf, dr. Sjöfn Sigurgísladóttir gestaprófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og forstjóri Matís ohf og dr. Kolbrún Sveinsdóttir sérfræðingur hjá Matís ohf.

Dr. Inga Þórsdóttir, prófessor og deildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni, sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu og hefst kl. 13:00.

Ágrip úr rannsókn
Markmiðið með verkefninu var á auka nýtingu og verðmæti hráefna og þægindi neytenda með þróun tilbúinna matvæla úr fiskpróteinum.

Rannsakað var hvernig hægt er að vinna og nýta einangruð fiskprótein sem íblöndunarefni í tilbúin matvæli.  Bæta þurfti frostvarnaefnum í blaut einangruð prótein úr  ýsu fyrir frystingu í blokkir til tryggja stöðugleika þeirra við geymslu í frosti. Oxun fyrir og við vinnslu á einangruðum próteinum úr ufsa leiddi til mikillar þránunar í þurrkuðu dufti svo ekki var hægt að nota það til vöruþróunar. Þurrkun á ufsaholdi skoluðu og hreinsuðu upp úr vatni (surimi) var einnig rannsökuð.  Hægt reyndist að framleiða duft sem hentaði til vöruþróunar bæði með frost- og úðaþurrkun. Hægt var að bæta 7% af frostþurrkuðu ufsadufti í sprautað (extruded) maísnasl. Þróuð var svokölluð kótelettublanda með 30%  ufsadufti. Loks var prófað að bæta frostþurrkuðu ufsadufti í íranskan matarís. Enginn munur var á bragði, útliti og áferð íss með 0, 3 eða 5% ufsadufti eftir 2 mánaða geymslu við -18°C. Eftir það urðu breytingar  bragði, lykt og áferð. Vísindalegar og tæknilegar upplýsingar úr verkefninu eru mikilvægar og uppbyggilegar bæði fyrir áframhaldandi rannsóknir á nýtingu fiskpróteina og fyrir fyrirtæki sem hafa hug á að þróa tilbúin matvæli og nasl með íblönduðum fiskpróteinum. Þannig væri hægt að auka verðmæti vannýttra hráefna og um leið er þetta ein leið til að auka fiskneyslu í löndum eða á svæðum þar sem engar hefðir eru fyrir matreiðslu á ferskum eða frosnum fiski.

Doktorsritgerðin er byggð á átta vísindagreinum, þar af eru tvær þegar birtar í alþjóðlegu vísindariti og tvær aðrar samþykktar.

Sjávarútvegsskóli háskóla Sameinuðu þjóðanna veitti  Gholam Reza Shaviklo námsstyrk. Matís ohf, Iceoprotein hf, Iran Fisheries Research Organization (IFRO) og Iran Fisheries Organization (SHILAT)  í Teheran, Iran, SIPA Co., Qazvin, Iran,  Iran Fish Processing Research Centre (Anzali, Iran), veittu rannsóknum hans aðstöðu.  Rannsóknirnar í verkefninu tilheyrðu verkefnunum Propephealth in SEAFOODplus(project no. FP6-016333-2) styrkt af 6. rammaáætlun Evrópusambandsins og Heilsuvörur úr fiski sem er styrkt af Tækniþróunarsjóði.  

Um doktorsefnið
Gholam Reza Shaviklo er fæddur 11. nóvember 1968. Hann útskrifaðist með sína fyrstu háskólagráðu frá Matvæla- og næringarfræðideild Shahid Beheshti háskóla í Teheran árið 1992.   Hann stundaði framhaldsnám frá JICA í Japan og við Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna og varði mastersverkefni við Háskóla Íslands árið 2008. Hann hefur 20 ára starfsreynslu við eftirlits-, rannsókna- og þróunarstörf fyrir fiskiðnað í Íran og vinnur nú hjá Iran Fisheries Organisation (SHILAT) í  Teheran.

Nánari upplýsingar veitir Gholam Reza Shaviklo, sími: 698-1118 póstfang: shaviklo@gmail.com eða Guðjón Þorkelsson, leiðbeinandi,  sími: 858-5044, tölvupóstfang: gudjont@hi.is.

Fréttir

Starfsmenn Matís láta ekki sitt eftir liggja í Reykjavíkurmaraþoni – Matís heitir á sína starfsmenn og styður þannig við verðug málefni

Nokkrir starfsmanna Matís munu hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni sem fram fer á morgun. Hjá Matís er öflugur hópur hlaupara og er Björn Margeirsson þar fremstur meðal jafningja. Björn stefnir á að bæta besta tíma íslendings í heilu maraþoni í þessari braut.

Matís lætur á hverju ári ákveðna fjármuni renna til góðgerðamála og var ákveðið að nýta Reykjavíkurmaraþonið í ár til þess. Auk þess er það skýrt í starfsmannastefnu Matís að ýta undir heilsueflingu hjá starfsmönnum og því er alveg tilvalið að sameina þetta tvennt að þessu sinni í þessum árlega viðburði. Matís heitir því á hvern þann starfsmann sem hleypur fyrir góðgerðarfélag (sjá nánar á www.hlaupastyrkur.is).

Starfsmenn Matís sem taka munu þátt í hlaupinu á morgun eru þessir:

  • Björn Margeirsson hleypur 42,2 km og áætlar tæpar 2:30 klst. í það
  • Sveinn Margeirsson hleypur 21,1 km og áætlar tæpar 80 mín í það
  • Helga Gunnlaugsdóttir hleypur 21,1 km og ætlar að bæta sinn besta tíma
  • Steinar B. Aðalbjörnsson hleypur 10 km og áætlar tæpar 37 mín í það
  • Kolbrún Sveinsdóttir hleypur 10 km og ætlar sér að bæta sinn besta tíma
  • Sigríður Sigurðardóttir hleypur 10 km og ætlar sér að bæta sinn besta tíma
  • Hörður G. Kristinsson hleypur 3 km og ætlar sér að bæta sinn besta tíma

Matís óskar hlaupurunum góðs gengis og hvetur alla til að fara á síðuna www.hlaupastyrkur.is og láta gott af sér leiða.

Fréttir

Breytileiki í eiginleikum makríls

Makríll hefur á síðustu árum veiðst í miklu magni innan íslenskrar lögsögu.  Nýlega hófst verkefni þar sem aflað verður þekkingar um breytileika í efna-, eðlis- og vinnslueiginleikum makríls.

Mat á breytileika í eiginleikum makríls eftir árstíma og geymsluaðstæðum
Markmiðið er að byggja upp þekkingargrunn sem nýtist til að bæta nýtingu og verðmæti makríls sem veiðist á Íslandsmiðum.

Hlýnandi sjór við strendur Íslands er talin meginástæða þess að makríll gengur í auknum mæli inn í íslenska lögsögu.  Staða stofnsins er ágæt og verði hann nýttur til framtíðar með ábyrgum hætti mun hann skila af sér miklum verðmætum.  Meirihluti aflans er í dag nýttur í mjöl- og lýsisvinnslu, en aðeins lítill hluti aflans er í dag notaður til manneldis. 

Aukin þekking á ástandi og vinnslueiginleikum makríls eftir árstímum og veiðisvæðum mun nýtast til að koma á skilvirkari flokkunar á aflanum, til að bæta meðhöndlun aflans og til að auðvelda ákvarðanatöku um vinnsluleiðir.  Til þess að ná góðum árangri við nýtingu makríls til manneldis í landi þarf að beita réttu verklagi við veiðar, við kælingu aflans og að viðhalda geymsluhitastigi frá veiðum og þar til vinnsla hefst.  Aukning í vinnslu makríls til manneldis mun skila auknum verðmætum samanborið við mjöl- og lýsisafurðir. 

Þátttakendur í verkefninu eru Síldarvinnslan hf., Ísfélag Vestmannaeyja hf., HB Grandi hf., Vinnslustöðin hf., Eskja hf., Skinney – Þinganes hf., Samherji hf., Gjögur hf., Loðnuvinnslan h.f, Huginn ehf og Matís ohf.

Verkefnið er styrkt af AVS og er til 1 árs.  Nánari upplýsingar veita Sigurjón Arason, sigurjon.arason@matis.is, og Kristín Anna Þórarinsdóttir, kristin.a.thorarinsdottir@matis.is, Matís ohf.

Fréttir

Verður íslenska mysan vinsælasta innihaldsefnið í fæðubótarefnum?

Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, starfsmaður Matís, var í viðtali á Rás 2 nú fyrir stuttu þar sem hún fjallaði um heilnæmi mysu og sóknarfæri fyrir fyrirtæki í mjólkuriðnaði að nota íslenska mysu til matvælaframleiðslu og þá sérstaklega til framleiðslu á fæðubótarefnum.

Viðtalið má nálgast hér (tæplega 3/4 inn í viðtalinu).

Grein Sigrúnar Mjallar um mysu má finna hér.

Nánari upplýsingar veitir Sigrún, sigrun.m.halldorsdottir@matis.is.

IS