Fréttir

Málþing vegna 10 ára afmæli sjávarútvegsskóla SÞ

Komdu og taktu þátt í ráðstefnu á vegum Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem haldin verður á Hótel Loftleiðum, dagana 24. og 25. október.

Sjávarútvegsskólinn fagnar um þessar mundir 10 ára starfsafmæli. Af því tilefni efnir skólinn til ráðstefnu um sjálfbærni sjávarútvegs, eða „Sustainble Fisheries“, sem vonast er til að styrki undirstöður kennslunnar við skólann. Að morgni fyrri dagsins (24.) munu erlendir gestafyrirlesarar flytja lykilerindi um helstu þætti er varðar framtíð sjávarútvegs og fiskiðnaðar í heiminum og að morgni 25. október verða 3 málstofur um eftirfarandi (sjá dagskrána hér):

1. Fiskveiðistjórnun og mat á fiskistofnum

2. Viðskipti með fisk og fiskafurðir og gæðastjórunu í fiskiðnaði

3. Veiðar og fiskeldi

Staður: Hótel Loftleiðir
Tími: 24. og 25 október.
Ráðstefnugjald: ekkert

Sjá heimsíðu ráðstefnunnar: www.unuftp.is/conference

Fréttir

Matvæladagur MNÍ: Matís með erindi

Matvæladagur Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands var haldin fimmtudaginn 16. október. 2008. Efni dagsins var Íslenskar matarhefðir og héraðskrásir. Á ráðstefnunni töluðu íslenskir fyrirlesarar og sænskur fyrirlesari frá Háskólanum í Örebro. Ráðstefnan stóð frá kl. 13:00-17:00 og var haldin í Iðnó. Ráðstefnustjóri var Gísli Einarsson fréttamaður. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Einar K. Guðfinnsson setti ráðstefnuna.

Guðmundur H. Gunnarsson deildarstjóri nýsköpunar matvæla hjá Matís flutti erindi um vöruþróun úr staðbundnum matvælum. Fyrirlesturinn má nálgast hér.

Auk þess að skrifuðu all margir starfsmenn Matís greinar í blað Matvæladags, Matur er mannsins megin. Nálgast má blaðið hér.

Fréttir

Matís rannsakar efnaform arsens í fiskimjöli og fóðurlýsi

Arsen er bæði vel þekkt eiturefni og krabbameinsvaldandi efni og er því efst á lista “Agency for Toxic Substances and Disease Registry” í Bandaríkjunum yfir hættuleg efni. Formgreining arsens í matvælum og öðrum lífrænum sýnum er mikilvæg vegna þess að upptaka (bioavailability) og eiturvirkni arsens er mjög háð því á hvaða efnaformi það er.

Sum efnafrom arsens eins og t.d. metýlerað þrígilt arsen er mjög eitrað á meðan arsenobetaníð er hættulaust. Engu að síður taka núverandi reglugerðir um innihaldsmörk arsens í matvælum og fóðri einungis tillit til heildar arsens í fæðu/fóðurþáttum en miðast ekki við eitrað efnaform arsens. Rannsóknir á efnaformum arsens og formbreytingum þessara efna eru mikilvægar til þess að skilja hve mikil hætta okkur stafar af arsenic í fæðu.

Í lífríkinu er mikið til af efninu arseni í lífrænum efnasamböndum sem og á ólífrænu formi og hafa fundist meira en 50 náttúruleg efnaform af arseni. Sjávarfang inniheldur frá náttúrunnar hendi háan styrk heildararsens miðað við t.d. landbúnaðarafurðir. Fram til þessa hafa verið til takmarkaðar upplýsingar um mismunandi efnaform arsens í t.d. fiskimjöli og fóðurlýsi. Matís hefur tekið þátt í að rannsaka mismunandi efnaform arsens í fóðurlýsi sem unnið var úr þorski og loðnu og hafa niðurstöður þessara rannsókna nýlega verið birtar í tveimur vísindagreinum í ritrýndum tímaritum.

Rannsóknir á efnaformum arsens eru mjög mikilvægar til þess að afla gagna um hvaða efnaform arsens og í hvaða magni þau eru til staðar í t.d. fiskimjöli og fóðurlýsi. Síðan er er hægt að nýta þessi gögn sem grundvöll fyrir endurskoðun á lögum og reglugerðum um mörk arsens í viðkomandi sjávarfangi. Haldið verður áfram að vinna að rannsóknum á þessu rannsóknarsviði hjá Matís og hlaut Matís m.a. styrk frá AVS árið 2008 til að greina eitruð og hættulaus efnaforma arsens í fiskimjöli.

Nánari upplýsingar um niðurstöður ofangreindra rannsókna Matís má finna í Chemical Communication, 39, 2008 og Angewandte Chemie, 47, 2008.

Fréttir

Matís með formennsku í European Sensory Network (ESN)

Emilía Martinsdóttir, deildarstjóri á Vinnslu- og vöruþróunarsviði er nú formaður í European Sensory Network (ESN) sem eru alþjóðleg samtók rannsóknastofnana og fyrirtækja á sviði skynmats og neytendarannsókna.

Í ESN eru 23 þátttakendur frá 16 Evrópulöndum, en einnig eru fjórir aðilar utan Evrópu í samtökunum: frá Kanada, Suður-Afríku, Ástralíu og Ísrael.
Þessi alþjóðlegu samtök voru upphaflega stofnuð sem vettvangur fyrir umræður og samvinnu meðal bestu rannsóknafyrirtækja í hverju landi og er ætlað að tryggja matvælaiðnaði í hverju landi aðgengilegar og örugggar aðferðir við skynmat. Þáttakendur eru allir með mikla reynslu á þessu sviði.

Fundur var haldinn í European Sensory Netwok í byrjun október í Kaupmannahöfn. Fundurinn var fjölsóttur því að auk þátttakenda í ESN voru fulltrúar 15 matvælafyrirtækja sem boði hefur verið að taka beinan þátt í ESN samstarfi (ESN-Industry Network Partnerships).

Fyrirtækin munu leggja fram fjármagn í ákveðin rannsóknaverkefni sem þau geta sameinast um og verða rannsóknaverkefnin unnin af tveimur eða fleiri ESN-þáttakendum hverju sinni. Ný rannsóknaverkefni verða síðan valin árlega. Þessi ESN iðnaðarvettvangur mun auka samskipti einstakra aðila ESN við matvælaiðnaðinn.

Erlendu matvælafyrirtækin sem nú hafa skrifað undir samning um þátttöku í ESN eru eftirfarandi Givaudan, Kraft Foods, Symrise, Firmenich, Nestlé, Unilever, Friesland Foods,  Danone, Heineken, GlaxoSmithKlene, General Mills, Tetra Pak, Philip Morris og  Danisco.

Nánarí upplýsingar má fá á heimasíðu ESN, www.esn-network.com/, og hjá Emilíu, emilia.martinsdottir@matis.is.

Fréttir

Efling staðbundinnar matvælaframleiðslu – Grein eftir starfsmann Matís í tengslum við Matvæladag MNÍ

Efling staðbundinna matvæla miðar að því að byggja upp staðbundið og sjálfbært matvælahagkerfi. Þetta felur í sér matvælaframleiðslu, vinnslu, dreifingu og neyslu. Talið er að þróun staðbundinna matvæla muni efla viðkomandi staði eða svæði efnahagslega, umhverfislega og félagslega. Þá gefa þau tækifæri á nánari tengingu milli framleiðenda og neytenda.

Breytilegt er hvaða skilning menn leggja í hugtakið staðbundin matvæli. Yfirleitt felur þó skilgreiningin í sér þá hugmyndfræði að matvæli séu af betri gæðum og bragðist betur vegna þess að þau séu ferskari og á „besta aldri” þegar þau komast í hendur neytenda. Þá nota framleiðendur síður efni eða aðrar aðferðir til að auka geymsluþol þeirra, þar sem þessar vörur þurfa að ferðast skemur en hefðbundnar vörur sem fást í verslunum. Annað markmið staðbundinna matvæla er að varðveita og endurvekja staðbundnar matarhefðir, stuðla að ræktun fjölbreyttra nytjaplantna til að draga úr notkun varnarefna, áburðar og myndun úrgangs. Þetta mun einnig efla staðbundin hagkerfi með því að styrkja lítil bændabýli, staðbundin störf og verslanir.

Matarferðamennska er oft tengd við borgarferðir, háklassa veitingahús og svo kölluð „matarlönd”. Það er því nokkur áskorun að koma á fót matarferðamennsku í dreifbýli Íslands. Á undanförnum árum hafa nokkur samtök verið stofnuð til að stuðla að framleiðslu og framboði á staðbundnum matvælum, bæði á landinu öllu og svæðisbundið.

Á landinu eru þrenn megin samtök; Beint frá býli, Lifandi landbúnaður og Matur-Saga-Menning sem hafa öll það að markmiði að örva matarmenningu á Íslandi meðal annars með því að efla framleiðslu matvæla úr staðbundnu hráefni og stuðla að varðveislu hefðbundinna framleiðsluaðferða og matargerðalistar. Þá hefur verið þónokkur vakning á undanförnum árum meðal hráefnisframleiðenda og ferðaþjónustuaðila á Íslandi, um mikilvægi matvæla í upplifun ferðamanna og þá virðisaukningu sem fæst með vinnslu og sölu hráefnis í héraði. Hagsmunaðilar á mörgum svæðum hafa efnt til samstarfs til að vinna sameiginlega að skilgreiningu og uppbyggingu á matarferðamennsku og til að styðja við framleiðslu á staðbundum matvælum. Dæmi um slíkt samstarf eru Matur úr héraði, Matarkistan Skagafjörður, Þingeyska matarbúrið, Austurlamb, Suðurland bragðast best og Ríki Vatnajökuls. Á Vesturlandi og Vestfjörðum er einnig hafinn undirbúningur að slíku samstarfi. Í dag er því net, og uppbygging þekkingar varðandi tækifæri í matarferðamennsku, orðið nokkuð þéttriðið. Auk þess stuðnings, sem slíkt samstarf veitir, er nú unnið að uppbyggingu á alhliða vöruþróunarhóteli á Hornafirði. Með þessu er markvisst reynt að hvetja til nýsköpunar í smáframleiðslu matvæla á landinu.

Þóra Valsdóttir matvælafræðingur, verkefnastjóri hjá Matís.

Greinin birtist í Fréttablaðinu þann 2. október sl.

Fréttir

Sýnendur Íslensku Sjávarútvegssýningarinnar verðlaunaðir: Matís í samstarfi við verðlaunahafa

Sjávarútvegssýningin 2008 fór fram í Fífunni í Kópavogi 2.-4. október sl. Eins og venja er þá voru veitt verðlaun fyrir sýningarbása og voru þau verðlaun veitt á sérstakri sýningarhátíð sem haldin var 3. október í boði Eimskip og Landsbankans.

Ennfremur voru veitt verðlaun fyrir bestu nýjung sýningarinnar og hlaut Trackwell þar verðlaun fyrir SeaData upplýsingakerfið en Matís hefur verið Trackwell innan handar í því verkefni í tengslum við annað athyglisvert verkefni, FisHmark.

Matís óskar Trackwell til hamingju með þessi góðu verðlaun.

Fréttir

Sjávarútvegssýningin 2008: mikill áhugi á sýningarbás Matís

Sjávarútvegssýningin 2008 fór fram í Fífunni í Kópavogi 2.-4. október sl. Mjög mikil ásókn var að sýningunni og virðist sem hver sýning sé stærri en sú sem á undan kom. Matís tók þátt nú eins og síðast og var mikil umferð í bás fyrirtækisins. Hápunktarnir voru þegar Ísfélag Vestmannaeyja bauð upp á lifandi kúffisk 3. og 4. október og þegar Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimsótti sýningarsvæði Matís.

Mikil örtröð skapaðist þegar boði var upp á kúffiskinn og féll bragð fisksins vel í geð þeirra sem prófuðu enda mikið lostæti þarna á ferð. Svo mikil var ásóknin að sýnendur buðu mun lengur upp á veigarnar en til stóð í upphafi.

Á myndinni má sjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Sjöfn Sigurgísladóttur, forstjóra Matís, ásamt Siggeiri Stefánssyni, framleiðslustjóra hjá Ísfélaginu, gæða sér á kúfskelinni.

Fréttir

Þorskeldisrannsóknir í Vísindaporti: Matís kynnir rannsóknir

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða, föstudaginn 10. október, mun dr. Þorleifur Ágústsson verkefnastjóri hjá Matís kynna þorskeldisrannsóknir fyrirtækisins á Ísafirði. Megin áhersla rannsóknanna hefur falist í því að hindra ótímabæran kynþroska hjá þorski með ljósastýringu í sjókvíum.

Ótímabær kynþroski veldur því að mjög hægist á vexti þorsks, þyngdartap á sér stað ásamt því að gæði minnka og afföll aukast. Þá hefur Matís unnið að hönnun sjókvía fyrir íslenskar aðstæður, þróað sláturlínu fyrir eldisþorsk og unnið að rannsóknum um samspil erfða og umhverfis á þorsk í eldi. Sértæk rannsóknaraðstaða hefur verið sett upp í Álftafirði til að sinna þessum líffræði- og tæknirannsóknum.

Vísindaportið er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum og hefst stundvíslega kl. 12.10. Þar er fjallað í stuttu máli, 20-30 mínútur, um yfirstandandi rannsóknir eða rannsóknir sem er lokið og svo er orðið gefið laust. Vísindaportið fer fram í kaffisal Háskólaseturs Vestfjarða og eru allir velkomnir.

Fréttir

Fyrirlestur um verkefni til meistaraprófs

Fyrirlestur um verkefni til meistaraprófs í matvælafræði við matvæla- og næringarfræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands verður haldinn mánudaginn 6. október kl. 12:00 í Árnagarði, stofa Á-201, við Háskóla Íslands.

Rannsóknarverkefnið var unnið á Matís ohf í samstarfi við Rannsóknarstofu í næringarfræði við Landspítala – háskólasjúkrahús og Háskóla Íslands ásamt Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Kl. 12:00 Gunnþórunn Einarsdóttir

Viðhorf og fiskneysla ungs fólks:

Bætt ímynd sjávarafurða

Young consumer attitudes and fish consumption:

Improved image of seafood

Gunnþórunn Einarsdóttir útskrifaðist með BS-próf í matvælafræði frá Háskóla Íslands árið 2000. Árið 2005 hóf hún nám til meistaraprófs í matvælafræði við HÍ. 

Markmið verkefnisins var að afla upplýsinga um fiskneyslu ungs fólks og viðhorf þeirra til fisks. Tilgangurinn var að leita leiða sem gætu stuðlað að bættri ímynd sjávarafurða meðal ungs fólks og aukið neyslu þeirra á þessum afurðum í samræmi við næringarfræðilegar ráðleggingar og þannig mögulega haft áhrif á þau sjálf og næstu kynslóð.  

Helstu niðurstöður verkefnisins voru þær að unga fólkið á aldrinum 17 til 26 ára borðaði fisk sem aðalrétt 1,3 sinnum í viku sem er undir ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um að borða eigi fisk tvisvar í viku eða oftar. Foreldrar hafa mest hvetjandi og mótandi áhrif á fiskneyslu unga fólksins. Það að hafa borðað fisk í æsku hefur mikil áhrif á viðhorf unga fólksins til fiskneyslu seinna meir. Óöryggi varðandi meðhöndlun á fiski eins og það að matbúa hann eru letjandi þættir á fiskneysluna. Íhlutun sem fól í sér aukið aðgengi að fiski gegnum skólamötuneyti, opna fræðslufyrirlestra og kynningu á vefnum skilaði betri þekkingu á fisknum og lýsisneyslan jókst um nær helming og meir hjá stúlkum en strákum. Þeim sem ekki voru fyrir fisk fyrir íhlutun geðjaðist betur að honum eftir íhlutun.  

Verkefnið var unnið undir leiðsögn Dr. Ingu Þórsdóttur prófessors í næringarfræði við Háskóla Íslands og Emilíu Martinsdóttur (M.Sc) deildarstjóra hjá Matís ohf. Prófdómari var Dr. Ingibjörg Gunnarsdóttir, dósent í næringarfræði við Háskóla Íslands.

Fréttir

Matís þróar nýja aðferð til að fylgjast með mengun skemmdarbaktería í fiski

Nú nýverið birtist grein í Journal of Environmental Monitoring þar sem fjallað er um niðurstöður rannsóknar vísindamanna hjá Matís. Tilgangur rannsóknarinnar var að þróa aðferð sem gæti komið að liði við innra gæðaeftirlit í fiskvinnslu og tól til ákvörðunartöku við vinnslu hráefnis af mismunandi gæðum.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu fram á möguleikann á því að greina á hraðvirkan hátt skemmdarbakteríuna Pseudomonas í fiski á fljótlegan og öruggan hátt.

Hér er því komið tæki til að fylgjast með mengun skemmdarbaktería í fiski. Rannsóknir á notkun þessarar aðferðar í öðrum matvælum stendur einnig yfir.

IS