Fréttir

Áframhaldandi samstarf Matís og Listaháskóla Íslands

Matís og Listaháskóli Íslands undirrituðu samstarfssamning nú á dögunum. Aframhald verður því á því góða samstarfi sem verið hefur fram að þessu.

Matís er stærsta rannsóknafyrirtæki landsins á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis. Stefna Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bætta lýðheilsu, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu á sviði matvæla og líftækni.

LHÍ er eini háskólinn á Íslandi með viðurkenningu yfirvalda á fræðasviðinu listir og er skólinn því leiðandi í innleiðingu akademískra rannsókna í uppbyggingu listnáms hér á landi.  LHÍ hefur gert það að yfirlýstu markmiði sínu að efla rannsóknir á sviði lista og vinnur nú að undirbúningi rannsóknatengds náms á meistarastigi.  Hér er átt við listrannsóknir (e. artistic research), sem byggja á aðferðum hinna ýmsu listmiðla við nýsköpun þekkingar og miðlun hennar.

Samning þennan gera samningsaðilar til að efla enn frekar samstarf sín á milli.

Markmiðið með samningnum

  • Efla fræðilega og verklega menntun háskólanema á þeim fræðasviðum sem samningurinn tekur  til.
  • Auka rannsóknir á þeim fræðasviðum sem samningurinn nær til og vera jafnframt í fararbroddi og hafa faglega sérstöðu í nýsköpun á þessum fræðasviðum.
  • Laða að nemendur og fræðimenn á alþjóðlegum vettvangi.
  • Tryggja að gæði rannsókna samningsaðila séu sambærileg á við það sem gerist á alþjóðlegum vettvangi.
  • Stuðla að framþróun og auka samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu með því að stofna til samstarfsverkefna milli framleiðenda, starfsmanna og/eða nemenda LHÍ og Matís.
  • Sækja saman um styrki til nýsköpunar- og þróunarverkefna í innlenda og erlenda samkeppnissjóði.
  • Nýta möguleika til samreksturs tækja í þágu sameiginlegra verkefna.
  • Fjölga nemendum i grunn- og framhaldsnámi á fræðasviðum samningsins.

Fréttir

Sérfræðingar frá Matís aðstoða sjónvarpsáhorfendur með kjöt og grænmeti

Sérfræðingar frá Matís gefa góð ráð um kjöt og grænmeti á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Um er að ræða matreiðsluþætti þar sem íslenskar búvörur eru í öndvegi.

Bændur hafa slegist í hóp með þekktustu matreiðslumönnum landsins við gerð matreiðsluþátta sem hlotið hafa heitið „Eldum íslenskt“. Í þáttunum verður höfuðáhersla lögð á íslenskt hráefni úr sveitinni og rammíslenskar eldunaraðferðir. Það er meistarakokkurinn Bjarni G. Kristinsson, yfirmatreiðslumeistari á Hótel Sögu, sem stjórnar þáttunum en þeir eru unnir í nánu samstarfi við ÍNN, Bændasamtökin, Matís og flestöll búgreinafélög. Þættirnir verða blanda af fræðslu og matreiðslu og bæði vísað í hefðir og nýtísku aðferðir. Meðal kokka sem koma við sögu eru þau Gunnar Karl á Dilli og Hrefna Sætran á Fiskmarkaðnum auk þaulreyndra manna úr Hótel- og veitingaskólanum. Auk þess koma sérfræðingar frá Matís í þættina og upplýsa sjónvarpsáhorfendur um kjöt og grænmeti, t.d. hvernig úrbeina á kjöt.Farið verður í heimsókn í sveitina og spjallað við bændur um framleiðsluna auk þess sem kennd verða undirstöðuatriði við meðhöndlun ýmissa búvara, s.s. úrbeining kjöts og geymsla grænmetis. Markmiðið er að fjalla um hefðbundinn íslenskan heimilismat og sýna fram á þau ótvíræðu gæði sem íslensk búvöruframleiðsla býr yfir.

Þættirnir verða sýndir vikulega í sumar og haust á sjónvarpsstöðinni ÍNN sem og mbl.is auk þess að birtast á vefsíðum búgreinafélaganna þegar tímar líða. Styrktaraðilar þáttanna eru Félag kjúklingabænda, Samband garðyrkjubænda, Félag hrossabænda, Landssamtök sauðfjárbænda, Landssamband kúabænda, Svínaræktarfélag Íslands, Félag ferðaþjónustubænda, Beint frá býli, Hótel Saga og Bændasamtökin.

Óli Þór Hilmarsson og Valur Norðri Gunnlaugsson eru sérfræðingar Matís í þáttunum.

Fréttir

Frægur fiskmarkaður á Íslandi?

Verkefni, sem unnið er af Matís, snýst um að kanna grundvöll fyrir því að koma á fót fiskmörkuðum á Íslandi fyrir almenning og ferðamenn.

Markmiðið er að hvetja til stofnunar smásölu fiskmarkaða víðs vegar um landið og þar með styrkja tengingu neytenda við sjávarafurðir.

“Ástæða fyrir því að við förum af stað með þetta verkefni er sú að fiskneysla á Íslandi er slæm. Það hafa verið gerðar kannanir um það að fólk á aldrinum 15-19 ára er að borða u.þ.b.einn munnbita af fiski á dag og það er náttúrulega bara mjög slæmt og kannski aðgengi almennings að fiski er ekki sérstaklega gott og vitneskjan og þessi díaloga milli fisksalans og kaupandans hefur í raun og veru svona svolítið týnst. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem fiskveiðiþjóð að taka þetta aftur upp og efla þessa vitneskju um fisk” sagði Brynhildur Pálsdóttir sérfræðingur hjá Matís en auk hennar eru Þóra Valsdóttir frá Matís og Theresu Himmer arkitekt viðriðnar verkefnið.

Mikill áhugi hefur verið á verkefninu og stefnir allt í að fljótlega verði slíkur markaður stofnaður í Reykjavík. Verkefnið er styrkt af AVS sjóðnum (www.avs.is) og verða niðurstöður þess birtar í haust.

Fréttir

Matís auglýsir eftir verkefnastjóra til starfa í nýrri Matvælamiðstöð Austurlands

Starfssvið verkefnastjóra verður að byggja upp þróunarsetur fyrir smáframleiðslu matvæla í húsnæði Mjólkurstöðvarinnar á Egilsstöðum í þeim tilgangi að efla smáframleiðslu, vöruþróun og rannsóknir á afurðum úr landbúnaði og öðrum matvælaiðnaði.

Starfs- og ábyrgðasvið

  • að stjórna rekstri Matvælamiðstöðvar Austurlands
  • að vinna með smáframleiðendum á Austurlandi að útfærslu hugmynda að staðbundnum matvælum
  • að vinna með öðrum sérfræðingum Matís að skilgreiningu og öflun rannsóknaverkefna
  • að taka þátt í kennslu, fræðslu og skipulagningu námskeiða sem tengjast staðbundinni matvælaframleiðslu.

Ráðningartími er til eins árs.  Staðan verður endurmetin að þeim tíma liðnum.

Hæfniskröfur
Háskólamenntun og/eða starfsreynsla sem nýtist í starfinu. Reynsla af vöruþróun. Frumkvæði, sjálfstæði og vandvirkni í vinnubrögðum. Lipurð í mannlegum samskiptum og metnaður til að ná árangri í starfi.

Starfstöð Matvælamiðstöðvar Austurlands er staðsett á Egilsstöðum og því er nauðsynlegt að viðkomandi starfsmaður verði búsettur á Austurlandi.

Nánari upplýsingar veitir

Guðjón Þorkelsson í síma 422 5000. Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsreynslu, auk meðmæla skal senda til: Matís ohf., Borgartúni 21, 105 Reykjavík eða til jon.h.arnarson@matis.is.

Umsóknarfrestur er til og með 15. júlí nk.

Matvælamiðstöð Austurlands er samstarfsverkefni Þróunarfélags Austurlands, Búnaðarsambands Austurlands, mjólkurframleiðenda á Héraði, sveitafélagsins Fljótsdalshéraðs, Auðhumlu/MS og Matís ohf. um að byggja upp þróunarsetur fyrir smáframleiðslu matvæla í rými Mjólkurstöðvarinnar á Egilsstöðum.

Matís er þekkingarfyrirtæki sem sérhæfir sig í mat og líftækni. Hjá Matís starfa tæplega 100 manns á níu stöðum á landinu. Hlut­verk Matís er að efla sam­keppnis­hæfni íslenskra afurða og atvinnu­lífs, bæta lýð­heilsu og tryggja mat­væla­­öryggi og sjálf­bæra nýtingu um­hverfis­ins með rann­sóknum, ný­sköpun og þjónustu.

Auglýsinguna á pfd formi má finna hér.

Nánari upplýsingar um starfsemi Matís og atvinnutækifæri hjá fyrirtækinu veitir Jón H. Arnarson, jon.h.arnarson@matis.is.

Fréttir

Framtíðarhúsnæði Matís

Matís og Mótás undirrituðu leigusamning vegna framtíðarhúsnæðis Matís að Vínlandsleið 12 í Reykjavík sl. föstudag, 26. júní.

Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ákvað 24. apríl sl., eftir að hafa lagt málið fyrir ríkisstjórn Íslands, að Matís ohf. flytji starfsemi sína í nýtt húsnæði um næstu áramót.

Í samræmi við það markmið að fjölga störfum í byggingariðnaði var Framkvæmdasýslu ríkisins falið að auglýsa eftir leiguhúsnæði fyrir Matís ohf. sem nú starfar á þremur stöðum víðs vegar um borgina.

Ákveðið var síðan að velja byggingarfélagið Mótás sem boðið hafði fram leigu á 3.800 fermetra húsnæði að Vínlandsleið 12, Reykjavík.  Húsnæðið sem nú er fokhelt er á þremur hæðum ásamt kjallara og mun leigusali innrétta húsnæðið og skila því fullfrágengnu að utan sem innan.  Leigusali hefur áætlað að mannaflaþörf, þ.m.t. afleidd störf við að fullgera húsnæðið í samræmi við húslýsingu Matís, séu um 200 ársverk.

Vínlandsleið 12

Með lögum nr. 68/2006 um stofnun Matvælarannsókna hf.  heimilaði Alþingi að stofna hlutafélag um rekstur Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti, sbr. samstarfssamning milli Iðntæknistofnunar og Landbúnaðarháskólans, og rannsóknastofu Umhverfisstofnunar. Í athugasemdum við frumvarpið var lögð rík áhersla á að fyrirtækinu yrði gert kleift að sameina undir einu þaki starfsemi stofnananna sem verið var að sameina.

Félagið – Matís ohf. – tók til starfa 1. janúar 2007.

Meðfylgjandi eru myndir frá undirskriftinni og þar má sjá aðila úr stjórn Matís, forstjóra Matís og framkvæmdastjóra Mótás skrifa undir samninginn.

Fréttir

Risa áfangi á sviði varnarefnamælinga

Stór áfangi var stiginn í apríl þegar Katrín Hauksdóttir hjá Matís á Akureyri fjölgaði mælingum á sviði varnarefna úr 49 í 62 efni, en varnarefni eru notuð í framleiðslu ávaxta og grænmetis til að varna ágangi skordýra og annarra skaðvalda.

Þetta er fjórðungs fjölgun sem er áfangi sem krafðist mikillar vinnu. Á þessu ári var efnum sem mæld eru með faggiltri aðferð einnig fjölgað um 12 og nú eru 27 af þessum 62 efnum sem skimað er fyrir faggild. Efnum sem bætt var við eru:
Asefat
Bitertanól
Fenarimól
Fention
Fipronil
Fosmet
Methiocarb
Myclobutanil
Pirimicarb
Pyridaben
Pyrimethanil
Tebuconazole
Tetradifon

Stefnt er að því að sækja um faggildingu fyrir fleiri efni  eftir því sem aðstæður leyfa. Efnunum sem var bætt við faggildinguna eru eftirfarandi:
Vinklosolin
Metalaxyl
Malation
Aldrin
Isofenfos
Metadion
Buprofezin
Bromopropylate
Carbofuran
Ditalimfos
Lindan
Cyprodinil

Eftir þessa fjölgun er Ísland komin nær því að uppfylla kröfur ESB um skimun varnarefna í innlendu og innfluttu grænmeti og ávöxtum. Þetta eykur til muna öryggi almennra neytenda og fjöður í hatt Matís.

Fréttir

Norræna ráðherranefndin tilnefnir starfsmann Matís til verðlauna

Stýrihópur norrænu ráðherranefndarinnar um “Ný norræn matvæli” tilnefndi fyrir stuttu Brynhildi Pálsdóttur til verðlauna á sviðinu “Ný norræn matvæli”.

Brynhildur og Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir og fyrirtæki þeirra Borðið, voru tilnefnd frá Íslandi.

Brynhildur hefur starfað um skeið hjá Matís og komið m.a. að “Stefnumót bænda og hönnuða”.

“Stefnumót bænda og hönnuða” er frumkvöðlaverkefni í þágu atvinnulífsins þar sem tvær starfstéttir eru leiddar saman til að skapa einstaka afurð. Mikil sóknartækifæri felast í matvælaframleiðslu og með markvissri nýsköpun á hráefninu er hægt að margfalda virðisaukann. Í sérstöðu og upplifun felast mikil verðmæti, því er markmið verkefnisins að þróa héraðsbundnar matvörur byggðar á hæstu gæðum, rekjanleika og menningarlegri skírskotun.

Matís hefur tekið virkað þátt í ofangreindu verkefni og kemur m.a. að vöruþróun.

Nánari upplýsingar:
Borðið (stórt pdf skjal)
Borðið – CV (pdf skjal)

Fréttir

Öryggisupplýsingar samþáttaðar við rekjanleikaupplýsingar í rauntíma

Matís ohf. hóf nýlega vinnu við stórt Norrænt verkefni, e-REK (e. e-TRACE), en þar er m.a. unnið með rannsóknafyrirtækjum í Noregi og Svíþjóð.

Verkefnið er til tveggja ára og er meginmarkmið þess að skilgreina, þróa og innleiða rekjanleikakerfi þar sem upplýsingar um öryggi matvæla eru samþáttaðar við aðrar rekjanleikaupplýsingar í rauntíma. Megin tilgangur með svona kerfi er að tryggja fullkominn rekjanleika og auka um leið öryggi afurða.

Samstarfsaðilar þessa verkefnis hafa að undanförnu þróað kerfi sem á að geta tryggt rekjanleika afurða og er þetta kerfi byggt á staðli frá EPCGlobal og byggir á RFID (Radio Frequency IDentificaton) tækni.

Matís mun sjá um að þróa og aðlaga rekjanleikakerfið að dæmigerðu ferli sjávarafurða frá vinnslu til dreifiaðila, ásamt því að skilgreina þá öryggisþætti sem eru mikilvægir í svona kerfi. Verkefnastjóri Matís ohf. í þessu verkefni er Sveinn Margeirsson, sveinn.margeirsson@matis.is.

Fréttir

Viljayfirlýsing um Matvælamiðstöð Austurlands undirrituð í dag

Samkomulag um stofnun og starfsemi Matvælamiðstöðvar Austurlands verður undirritað í dag í mjólkurstöðinni á Egilsstöðum. Matís mun ráða starfsmann til Matvælamiðstöðvarinnar.

Þróunarfélag Austurlands, mjólkurframleiðendur á Héraði, Búnaðarsamband Austurlands, Auðhumla, sveitarfélagið Fljótdalshérað og Matís standa að verkefni um uppbyggingu á þróunarsetri fyrir smáframleiðslu matvæla.

Síðustu misseri hafa áhugasamir aðilar leitað leiða til þess að nýta rými í húsi Mjólkurstöðvarinnar á Egilsstöðum sem aðstöðu til smáframleiðslu matvæla. Mikil gerjun hefur átt sér stað og fjöldi hugmynda verið ræddar. Þessi vinna hefur farið fram undir stjórn Þróunarfélags Austurlands ásamt mjólkurframleiðendum á Héraði, Búnaðarsamband Austurlands og Auðhumlu. Til liðs við verkefnið hafa nú komið Matís og sveitarfélagið Fljótsdalshérað. Ákveðið hefur verið að gefa verkefninu nafnið, Matvælamiðstöð Austurlands.

Meginmarkmið verkefnisins er að byggja upp þróunarsetur fyrir smáframleiðslu matvæla, þ.e.a.s  koma á smáframleiðslu, vöruþróun og rannsóknum á afurðum úr landbúnaði og nýta rými mjólkurstöðvarinnar í þeim tilgangi.

Rými það í mjólkurstöðinni á Egilsstöðum sem ekki er notað til mjólkurvinnslu í dag mun verða nýtt í þessum tilgangi.  Auðhumla mun leggja  til húsnæðið og verður samið sérstaklega um það sem og þann búnað sem tiltækur er. Samstarfsaðilar munu í sameiningu vinna að því að tryggja framgang verkefnisins svo hægt verði að nýta aðstöðuna í mjólkurstöðinni m.a. til þróunarstarfs, kennslu, námskeiðahalds og tilraunastarfsemi í matvælaiðnaði.

Á næstunni mun Matís ráða starfsmann að Matvælamiðstöðinni og húsnæðið verður undirbúið fyrir starfsemina. Matís leggur mikið upp úr starfsemi sinni utan höfuðborgarsvæðisins og upp úr samstarfi við fyrirtæki og hagsmunaaðila en fyrirtækið rekur m.a. starfstöðvar á sex stöðum utan Reykjavíkur.

Í Matvælamiðstöð Austurlands verður samstarf um vöruþróun og rannsóknir á mjólkurafurðum o.fl.

Fréttir

Vinnufundur iðnaðar og rannsóknaaðila í kæliverkefnum

Föstudaginn 12.6.2009 var haldinn vinnu- og stefnumótunarfundur í kæliverkefnunum Kælibót og Chill-on (með tengingu við verkefnið “Hermun kæliferla”). 

Unnið hefur verið að umfangsmikil tilraunum á sviði kælingar á bolfiski frá miðum á markað. Þátttakendur í verkefninu tengjast mismunandi hlekkjum keðjunnar: hráefnismeðhöndlun, vinnslu, flutningi og markaðssetningu. Kynntar voru fyrstu niðurstöður úr umfangsmiklum rannsóknum á kælingu fisks. Tilraunirnar voru framkvæmdar veturinn 2008-2009 við raunaðstæður. Samanburður hefur verið gerður á:

  • kæligetu mismunandi ísmiðla og á vélum til framleiðslu þeirra
  • kæliaðferðum við vinnslu (vökva- og roðkæling)
  • mismunandi umbúðum fyrir pökkun afurða
  • mismunandi flutningsleiðum (skip og flug) og áhrifum bættrar hitastigsstýringar við flutning kældra afurða.

Samhliða kynningum áttu sér stað mikilvægar umræður og skoðanaskipti um vægi mismunandi tilraunaþátta og niðurstöður. Nýttust þær umræður til stefnumótunar fyrir næstu tilraunir sem framkvæmdar verða í haust. Þá verða bestu aðferðir fyrir hvern hlekk keðjunnar valdar saman og öll keðjan keyrð í einni tilraun við raunaðstæður. Flutningsferlar hafa verið kortlagðir m.t.t. tíma og hitastigs og verða kælihermar nýttir til að setja upp þá ferla til geymslu á afurðum. Með því móti er hægt að framkvæma nauðsynlegar mælingar án þess að flutningur frá sýnatökustað til tilraunastofa trufli niðurstöður. Á sama tíma er stefnt að því að flytja sömu afurðir einnig á markað til að fá mat markaðsaðila á afurðum.

Þátttakendur verkefnanna Kælibótar og Chill-on eru: Brim hf., Eimskip hf., Háskóli Íslands,  Icelandair Cargo, Matís ohf., Optimar á Íslandi ehf., Samherji hf., Samskip hf. Skaginn hf. og Opale Seafood.

Verkefnin eru styrkt af AVS, EU, Tækniþróunarsjóði Rannís og Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands.

IS