Fréttir

Stór dagur hjá Matís – Nýja húsið verður bylting fyrir starfsemina

Nú í morgun fékk Matís ohf. afhent nýtt húsnæði að Vínlandsleið 12. Mótás hf. byggði húsið og innréttaði að þörfum Matís.

Starfsemi Matís í Reykjavík hefur verið á 3 stöðum en verður nú sameinuð undir einu þaki og verður það mikil hagræðing fyrir starfsemina.

„Þessi breyting mun verða bylting fyrir Matís og starfsemi fyrirtækisins. Við sameinum starfsemi sem nú er á þremur stöðum í Reykjavík undir eitt þak. Um leið verður  það mikil breyting og styrkur fyrir starfstöðvar okkar út um landið að geta nú átt sitt bakland undir sama þaki í Reykjavík,“ segir Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís.

Með sameiningu á einn stað er lagður grunnur að enn öflugra starfi rannsóknarfyrirtækisins Matís og það segir forstjórinn að geti skipt máli fyrir nýsköpunarverkefni á sviði matvælaiðnaðar.

„Ég er ekki í vafa um að við sjáum afrakstur nú þegar af þeirri áherslu okkar að auka samvinnu Matís við háskólastofnanir og atvinnulífið. Þetta styður við nýsköpun í sjávarútvegi og landbúnaði en ekki síður við nýjungar á borð við matartengda ferðaþjónustu, svo dæmi sé tekið. Atvinnulífið er stöðugt að skynja betur sóknarfærin í rannsóknum og einmitt þess vegna fagna ég því að okkur sé gert kleift að eflast með nýjum höfuðstöðvum þegar miklu skiptir fyrir þjóðarbúið að efla nýsköpunina,“ segir Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís.

Á næstu dögum verður flutt í nýja húsnæðið og verður starfsemin þar komin í fullan gang í janúarbyrjun 2010.

Matís þakkar Mótási hf. fyrir afar farsælt samstarf á þessum tíma.

Sjofn_Beggi_V12
Á myndinni má sjá þegar Sjöfn Sigurgísladóttir tekur við lyklum að Vínlandsleið 12 úr
höndum Bergþórs Jónssonar, forstjóra Mótás.

Fréttir

Þjónustumælingar

Dagana 14. – 23. desember 2009 mun starfsemi Matís í Reykjavík flytja í nýtt sameiginlegt húsnæði að Vínlandsleið 12 í Grafarholti. Vegna flutninganna verður ekki hægt að taka á móti sýnum í örveru- og þjónustumælingar í Reykjavík á þessu tímabili

Viðskiptaaðilar vinsamlegast beðnir um að skipuleggja sýnatökuverkefni þannig að þau falli ekki inn á tilgreinda flutningsdaga. Ef brýn nauðsyn liggur við getum við á flutningstímabilinu útvegað viðskiptaaðilum okkar ákveðnar örveru- og efnamælingar á rannsóknastofu okkar í Neskaupstað eða hjá öðrum faggiltum rannsóknastofum sem við notum sem undirverktaka.

Gert er ráð fyrir að starfsemi þjónustumælinganna verði komin í eðlilegt horf strax í byrjun janúar á næsta ári.  Um leið og við afsökum einhver óþægindi sem viðskiptaaðilar okkar kunna að hafa af þessari tímabundnu röskun á starfsemi þjónustumælinga Matís viljum við bjóða ykkur hjartanlega velkomin til áframhaldandi viðskipta og samstarfs í nýjum og glæsilegum höfuðstöðvum Matís.

Fyrir hönd starfsmanna þjónustumælinga Matís,

Franklín Georgsson,
Sviðsstjóri Mælingar & Miðlun.

Fréttir

Makrílvinnsla í íslenskum fiskiskipum

Fiskveiðiárið 2004/2005 var fyrst skráður makrílafli í íslenskri lögsögu, síðan þá hefur aflinn aukist frá ári til árs en fiskveiðiárið 2008/2009 var sett þak á veiðarnar, þá mátti veiða 100 þúsund tonn af makríl með norsk-íslensku síldinni í íslenskri lögsögu.

Makríllinn hefur aðallega veiðst í júlí og ágúst við strendur Íslands en sumarið 2009 fóru íslensku skipin að fá makríl með síldinni í júní og veiddu makríl fram í september. Fyrir næsta veiðiár hefur verið úthlutað 130 þúsund tonnum af makríl. 

Til að hægt sé að vinna makríl um borð í íslenskum fiskiskipum þurfa þau að hafa ákveðinn búnaði, fyrst þarf að vera til staðar flokkari sem flokkar makrílinn frá síldinni. Style flokkarar hafa reynst vel í þeim efnum en einnig er unnt að stærðarflokka makrílinn í þeim búnaði. Breyta þarf hefðbundinni vinnslulínu sem notuð er fyrir vinnslu og frystingu á síld þannig að hægt verði að hausa og slógdraga makrílinn áður en hann er frystur. Markaður er aðallega fyrir hausaðan og slógdreginn makríl, enda er geymsluþol hans mest þannig.

Mikilvægt er að geta flokkað makrílinn frá norsk-íslensku síldinni þegar viðkomandi tegundir veiðast saman til að skapa sem mest verðmæti úr aflanum í stað þess að senda stóran hluta af makrílblönduðum síldaraflanum í bræðslu. Fjölmargar tilraunir hafa verið gerðar með flokkun tegundanna og hafa þær gengið vel, hvort sem um er að ræða vinnslu á eingöngu annarri tegundinni eða báðum í einu.

Fréttir

Fjölmenni á fundi Matís, AVS og SF um tækifæri í íslenskum sjávarútvegi

Nú fyrir stundu lauk áhugaverðum fundi um tækifæri í íslenskum sjávarútvegi, fundi sem Matís, AVS sjóðurinn og Samtök fiskvinnslustöðva stóðu að.

Fundurinn var vel sóttur og voru um 160 manns sem mættu til að hlusta á erindi Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, og Sveins Margeirssonar, sviðsstjóra hjá Matís.

Markmið fundarins var að varpa ljósi á tækifæri og möguleika á betri nýtingu og auknum verðmætum. Íslendingar standa framarlega í nýtingu sjávarauðlinda og hafa sterk og öflug sjávarútvegsfyrirtæki með áralanga reynslu í að mæta þörfum markaðarins. En hráefnið okkar er takmörkuð auðlind og því nauðsynlegt að nýta það sem best og skapa úr því mikil verðmæti.

Erindi Þorsteins Más má finna hér og erindi Sveins má finna hér.

Nánari upplýsingar veita Sveinn Margeirsson, sveinn.margeirsson@matis.is, og Steinar B. Aðalbjörnsson, steinar.b.adalbjornsson@matis.is.

Fréttir

Vannýtt tækifæri í íslenskum sjávarútvegi

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, og Sveinn Margeirsson, sviðsstjóri hjá Matís, fjalla um tækifæri í íslenskum sjávarútvegi á opnum fundi fim. 3. des. kl. 08:30 á Hilton Reykjavik Nordica Hotel, Suðurlandsbraut 2.

Að fundinum standa Matís, AVS sjóðurinn og Samtök fiskvinnslustöðva.

Markmið fundarins er að varpa ljósi á tækifæri og möguleika á betri nýtingu og auknum verðmætum. Íslendingar standa framarlega í nýtingu sjávarauðlinda og hafa sterk og öflug sjávarútvegsfyrirtæki með áralanga reynslu í að mæta þörfum markaðarins. En hráefnið okkar er takmörkuð auðlind og því nauðsynlegt að nýta það sem best og skapa úr því mikil verðmæti.

Getur verið að við séum að missa af tækifærum með því að flytja oft á tíðum út lítið unnið hráefni, getum við nýtt okkar vel menntaða fólk betur í þróun og markaðssetningu, getum við notað betur tækifærin sem felast í uppruna hráefnisins o.s.frv.

Þessi fundur getur varpað ljósi á framtíðarmöguleika íslensks sjávarútvegs.

Auglýsingu um fundinn má finna hér.

Fréttir

QALIBRA heilsuvogin – jákvæð og neikvæð áhrif innihaldsefna í matvælum á heilsu manna

Nú nýverið birtist grein um QALIBRA verkefnið en markmið verkefnisins er að þróa magnbundar aðferðir til að meta bæði jákvæð og neikvæð áhrif innihaldsefna í matvæum á heilsu manna.

Greinina má finna hér.

Nánari upplýsingar má fá hjá Helgu Gunnlaugsdóttur, helga.gunnlaugsdottir@matis.is

Fréttir

Hefðbundin matvæli 13 Evrópulanda

Matís tekur þátt í evrópska öndvegisnetinu EuroFIR um matvælagagnagrunna og efnainnihald matvæla. Nú er lokið verkþætti um hefðbundin (traditional) matvæli í Evrópu.

Valin voru fimm hefðbundin matvæli í hverju landi, framleiðsluferillinn var skilgreindur og síðan voru fjölmörg næringarefni mæld í afurðunum. Íslensku matvælin voru skyr, hangikjöt, súrsaður blóðmör, harðfiskur og kæstur hákarl. Þessi verkþáttur var unninn í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Upplýsingar um hefðbundnu matvælin hafa nú verið teknar saman og gefnar út í lausblaðamöppu. Texti er bæði á ensku og máli viðkomandi lands. Fjallað er um sögu matvaranna, framleiðslu þeirra og næringargildi. Upplýsingarnar hafa verið gefnar út á vefsíðu EuroFIR-verkefnisins og er hægt að nálgast þær á slóðinni:

eurofir.org

Einnig var gefin út almenn skýrsla um hefðbundin matvæli í Evrópu og má nálgast hana á slóðinni:

http://www.eurofir.net/temp/EuroFIRspSynthesisspReportsp6_TraditionalspFoodsspinspEuropehs4hs.pdf

Ástæða er til að benda á fjölbreytta útgáfu á vegum EuroFIR verkefnisins. Um er að ræða skýrslur og upplýsingablöð um fjölbreytt málefni sem tengjast efnainnihaldi matvæla. Nefna má umfjöllun um trans-fitusýrur, heilsufullyrðingar, lífvirk efni, reglugerðir og forrit.

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Reykdal, olafur.reykdal@matis.is.

Fréttir

Mikilvægi kælingar: frá miðum á markað – Fundur í Vestmannaeyjum

Kynningarfundur fyrir fiskiðnaðinn og flutningsaðila í Vestmannaeyjum – Matís ohf. og Háskóli Íslands.

Fimmtudaginn 26.nóv. verður haldinn kynningarfundur um niðurstöður í kæliverkefnunum Kælibót og Chill-on og Hermun kæliferla. Unnið hefur verið að umfangsmikil tilraunum á sviði kælingar á bolfiski frá miðum á markað. Þátttakendur í verkefninu tengjast mismunandi hlekkjum keðjunnar: hráefnismeðhöndlun, vinnslu, flutningi og markaðssetningu. Kynntar verða ýmsar tilraunir úr umfangsmiklum rannsóknum á kælingu fisks. Tilraunirnar voru framkvæmdar veturinn 2008-2009 við raunaðstæður. Samanburður hefur verið gerður á:

  • kæligetu mismunandi ísmiðla og á vélum til framleiðslu þeirra
  • kæliaðferðum við vinnslu (vökva- og roðkæling)
  • mismunandi umbúðum fyrir pökkun afurða
  • mismunandi flutningsleiðum (skip og flug) og áhrifum bættrar hitastigsstýringar við flutning kældra afurða.

Nú eru í gangi tilraunir þar sem bestu aðferðir fyrir hvern hlekk keðjunnar valdar saman og öll keðjan keyrð í einni tilraun við raunaðstæður. Flutningsferlar hafa verið kortlagðir m.t.t. tíma og hitastigs og verða kælihermar nýttir til að setja upp þá ferla til geymslu á afurðum. Með því móti er hægt að framkvæma nauðsynlegar mælingar án þess að flutningur frá sýnatökustað til tilraunastofa trufli niðurstöður. Á sama tíma verður hermt eftir flutningi á erlendan markað með því að senda fisk til Vestmannaeyja. Erlendir þátttakendur Chill-on (www.chill-on.com/) eru komnir til landsins og munu prófa sína tækni við þennan flutning.

Staðsetning:
Þekkingarsetur Vestmannaeyja – Strandvegur 50 – 900 Vestmannaeyjum
Sími: 481 1111 – Fax: 481 2669 – netfang: setur@setur.is

Dagskrá fundarins má finna hér.

Íslensku þátttakendur verkefnanna Kælibótar og Chill-on eru: Brim hf., Eimskip hf., Háskóli Íslands,  Icelandair Cargo, Matís ohf., Optimar á Íslandi ehf., Samherji hf., Samskip hf. Skaginn hf. og Opale Seafood.

Verkefnin eru styrkt af AVS, EU, Tækniþróunarsjóði Rannís og Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands.

Fréttir

Skemmtileg rannsókn – viltu taka þátt?

Nú er í gangi rannsókn um fiskafurðir sem er samstarfsverkefni fyrirtækja og stofnanna frá þremur löndum. Samstarfsaðilar í Noregi eru Nofima, Culinary Institute, Tank Design og Norska sjávarútflutningsráðið, í Danmörku viðskiptaháskólinn í Árósum (Aarhus School of Business), markaðsrannókna- og tölfræðideild.

Hér á Íslandi eru það Matís, FYLGIFISKAR, Lýðheilsustöð og Reykjavíkurborg (mennta- og leikskólasvið).

Okkur þætti vænt um ef þú gætir séð þér fært að svara könnuninni. Ekki er hægt að rekja svör til einstaklinga og nafn þitt mun að sjálfsögðu hvergi koma fram við úrvinnslu könnunarinnar. Könnunin tekur um 10 mínútur. Henni er svarað á netinu með því að fara inn á slóðina:  http://fishevidence.net/limesurvey/index.php?sid=88481&lang=is

Vinsamlegast fylltu út spurningalistann fyrir þann 4. desember.

Ábyrgðarmaður könnunarinnar er Gunnþórunn Einarsdóttir, sérfræðingur hjá Matís á Íslandi og Themis Altintzoglou, doktorsnemi hjá Nofima í Noregi. Ef einhverjar spurningar vakna í sambandi við könnunina er hægt að hafa samband við Gunnþórunni eða Themis.

Með von um góð viðbrögð,
Gunnþórunn Einarsdóttir                                           Themistoklis Altintzoglou
Matís , Iceland                                                              Nofima, Norway
gunnthorunn.einarsdottir@matis.is                  themis.altintzoglou@nofima.no

Þrír vinningshafar verða dregnir út hér á Íslandi og eru 10.000 kr í verðlaun fyrir hvern.

Vinningshafar verða dregnir út þriðjudaginn 15. desember og verða nöfn þeirra sett inn á síðu Matís www.matis.is.  

Fréttir

Nordic Values in the Food Sector – Matís skipuleggur norræna ráðstefnu 15.-17. nóv nk.

Matvælaiðnaðurinn gegnir veigamiklu hlutverki á Norðurlöndum. Á síðustu árum hefur áhersla verið lögð á öryggi, sjálfbærni, hreinleika, hollustu og rekjanleika matvæla sem framleidd eru á svæðinu.

Ráðstefnan mun einbeita sér að þessum lykilþáttum á tímum vaxandi alþjóðlegra viðskipta með hráefni og unnin matvæli. Jafnframt verður tenging matvæla við uppruna, menningu og matargerðarlist á Norðurlöndum til umfjöllunar.

Meðal viðfangsefna á ráðstefnunni verða:

  • Öryggi matvæla í heimi alþjóðavæðingar
  • Samspil milli dýravelferðs, heilbrigðis og greiningar matvæla á markaði
  • Nýsköpun í matvælageiranum
  • Norræn menning og sjálfsmynd vs. nýsköpun
  • Staða matvælaiðnaðar á Norðurlöndum og möguleikar á heimsmarkaði

Markmiðið er að veita yfirsýn yfir stöðu matvælaiðnaðar á Norðurlöndum hvað varðar öryggi og nýsköpun á alþjóðavísu. Leitast verður við að skilgreina áskoranir og framtíðartækifæri fyrir norrænan mat.

Deila neytendur og iðnaðurinn áherslu yfirvalda á sjálfbærni, gæði, hreinleika, heilbrigði og rekjanleika? Hvaða atriði teljast mikilvægust? Hvernig skynja neytendur skilaboð um matvælaöryggi? Hvernig geta Norðurlönd lagt sitt af mörkum á alþjóðavettvangi í framtíðinni hvað snertir stjórnun og nýtingu auðlinda? Hvert eru alþjóðlegrir staðlar að stefna og hvernig geta stefnumótandi aðilar og aðilar úr iðnaðinum haft áhrif á þá? Eru ríkisstjórnir og einkafyrirtæki á Norðurlöndunum að búa til tæknilegar hindranir vegna áherslna sinna á hugtök eins og öryggi, hreinleika, heilsu, sjálfbærni og rekjanleika? Hvaða framtíðartækifæri og áskoranir standa frammi fyrir norrænum mat?

Fulltrúar frá mismunandi hagsmunaaðilum munu ræða þessi mál frá þeirra sjónarhóli. Ráðstefnan er ætluð matvælaiðnaðinum, vísindamönnum, neytendasamtökum, stefnumótandi aðilum og yfirvöldum. Niðurstöður verða birtar á vefsíðu ráðstefnunnar.

Vefur Nordic Values in the Food Sector – The way forward in a global perspective

IS