Fréttir

Virðiskeðja gámafisks – Aukið verðmæti gámafisks

Matís ohf. vinnur nú að rekjanleikaverkefni í samstarfi við innlend og erlend fyrirtæki sem koma að virðiskeðju gámafisks sem seldur er á uppboðsmörkuðunum í Hull og Grimsby.

Samstarfsaðilarnir eru Atlantic Fresh Ltd., Fishgate Hull Fish Auction, Grimsby Fish Market, The Sea Fish Industry Authority (Seafish), Samskip, fjöldi íslenskra útgerða sem eru í reglubundnum viðskiptum við Atlantic Fresh Ltd. og nokkrir stórir sem smáir hagsmunaaðilar á mörkuðunum í Hull og Grimsby s.s. Yorkshire & Humber Seafood Group, Grimsby Fish Merchants Association o.fl. Verkefnið er styrkt af AVS sjóðnum, auk þess sem fjármögnun hefur komið frá Seafish og hagsmunaaðilum í breskri fiskvinnslu. Markmið verkefnisins er að auka rekjanleika og upplýsingastreymi í virðiskeðjunni allri og að búa til verðmæti úr þeim upplýsingum. Verkefnið hófst sumarið 2006 þegar Matís og Atlantic Fresh hófu að safna sölugögnum frá níu skipum sem hafa verið í reglubundnum viðskiptum við Atlantic Fresh. Þegar sölugögnum hafði verið safnað í eitt ár voru þrjú þessara skipa fengin til að auka rekjanleika og upplýsingastreymi til væntanlegra kaupenda. Þetta fólst m.a. í því að dagmerkja allan afla og koma ýmiskonar upplýsingum til Atlantic Fresh um aflann. Atlantic Fresh gat svo í framhaldi af því upplýst væntanleg kaupendur betur um þann fisk sem væntanlegur væri í sölu og látið svo þær upplýsingar fylgja vörunni alla leið inn á gólf fiskmarkaðanna. Þessu fyrirkomulagi var haldið í þrjá mánuði og þá voru sölugögnin greind; þar sem bæði var kannað hvaða áhrif breytingin hefði á fiskverð hjá hverju skipi fyrir sig og svo í samanburði við skipin níu sem voru í upphaflegu úrtaki.  Bráðabirgðaniðurstöður benda til að aukinn rekjanleiki og upplýsingastreymi hafi ekki mikil áhrif á fiskverð, t.a.m. í samanburði við framboð og eftirspurn.  Þar sem framboðið er mjög óstöðugt sveiflast verð nokkuð á milli vikna og jafnvel daga.

Sem partur af verkefninu er nú verið að undirbúa vefsíðu þar sem unnt verður að koma upplýsingum um væntanlegt framboð til kaupenda.  Þessi vefsíða verður partur af upplýsinganeti Seafish þ.e. Seafood Information Network (SIN) og eiga þá kaupendur að geta séð á föstudegi hvert framboðið frá hverju skipi fyrir sig verður í vikunni á eftir.  Hugsanlegt er að útgerðir geti nýtt þessa síðu til að koma frekari upplýsingum til kaupenda t.d. hefur komið upp sú hugmynd að einhver skipanna verði útbúin netmyndavélum.

Gámar

Verkefnið hefur nýst vel til að koma á fót öflugu tengslaneti innan virðiskeðjunnar, t.d. eru starfsmenn Matís búnir að fara til Bretlands til að kynna sig fyrir þarlendum hagsmunaaðilum og til að skoða aðstæður.  Einnig hefur hópur kaupenda í tvígang komið til Íslands í tengslum við verkefnið til að kynna sér aðstæður hér á landi og til fundarhalda um framgang verkefnisins.

Nýr vinkill kom á verkefnið í október í kjölfar falls bankanna og deilna sem sköpuðust milli þjóðanna í framhaldi af því.  Kaupendur í Bretlandi fóru þá að hafa miklar áhyggjur af því hvaða áhrif ástandið gæti haft á framboð gámafisks frá Íslandi, og fóru því þess á leit við Matís að fyrirtækið myndi gera fyrir þá stuttar skýrslur um áhrif bankakreppunnar á íslenskan sjávarútveg.  Það er mat verkefnisaðila að þessar skýrslur hafi hjálpað til við að upplýsa kaupendur í Bretlandi um stöðu mála og meðal annars orðið til þess að þeir gátu beitt áhrifum sínum til að liðka fyrir því að greiðslur fyrir fiskinn bærust til Íslands.  Þess ber að geta að greiðslur fyrir gámafisk voru fyrstu greiðslur sem bárust frá Bretlandi eftir bankahrunið.Næstu skref í verkefninu eru að fullkomna gæðamat gámafisksins og koma vefsíðu um væntanlegt framboð í gagnið, auk þess sem Jónas Rúnar Viðarsson, starfsmaður Matís, mun innan skamms heimsækja fiskmarkaðina í Hull og Grimsby og meta hvaða áhrif aldur hráefnis hafi á verðmyndun, í samstarfi við Atlantic Fresh.

Fréttir

Auglýst er eftir umsóknum í átaksverkefni um smáframleiðslu á matvælum

Atvinnumálanefnd Hornafjarðar auglýsir eftir umsóknum í átaksverkefni um smáframleiðslu á matvælum á Hornafirði. Um er að ræða stuðningsverkefni sem ætlað er einstaklingum og fyrirtækjum í Sveitarfélaginu Hornafirði sem vilja vinna að framleiðslu og þróun á matvælum í matvælasmiðju Matís á Hornafirði.

Matvælasmiðjan var opnuð í byrjun nóvember 2008 og er sérstaklega sett upp til að styðja við frumkvöðla og fyrirtæki sem vilja hefja virðisaukandi smáframleiðslu matvæla úr íslensku hráefni. Fjármunir í verkefnið eru hluti af fjármunum sem úthlutað var til Sveitarfélagsins Hornafjarðar í tengslum við mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar í upphafi árs 2008. Markmið verkefnisins er að fullgera vörur sem hægt er að selja beint til neytenda, í verslunum og til eða á veitingastöðum í héraðinu. Nýheimar hafa unnið að þróun hugmynda og gerð viðskiptaáætlana undanfarin ár en nú er markmiðið að taka næsta skref og fullgera vörur tilbúnar til neytenda. í neytendapakkningar. Atvinnumálanefnd Hornafjarðar heldur utan um verkefnið í samvinnum við Matís og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Atvinnumálanefnd tekur við umsóknum og afgreiðir þær.

Matís og Nýsköpunarmiðstöð Íslands veita ráðgjöf við að undirbúa umsóknir og veita síðan styrkþegum liðsinni í framhaldinu.

Styrkur veitist til þess að:
kaupa ráðgjöf hjá sérfræðingum vegna prófana og vottana,
kaupa framleiðslutíma hjá Matís í matvælasmiðjunni,
kaupa ráðgjöf og hönnun hjá sérfræðingum um ímynd og útlit vörunnar og umbúða.

Stefnt er að því að lokaafrakstur hvers verkefnis sé afurð tilbúinn á markað. Styrkur veitist ekki til frumhugmynda eða gerð viðskiptaáætlana.

Nánari upplýsingar veitir Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri Hornafjarðar, í síma 470 -8000 / 822-7950 og í netfangið hjaltivi@hornafjordur.is. Umsóknarfrestur er til 20. desember 2008.

Verkefnið er unnið að frumkvæði Sveitarfélagsins Hornafjarðar í samvinnu við starfstöðvar Matís og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Hornafjarðar.

Fréttir

Spennandi starfsvettvangur – frábær tækifæri

Matís auglýsir eftir nemendum á framhaldsstigi til að vinna lokaverkefni og einstök verkefni í samstarfi við fyrirtækið. Auglýsingu í Morgunblaðinu má finna hér.

Matís býður upp á verkefni í lyfjavísindum sem hluta af meistaranámi. Verkefnið snýst um einangrun og greiningar á flóknum fjölsykrum og öðrum lífefnum úr sjávarhryggleysingjum ásamt mælingum á lífvirkni þeirra. Í verkefninu verður beitt fjölbreytilegri aðferðafræði og er öll aðstaða og tækjabúnaður fyrir verkefnið fyrsta flokks. Umsækjandi verður að hafa lokið B.Sc. prófi í lífefnafræði, matvælafræði, lyfjafræði, líffræði eða skyldum greinum. Upplýsingar um náms- og starfsferil fylgi umsókn.

Nánari upplýsingar um verkefnin veitir Guðmundur Óli Hreggviðsson, gudmundur.o.hreggvidsson@matis.is, og í síma 422-5000.


Matís býður upp á verkefni sem hluta af meistaranámi. Verkefnin snúa meðal annars að rannsóknum sem tengjast tölfræðilegri greiningu gagna úr virðiskeðju matvæla, beitingu aðgerðagreiningar í matvælaiðnaði, þróun matvælaframleiðsluferla og stýringu virðiskeðjunnar. Rannsóknirnar eru stundaðar í samstarfi við íslensk matvælaframleiðslufyrirtæki í sjávarútvegi og landbúnaði. Umsækjandi verður að hafa lokið B.Sc. prófi í Iðnaðarverkfræði, Rekstrarverkfræði, Matvælafræði, Tölvunarfræði eða skyldum greinum. Upplýsingar um náms- og starfsferil fylgi umsókn.

Nánari upplýsingar um verkefnin veitir Sveinn Margeirsson, sveinn.margeirsson@matis.is, og í síma 422-5000.


Matís býður upp á verkefni sem hluta af meistaranámi. Verkefnin snúa meðal annars að rannsóknum sem tengjast sérstöðu og sérkennum hráefna til matvælavinnslu úr íslensku umhverfi og gætu tengst matvælaörverufræði, matvælaefnafræði, neytendarannsóknum, skynmati og nýsköpun í matvælaiðnaði og er öll aðstaða og tækjabúnaður hjá Matís fyrsta flokks fyrir verkefni af þessum toga. Umsækjandi verður að hafa lokið B.Sc. prófi í lífefnafræði, matvælafræði, búvísindum, lyfjafræði, líffræði eða skyldum greinum. Upplýsingar um náms- og starfsferil fylgi umsókn.

Nánari upplýsingar um verkefnin veitir Guðjón Þorkelsson, gudjon.thorkelsson@matis.is, og í síma 422-5000.


Matís býður upp á verkefni í líftækni sem hluta af meistaranámi. Verkefnið snýst um rannsóknir á ensímum úr sjávarörverum sem virka á flóknar fjölsykrur. Beitt verður fjölbreytilegri aðferðafræði svo sem örverufræði, ensímfræði, erfðatækni og erfðamengjafræði og er öll aðstaða og tækjabúnaður fyrir verkefnið fyrsta flokks. Umsækjandi verður að hafa lokið B.Sc. prófi í lífefnafræði, líffræði eða skyldum greinum. Upplýsingar um náms- og starfsferil fylgi umsókn.

Nánari upplýsingar um verkefnin veitir Guðmundur Óli Hreggviðsson, gudmundur.o.hreggvidsson@matis.is, og í síma 422-5000.


Frekari upplýsingar um starfsemi Matís og atvinnutækifæri hjá fyrirtækinu fást hjá Jón H. Arnarsyni mannauðsstjóra, jon.h.arnarson@matis.is

Fréttir

Hróður Matís fer víða – Matarsmiðjan á Höfn í Ny Nordisk Mad

Fyrir stuttu kom grein í Ny Nordic Mad sem er skemmtilegt verkefni um matarmenningu Norðurlandabúa.

Þar er minnst á Matarsmiðjuna á Höfn og hvernig staðbundin matarframleiðsla skapar aukin tækifæri í heimabyggð. Greinin: “Nordic Delights” – madminder fra Island

Fréttir

Fréttatilkynning – Kerecis ehf. og Matís ohf. gera rammasamning um rannsóknir

Í fréttatilkynningu frá Kerecis ehf. og Matís ohf. sl. föstudag tilkynntu fyrirtækin um undirritun rammasamnings varðandi rannsóknir á próteinum úr fiski til meðhöndlunar á ýmsum læknisfræðilegum vefjavandamálum í mönnum.

Rannsóknarsamningurinn milli félaganna er til eins árs en inniheldur framlengingarákvæði. Gert er ráð fyrir að Matís framkvæmi allar próteinrannsóknir Kerecis við hina nýju líftæknismiðju fyrirtækisins á Sauðárkróki og í rannsóknaraðstöðu sinni í Reykjavík. Matís hefur mikla reynslu og sérþekkingu tengda framleiðslu afurða úr fiskipróteinum og hefur fyrsta flokks rannsóknar- og þróunaraðstöðu fyrir slíkar rannsóknir.

Fréttatilkynninguna í heild sinni má finna hér.

Fréttir

Tækniþróunarsjóður úthlutar styrkjum – Matís í samstarfi

Stjórn Tækniþróunarsjóðs ákvað á fundi sínum, þriðjudaginn 25. nóvember 2008, við hverja skyldi gengið til samninga um stuðning úr sjóðnum.

Skemmst er frá því að segja að Matís á í samstarfi við 4 af þeim 18 einstaklingum/fyrirtækjum sem Tækniþróunarsjóður ætlar að ganga til samninga við.

Þau eru:

Heiti verkefnisVerkefnisstjóri hjá MatísSamstarfsfyrirtæki/-stofnun
Lengi býr að fyrstu gerðRannveig BjörnsdóttirAkvaplan-niva á Íslandi
Hermun kæliferlaBjörn MargeirssonPromens Tempra ehf.
Litun bleikjuholdsJón ÁrnasonFóðurverksmiðjan Laxá hf.  
Sókn á ný miðRóbert Hafsteinsson3X Technology ehf.

Heildarlista þeirra sem Tækniþróunarsjóður ákvað að ganga til samninga við má finna hér.

Matís óskar ofangreindum fyrirtækjum til hamingju með áfangann.

Upplýsingar um fjölbreytta útgáfu Matís, þ.m.t. skýrslur, veggspjöld, vísindagreinar ofl. má finna hér.

Fréttir

Umhverfismerkingar í sjávarútvegi

Á síðustu misserum hefur áhugi á umhverfismerkingum sjávarfangs stóraukist, enda eru hin ýmsu umhverfissjónarmið farin að skipta meira og meira máli á öllum stigum virðiskeðju sjávarafurða.

Fólk virðist hins vegar ekki alltaf átta sig á því hvað liggi á bakvið þessi merki, það er að segja hvert hlutverk þeirra sé, hvernig þau virki, hvort þau virki, hvort merkin sem eru í boði séu sambærileg o.s.frv. Hér verður reynt að varpa ljósi á þessar vangaveltur og kynna þau merki sem snerta okkur Íslendinga hvað mest.

Út er komin frá Matís mjög áhugaverð grein um umhverfismerkingar í sjávarútvegi. Greinina má finna hér.

Fréttir

Aukin fiskneysla fæst með aukinni fræðslu

Ljóst er að foreldrar hafa mest hvetjandi og mótandi áhrif á fiskneyslu ungs fólks og þeir sem hafa vanist því að borða fisk í æsku halda því áfram síðar á ævinni. Í ljós kom að fræðsla og þekking jók greinilega fiskneyslu hjá ungu fólki.

Gunnþórunn Einarsdóttir hjá Matís útskrifaðist með MS-próf í matvælafræði frá Háskóla Íslands í október 2008. Meginviðfangsefni hennar var að afla upplýsinga um fiskneyslu ungs fólks og viðhorf þeirra til fisks og var verkefnið unnið innan AVS-verkefnisins : Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða.

Tilgangurinn var að leita leiða sem gætu stuðlað að bættri ímynd sjávarafurða meðal ungs fólks og aukið neyslu þeirra á þessum afurðum í samræmi við næringarfræðilegar ráðleggingar og þannig mögulega haft áhrif á þau sjálf og næstu kynslóð

Helstu niðurstöður verkefnisins voru þær að unga fólkið á aldrinum 17 til 26 ára borðaði fisk sem aðalrétt 1,3 sinnum í viku sem er undir ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um að borða eigi fisk tvisvar í viku eða oftar. Foreldrar hafa mest hvetjandi og mótandi áhrif á fiskneyslu unga fólksins. Það að hafa borðað fisk í æsku hefur mikil áhrif á viðhorf unga fólksins til fiskneyslu seinna meir. Sjá mátti einnig úr niðurstöðunum að sá hluti þessa fólks sem farið var að heiman borðaði minnst af fiski.

Óöryggi varðandi meðhöndlun á fiski eins og það að matbúa hann eru letjandi þættir á fiskneysluna. Íhlutun sem fól í sér aukið aðgengi að fiski gegnum skólamötuneyti, opna fræðslufyrirlestra og kynningu á vefnum skilaði betri þekkingu á fisknum og lýsisneyslan jókst um nær helming og meir hjá stúlkum en strákum. Þeim sem ekki voru fyrir fisk fyrir íhlutun geðjaðist betur að honum eftir íhlutun.

Hvað varðar þessa þróun á minnkandi fiskneyslu þá er mikilvægt að sporna við henni sem fyrst með því að auka m.a. þekkingu á mikilvægi fiskneyslu heilsunnar vegna ásamt því að kenna unga fólkinu að elda fisk. Fjölskyldan er sterkur áhrifavaldur varðandi fiskneyslu og því er mikilvægt að foreldrarnir taki einnig virkan þátt í því að fræða og kynna fiskinn fyrir börnunum sínum. Ef markaðssetja á fiskafurðir fyrir þennan aldurshóp eða auka fiskneyslu þeirra ber að hafa í huga að mikilvægt er fyrir unga fólkið að fiskmáltíðin taki mið af kröfum þeirra. Niðurstöðurnar sýndu að unga fólkið hefur mismunandi smekk og skoðanir og hægt er að skipta því upp í nokkra mismunandi hópa bæði eftir smekk þeirra fyrir fiskréttum og viðhorfa til heilsu og hollustu.

Rannsóknin í heild sýndi að fiskneyslan er undir viðmiðum og þekking á fiski er ekki góð. Þörf er á aðgerðum til að fá ungt fólk til að borða meiri fisk og fræða það um mikilvægi fisks fyrir heilsuna. Einnig sýndi rannsóknin að fræðsla skilar sér til unga fólksins og hafði hún meiri áhrif á þá sem voru minna fyrir fisk. Íslendingar hafa lifað á sjávarútvegi um aldir og þekking á fiskveiðum og fiskvinnslu er með því besta sem gerist í heiminum. Þekking á fiskneyslu og hvað ákvarðar fiskneyslu ætti að vera lykilatriði í markaðssetningu sjávarafurða.

Ef neysla Íslendinga á sinni meginframleiðslu er minnkandi getur það skaðað ímynd útfluttra sjávarafurða frá Íslandi. Þegar til framtíðar er litið þá er ljóst að samstilltar aðgerðir, sem byggja á ítarlegri neytendarannsóknum, markvissri fræðslu um bæði hollustu og matreiðslu sjávarfangs svo og auknu framboði að fjölbreyttum fiskréttum, geta orðið mikilvægir þættir í að snúa við neysluþróun síðustu ára og stuðlað að aukinni fiskneyslu og bættri lýðheilsu þjóðarinnar. Með þessari rannsókn er kominn stór gagnabanki sem er forsenda fyrir því að halda áfram að rannsaka viðhorf og fiskneyslu Íslendinga.

Hægt er að nálgast ritgerð Gunnþórunnar hér: Viðhorf og fiskneysla ungs fólks

Fréttir

Matís opnar líftæknismiðju á Sauðárkróki

Matís opnaði líftæknismiðju á Sauðárkróki sl. þriðjudag, 18. nóvember. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra opnaði smiðjuna að viðstöddu fjölmenni.

Með tilkomu líftæknismiðjunnar skapast rannsóknaraðstaða með tilheyrandi vinnsluaðstöðu þar sem vísindamenn og frumkvöðlar í líftækna geta þróað vörur sínar og vinnsluferla í samvinnu við Matís. Það þarf ekki að koma á óvart að Matís opni þessa smiðju í Skagafirði enda er matarkista Skagfirðinga alþekkt en þar vex hún og dafnar í skjóli öflugs og fjölbreytilegs matvælaiðnaðar. Líftæknismiðjan er opin öllum landsmönnum og þar geta einstaklingar og fyrirtæki fengið aðstöðu til skemmri tíma til að framleiða afurðir. Smiðjan verður nokkurs konar klakstöð nýrra sprotafyrirtækja í líftækni og mjög mikilvæg í að stytta ferlið frá hugmynd til markaðar.

Einar_Sjofn_3
Bjarki_Patricia

Á myndunum má m.a. sjá þegar Einar K. Guðfinnsson og Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís opna líftæknismiðjuna formlega ásamt Guðmundi Guðlaugssyni, sveitastjóra Skagafjarðar, Arnljóti Bjarka Bergssyni verkefnastjóra hjá Matís og Patriciu Hamaguchi frá Matís.

Fréttir

NÚNA er tækifærið – Matís með á fjöldafundi SI

Treystum stoðirnar – virkjum mannauðinn

Síðastliðinn föstudag, 14. nóvember, var haldinn fjöldafundur meðal fyrirtækja og fólks í hátækni- og sprotageiranum á Hilton Reykjavík Nordica.

Fundurinn kallaðist „Núna“ er tækifærið því að núna er einmitt tæifærið til að hefja markvissa uppbyggingu hátækni- og sprotafyrirtækja með virku samstarfi og samstöðu stjórnvalda, stjórnenda og starfsmanna um að treysta stoðir nýsköpunar og virkja mannauðinn. Tilgangur fundarins var að efla sóknarhug og sjálfstraust.

Á fundinum kynntu fyrirtækin starfsemina, komu með góðar fréttir um árangur af þróunar- og markaðsstarfi og kynntu tilboð sem fólu m.a. í sér að þau geti bætt við sig fólki að því gefnu að tiltekin starfsskilyrði og stoðir til nýsköpunar séu fyrir hendi.

Kynningu Matís má finna hér og hér má finna tilboð Matís.

Fulltrúar nokkura fyrirtækja tóku til máls auk Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Össurar Skarphéðinssonar. Valgeir Guðjónsson, tónlistarmaður bjó til tónlist á staðnum ásamt DJ Margeir og Björk Guðmundsdóttur, tónlistarmaður hélt hvatningaræðu. Fundarstjórar voru Þórólfur Árnason, forstjóri Skýrr og Svafa Grönfeldt rektor við HR.

Að fundinum stóðu Samtök iðnaðarins, Samtök líftæknifyrirtækja, Samtök sprotafyrirtækja, Samtök upplýsingafyrirtækja og Háskólinn í Reykjavík.

Dagskrá

16.00 Helgi Magnússon, formaður SI opnar fundinn og fundarstjórar taka við

16.10 Stutt innlegg frá fulltrúum fyrirtækja og stjórnvalda

Stiki – Svana Helen Björnsdóttir, framkvæmdastjóri

Össur – Egill Jónsson, framkvæmdastjóri framleiðslusviðs

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra

Skýrr- Sigrún Ámundadóttir, framkvæmdastjóri hugbúnaðarlausna

Klak – Eyþór Ívar Jónsson, framkvæmdastjóri

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra

Valgeir Guðjónsson býr til tónlist með þátttöku fundargesta       

Marel – Sigsteinn Grétarsson, forstjóri Marel á Íslandi

CCP – Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra

Marorka – Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri

Betware – Stefán Hrafnkelsson, framkvæmdastjóri

Stjörnuoddi – Jóhanna Ástvaldsdóttir, fjármálastjóri

SagaMedica – Perla Björk Egilsdóttir, sérfræðingur

Björk Guðmundsdóttir, tónlistarmaður

Lag Valgeirs Guðjónssonar og DJ Margeirs flutt 

17.00  Mannblendi

IS