Fréttir

Áhugaverð ráðstefna í húsakynnum Matís

Miðvikudaginn 21. apríl nk. verður haldin daglöng ráðstefna í húsakynnum Matís að Vínlandsleið um framþróun í greiningum á matvælum og umhverfi.

Nánari upplýsingar, s.s. um skráningu á ráðstefnuna, má finna hér

Fréttir

Mennt er máttur

Fyrir stuttu lauk námskeiði sem Matís hélt ásamt öðrum á Höfn í Hornafirði. Hönnun námskeiðsins var unnin í samvinnu Þekkingarnetsins, Skinneyjar-Þinganess og FAS (Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu).

Kennt var að jafnaði tvisvar í viku í húsnæði Skinneyjar-Þinganess sem sérstaklega var útbúið sem kennslustofa. Markmiðið með námskeiðinu var m.a. að auka þekkingu starfsfólks á vinnslu sjávarafla, efla sjálfstraust og auka faglega hæfni þess. Námskeiðsþættir voru m.a. samvinna og liðsheild, stjórnun, gæði í fiskvinnslu, matvælaöryggi og vinnuvernd.

Nánari upplýsingar veitir Margeir Gissurarson, margeir.gissurarson(at)matis.is.

Upplýsingar um námskeið sem Matís býður upp á má finna hér.

Fréttir

Lífríki undir 300 metra þykkum ís Skaftárkatla

Fyrir stuttu birtust niðurstöður rannsóknar sem starfsmenn Matís tóku þátt í, m.a. ásamt bandarísku geimferðastofnuninni (NASA), að rannsaka lífríki í Skaftárkötlum.

Þarna eru fyrstu upplýsingar um lífríki Skafárkatla sem er undir 300 m þykkum ís.  Þessi grein lýsir lífríkinu í vestari katlinum en verið var að rannsaka nú lífríki í eystri Skaftárkatli en þeir eru tveir og Skaftárhlaup koma frá þeim. 

Rannsóknin er hluti af verkefninu „Leyndadómar Skaftárkatla“.

Til að greina fjölbreytileika lífríkisins var 454 FLX raðgreini notaður en Matís hefur slíkan búnað í húsnæði sínu í Reykjavík. Með þessum búnaði er hægt að skoða fjölbreytileika örvera mun betur og hraðar en áður.

Nánari upplýsingar veitir ViggóMarteinsson, viggo.th.marteinsson@matis.is.

Auk þess má sjá upplýsingar um greinina hér.

Fréttir

Bakteríuflóra á fyrstu stigum lúðueldis

Föstudaginn 9. apríl nk. fer fram doktorsvörn við Læknadeild Háskóla Íslands. Þá ver Rannveig Björnsdóttir, starfsmaður Matís, doktorsritgerð sína „Bakteríuflóra á fyrstu stigum lúðueldis”.

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum frá Læknadeild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands.

Bakteríuflóra á fyrstu stigum lúðueldis

Föstudaginn 9. apríl nk. fer fram doktorsvörn við Læknadeild Háskóla Íslands. Þá ver Rannveig Björnsdóttir doktorsritgerð sína „Bakteríuflóra á fyrstu stigum lúðueldis“ (The bacterial community during early production stages of intensively reared halibut (Hippoglossus hippoglossus L.). Andmælendur eru dr. Brian Austin, prófessor og forstjóri Fiskeldisstofnunarinnar við Háskólann í Stirling í Skotlandi og dr. Gunnsteinn Ægir Haraldsson fagstjóri rannsóknartengds náms við Læknadeild Háskóla Íslands. Leiðbeinandi var dr. Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, sérfræðingur við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og aðjúnkt við Læknadeild HÍ, en auk hennar sátu í doktorsnefnd þau dr. Eva Benediktsdóttir, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ, dr. Helgi Thorarensen, prófessor við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum, dr. Jakob K Kristjánsson, forstjóri Prokazyme Ltd. og dr. Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís ohf.

Dr. Guðmundur Þorgeirsson prófessor og forseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í stofu 132 í Öskju og hefst klukkan 13:00.

Ágrip úr rannsókn
Niðurstöður doktorsverkefnisins varpa skýrara ljósi á þróun bakteríuflóru á fyrstu stigum lúðueldis og hugsanleg áhrif samsetningar flórunnar á lifun og þroska frá frjóvgun eggja til loka startfóðrunar. Mikil og skyndileg afföll eru vandamál á þessum fyrstu og viðkvæmustu stigum eldisins og ekki hvað síst fyrstu vikurnar í fóðrun þegar lirfurnar þurfa á lifandi fóðurdýrum að halda. Niðurstöður sýna enn fremur að breytingar á umhverfisþáttum höfðu veruleg áhrif á fjölda og samsetningu bakteríuflórunnar þar sem unnt reyndist að örva ósérhæft ónæmi lirfa við meðhöndlun fæðudýra með vatnsrofnum fiskipróteinum og bætt lifun fékkst við meðhöndlun fóðurdýra með bakteríustofnum sem voru ríkjandi í meltingarvegi lirfa með góða afkomu. Niðurstöður benda einnig til þess að ríkjandi hluti flóru lirfa og fóðurdýra þeirra geti að stórum hluta verið ræktanlegur.

Verkefnið var unnið í samstarfi Matís ohf. og Háskólans á Akureyri og í nánu samstarfi við Fiskey hf. Aðrir samstarfsaðilar voru Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Háskólinn í Tromsø í Noregi, Iceprotein ehf. og Háskólinn á Hólum.

Verkefnið var styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís, AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi, Líftæknineti í auðlindanýtingu, Rannsóknasjóði Háskólans á Akureyri og Háskólasjóði KEA. 

Um doktorsefnið
Rannveig Björnsdóttir er fædd árið 1959. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum  að Laugarvatni árið 1980, Cand. mag. prófi  frá Sjávarútvegsháskólanum í Tromsø í Noregi árið 1988 og Cand.scient. prófi í ónæmisfræði og sjúkdómum fiska frá sama skóla árið 1990. Rannveig hefur frá árinu 1991 starfað í hlutastarfi sem sérfræðingur við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og síðar sem deildarstjóri og fagstjóri fiskeldis hjá Matís ohf. og í hálfu starfi sem lektor og síðan dósent við Sjávarútvegsdeild og síðar Auðlindadeild Háskólans á Akureyri. Rannveig hóf doktorsnám við Læknadeild Háskóla Íslands árið 2004. Rannveig er dóttir hjónanna Björns Benediktssonar heitins, sem stóð fyrir uppbyggingu Silfurstjörnunnar hf. í Öxarfirði og Ástu Björnsdóttur, húsfreyju. Rannveig á eina uppkomna dóttur, Hugrúnu Lísu.

Nánari upplýsingar veitir Rannveig Björnsdóttir, sími 858 5108, netfang: rannveig.bjornsdottir@matis.is eða rannveig@unak.is

Fréttir

Fiskmarkaðir fyrir almenning

Því ekki fiskmarkaði, rétt eins og grænmetismarkaði og bændamarkaði? Matur, saga, menning 25. mars kl. 17.

Ísland er þekkt fyrir frábæran fisk og góð fiskimið, en einhverra hluta
vegna tíðkast ekki hér á landi að almenningur geti keypt ferskan fisk á
hafnarbakkanum eða á fiskmarkaði. Þótt margir hafi sýnt hugmyndinni um
fiskmarkað áhuga, hefur henni ekki verið fylgt eftir í framkvæmd hingað
til. Nú lítur út fyrir að hreyfing sé að komast á málið bæði í Reykjavík
og víðar, og að þess sé ekki lagt að bíða að gestir og gangandi geti
nálgast ferskan fisk á þennan lifandi og skemmtilega hátt.

Þær Þóra Valsdóttir, matvælafræðingur hjá Matís ohf og Brynhildur
Pálsdóttir, matarhönnuður hjá Listaháskóla Íslands, kynna áhugaverða
samantekt um möguleika fiskmarkaða á Íslandi á fundi félagsins Matur saga
menning, fimmtudaginn 25. mars kl 17.00 í húsnæði ReykjavíkurAkademíunnar,
Hringbraut  121, 4. hæð.

Fundurinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis.

Á undan fundinum, þ.e. frá kl 16.30-17.00 verður aðalfundur
félagsins haldinn samkvæmt áður boðaðri dagskrá.

Fréttir

Matís á sænska orkuþinginu í Stokkhólmi

Matís hefur verið virkt nú um nokkurt skeið í orkulíftækni og hefur sviðið Líftækni og Lífefni hjá Matís fengið styrki frá ýmsum aðilum til að leita að sérstökum ensímum og örverum sem nýta má í orkulíftækni.

Nú eru í gangi verkefni styrkt af Tækniþróunarsjóði og Nordic-Energy sjóðnum til að finna og endurbæta hitakærar örverur með erfðatækni til framleiðslu á etanóli úr lífmassa.  Lífmassinn inniheldur fjölsykrur eins og sellulósa og xylan sem hefðbundnar gerjunarbakteríur er ekki færar um að nýta en slíkur lífmassi fellur til í iðnaði og landbúnaði í miklum mæli og er vannýttur í dag.  Hitakærar örverur get brotið og gerjað slíkan lífmassa niður og markmiðið með vefefninu er að gera þær öflugri, m.ö. o. arðbærar.

Í byrjun þessa árs fékk Matís og Háskólinn í Lundi stóran styrk frá sænska rannsóknasjóðnum FORMAS til viðbótar áðurnefndum styrkjum til að þessa verkefnis.  Í framhaldi af því var Matís boðið að kynna verkefnið á sænska orkuþinginu

Þingið er árlegur viðburður í Svíþjóð með yfir 500 fyrirlestrum sem snerta öll svið orkunýtingar og öflunar.  Verkefni Matís fékk  góð viðbrögð og þess má geta að bás FORMAS skartaði meðal annar stórri mynd af hverasvæði sem var eins konar tilvitnun í verkefni Matís.

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Óli Hreggviðsson, gudmundur.o.hreggvidsson@matis.is.

Fréttir

Háskóli Íslands og Matís undirrita samstarfssamning

Markmiðið að vera í fararbroddi í nýsköpun í matvælafræði, matvælaverkfræði og líftækni.

Háskóli Íslands og Matís ohf. undirrituðu í gær samning um að efla verklega kennslu og vísindastarf á sviði matvælafræði, matvælaverkfræði, líftækni og matvælaöryggis.  Hugmyndin með samningnum er að efla fræðilega og verklega menntun nemenda Háskóla Íslands og auka rannsóknir á framangreindum sviðum. Þá er markmiðið að nýta möguleika til samreksturs tækja í þágu sameiginlegra verkefna en Háskólinn og Matís hyggjast kaupa og reka sameiginlega ýmiskonar búnað til rannsókna.

Háskóli Íslands og Matís ætla sér með samstarfinu að vera í fararbroddi í nýsköpun á þeim fræðasviðum sem tengjast matvælafræði, matvælaverkfræði, líftækni og matvælaöryggi. Með samningnum mun verkleg leiðbeining meistara- og doktorsnema Háskóla Íslands fara fram hjá Matís en hugmyndin er að tryggja að gæði rannsókna hjá HÍ og Matís séu sambærileg við það sem best gerist á alþjóðlegum vettvangi á framangreindum fræðasviðum.

Með samstarfinu á einnig að tryggja faglega sérstöðu í því skyni að laða að nemendur og fræðimenn á alþjóðlegum vettvangi. Þá er ætlunin er að fjölga nemendum í grunn- og framhaldsnámi í matvælafræði, matvælaverkfræði og líftækni.

Matís er stærsta rannsóknastofnun landsins á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis. Stefna Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu á sviði matvæla, líftækni og erfðatækni.  Til að framfylgja stefnu sinni er nauðsynlegt að Matís vinni í samstarfi við HÍ að kennslu og þjálfun nemenda.

Háskóli Íslands hefur mótað sér stefnu til ársins 2011, þar sem lögð er áhersla á uppbyggingu doktorsnáms, framúrskarandi rannsóknir og kennslu, auk áherslu á samstarf við stofnanir og fyrirtæki  eins og Matís. Á vegum HÍ eru stundaðar víðtækar rannsóknir og kennsla á þeim fræðasviðum sem Matís fæst við, einkum á vettvangi heilbrigðisvísinda- og verkfræði- og náttúruvísindasviða skólans.

Í gær varð Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, jafnframt gestaprófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og var samningur þess efnis undirritaður. Markmið samningsins er að styrkja kennslu og rannsóknir í matvælafræði.

Meðfylgjandi er mynd frá undirskrift samningana í gær

Háskóli Íslands og Matís undirrita samstarfssamning: Markmiðið að vera í fararbroddi í nýsköpun í matvælafræði, matvælaverkfræði og líftækni

Fremri röð frá vinstri: Sigurður Guðmundsson, forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís og gestaprófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.

Aftari röð frá vinstri: Jóhann Guðmundsson, aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Þórður Kristinsson, sviðsstjóri Kennslusviðs Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu Háskóla Íslands, Ingibjörg Gunnarsdóttir, varadeildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands, Friðrik Friðriksson, stjórnarformaður Matís, Guðjón Þorkelsson, sviðsstjóri hjá Matís, Halldór Jónsson, sviðsstjóri Vísindasviðs Háskóla Íslands.

Fréttir

Eru heilsufarsfullyrðingar um matvæli ofmetnar?

Nú fyrir stuttu bárust fréttir af niðurstöðum könnunnar en þar kemur fram að sumir neytendur telja að matvæli sem fullyrt er um heilsusamlega eiginleika séu ekki eins náttúruleg, bragðist ekki eins vel og séu ekki eins áhugverður kostur og þau matvæli sem ekki bera heilsufarsfullyrðingar.

Emilía Martinsdóttir, fagstjóri hjá Matís, stóð að könnun ásamt öðru fagfólki frá Norðurlöndum. Niðurstöður úr könnuninni voru helst þær að neytendum hættir til að þykja fullyrðingar, t.d. á umbúðum, um heilsusamlega ávinning ekki eins mikilvægar og upplýsingar um hvað efnin í vörunni gera fyrir líkamann í raun og veru. Því má skilja þetta sem svo að neytendur vilji fá vitneskju um vísindalegar staðreyndir málsins frekar en fallegar yfirlýsingar um hvað varan sem slík gerir.

Dæmi: “Vara X lækkar blóðþrýsting” myndi ekki gefa vöruframleiðanda eins mikið og að segja “Vara X inniheldur efni Y sem niðurstöður rannsókna benda til að geti haft jákvæð áhrif á heilsu”.

Nánari upplýsingar má finna hér og einnig hjá Emilíu Martinsdóttur, emilia.martinsdottir@matis.is.

Fréttir

Ekkert annað kjöt en nautakjöt er að finna í íslensku nautahakki sem selt er í búðum

Gagnstæðar fullyrðingar hafa því ekki við rök að styðjast. Þetta er niðurstaða gæðakönnunar sem Matís gerði fyrir Neytendasamtökin og Landsamband kúabænda. Sagt er frá könnuninni og niðurstöðum hennar á vefsíðu Neytendasamtakanna.

Í framhaldi af umræðum um gæði á nautahakki ákváðu Landssamband kúabænda og Neytendasamtökin að gera gæðakönnun á þessari vöru. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðneytið styrkti verkefnið að hluta. Matís sá um framkvæmd könnunarinnar, sem náði til átta tegunda nautahakks.

Skýrsluna og niðurstöður könnunarinnar má í heild sinni finna hér.

Nánari upplýsingar veita Ólafur Reykdal, olafur.reykdal@matis.is og Óli Þ. Hilmarsson, oli.th.hilmarsson@matis.is.

Fréttir

Útskrift Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna

Þriðjudaginn 9. mars sl. luku 18 nemendur námi sínu frá Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna og er þetta 12. árgangurinn sem hefur lokið sex mánaða námi við skólann.

Skólinn er samstarfsverkefni fjögurra stofnana/fyrirtækja: Hafrannsóknastofnunar, Matís, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri, en auk þess kemur  Hólaskóli að samstarfinu. Daglegur rekstur skólans heyrir undir Hafrannsóknastofnun og er Tumi Tómasson forstöðumaður skólans.  

Hjá Matís hafa allir nemendur skólans fengið kennslu í grunnáfanga um gæði og vinnslu fisks og í beinu framhaldi hafa nemendur á gæðalínu skólans, sem í ár voru fimm, fengið kennslu og verklega þjálfun. Fjórir af þessum fimm nemendum hafa unnið lokaverkefni sín hjá Matís í Reykjavík. Í ár fjölluðu verkefnin um gerð gæðastuðulsskala (QIM) fyrir makríl, áhrif sorbats, chitosans á geymsluþol makríls, kennsluefni fyrir gerð HACCP kerfis til notkunar í fiskiðnaði í Norður-Kóreu og uppsetningu kerfis rekjanleika sem myndi henta á innanlandsmarkaði í Kína. Nemendurnir vinna að jafnaði verkefni með þarfir í eigin heimalandi í huga.

Hér að neðan eru talin upp þessi verkefni, höfundar og leiðbeinendur.

Gæðastjórnum við meðferð fisks og fiskvinnslu:

Patricia J. Nobre leite Miranda Alfama – Cape Verde

UNU-FTP Project title: Quality Index Method (QIM) for frozen-thawed Atlantic mackerel (Scomber scombus) stored in ice: development and application in a shelf life study
Supervisor: Emilía Martinsdóttir, Matís and Kolbrún Sveinsdóttir, Matís
Specialist line: Quality Management of Fish Handling and Processing
Lanlan Pan – China
UNU-FTP Project title: A Model of traceability of fish products for the domestic market in China based on traceability studies in Iceland and China
Supervisor: Margeir Gissurarson, Matís
Specialist line: Quality Management of Fish Handling and Processing

Mun Hyok Ho – DPR Korea
UNU-FTP Project title: The effect of dipping treatments on preservation of fish (mackerel) using chitosan, sorbate and acetic acid.
Supervisor: Heiða Pálmadóttir, Matís , Irek Klonowski, Ingibjörg Rósa Þorvaldsdóttur and Páll Steinþórsson, Matís
Specialist line: Quality Management of Fish Handling and Processing

Kwang Bok Jo – DPR Korea
UNU-FTP Project title: The understanding of the HACCP and the application method of the HACCP system in DPR of Korea
Supervisor: Margeir Gissurarson, Matís
Specialist line: Quality Management of Fish Handling and Processing

Nánari upplýsingar um útskriftina og skólann má finna hér

IS