Fréttir

Skýrsla Matís: Samantekt á vísindalegum sönnunum á heilsufæði

Markaður fyrir heilsu- og markfæði af ýmsu tagi hefur vaxið mikið á undanförnum árum og við markaðssetningu slíkrar vöru hefur stundum ýmsu verið haldið fram sem illa stenst nánari skoðun. Í nýútkominni skýrslu frá Matís, er að finna ýtarlega samantekt á ýmsum flokkum heilsufæðis og einnig er þar farið yfir skilgreiningar og reglugerðir, efnivið og virkni vinsælla heilsuvara og leyfðar heilsufullyrðingar. Aðalhöfundur skýrslunnar er Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, en samantektin er hluti af meistaraverkefni hennar við matvælafræðiskor H.Í., sem hún vinnur að á Matís.

Í skýrslunni sem ber titilinn HEILSUFÆÐI: Samantekt á helstu flokkum heilsufæðis og vísindalegra sannana á virkni þeirra, kemur m.a. fram að hugtakið markfæði (functional food) hafi fyrst komið fram í Japan á áttunda áratug 20. aldar í kjölfar þess að þarlend yfirvöld vildu bæta lýðheilsu. Markfæði hefur verið skilgreint sem “matvæli sem eiga það sameiginlegt að þeim hefur verið breytt í þeim tilgangi að þau hafi jákvæðari heilsusamleg áhrif á neytandann en matvælin óbreytt.”

Þegar setja á heilsuvöru á markað þarf að huga að mörgu t.d. reglugerðir og heilsu-fullyrðingar. Á meðal þess sem þarf að skoða eru spurningarnar: Hvenær er matvæli orðin að lyfi? Hvernig getur neytandinn verið viss um virkni og ágæti vöru? Rekja má tilurð samantektarinnar til þessara og fleiri spurninga sem gagnlegt er að fá svör við.

Sigrún, í félagi við tvo viðskiptafræðinema, tók þátt í frumkvöðlakeppni Innovit fyrr á þessu ári og komust þau í átta liða úrslit með viðskiptaáætlun fyrir vörulínu sem inniheldur lífvirk peptíð (upprunin úr fiskvöðvapróteinum framleiddum í Iceprotein). Þau nefndu “fyrirtækið” Heilsufæði ehf. og fyrstu framleiðluvöruna Græðir sem er heilsudrykkur með blóðþrýstingslækkandi áhrif. 

Sigrún Mjöll Halldórsdóttir

Að sögn Sigrúnar er mikill áhugi á ”lífvirkum peptíðum” á heilsuvörumarkaði í heiminum í dag og rannsóknir hafa sýnt að þau hafa mjög víðtæk heilsufarsleg áhrif s.s. blóðþrýstings- og kólesteróllækkandi áhrif, þau eru ónæmisstillandi og vinna gegn of hárri líkamsþyngd og sykursýki. Rannsóknir hafa líka sýnt að lífvirk peptíð upprunin úr fiski eru sterkari og virkari en úr öðrum uppruna s.s. mjólk og soja.

Matís á og rekur próteinvinnslufyrirtækið Iceprótein ehf á Sauðárkróki, en það þróar, framleiðir og mun selja blautprótein fyrir fiskiðnað á Íslandi og þurrkuð prótein fyrir heilsu- og fæðubótarmarkaðinn.  Sigrún segir að meistaraverkefni hennar snúist að stórum hluta um að finna nýjar leiðir til að nýta það fiskprótein sem Iceprótein vinnur úr, í sem mest verðmæti.
Meðal annars sé stefnt að því að framleiða lífvirk peptíð með ensímtækni úr efniviði sem fæst úr Iceprótein á þann hátt að þau séu heppileg sem íblöndunarefni í heilsufæði. Að sögn Sigrúnar er svo framtíðardraumurinn að vinna grunn í t.d. heilsudrykk, blanda þessum lífvirku peptíðum í og setja á markað. Einnig að búa til alls kyns annars konar heilsufæði sem inniheldur þessi peptíð – eins konar vörulína.

Lesa skýrsluna

Fréttir

Íslenskur fiskur mjög lítið mengaður – jákvæðar niðurstöður skýrslu

Út er komin skýrsla frá Matís ohf. sem ber heitið Undesirable substances in seafood products – results from the monitoring activities in 2006. Skýrslan sýnir niðurstöður mælinga á magni eitraðra mengunarefna í íslenskum sjávarafurðum á árinu 2006 og er hluti af sívirku vöktunarverkefni sem styrkt er af sjávarútvegsráðuneytinu og hefur verið í gangi frá árinu 2003. Líkt og fyrri ár vöktunarinnar sýna niðurstöður ársins 2006 að ætilegur hluti fisks sem veiddur er á Íslandsmiðum inniheldur mjög lítið magn af lífrænum mengunarefnum eins og díoxíni, díoxínlíkum PCB efnum og varnarefnum (skordýraeitri og plöntueitri), samanborið við þau hámörk sem Evrópulöndin hafa viðurkennt.

Gögnin sem safnað er ár frá ári í þessu verkefni fara í að byggja upp sífellt nákvæmari gagnagrunn um ástand íslenskra sjávarafurða m.t.t. mengunarefna. Skýrslan er á ensku og er aðgengileg á vef Matís þannig að hún nýtist framleiðendum, útflytjendum, stjórnvöldum og öðrum við kynningu á öryggi og heilnæmi íslenskra fiskafurða.

Í þessari skýrslu er ítarlegri úttekt á þungmálmum og fjölda annarra ólífrænna snefilefna í ætilegum hluta fisks en áður hefur verið gerð hér á landi, en Matís hefur komið sér upp fullkomnari tækjabúnaði til slíkra mælinga en áður var. Með þessum tækjabúnaði, s.k. ICP-MS er á tiltölulega einfaldan hátt hægt að greina mikinn fjölda ólífrænna snefilefna með meiri nákvæmni en áður. Niðurstöður mælinga á þungmálmum sýna að ætilegur hluti fisksins var ávalt langt undir leyfilegum hámörkum Evrópusambandsins fyrir blý, kvikasilfur og kadmíum. Niðurstöður mælinga á þeim ólífrænu efnum sem flokkast sem nauðsynleg snefilefni í fæðu manna verða notaðar í næringarefnagagnagrunn Matís, ISGEM sem aðgegnilegur er á vef Matís, en einnig til að meta gildi fiskafurða sem uppsprettu slíkra efna í fæðu Íslendinga. Líkt og fyrri ár vöktunarinnar sýna niðurstöður ársins 2006 að ætilegur hluti fisks sem veiddur er á Íslandsmiðum inniheldur mjög lítið magn af lífrænum mengunarefnum eins og díoxíni, díoxínlíkum PCB efnum og varnarefnum (skordýraeitri og plöntueitri), samanborið við þau hámörk sem Evrópulöndin hafa viðurkennt.

Niðurstöður mælinga á fiskimjöli og lýsi til fóðurgerðar staðfesta nauðsyn þess að fylgjast vel með magni þrávirkra lífrænna efna eins og díoxína, PCB efna og varnarefna í þessum afurðum á vorin. Styrkur efnanna er háður næringarlegu ástandi uppsjávarfiskistofnanna sem afurðirnar eru unnar úr og nær hámarki á hrygningartíma.  Þá hættir magni díoxína og díoxín-líkra PCB efna auk einstakra varnarefna til þess að fara yfir leyfileg mörk Evrópusambandsins.  Þetta á sérstaklega við um afurðir unnar úr kolmunna sem kemur frá hafsvæðinu vestan og norðan við Skotland.

Höfundur skýrslunnar er Ásta Margrét Ásmundsdóttir, verkefnastjóri.

Lesa skýrsluna

Fréttir

Náttúruleg ensím og andoxunarefni unnin úr fiskslógi og -hryggjum

Á Líftæknisviði Matís er nú unnið að verkefni sem miðar að því að þróa og rannsaka mismunandi nýjar próteasablöndur úr þorskslógi í þeim tilgangi að nota blöndurnar til framleiðslu á hydrolýsötum (niðurbrotnum próteinum) og peptíðum úr fiski með mjög mikla andoxunarvirkni. Forrannsóknir hafa sýnt fram á að ensímblöndur úr þorskslógi geta framleitt peptíð með mjög mikla andoxunarvirkni, mun meiri en peptíð fengin úr niðurbroti annarra algengra ensímblandna sem hafa verið kannaðar.

Með því að stilla af styrk og virkni lykilensíma í próteasablöndunni sem unnin er úr slógi er markmiðið að hægt sé að stýra framleiðslunni á hydrolýsötum og peptíðum til að framleiða náttúrulegar afurðir með mjög mikla sértæka andoxunarvirkni. Þessar afurðir yrðu unnar úr protein isolati einangruðu úr vannýttu hráefni (hryggjum).

Framtíðarsýnin er að í lok þessa verkefnis muni hefjast framleiðsla á stórum skala og sala á mismunandi einstökum iðnaðarensímblöndum unnum úr þorskslógi sem yrðu sérstaklega markaðsett til framleiðslu á lífvirkum peptíðum. Einnig er séð fram á að fyrirtæki í próteinvinnslu hér á landi komi til með að nýta sér þessi einstöku ensím til framleiðslu á náttúrulegum andoxunarefnum bæði til nota í matvælum en einnig markaðsetja þau sem heilsusamleg fæðubótarefni með vísindalega staðfesta virkni.

Samstarfsaðilar Matís – Prokaria í rannsókninni eru Norðurbragð hf., MPF Ísland, Iceprotein, University of Florida og stjórnandi rannsóknarinnar er dr. Hörður G. Kristinsson, deildarstjóri Lífefnadeildar Líftæknisviðs Matís – Prokaria.

Fréttir

Framleiðsla hjóldýra fyrir þorskeldi – Matís tekur þátt í sam-norrænu verkefni

Matís er þátttakandi í verkefninu “Framleiðsla hjóldýra fyrir þorskeldi” sem nú er hafið og hefur að markmiði að stuðla að öruggri, stöðugri og hagkvæmri framleiðslu fæðudýra fyrir þorsk í eldi. Markmið verkefnisins er jafnframt að efla samstarf þorskseiðaframleiðenda á Norð-urlöndunum.

Markmið þessa verkefnis er sem fyrr segir þróun framleiðslukerfis sem stuðlar að öruggri, stöðugri og hagkvæmri framleiðslu fæðudýra fyrir þorsk í eldi. Settar verða saman leiðbeiningar um framleiðslu og fóðrun sem skilar hjóldýrum af hámarksgæðum m.t.t. samsetningar næringarefna og örveruflóru. Sintef hefur þróað endurtnýtingarkerfi fyrir framleiðslu hjóldýra og verður í verkefninu byggt áfram á því kerfi (Aquatic Ecosystem Resirkulerings-anlegg). Vonir standa til að verkefnið muni að efla samstarf þorskseiðaframleiðenda á Norðurlöndunum í bráð og lengd, en auk Matís koma að verkefninu SINTEF (Noregur), Fiskaaling
(Færeyjar), IceCod (Ísland), Stofnfiskur (Ísland) og Nordland Marin Yngel (Noregur).

Í verkefnahópnum eru Rannveig Björnsdóttir, Jónína Jóhannsdóttir og Eydís Elva Þórarinsdóttir. Verkefnisstjóri er Gunvor Öie hjá SINTEF.

Nánari upplýsingar veitir Rannveig Björnsdóttir, deildarstjóri hjá Matís, í síma 422 5108.

Fréttir

Tilkynning frá Matís ohf.

Matís ohf barst í gær tilkynning frá vefumsjónaraðila sínum, Hugsmiðjunni hf., um að óprúttnir erlendir aðilar hefðu brotist inn á vefsvæði fyrirtækisins. Tilgangurinn var að nýta póstþjón vefsins til að senda vafasöm skeyti á grunlausa viðtakendur. Ekki liggur fyrir hve mörg skeyti voru send út með þessum hætti í nafni Matís, né heldur hvort viðtakendur eru hérlendis eða erlendis. Hugsmiðjunni tókst hinsvegar fljótt að loka fyrir þessa ólöglegu iðju og slökkti strax á póstþjóni Matísvefsins.

Að þessu tilefni vill Matís biðjast velvirðingar hafi einhverjir viðskiptavina fyrirtækisins hérlendis fengið óvelkomin tölvupóstskeyti þar sem sendandi er skráður matis@matis.is, jafnvel með sóðalegu innihaldi. Matís þykir það miður en vonar jafnframt að viðkomandi hafi áttað sig á hvers kyns var, enda efni sendinganna víðsfjarri öllu sem Matís stendur fyrir.

Gripið hefur verið til ráðstafana í samstarfi við Hugsmiðjuna til að fyrirbyggja að slíkt geti gerst aftur, og Matís kann hinu viðbragðsfljóta vefþjónustufyrirtæki sínu bestu þakkir við snör handtök þegar á reyndi.

Fréttir

NORÐURKVÍ – nýtt rannsóknarverkefni hjá Matís

Mikil tjón hafa hlotist á eldisbúnaði, einkum sjókvíum, sökum erfiðra umhverfisaðstæðna við Ísland. Í því ljósi er verkefninu NORÐURKVÍ hrundið af stað með það að markmiði að hanna og smíða sjókvíar sem uppfylla ýtrustu kröfur um styrk og þol fyrir íslenskar aðstæður.

Í verkefninu, sem unnið er í samstarfi við Náttúrustofu Vestfjarða, SINTEF Fiskeri og havbruk, Hafrannsóknastofnun, Veðurstofu Íslands og Hraðfrystihúsið Gunnvöru, verða eftirfarandi atriði höfð að leiðarljósi:

  1. Tekin verða saman gögn um séríslenskar umhverfisaðstæður
    sem taka þarf tillit til við hönnun á sjókvíum fyrir íslenskar aðstæður.
  2. Kannað hvort kvíalausnir, sem nú eru á markaði, henta við umhverfisaðstæður hér á landi.
  3. Þróa, ef þörf er á, núverandi kvíalausnir að þeim aðstæðum sem hér eru.
  4. Prófa þær lausnir sem finnast í verkefninu við raunverulegar aðstæður á Íslandi með tilliti til áhrifa þeirra á fiskinn sem í þeim er alinn og hvernig þær henta sem vinnustaður.

Hér er á ferðinni rannsókn sem skila mun niðurstöðum sem nýtast mun öllum þeim aðilum sem starfa að sjókvíaeldi hér við land.

Verkefnisstjóri er Jón Árnason.

Fréttir

Markáætlun um öndvegissetur og rannsóknarklasa – Matís þátttakandi í 5 hugmyndum af 10

Þann 24. júní sl. tilkynnti Rannís (Rannsóknamiðstöð Íslands) um þær tíu hugmyndir sem fá styrk úr markáætlun um öndvegssetur og rannsóknaklasa til að skila fullbúinni umsókn í október næstkomandi, og er Matís ohf. þátttakandi í fimm þeirra.

Hugmyndirnar fimm sem um ræðir eru eftirfarandi:

#5 Rannsóknasetur vitvéla

#7 Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á náttúru og samfélag

#21 Næring í nýsköpun

#29 Lífvirk efni frá láði og legi

#73 Öndvegissetur í fiskeldi 2009-2015 – sjálfbær nýting auðlinda lands og sjávar

Markáætlunin var auglýst í apríl síðastliðnum og var beðið um hugmyndir að öndvegissetrum og rannsóknaklösum á þeim sviðum sem fjallað er um í ályktun Vísinda- og tækniráðs frá því í desember 2007. Alls bárust 82 hugmyndir.

Starfshópur á vegum Vísinda- og tækniráðs valdi tíu hugmyndir og tók mið af stefnu ráðsins og þeim viðmiðunum sem nefnd eru í lýsingu á markáætluninni. Lokaniðurstaða var samþykkt á fundi vísindanefndar og tækninefndar 24. júní síðastliðinn.

Eins og fram kemur í lýsingu á markáætluninni er eitt aðalmarkmið hennar að styrkja tengsl milli háskóla, stofnana, fyrirtækja og stjórnvalda á viðkomandi sviði, innanlands sem utan.

Alls tók Matís ohf. þátt í 16 af þeim 82 hugmyndum sem bárust Rannís í vor, eða 20%. Nú þegar Matís tekur þátt í fimm af þeim tíu hugmyndum sem fá framgang hefur hlutfallið hækkað í 50%.

Fréttir

Skyndibitinn á Höfn er humarsúpa!

Skyndibitastaðurinn Kokkur á Höfn í Hornafirði hefur hafið sölu á humarsúpu í gegnum bílalúgu. Um er að ræða sælkerahumarsúpu sem unnin er úr staðbundnu hráefni. Humarsúpa Kokksins er sprottin upp úr samstarfi við Matís og Kokkurinn hefur m.a. notið aðstoðar matvælahönnuða og matvælafræðinga sem starfa á vegum Matís til að gera hugmyndina að humarsúpusölu í gegnum bílalúgu að veruleika.

Upplifun
Það er óneitanlega sérstök og sterk upplifun að kaupa jafn glæsilega vöru og sælkerahumarsúpu í bílalúgu á skyndibitastað. Til að auka enn á hughrifin er súpan framreidd í fallegum endurvinnanlegum umbúðum og með henni fylgir servíetta sem vísar til hins eina sanna rauðköflótta lautarferðadúks. Tréspjót með nýgrilluðum humri fylgir með súpunni.


Úrvalshráefni
Vörumerki Humarsúpunnar er skjaldarmerki, sem vísar til gæða vörunnar og þess að hún er frá höfuðstað humarsins á Íslandi. Í súpunni er eingöngu úrvalshráefni en undirstaðan er auðvitað hornfirskur humar.
Eldað hægt – Lykilatriði í humarsúpugerðinni er natni. Ekki minna en fullur vinnudagur fer í humarsúpugerðina þar sem hið eina sanna humarbragð er galdrað fram með hægri suðu í langan tíma undir ströngu eftirliti faglærðra matreiðslumanna.

 
Matarmenning
Humarsúpa Kokksins er einstakur hágæðaskyndibiti sem hefur sterka vísun í upprunann og umhverfið en er um leið sælkeravara á alþjóðlega vísu.  Með vörunni er leitast við að kynna hina sterku humarhefð svæðisins.  Þannig er hægt að upplifa sælkerasúpu sem myndi sóma sér á hvaða veitingastað sem er, á fljótlegan, ódýran og nýstárlegan hátt.


Samstarf Matís og Kokksins
Humarsúpa Kokksins er sprottin upp úr samstarfi við Matís sem selur heildstæða ráðgjöf og aðgang að vöruþróunaraðstöðu til að umbreyta hugmyndum yfir í gæðamatvæli.  Kokkurinn hefur m.a. notið aðstoðar matvælahönnuða og matvælafræðinga sem starfa á vegum Matís til að gera hugmyndina að humarsúpusölu í gegnum bílalúgu að veruleika. 

 
Saga Kokksins
Bræðurnir Jón Sölvi og Valgeir, opnuðu skyndibitastaðinn Kokkur með stæl í nóvember 2007 en þar eru allar vörur afgreiddar í gegnum bílalúgu.  Það má segja að hugtakið „skyndibiti“ hafi við þetta öðlast nýja og innblásna merkingu en Jón Sölvi er þrautreyndur listakokkur sem hafði fram að þessu starfað við fínustu veitingastaði landsins. Að opna lítinn stað eins og Kokkur lýsir hugarfari Jóns fullkomlega.  Það er ekki stærðin heldur gæðin og frumleikinn sem skipta máli í hans huga.

Á myndinni sést er Guðumundur H. Gunnarsson, deildarstjóri Matís á Höfn, fær sér humarsúpu “beint í bílinn.”

Frekari upplýsingar um verkefnið veita:
Valgeir Ólafsson (Annar eigandi Kokksins):  899-4430 , valgeir@ogsvo.is
Brynhildur Pálsdóttir (matarhönnuður): 849-9764, brynhildur.palsdottir@matis.is
Guðmundur Gunnarsson (deildarstjóri hjá Matís): 858-5046, ghg@matis.is

Fréttir

Matís og Veiðimálastofnun í samstarf: rannsóknir á erfðafræði íslenskra laxfiska

Matís Ohf og Veiðimálastofnun undirrituðu í gær, fimmtudaginn 3. júlí, rammasamning um eflingu samstarfs milli fyrirtækjanna. Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra staðfesti samninginn af því tilefni. Undirritunin fór fram í húsnæði Matís-Prokaria, líftæknisviðs Matís, að Gylfaflöt 5 í Grafarvogi. Samstarf Matís og Veiðimálastofnunar verður einkum á sviði erfðarannsókna og í fiskeldi.

Matís–Prokaria sýndi við sama tækifæri nýja raðgreiningarvél en tækið getur raðgreint mikið magn erfðaefnis, t.d. fyrir stofnerfðagreiningar og við leit að áhugaverðum genum fyrir ný ensím sem meðal annars má nota í lyfja-, matvæla- og orkuiðnaði.

Samvinnan er þegar hafin og í gangi er viðamikil rannsókn á stofnbreytileika íslenskra laxa og ferðir þeirra í hafinu umhverfis Ísland. Þetta er hluti af alþjóðlegu rannsóknaverkefni á Atlantshafslaxi. Fyrstu niðurstöður benda til mikils breytileika á laxastofnum í ánum í kringum landið. Markmið vísindamanna er að geta svarað ýmsum spurningum með því að geta rakið uppruna laxa í Atlantshafinu til upprunaár eða árkefis. Þetta er mjög metnaðarfullt markmið þar sem hvert land þarf að vinna mikla vinnu bæði í sýnasöfnun og erfðagreiningum. Íslendingar virðast komnir einna lengst með vinnu á þessu sviði og er nú stefnt að næsta skrefi rannsóknarinnar sem tengist sjógöngulaxinum. Þar er stefnt að samvinnu við fiskveiðiflotann um að safna sýnum úr laxi sem slæðist með í veiðiafla skipanna..

Mikil hnignun hefur átt sér stað í flestum stofnum Atlantshafslaxins og er hann víða á válista yfir tegund í útrýmingarhættu. Mjög lítið er vitað um sjógöngur laxa og hafa rannsóknir byggt annars vegar á hefðbundnum merkingum og rannsóknum á skipum á hafi úti. Auk þess hafa nýlegar verið hafnar rannsóknir með rafeindamerkjum hér á landi. Þessar rannsóknir sem nú er verið að kynna renna sterkari stoðum undir þekkingu manna á þessu sviði. Samvinna fyrirtækjanna kemur til með að auka þekkingu á erfða- og vistfræði laxfiska. Sú þekking nýtist síðan í frekari rannsóknum á nýtingu og verndun stofnanna landi og þjóð til hagsbóta.

Veiðimálastofnun hefur stundað stofnerfðarannsóknir á ferskvatnsfiskum og Matís stundað rannsóknir og hagnýtingu á erfðaauðlindum náttúrunnar og hefur byggt upp mikla þekkingu og færni í erfðagreiningu á alls kyns lífverum úr umhverfinu. Veiðimálastofnun og Matís munu standa að nánu samstarfi um rannsóknir. Þessar rannsóknir spanna grunn- og hagnýtar rannsóknir í náttúru- og erfðafræði með sérstaka áherslu á stofnerfðafræði lax, urriða og bleikju. Slíkar rannsóknir nýtast við veiðistjórnun og við uppbyggingu í fiskrækt og fiskeldi.

Matís ohf er hlutafélag í eigu ríkisins, sem hefur það markmið að efla alþjóðlega samkeppnishæfni og þróun íslenskrar matvælaframleiðslu, stuðla að hollustu og öryggi matvæla og styðja við vísindastarfsemi háskólastofnana, nýsköpun og sprotafyrirtæki, auk þess að sinna samfélagslegum skyldum gagnvart einstökum atvinnugreinum.
 
Veiðimálastofnun er rannsókna- og þjónustustofnun. Hlutverk Veiðimálastofnunar er að rannsaka lífríki í ám og vötnum, rannsaka fiskistofna í ferskvatni, veita ráðgjöf um veiðinýtingu og um lífríki og umhverfi áa og vatna t.d. í tengslum við mannvirkjagerð og halda gagnagrunn um náttúrufar í fersku vatni.

Myndin var tekin við undirritun samningsins.

Fréttir

Viltu læra af fremsta vísindafólkinu? – Matís ohf býður áhugasömum nemenda í efnafræði eða lífefnfræði styrk til mastersnáms (MSc)!

Efnarannsóknardeild Matís ohf býður áhugasömum nemenda í efnafræði eða lífefnfræði styrk til mastersnáms (MSc) á sviði snefilefnagreininga
Titill verkefnis er Greining eitraðra og hættulausra efnaforma arsens í fiskimjöli með HPLC-ICP-MS

Stutt lýsing á verkefninu
Í lífríkinu er mikið til af efninu Arsen í lífrænum efnasamböndum sem og á ólífrænu formi og hafa fundist meira en 50 náttúruleg efnaform af arseni. Sjávarfang inniheldur frá náttúrunnar hendi háan styrk heildararsens miðað við t.d. landbúnaðarafurðir. Stærsti hluti arsens í sjávarfangi er hins vegar bundið á lífrænu formi sem kallast arsenobetaníð, sem er mönnum og dýrum með öllu hættulaust. Eins og í landbúnaðarafurðum koma önnur form arsens fyrir í sjávarafurðum, s.s. ólífrænt arsen (arsenít og arsenat), metýlarsensambönd (mónó, dí, trí og tetra), sem eru mjög eitruð og þar með hættuleg heilsu manna.

Formgreining arsens í sjávarfangi er mikilvæg vegna þess að upptaka (bioavailability) og eiturvirkni arsens er mjög háð því á hvaða efnaformi það er. Engu að síður taka núverandi reglugerðir um innihaldsmörk arsens í matvælum og fóðri einungis tillit til heildar arsens í fæðu/fóðurþáttum en miðast ekki við eitrað efnaform arsens. Rannsóknir á efnaformum arsens og formbreytingum þessara efna eru mikilvægar til þess að skilja hve mikil hætta okkur stafar af arseni í sjávarfangi.

Markmið
Markmið þessa rannsóknarverkefnis er að þróa efnagreiningaraðferðir sem geta greint bæði eitruð og hættulaus efnaform arsens í fiskimjöli en ekki bara heildarmagn arsens eins og gert er í dag. Notaður verður HPLC-ICP-MS efnagreiningarbúnaður til greiningar á nýjum og þekktum arsenformum í fiskimjöli.

Þetta verkefni hlaut nýverið styrk úr rannsóknasjóði AVS og verður unnið í samstarfi við Síldarvinnslan hf. og Vinnslustöðin hf auk þess sem fleiri framleiðendur fiskimjöls koma að verkefninu.

Staðsetning
Matís & HÍ. Einnig er möguleiki er á að hluti námsins fari fram við erlenda háskóla og rannsóknarstofnanir sem Matís er í samstarfi við.

Leiðbeinandi hjá Matís er Dr Sasan Rabieh er sérfræðingur á þessu sviði og leiðir uppbygginguna á þessu nýja rannsóknarsviði hjá Matís. Í þessari uppbyggingu felst m.a. stuðningur við nemenda til mastersnáms á þessu sviði. Möguleiki er
á að hluti námsins fari fram við erlenda háskóla og rannsóknarstofnanir.

Tengiliður
Áhugasömum er bent á að hafa samband í síma 422 5112, sasan@matis.is eða helgag@matis.is

IS