Fréttir

Tilkynning um sumarlokun á Rf / IFL closed July 17 – Aug 8.

Vegna sumarleyfa verður skrifstofa Rf í Reykjavík lokuð frá 17. júlí til 8. ágúst. Sjá nánari upplýsingar um bein símanúmer. – Our office in Reykjavik will be closed from July 17. until August 8. This includes our telephone desk. See information below about direct phone numbers.

Þorri starfsfólks Rf verður í sumarfríi síðustu tvær vikurnar í júlí og fyrstu vikuna í ágúst, þar á meðal starfsfólk skrifstofu, sem m.a. sér um að manna skiptiborð og svara fyrirspurnum. Ekki eru þó allir starfsmenn Rf í fríi á umræddu tímabili og er hægt að ná í þá starfsmenn með því að hringja í bein símanúmer viðkomandi.

Efnastofa: 530 8623 eða 530 8624

Örverustofa: 530 8602 eða 530 8607

Snefilefnastofa: 530 8654 eða 530 8659


ENGLISH:
Due to summer vacations our offices in Reykjavik, including our telephone desk, will be closed from July 17. until Aug. 8. It is possible, however, to contact the IFL employees who will not be vacationing during this period directly. Here is our phone directory

Fréttir

Ársskýrsla Rf fyrir árið 2005 komin út

Ársskýrsla Rf 2005, þar sem það helsta úr starfsemi Rf á árinu 2005 er tíundað, er nú komin út og er aðgengileg hér á vefnum sem pdf-skjal. Skjalið er tæplega 6MB að stærð, enda er skýrslan all mikil að vöxtum, tæplega 50 bls.

Eins og margir vita samþykkti Alþingi nú í vor lög sem heimila ríkisstjórninni að stofna hlutafélag, sem nefnist Matvælarannsóknir hf., um rekstur Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti, sbr. samstarfssamning milli Iðntæknistofnunar og Landbúnaðarháskólans, og rannsóknastofu Umhverfisstofnunar. Reiknað er með að Matvælarannsóknir hf hefji starfsemi þ. 1. janúar 2007. Ársskýrsla Rf 2005 er því síðasta eiginlega ársskýrslan sem Rf gefur út undir því nafni.

Á meðal þess sem fram kemur í Ársskýrslunni 2005 er að velta Rf minnkaði ekki á milli áranna 2004-5, þrátt fyrir mun minni sértekjur af þjónustumælingum, en eins og kunnugt er var tekin sú ákvörðun fyrir nokkrum árum að Rf myndi draga sig að mestu leyti út úr samkeppnisrekstri, einkum á sviði þjónustumælinga.  Þetta fól m.a. í sér að þremur þjónustuútibúum Rf var lokað, á Ísafirði, Akureyri og í Vestmannaeyjum.  Starfsemi Rf á þessum stöðum heldur þó áfram með breyttum áherslum, þar sem lögð er áhersla á rannsóknir og nýsköpun.

Ein aðalástæðan fyrir því að Rf hefur haldið sjó, þrátt fyrir þennan samdrátt þjónustumælinga, er að rannsóknatekjur Rf hafa hækkað verulega, bæði innanlendar og erlendar.  Það hefur gerst þrátt fyrir að Rannsóknasjóður, sem áður hét Tæknisjóður, er ekki jafn fús til að styrkja hagnýt rannsóknarverkefni eins og forveri hans gerði áður.   Þá hefur AVS-rannsóknasjóðurinn og Tækniþróunarsjóður haft almennt jákvæð áhrif fyrir rannsóknarstarfsemi og nýsköpun í sjávarútvegi. 

Lesa skýrslu(pdf-skjal 6MB)

Fréttir

Rf aðstoðar við uppbyggingu á Sri Lanka

Nýlega fóru tveir starfsmenn Rf til Sri Lanka á vegum Þróunarsamvinnustofnunar (ICEIDA), Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-FTP) og National Aquatic Resources Research and Development Agency (NARA) á Sri Lanka. Tilgangurinn var að gera úttekt á gæðamálum fiskihafna á Sri Lanka og aðstoða við færa þau mál til betra horfs í tengslum við uppbyggingu eftir náttúruhamfarirnar miklu þ. 26. desember 2004.

Þau Sveinn V. Árnason og Birna Guðbjörnsdóttir, sérfræðingar á Rannsóknarsviði Rf, fóru til Sri Lanka um miðjan maí og dvöldu þar í tvær vikur. Þau eru ekki alveg ókunnug starfi af þessu tagi, enda voru þau í hópi fjögurra starfsmanna Rf sem fór tvisvar til Viet nam fyrir nokkrum árum til að aðstoða þarlenda háskóla við námsefnisgerð á sviði gæðamála í fiskiðnaði.

Sri Lanka: aflinn þveginn í Beruwella

Sem kunnugt er varð mikið tjón á Sri Lanka í náttúruhamförunum árið 2004, bæði mann- og eignatjón. Um helmingur fiskiskipa landsins eyðilögðust, hafnir skemmdust og mörg hundruð þúsund manns, sem atvinnu höfðu haft af fiskveiðum og -vinnslu misstu lífsbjörgina. Það var því mikið í húfi fyrir heimamenn að ná að koma hlutunum í samt horf og helst betra, sem fyrst.

Að sögn Sveins og Birnu felst aðkoma þeirra í verkefninu einkum í gerð námsefnis fyrir hafnarstjóra og aðila í stjórnkerfinu , sem koma að málefnum hafna. Námskeiðið fjallar um ástand gæðamála í fiskihöfnum á Sri Lanka og leiðir til að bæta gæði þess afla sem um hafnirnar fer. Þau heimsóttu m.a. fiskihafnir á Sri Lannka, m.a. í Beruwala fyrir sunnan höfuðborgina Colombo, en þar voru meðfylgjandi myndir teknar.

Sri Lanka: Frá höfninni í Beruwella

Helstu vandamálin eru skortur á hreinu vatni, bæði til notkunar á hafnarsvæðunum og til ísframleiðslu. Einnig er ýmsu ábótavant varðandi hreinlæti og alla umgengni við fiskinn, ísinn og í raun allt svæðið sem fiskurinn fer um innan hafnanna. Að verkefninu koma, auk Birnu og Sveins, Ranjith Edirisinghe, Director,

Post Harvest Division, NARA, Mr. Marcus Mallikage, Ministry of Fisheries og Ms. Induni Kariyawasam (Research Officer), NARA en Marcus var við nám á Íslandi hjá UNU-FTP árið 2001.

Þeir Ranjith og Marcus eru staddir á Íslandi um þessar mundir og viðtali við þá í Morgunblaðinu í dag kemur m.a. fram að um 40% af veiddum afla fari til spillis eftir að hann er veiddur og því brýnt að bæta þætti eins og meðhöndlun og geymslu.

Heimsókn frá Sri Lanka

Á myndinni hér eru: Ranjith Edirisinghe , Birna, Sveinn og Marcus Mallikage.

Fréttir

Neytendakönnun á Rf: heppnir vinningshafar dregnir út

Könnun á viðhorfi ungs fólks til fiskneyslu hófst þann 1. júní sl og lauk í gær, 3 júlí. Könnunin, sem er liður í umfangsmiklu verkefni sem unnið er að á Rf, náði til ungs fólks á aldrinum 18-45 ára og var þátttökutilboð sent til 3500 manna slembiúrtaks fólks úr þjóðskrá á þessum aldri og viðkomandi boðið að taka þátt í viðhorfskönnun um fiskneyslu. Góð þátttaka var í könnuninni, enda glæsilegir vinningar í boði fyrir heppna þátttakendur.

Verkefnið sem hér um ræðir nefnist Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða og hófst árið 2005 og er áætlað að því ljúki árið 2008. Markmið verkefnisins, sem AVS-sjóðurinn styrkir, er að stuðla að aukinni neyslu fisks með neyslukönnunum og kynningarátaki.

Íslendingar hafa lengi verið á meðal mestu fiskneysluþjóða í heimi og tengja það oft langlífi og góðu heilsufari þjóðarinnar almennt, en nú eru ýmsar blikur á lofti í þeim efnum, enda hefur fiskneysla minnkað mikið á fáum árum eða um a.m.k. 30% og mest meðal ungs fólks.

Rannsóknin er samstarfsverkefni Rf, Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, Rannsóknarstofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala Háskólasjúkrahús, fyrirtækisins Icelandic Services og einnig taka nemendur við Háskóla Reykjavíkur þátt í verkefninu.

Í dag voru nöfn vinningshafa í könnuninni dregin út og var niðurstaðan eftirfarandi:

VINNINGAR: Kóði  vinningshafa:
 Icelandair Ferð fyrir tvo til Berlínar með Flugleiðum RCYCQ
 Glitnir 2 x 15.000 kr frá GlitniHHSODLRFWL
 Sjávarkjallarinn Út að borða fyrir 2 á Sjávarkjallaranum KCPUB
Þjóðleikhúsið3 x2  leikhúsmiðar í ÞjóðleikhúsinuDRSCCQCWCDFFUFB
SkólabrúÚt að borða fyrir 2 á SkólabrúJYFHM
Argentina Út að borða fyrir 2 á Argentínu YKGRJ
La PrimaveraÚt að borða í hádeginu fyrir 2 á La PrimaveraQYHGJ

Nánari upplýsingar veitir Gunnþórunn Einarsdóttir í síma 530 8667 / gunna@rf.is

Fréttir

Nýr starfsmaður Rf á Ísafirði: Jón Gunnar Schram

Um mánaðarmótin hóf nýr starfsmaður, Jón Gunnar Schram, störf á Rf. Jón mun starfa á Ísafirði og taka þátt í þeirri uppbyggingu á starfsemi Rf sem þar á sér stað um þessar mundir, sértaklega á sviði fiskeldis.

Jón er menntaður kennari frá Kennaraháskóla Íslands og hefur starfað við kennslu í um áratug, bæði á grunn- og framhaldsskólastigi. Jón hefur bæði kennt úti á landi, m.a. á Kirkjubæjarklaustri og í Reykjavík, nú síðast í Hamraskóla.

Jón lauk M.S. prófi í sjávarútvegsfræðum frá Háskóla Íslands árið 2002.  Hann er kunnuglegt andlit mörgum  þeim sem áhuga hafa á sjávarútveg og fiskeldi hér á landi, enda iðinn við að sækja ráðstefnur á þessu sviði á undanförnum árum.  Rf býður Jón velkominn til starfa. 

Fréttir

Árlegt vöktunarverkefni: Gott ástand lífríkis í hafinu við Ísland

Niðurstöður nýrrar skýrslu úr árlegu vöktunarverkefni, þar sem fylgst er með mengun og ástandi lífríkis sjávar umhverfis Ísland, sýna litlar breytingar frá fyrri árum, t.d. eru lítil merki um að styrkur þungmálma og þrávirkra lífrænna efna færist í vöxt í hafinu umhverfis landið. Þetta má m.a. lesa má úr skýrslunni Monitoring of the Marine Biospheare around Iceland in 2004-2005 sem kom út á Rf í dag.

Í skýrslunni eru birtar niðurstöður árlegs vöktunarverkefnis sem Umhverfisstofnun leiðir og styrkt er af Umhverfisráðuneytinu. Markmið verkefnisins er að uppfylla skuldbindingar Íslands varðandi Oslóar- og Parísarsamninginn (OSPAR), auk AMAP (Artic Monitoring Assessment Program). Í vöktuninni eru mæld ýmis ólífræn snefilefni og klórlífræn efni í þorski og kræklingi, en þessum lífverum var safnað umhverfis landið á árunum 2004 og 2005. Niðurstöður mælinganna sem lýst er í þessum skýrslum eru framhald vöktunarmælinga sem hófust árið 1990.

Sem fyrr mælist styrkur þungmálma í þorski og kræklingi hér við land oftast við eða undir viðmiðunargildum Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES), með undantekningum þó. Þannig mælist kadmín mælist t.d. sem fyrr fremur hátt í lífríki sjávar hér við land, sem virðist eiga sér náttúrulegar jarðfræðilegar skýringar, því ekkert hefur komið fram sem bendir til kadmínmengunar af mannavöldum.

Samanburður við önnur hafsvæði leiðir í ljós að styrkur þrávirkra lífrænna efna í lífríki sjávar við Ísland er með því lægsta sem mælist á nálægum hafsvæðum.

Lesa skýrslu

Nánari upplýsingar veitir Eva Yngvadóttir, efnaverkfræðingur á Rf.

Netfang: eva@rf.is sími: 530 8600.

Fréttir

Þekktur vísindamaður gengur til liðs við Rf

Eins og greint var frá í frétt á vef Rf nýlega í tengslum við fiskeldisráðstefnu á Ísafirði, þá hefur Dr. Björn Þrándur Björnsson, prófessor við háskólann í Gautaborg, verið ráðinn í hlutastarf á Rf. Björn Þrándur er einn helsti sérfræðingur í Evrópu á sviði fiskalífeðlisfræði og og mun hann taka þátt í stefnumótun Rf á þessu sviði.

Björn Þrándur lauk B.S.prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 1974 og Ph.D. prófi í dýralífeðlisfræði frá Gautaborgarháskóla í Svíþjóð árið 1985. Hann stundaði rannsóknir og kennslu vð Lífeðlisfræðistofnun Háskóla Íslands á árunum 1974-78 og rannsóknir við University of California at Berkeley á árunum 1985-87. Björn hefur verið dósent við Gautaborgarháskóla frá árinu 1988.

Fréttir

Doktorsmenntuðu starfsfólki á Rf fjölgar

Í síðustu viku fjölgaði í hópi þeirra starfsmanna Rf sem lokið hafa doktorsprófi, en þá varðiSigrún Guðmundsdóttir, líffræðingur á Rf, doktorsritgerð sína “Listeria monocytogenes, from humans, food and food processing plants in Iceland – Molecular typing, adhesion and virulence testing.”

Doktorsvörnin fór fram 16. júní í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Andmælendur voru dr. Bjarnheiður Guðmundsdóttir frá Háskóla Íslands og dr. Marie-Louise Danielsson-Tham, prófessor við Sveriges lantbruksuniversitet, SLU.

Ritgerð Sigrúnar fjallar um rannsóknir á bakteríunni Listeria monocytogenes í mönnum, matvælum og matvælavinnslum á Íslandi. Gerðar voru úttektir á vinnsluhúsum sem framleiða reyktan lax og soðna rækju og bakterían einangruð. L. monocytogenes – stofnarnir sem einangruðust voru týpugreindir með sameindafræðilegri aðferð sem nefnist pulsed-field gel electrophoresis (PFGE) og þeir bornir saman. Allir L. monocytogenes stofnar sem voru einangraðir úr fólki á árunum 1978-2000 voru einnig týpugreindir og bornir saman stofnana sem einangruðust úr matvælavinnslunum. Auk þess var skoðuð viðloðun og smithæfni valinna stofna.

Rannsóknirnar fóru fram á Rf. Leiðbeinendur Sigrúnar voru Már Kristjánsson smitsjúkdómalæknir og Dr. Karl G. Kristinsson prófessor við Háskóla Íslands. Í doktorsnefnd voru Dr. Ágústa Guðmundsdóttir prófessor við Háskóla Íslands, Dr. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir, Dr. Hjörleifur Einarsson prófessor við Háskólann á Akureyri og Dr. Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins.

Sigrún Guðmundsdóttir fæddist árið 1966. Hún lauk stúdentsprófi frá MR 1986, BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 1991 og MS-prófi frá Heriott-Watt University, Edinborg, Skotlandi árið 1992. Hún hefur starfað sem sérfræðingur á Rf frá árinu 1995 og hóf doktorsnám samhliða starfi sínu þar árið 2000.

Fréttir

Rf stofnar fyrirtæki á sviði erfðagreininga og ensímtækni

Í morgun sendu Rf og Arkea hf, sem er móðurfélag líftæknifyrirtækisins Prokaria, út sameiginlega fréttatilkynningu þar sem fram kemur að þau hafi undirritað samning um að sérstakt fyrirtæki í eigu Rf muni taka yfir erfðagreininga- og ensímsvið Prokaria.

Nýja fyrirtækið, sem heldur nafni Prokaria, mun taka yfir núverandi verkefni, aðstöðu og tækjabúnað Prokaria og ráða til sín starfsmenn þessara sviða. Dr. Jakob K. Kristjánsson, sem verið hefur forstjóri Prokaria mun taka þátt í þessum breytingunum og taka sæti í stjórn hins nýja félags.

Prokaria hefur á undanförnum árum byggt upp öflugar rannsóknir og hagnýtingu á erfðaauðlindum náttúrunnar á sviði erfðagreininga og ensímþróunar. Fyrirtækið er með þróunarsamninga við alþjóðleg stórfyrirtæki í matvælaiðnaði eins og Nestlé og Roquette. Einnig þjónar fyrirtækið fjölmörgum innlendum og erlendum viðskiptavinum í erfðagreiningum á fiski, dýrum og umhverfi. Prokaria hefur verið brautryðjandi hérlendis í þróun og notkun erfðagreininga í fiskeldi og fleiri sviðum.

Arkea hf. verður áfram með rekstur í öðrum dótturfélögum sínum um verkefni á sviði DNA ensíma og próteinframleiðslu úr útblæstri jarðhitaorkuvera. Stefnt er að áframhaldandi góðu samstarfi um þessi og önnur verkefni milli þessara aðila.

Starfsemi Rf hefur þróast mikið á undanförnum árum og framundan eru frekari breytingar á starfseminni. Nýlega voru samþykkt lög á Alþingi um stofnun Matvælarannsókna hf, og verður Rf stór hluti af starfsemi hins nýja fyrirtækis. Í Matvælarannsóknum hf sameinast Rf, Matra, sem er samstarfsverkefni Iðntæknistofnunar og Landbúnaðarháskólans, og Rannsóknastofa Umhverfisstofnunar. Með sameiningunni skapast möguleikar á að byggja upp öfluga rannsóknareiningu á sviði nýsköpunar í matvælaiðnaði, sem mun jafnframt leggja áherslu á að tryggja öryggi og heilnæmi matvæla með rannsókum á því sviði.  Innkoma erfðagreininga- og ensímþrónarsviða Prokaria inn í þetta ferli veitir enn frekari möguleika til uppbyggingar og sóknar fyrir Matvælarannsóknir hf.

Nánari upplýsingar veitir Sjöfn Sigurgísladóttir

Sími 893 8251

Fréttir

Þorskeldisrannsóknir komnar á fulla ferð

Á Ísafirði er mikill uppgangur í rannsóknum tengdum þorskeldi og hefur verið ákveðið að halda fund um ný og umfangsmikil verkefni sem hlotið hafa styrki að undanförnu. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra mun setja fundinn en hann hefst miðvikudaginn 21. júní nk. kl. 9:30

Á Ísafirði eru áherslur í fiskeldi á lífeðlisfræði þorsks og þá fyrst og fremst á kynþorska og áhrif ljósastýringar á vöxt, kynþroska og gæði eldisþorsks. Sjónum er einnig beint að erfðaþáttum sem tengja má lífeðlisfræðilegum þáttum á borð við vöxt og gæði afurða.

Fjögur ný rannsóknaverkefni tengd þróun iðnaðarvædds þorskeldis í tilraunaeldiskvíum í Ísafjarðardjúpi, hafa nýverið hlotið styrk úr innlendum og erlendum sjóðum.

Í verkefnunum verða m.a. rannsökuð áhrif ljósastýringar og er megin markmið þessara rannsókna að seinka eða koma í veg fyrir ótímabæran kynþroska sem er mikið vandamál við eldi á þorski. Heildarvelta þessara verkefna að meðtöldu framlagi þátttakenda í verkefnunum er rúmlega 300 m.kr og er velta (umfang) fyrir vestan alls um 103 m.kr. Styrkir frá rannsóknasjóðum til verkefnanna nema alls um 155 m.kr og þar af fara um 50 m.kr beint til reksturs verkefnanna á Ísafirði. Í vestfirsku þorskeldiskörfunni munar mikið um styrk frá Evrópusambandinu sem er í heild um 93 m.kr. Hlutur íslensku þátttakendanna í styrkveitingunni er umtalsverður, eða um 34 m.kr. Tveir þorskeldis-framleiðendur með eldiskvíar í Álftafirði taka þátt í því verkefni, þ.e. Hraðfrystihúsið Gunnvör hf og Álfsfell ehf.

Sýnataka úr kvíTekin blóðsýni úr þorski
Unnið við sýnartökur úr eldiskvíum á ÁlftafirðiDr. Þorleifur Ágústsson tekur blóðsýni úr lifandi eldisþorski

Vegna þessara miklu uppbyggingar á þorskeldisrannsóknum þá hefur Jón Gunnar Schram, MS í sjávarútvegsfræði verið ráðinn til starfa hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins á Ísafirði. Jón Gunnar tekur til starfa 1. júlí, en auk hans starfar Dr. Þorleifur Ágústsson hjá fiskeldisdeild Rf á Ísafirði.

Rannveig Björnsdóttir deildarstjóri fiskeldisdeildar Rf og lektor við Háskólann á Akureyri er ásamt Þorleifi leiðbeinandi nemanda í rannsóknartengdu meistaranámi sem kemur að þorskeldisrannsóknum í Ísafjarðardjúpi. Hlutverk nemanda er þróun aðferða og mælingar á áhrifum ljósastýringar á vöxt þorsks í samvinnu við Dr. Björn Þránd Björnsson prófessor við háskólann í Gautaborg. Björn Þrándur, er einn helsti sérfræðingur í Evrópu á sviði fiskalífeðlisfræði og hefur hann jafnframt verið ráðinn í hlutastöðu hjá Rf, og mun hann taka þátt í stefnumótun Rf á þessu sviði.

Sjá dagskrá fundarins

IS